Veigamestu þættir
búsetuskilyrða eru úrkoman og tsetse-flugan. Þessi fluga, sem lifir á
villidýrum í „miomboskógum”, ber með sér blóðsníkjudýr (trypanosoma),
sem veldur svefnsýki í nautgripum og fólki. Hún gerir búsetu manna
hættulega á svæðum, þar sem úrkoma er hófleg, þannig að fólkið sezt
fremur að á svæðum með minni og óreglulegri úrkomu. Flugan er ekki til
vansa á miklum úrkomusvæðum og mjög þéttbýlum svæðum.
Aðalþéttbýlissvæði landsins eru í Mbeya-fjallgarðinum,
kringum Kilimanjaro og á Bukoba-svæðinu vestan
Viktoríuvatns, á ræktuðu gresjunum sunnan vatnsins, á
Mtwara-svæðinu á suðurströndinni og í Dar es Salaam.
Öll þessi svæði eru á útjöðrum landsins.
Járnbrautirnar þvert í gegnum landið hafa m.a. haft þau áhrif, að fólk
hefur setzt að meðfram henni á milli Dar es Salaam og Viktoríuvatns.
Þrjú strjálbýlustu svæði landsins eru þurrkasvæðið í Arusha í
norðurhlutanum og tvö tsetse-flugnasvæði í kringum Tabora í
vesturhlutanum og við Lindi og Songea í suðurhlutanum.
Aukinn fjöldi fólks
sums staðar í landinu hefur valdið sveiflum í landbúnaðarframleiðslunni.
Skiptiræktun var hefðbundin aðferð til að endurnýja frjósemi jarðanna um
land allt nema á allrafrjósömustu svæðunum. Þessi aðferð leiddi til
dreifðra og afskekktra bændabýla. Því fjölmennari sem borgirnar og
þéttbýlisstaðir urðu, dró úr hvíldartíma akranna og uppskera minnkaði.
Á sjöunda og áttunda áratugi 20. aldar var reynt að auka afköst akranna
með bættum aðferðum við ræktunina, vélvæðingu og notkun tilbúins áburðar.
Stjórnvöld skipulögðu nýjar byggðir í þessum tilgangi, en þær voru of
háðar ríkisstyrkjum og fækkaði. Árið 1969 var fjöldi þorpa í kringum
800 en árið 1978 voru þau orðin rúmlega 7500. Þessar aðgerðir stefndu
ekki að samyrkjubúskap, heldur að bættum aðferðum með áburði og betra
útsæði auk bættri, félagslegri þjónustu við íbúana.
Aðeins 15% íbúanna
býr í borgum og u.þ.b. þriðjungur þeirra í Dar es Salaam, þar sem
Íbúafjöldinn er á aðra miljón. Bagamoyo og Tabora tengdust þrælaverzlun
araba á 19. öld og eru farnar að staðna. Efnahagur Tanga, sem var
næststærsta borgin á nýlendutíma Breta, byggðist á útflutningi sísal.
Mikið hefur dregið úr þeim útflutningi, þannig að borgin hefur stækkað
mjög hægt, þótt hún sé nú hin þriðja stærsta. Mwanza, Mbeya og Arusha
hafa dafnað sem verzlunarborgir langt frá Dar es Salaam og vöxtur
Morogoro og Moshi byggist á landbúnaðarhéruðunum umhverfis þær.
Þjóðerni.
Tanzaníska þjóðin er mjög sundurleit. Rúmlega 120 þjóðflokkar
Afríkumanna byggja landið auk smærri hópa Asíu- og Evrópumanna. Fyrir
u.þ.b. 5000 árum bjuggu flokkar veiðimanna af sankyni landið.
Sandawe-veiðimennirnir í norðurhlutanum eru taldir afkomendur þeirra. Í
kringum árið 1000 f.Kr. kom fólk af kynþætti kúsíta frá Eþíópíu með
þekkingu á ræktun og kvikfjárbúskap. Irazw-, mbugu-, gorowa- og
burungimenn er af sama stofni. Í kringum árið 500 e.Kr. komu bantumenn,
sem stunduðu búskap og notuðu járn, úr vestri og suðri og hröktu
sanfólkið brott eða blönduðust því. Um svipað leyti komu
Nílótahirðingjar frá Suður-Súdan. Nú er meirihluti íbúanna af bantukyni.
Sukumafólkið er stærsti hópur þess og aðrir eru nyamwezi, hehe, nyakyusa,
makonde, yao, haya, chaga, gogo og ha. Nílótar skiptast m.a. í masai,
arusha, samburu og baraguyu. Enginn þessara hópa hefur náð
menningarlegum eða pólistískum yfirráðum, þótt ættkvíslarnar, sem urðu
fyrir áhrifum frá kristnum trúboðum og vestrænni menningu á
nýlendutímanum (chaga og haya) séu framarlega á sviðum stjórn- og
efnahagsmála.
Á nýlendutímanum var
hvatt til landnáms Asíumanna, sem náðu yfirráðum yfir verzlun með
framleiðslu íbúanna inni í landinu. Flestir þeirra komu frá
Gujurat-ríki í Indlandi og skiptust í nokkra trúarhópa, isma’ili, bohra,
sikh, Punjabi og goa. Allt frá því, að landið fékk sjálfstæði, hefur
Asíufólki fækkað vegna brottflutnings. Evrópumennirnir voru aldrei
fjölmennir vegna þess að Tanganyika var ekki landnemanýlenda. Þeir voru
aðallega Bretar, Þjóðverjar og Grikkir. Eftir að landið var sjálfstætt
hafa útlægir Evrópumenn, Norður-Ameríkanar og Japanar setzt að í landinu
um tíma.
Tungumál.
Swahili er þjóðartunga
Tanzaníumanna. Næstum allir landsmenn tala þessa tungu og hún er
notuð í skólakerfinu fyrstu sjö námsárin. Enska er annað
opinbera tungumálið, sem er notað við kennslu eftir fyrstu sjö árin í
skóla, í stjórnkerfinu og í viðskiptum. Flestir afrískir
Tanzaníumenn tala mál sinnar ættkvíslar að auki. Asíski
minnihlutahópurinn talar aðallega gujarati, hindi, Punjabi og urdu.
Trúarbrögð.
Nálægt þriðjungur þjóðarinnar er múslimar. Annar þriðjungur er kristinn
og hinir eru andatrúar. Skilin milli trúarbragðanna eru sjaldnast eins
skír og opinberar tölur gefa til kynna, því að víða í sveitum iðkar
fólkið gömlu trúarbrögðin samhliða kristninni og islam. Kristnu
trúflokkarnir eru margir og múslimar skiptast í shíta og sunníta.
Flestir asísku múslimanna eru isma’ili khoja undir trúarlegri leiðsögn
Aga Khan. Margir Asíumenn iðka trú hindúa, jainista og
rómversk-katólsku.
Íbúafjölgun í
landinu er með hinu mesta, sem gerist í Afríku sunnan Sahara. Þrátt
fyrir miklar framfarir á síðari hluta 20. aldar var barnadauði mjög
mikill en frjósemi íbúanna er mikil. Næstum helmingur íbúanna er yngri
en 15 ára. Lífslíkur eru í kringum 53 ár, sem er ofan meðaltalsins í
álfunni. |