Dar es Salaam Tanzanía,
Flag of Tanzania


DAR es SALAAM
TANZANÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Dar es Salaam er stjórnarsetur, stærsta borg, miðstöð iðnaðar og stór hafnarborg í Tanzaníu.  Loftslagið í borginni er heitt og rakt (1100 mm á ári).  Nafnið er komið úr arabísku og þýðir „Friðarstaður”.  Soldáninn af Zanzibar stofnaði borgina árið 1862, þar sem áður stóð þorpið Mzizima.  Þarna var aðeins lítil höfn þar til Þýzka Austur-Afríkufélagið kom sér upp aðstöðu þar árið 1887.  Árið 1907 varð bærinn upphafsstaður járnbrautanna og var höfuðstaður Þýzku Austur-Afríku á árunum 1891-1916, Tanganyika á árunum 1961-64 og síðan Tanzaníu.  Dar es Salaam hefur verið stjórnarsetur landsins síða 1974 en Dodoma er hin nýja höfuðborg  Dar es Salaam er nú aðalstöð járnbrautanna vestur til Kigoma við Tanganyikavatn og norður til Mwanza við Viktoríuvatn.

Eftir síðari heimsstyrjöldina þandist borgin út og margra hæða nútímabyggingar risu, s.s. spítali, tæknistofnun og hæstiréttur.  Meðal menntastofnana eru Borgarháskólinn (st. 1961 sem skóli á háskólastigi en fékk fullnaðarstöðu sem háskóli 1970), nokkur bókasöfn og rannsóknarstofnanir.  Þarna er einnig Þjóðminjasafnið, sem hýsir m.a. 1,75 miljón ára hauskúpu frummanns, sem Mary Leakey fann í Olduvai-gljúfri 1959.  Höfn borgarinnar er náttúruleg og mjög skjólgóð.  Um hana fer mestur hluti útflutnings landbúnaðarvöru og hráefnis úr námum.  Hún þjónar einnig sem umskipunarhöfn fyrir vörur, sem eru síðan fluttar um þverána Lualaba til Kongófljóts.  Lagningu járnbrautanna var lokið 1975.  Þær tengja Sambíu við höfnina.  Meðal þess, sem er framleitt í borginni og nágrenni hennar eru sápa, málning, vindlingar, matvæli, málmvörur, glervörur, vefnaðarvörur, tréskurðarmunir og skófatnaður.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1978 var tæplega 770 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM