Mestur hluti Súdan
er lág- og hásléttur, sem eru vatnasvið þveráa og upptakakvísla
Nílarfljóts. Vatnakerfi þess liggur frá suðri til norðurs eftir
endilöngum miðausturhluta landsins. Vestan þessar mikla flatlendis eru
Vatnaskilin Níl-Kongó og Dafur-hálendið og að austanverðu er Eþíópska
hásléttan og Rauðahafshæðirnar. Norðantil er grýtt slétta, sem er hluti
af Sahara. Vestur-Qawz er sandöldusvæði, sem verður grýttara er norðar
dregur. Mið- og suðurhlutarnir eru leirsléttur með geysistóru
fenjasvæði, As-Sudd, í miðju.
Mestur hluti
Norður-Súdan er sand- eða malarslétta prýdd flötum sandsteinsklettum og
stökum og bröttum graníthæðum. Mið-Súdan einkennist af stökum hæðum á
sléttunum, þar sem þéttasti Kjarni þeirra myndar Nuba-fjöll (Jibal An-Nubah).
Vestursléttan er aðallega úr sandsteini, sem myndar giljótt
hásléttusvæði með flötum hæðum. Eldbrunnin Marra-fjöllin rísa upp úr
Darfur-hásléttunni lengra til vesturs í allt að 900 til 3000 m hæð yfir
sjó. Þessi fjöll mynda Nílar-Kongó vatnaskilin og vesturmörk
miðsléttunnar.
Rauðahafshæðasvæðið í norðausturhlutanum er umturnað vegna
jarðskorpuhreyfinga. Jaðar misgengisins snýr að Rauðahafinu og myndar
klasa ójafnra hæða, sem er sundur skorinn af vatnsrásum. Jaðarinn
gnæfir yfir strandsléttunni, sem er 16-40 km breið og þakin sandöldum og
kóralrifjum. Sunnar er eystra hálendið, sem er aðdragandi Eþíópska
hálendisbálksins.
Suður-Súdan skiptist í tvö ólík hálendissvæði. Járnsteinshásléttan er
milli Nílar-Kongó vatnaskilanna og suðurleirsléttunnar. Á þessu
flatlendi standa stakar, flatar hæðir. Við landamærin að Úganda eru
þéttir fjallgarðar, sem rísa upp í rúmlega 3000 m hæð. Í Imatongfjöllum
er Kinvetifjall (3168m), hæsta fjall landsins.
Vatnakerfi Nílar er
ráðandi þáttur í landslagi Súdan, þar eð allar ár renna til fljótsins.
Hvíta-Níl (Bahr Al-Abyad) ber nafnið Fjalla-Níl (Bahr Al-Jabal), þar sem
hún rennur yfir landamærin að Úgangda úr suðri um flúðirnar við Nimule.
Eftir að Bahr Al-Ghazal sameinast henni úr vestri heitir hún Hvíta-Níl.
Nokkru sunnar bætist verulegt vatnsmagn Sobotárinnar við úr austri. Hún
á upptök á Eþíópsku hásléttunni og sameinast Hvítu-Níl nærri Malakal.
Stór hluti alls þessa vatns hverfur á fenjasvæðum eins og As-Sudd á
norðurleiðinni að Khartoum. Áin rennur í hallalitlu landslagi alla leið
að ármótunum við Bláu-Níl (Bahr Al-Azrag) við Khartoum. Bláa-Níl kemur
líka upp á Eþíópsku hásléttunni. Neðan ármótanna fellur fljótið í
stórri bugðu til norðurs og heitir Níl (Nahr An-Nil) alla leið til
sjávar.
Víðast um landið ná ár og lækir ekki að renna alla leið til
Nílarkerfisins. Árnar í suðvesturhlutanum ná sjaldnast til Bahr Al-Ghazal-vatnakerfisins
og norðar myndast árstíðabundnir árfarvegir í hæðunum en vatnið hverfur
á sléttunum í kring. Yfirborð eyðimarkanna í norður- og
norðausturhlutunum er annaðhvort ber klöpp, ógróin uppblásturssvæði eða
farandsandöldur (ergs). Hálfeyðimerkur miðnorðurhlutans eru þaktar
lítið eitt umbreyttum hálfgildingsjarðvegi. Qawz-svæðið er þakið lítt
frjósömum, brúnrauðum jarðvegi. Árset er að finna á óshólmasvæðunum Al-Qash
og Barakahánna meðfram Hvítu- og Bláu-Níl og söndum fjölda lækja út frá
Marrafjöllum.
Á mið- og suðursléttunum er súr leirjarðvegur. Jarðvegur
Gezirasléttunnar (Al-Jazirah) sunnan Khartoum er þykkur og sprunginn
leir, sem hefur sezt til í flóðum Bláu-Nílar, en leirinn í As-Sudd
settist á uppistöðusvæðum.
Í nyrztu hlutum
Súdan ríkja norðanvindar mestan hluta árs og úrkoma er sjaldgæf. Sunnan
þessa svæðis eru breytileg mörk norður- og suðurhreyfinga raka loftsins
að sunnan og þurru norðanvindanna. Á veturna blása þeir suður að
skilunum, sem ná stundum suður að hvarfbaug. Þessir vindar eru
tiltölulega svalir og þurrir. Í apríl fara skilin að hreyfast til
norðurs og raka sunnanloftið frá Suður-Atlantshafi sækir á. Þessar
árstíðabundnu sveiflur valda regntíma í suðurhlutanum, mislöngum eftir
breiddarbaugum.
Súdan er heitt land, þar eð hitinn lækkar lítið með hæð yfir sjó.
Mestur er hitinn í miðhlutanum. Í Khartoum er meðalhitinn 38°C alla
mánuði ársins. Hitinn verður mestur rétt á undan regntímanum. Úrkoman
er mismunandi, allt frá því að vera lítil sem engin í norðurhlutanum í
1200 mm allrasyðst. Meðfram Rauðahafinu gætir hafgolu og veturinn er
aðalúrkomutíminn. Í Mið- og Suður-Súdan rignir mest á sumrin.
Sandstormar eru algengir norðanlands en regntíminn stendur yfir í 8-9
mánuði sunnanlands. |