Swazimenn bjuggu í hefðbundnum fjölskylduhúsum (imithi),
dreift um allar sveitir. Einu stóru byggðirnar
tilheyrðu konungum og höfðingjum. Þetta munstur fór að
breytast á síðari hluta 19. aldar, þegar Swazimenn fóru
fyrst að kynnast peningahagkerfi. Stakar
fjölskyldubyggðir fóru að rísa þéttar umhverfis mikilvægar
stjórnsýslu- og verzlunarstaði á nýlendutíma Breta eftir
1903 en þróun borga hófst ekki fyrr en eftir síðari
heimsstyrjöldina. Þá voru stofnuð fyrirtæki um
nytjaræktun, námuvinnslu og verksmiðjur, sem drógu til sín
vinnuafl og fyrirtækjaborgir eins og Mhlume, Simunye, Big
Bend og Mhlambanyatsi mynduðust. Stærstar þeirra eru höfuðborgin
Mbabane og iðnaðar- og verzlunarborgin Manzini. Næstum 30%
landsmanna býr í þéttbýli og þetta hlutfall stækkar stöðugt.
Dreifbýlisfólkið
stundar búskap og aðra atvinnu á sameiginlegu leigulandi undir stjórn
höfðingja. Dæmigerðir bústaðir mynda húsaklasa, þar sem
fjölskyldufaðirinn (umnumzane) býr í aðalhúsinu. Móðir hans, eiginkona
eða konur og börn búa saman í húsi og eldhúsið og búrið er í einu húsi.
Framan við húsin er nautgriparéttin (isibaya) og snýr til austurs.
Nautgripirnir eru ekki einungis dráttardýr og uppspretta mjólkur, heldur
einnig vottur um ríkidæmi fjölskyldunnar, sem er flaggað við hátíðleg
tækifæri (lobola = brúðarverð).
Hefðbundið
heimilislíf er árstíðabundið. Þegar regntíminn gengur í garð á vorin (ágúst-sept.)
fara konurnar að huga að garðyrku meðfram ám og lækjum. Á sumrin, þegar
mest rignir (október-febrúar) hjálpa karlarnir þeim við plægingu akranna
til að hægt sé að sá maís og hirsi (sorghum). Þá yfirgefa allar
verkfærar konur og börn bústaði sína og karlarnir taka líka þátt í
sáningunni og hreinsun illgresis. Sumarmánuðirnir eru tímabil hungurs
nema einhverjir fjölskyldumeðlimanna vinni fyrir peningum til að fæða
ættingjana. Skorið er upp á haustin og fram í vetrarbyrjun (marz-maí).
Í júlí er búið að þurrka allan maísinn og hirsið og koma því fyrir í
geymslum. Þá beinist aðhafnasemin á heimaslóðir, þar sem konurnar
þreskja kornið og færa beztu uppskeruna í geymslurnar en lakari hlutinn
er nýttur til neyzlu strax. Á veturna er slappað af, farið á veiðar,
skemmtanir stundaðar og vinir og ættingjar heimsóttir. Þetta hefðbundna
lífsmunstur hefur truflast nokkuð vegna aukins fólksfjölda og álags á
landið, sem verður að gefa meira af sér, straums fólks til þéttbýlisins,
þar sem vinnufærustu hendurnar afla brauðs í bú, og nýrra búskaparhátta
með dráttarvélum, sem hægt er að leigja.
Hinar hefðbundnu
miðstöðvar lífs Swazimanna eru þorp konunganna (ngwenyama) Ludzidzini og
drottingamæðranna (ndlovukazi) Phondovo, sem eru ófjarri gamla
konungshöfuðstaðnum Lobamba.
Fólkið.
Swazimenn eru deigla rúmlega 70
ættkvísla. Höfðingjar þeirra eru nánustu þjónar konunganna og
drottingamæðranna, sem eru meðlimir stærstu ættkvíslarinnar (dlamini).
Þessar ættkvíslir bjuggu í landinu snemma á 19. öld (sotho, nguni og
dlamini). Óskrifuð lög og hefðir eru hryggjarstykki stjórnunar
landsins og viðurkennd í stjórnarskrá og í dómskerfinu. Tungumál
landsmanna er kallað siSwati, sem er skylt máli Zulumanna. Það er
notað samhliða ensku, sem er opinbert ritmál lansins. Swazimenn
eru 97% þjóðarinnar. Aðrir eru innflytjendur frá Mósambík,
Suður-Afríku og öðrum heimshornum. Meðal þeirra eru nokkur þúsund
Evrópumanna og Asíumanna, sem stunda aðallega viðskipti.
Meirihluti Swazimanna eru krisnir, bæði katólikar og mótmælendur.
Trúboðsstöðvar þessara kristnu trúfélaga sáu að mestu um menntun og
heilbrigðisþjónustu áður en landið fékk sjálfstæði. Margir
landsmanna stunda enn þá trúarbrögð forfeðranna. |