Túnis efnahagslífið,
Flag of Tunisia


TÚNIS
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Efnahagsgrundvöllur Túnis er fjölbreyttur, þótt aðaluppustöðurnar séu tiltölulega fáar.  Landið á mikið undir útflutningi jarðefna, einkum eldsneytis og fosfats.  Iðnaðargeirinn er vaxandi og hefur notið verulegra erlendra fjárfestinga og landbúnaðurinn leikur stórt hlutverk líka.  Ferðaþjónustan er sívaxandi tekjulind og túnískir farandverkamenn erlendis senda mikið fé heim til fjölskyldna sinna.  Tekizt hefur að koma böndum á erlendar skuldir. Kjör fólks í As-Sahil, sem er frjósamasta svæði landsins, og í norðurhlutanum eru mun betri en þeirra, sem búa í þurrlendum suðurhlutanum, þar sem tækifæri eru færri til lífsbjargar.

Eftir skammvinna tilraun með sósíalisma á sjöunda áratugi 20. aldar snéru stjórnvöld blaðinu við og hölluðu sér að blönduðu hagkerfi og markaðsbúskap.  Samt sem áður urðu veruleg efnahagsleg skakkaföll á níunda áratugnum vegna þess að reiknað var með meiri tekjum af olíusölu, erlendri efnahagsaðstoð og peningum frá farandverkafólkinu.  Á miðjum níunda áratugnum var lögð fram gagnger áætlun um efnahagsumbætur, sem liðkaði fyrir lánsmöguleikum á alþjóðavettvangi, kom skikk á útgjöld ríkisins, dró úr verðbólgu og viðskiptahalla og jók erlendar og innlendar fjárfestingar.  Einnig var lögð áherzla á umbætur í félagslega kerfinu, aukna einkavæðingu og dregið var úr miðstýringu.  Áætlunin olli auknu atvinnuleysi og fátækt.  Engu að síður tókst að koma vergri þjóðarframleiðslu á mann í svipaða stöðu og í minnst þróuðu ríkjum Evrópu.

Í landinu eru þrjú stór heildarsamtök atvinnulífsins:  Alþýðusamband Túnis, Samband iðnaðarins, verzlunarinnar og handiðnaðarins og Bændasamtökin.  Þessi þrjú samtök leika aðalhlutverk í samingum um kaup og kjör, þótt fleiri samtök eigi ítök í efnahagsmálum landsins.

Náttúruauðæfi landsins eru tiltölulega lítil og fábreytt.  Timburiðnaðurinn er að mestu bundinn við eik og korktré í Kroumirie-fjöllum í norðurhlutanum og espartograsið á sléttunum er notað til framleiðslu gæðapappírs.  Áður en olían fannst í landinu var fosfat verðmætasta jarðefnið.  Þriðjungur þess er flutt úr landi og hinir hlutarnir eru notaðir innanlands í efnaiðnaði.  Mikið er flutt út af tilbúnum áburði.  Járn, blý, sink og kvikasilfur finnast einnig í jörðu.

Olía fannst allrasyðst í landinu árið 1964, þar sem heitir Al-Burmah (El-Borma).  Olíubirgðir í jörðu eru mun minni í Túnis en í nágrannalöndunum en samt eru þær mjög mikilvæg tekjulind.  Olíuvörur eru enn þá þriðja verðmætasta útflutningsvara landsins á eftir textíl- og efnavöru.  Þegar dró úr framleiðslunni á níunda áratugnum, var hugað að frekari nýtingu hinna minni olíusvæða og u.þ.b. 12 þeirra voru kominn í gagnið í lok áratugarins.  Hin stærstu þeirra var  Al-Burmah og Ad-Dulab í suðurhlutanum, nærri alsírsku landamærunum, og Sidi al-Yata’im, norðan Safaqis, Ashtart-svæðiöð við Gabes-flóa og Tazirkah-svæðið við Hammamat-flóa.

Snemma á tíunda áratugnum voru áætlaðar olíubirgðir landsins rúmlega tvær milljónir tunna, sem nægðu til skynsamlegrar nýtingar í nokkra áratugi.  Síðan þá hefur nýting náttúrulegs gass aukizt og erlendir fjárfestar hafa verið hvattir til þátttöku í þessum iðnaði.  Um miðjan tíunda áratuginn fjárfestu Bretar í Al-Miskar-svæðinu, sem gerði það að verkum, að Túnismenn urðu sjálfum sér nægir með gas.  Svipaða sögu er að segja um olíu- og gasbirgðirnar.  Þær eru mun minni en í nágrannalöndunum.  Túnis fær u.þ.b. 5% af verðmæti gassins, sem fer um leiðslur frá Alsír til Sikileyjar, þar sem pípurnar liggja að hluta í Túnis.


Landbúnaður.  Fimmtungur landsmanna hefur atvinnu sína af landbúnaði og milli 60 og 70% landsins eru fallin til nýtingar á því sviði.  Samt sem áður eru landsmenn ekki sjálfum sér nægir með framleiðslu landbúnaðarafurða.  Talsvert verður að flytja inn af kornvöru, kjöti og mjólkurvörum.  Sauðfé, geitur og nautgripir eru ræktaðir fyrir innanlandsmarkaðinn, en það dugir ekki til.  Lítill afrakstur af kornökrunum hefur verið rakinn til of lítilla framleiðslueininga og frumstæðra vinnuaðferða.  Loftslagssveiflur, þurrkar og óregluleg úrkoma, stefna uppskerunni oft í voða.  Mestur hluti fjárfestingar í landbúnaði í lok 20. aldar beindist að áætlunum um áveitur, borun eftir vatni og stíflugerð og aðgerðum til að draga úr eða koma í veg fyir landeyðingu.  Þessar aðgerðir hafa valdið talsverðri verðhækkun landbúnaðarvara.

Engu að síður flytur Túnis talsvert úr af landbúnaðarafurðum, aðallega sítrusávexti, ólífuolíu, vínber, tómata, melónur, fíkjur og döðlur.  Fiskiðnaðurinn, sem er aðallega stundaður frá austurhöfninni í Safaqis, hefur vaxið og aukið útflutning landsins.

Iðnaður.  Iðnvæðingin hefur aðallega steitt á tveimur skerjum, þ.e. skorti á hráefnum og orku og innanlandsmarkaðurinn er takmarkaður.  Síðan landið fékk sjálfstæði 1956 hafa nokkur stóriðjuverkefni, s.s. stálverksmiðjan við Bizerte, verið árangursrík.  Þegar á heildina er litið, hefur framleiðsla iðnaðarvara verið nokkuð fábreytt og smá í sniðum, þar sem mest áherzla hefur verið lögð á textíl- og leðurvörur, vélbúnað og matvæli.  Á áttunda áratugnum jókst iðnaður til útflutnings en hann var ekki samkeppnishæfur og ofverndaður, þannig að afraksturinn varð ónógur.  Iðnvæðingin takmarkaðist við þéttbýl og tiltölulega auðug svæði meðfram ströndinni, þrátt fyrir fyrirheit stjórnvalda um dreifingu þessarar uppbyggingar um allt landið.

Umbætur á sviði iðnaðar hafa gert hann mun fjölbreyttari.  Fjárstreymi til framleiðslu og útflutnings elektrónískra tækja, bílahluta og efnavöru hefur valdið byltingu á þessum sviðum.  Textíliðnaðurinn er enn þá stærsti hluti heildarmyndarinnar og rúmlega þriðjungur iðnaðarvara er framleiddur í Túnisborg.  Í lok níunda áratugarins voru sett lög um erlenda fjárfestingu, sem leiddu til þess, að u.þ.b. helmingur fyrirtækjanna er að hluta til eða allt að helmingi í eigu erlendra fjárfesta.  Þessi þróun hefur leitt til aukinnar tækni- og nútímavæðingar iðnaðarins, þjónustugreina, fjármálastarfsemi og aukins útflutnings.

Einkavæðingin hefur gengið mun hægar en búizt var við, þótt hún færi hratt af stað á fyrri hluta tíunda áratugarins.  Einkum voru seld lítil og arðbær hótel og textílverksmiðjur.  Í kringum aldamótin var farið að selja stórfyrirtæki og sú ráðstöfun virðist hafa aukið umsvif þeirra, einkum á erlendum mörkuðum.


Fjármál og þjónusta.  Seðlabanki landsins annast útgáfu gjaldmiðilsins (dinar).  Ríkið rekur líka að hluta nokkra þróunarbanka (Banque de Développement Economique de Tunisie) og fjöldi verzlunarbanka er í rekstri.  Kauphöllin er orðin miðstöð viðskipta og stefnumörkunar og hefur virkað hvetjandi á einkavæðingu, sparnað og erlenda fjárfestingu.

Ferðaþjónustan er orðin mesta tekjulind landsins í erlendum gjaldeyri og hefur fóstrað vaxandi handiðnað.  Fjöldi gesta frá Vestur-Evrópu, Líbýu, Alsír og fleiri löndum hefur vaxið stöðugt frá sjöunda áratugnum, þrátt fyrir nokkurn svæðiðbundinn óróa og samkeppni annarra Miðjarðarhafslanda.  Túnis á mikið undir viðskiptum við Evrópu og lungi inn- og útflutnings byggist á viðskiptum við ESB.  Frakkland er aðalviðskiptalandið og síðan koma Ítalía og Þýzkaland.  Þar sem innflutningurinn frá ESB hefur alltaf verið meiri en útflutningur landsins þangað hefur verið lögð áherzla á að byggja upp aðra markaði erlendis, sérstaklega í Austur-Asíu og Austur-Evrópu.  Síðla á tíunda áratugnum var undirritaður samningur við ESB á grundvelli samvinnu landanna við Miðjarðarhaf um fríverzlun, sem hófst í upphafi 21. aldar.  Túnis er aðili að GATT (General Agreement on Tariffs and Trade; 1990) og tekur þátt í starfi WTO (World Trade Orgainzation).  Landið er líka aðili að Fríverzlunarsambandi arabalanda og Arabíska Maghreb-sambandinu, sem er efnahagsbandalag aðildarríkjanna.

Samgöngur.  Vega- og járnbrautakerfin eru nægilega stór til að tengja allar aðalborgirnar við aðra landshluta.  Túnis er tengt Alsír og Marokkó með vegum og járnbrautum en einungis með vegi við Líbýu og Egyptaland, þar eð járnbrautin endar í Qabis.  Unnið er að endurnýjun og lengingu járnbrautakerfisins.  Aðalhafnarborg landsins er Túnis-Halq al-Wadi og aðrar mikilvægar eru Safaqis, Bizerte, Susah og Qabis.  Olíuleiðsla liggur frá Edjeleh í Alsír til hafnarborgarinnar As-Sukhayrah (LaSkhira eða Gekhira) við Gabes-flóa.

Nýr flugvöllur er í burðarliðnum við Qafsah en innanlandsvellir í Al-Munastir, Jarbah, Safaqis og Tawzar taka við innan- og utanlandsflugi.  Aðalflugvöllur erlendra flugfélaga er Al-‘Uwaynah við Túnisborg og Karþagó.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM