Sómalía sagan,


SÓMALÍA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landkönnun og fyrstu viðskiptin við innfædda.  Norður- og austurstrendur Sómalíu hafa verið opnar fyrir umheiminum um aldir vegna nálægðar eþíópska innlandsins, Arabíu og útflutnings verðmæts gúmmís, strútsfjaðra, hreinsaðs smjörs (ghee) og annarra dýraafurða auk þræla.  Þessir landshlutar voru líklega hluti af landi ilmefna og reykelsis, Punt, sem er minnst á í fornum, egypzkum heimildum.  Á aldabilinu 600-1000 komu arabískir og persneskir kaupmenn sér víða fyrir við Adenflóa og Indlandshafið.  Margir arabískir landfræðingar gátu þessara verzlunarstaða og furstadæmanna, sem þróuðust í framhaldinu en þeir minntust lítið á innlandið.

Nákvæm könnun
landsins hófst ekki fyrr en að Bretar höfðu lagt Aden undir sig árið 1839 og samkeppni hófst milli þeirra, Frakka og Ítala um ítök í Sómalíu.  Þegar Richard Burton var að kanna landið í norðvesturátt í frægri ferð sinni frá Berbera til Harer árið 1854, var John Hannig Speke á ferðalagi meðfram Makhir-ströndinni í norðausturhlutanum.  Charles Guillain, skipstjóri briggskipsins Duceouedid, var á þessum slóðum á árunum 1846-48 og sigldi einnig suður eftir Indlandshafsströndinni og fór í land við Mogadishu, Marka og Baraawe, þar sem hann fór nokkurn spöl inn í landið og safnaði verðmætum land- og mannfræðilegum upplýsingum.  Árið 1865 sigldi þýzki landkönnuðurinn Carl Claus, barón af der Decken, alla leið til Baardheere upp Jubba-fljótið á litla gufubátnum Welf, sem strandaði í flúðum ofan borgarinnar.  Sómalar drápu Carl en mikið af upplýsingunum, sem leiðangur hans safnaði komst til skila.

Ferðir inn í landið Árið 1883 fór hópur Englendinga í leiðangur inn í land frá Berbera til Shabeelle (F.L. og W.D. James, G.P.V. Aylmer og E. LortöPhillips)  og á árunum 1886-92 könnuðu H.G.C. og E.J.E. Spayne landið milli Strandar og Shabeelle auk þess að komast áleiðis austur til Nugaal-dals.  Á árunum 1894-95 kannaði A. Donaldson_Smith aðalvatnasvæði Shabeelle í Eþíópíu.  Hann komst að Rudolfvatni og sigldi að lokum niður Tanafljótið til strandar í Kenja.  Árið 1891 ferðaðist Ítalinn Luigi Robecchi-Bricchetti frá Mogadishu til Hobyo og fór síðan yfir Ogaden til Berbera.  Um svipað leyti var annar Ítali, Vittorio Bottego, skiptstjóri, sömu slóðum.  Á 20. öld fóru margir stórir rannsóknarhópar um landið, þó einkum á brezka verndarsvæðinu (J.A. Hunt 1944-50) og mestur hluti landsins var kortlagður eftir loftmyndum.

Fyrir skiptinguna.  Fólkið við ströndina og inni í landi
.  Saga hom-fólksins í Afríku einkenndist af tveimur veigamiklum þáttum, útþensla Sómala til suðurs frá Adenflóa og uppbygging arabískra og persneskra múslimalandnema í borgum, sem mynduðu hring verzlunarstaða allt frá 10. öld.  Þá þegar hafði islam skotið traustum rótum í norðurhafnarborgunum Seylac (Zeila) og Berbera og í Marka, Baraawe og Mogadishu við Indlandshaf.  Þær voru miðstöðvar fjörugs viðskiptalífs með sambönd alla leið austur til Kína.  Fyrstu leiðangrar útlendinga inn í landið héldu af stað frá þessum borgum, einkum hinum nyrðri.

Líklega bjuggu sómalskir hirðingjar á svæðunum frá strönd Adenflóa inn í land á 10. öld og sunnar og vestar bjuggu ýmsir ættbálkar oromo-manna, sem voru komnir þangað frá hefðbundnum heimkynnum sínum í Suðvestur-Eþíópíu.  Sunnan þessara cushi-mælandi Sómala og oromo-manna bjuggu bantu-ættbálkar á frjósömum svæðum (Berberi) milli Shabeelle og Jubba-fljótanna, sumpart með fasta búsetu í Nyika-bandalaginu með fornu höfuðborgina Shungwaya.  Leifar afkomenda þeirra (zani á arabísku) lifa enn þá í þessum landshluta en flestir þeirra búa meðal bantu-manna á ströndinni.  Pokomo-menn búa meðfram Tanafljóti í Norður-Kenja.  Önnur skyld en minni byggð forfeðra hinna dreifðu veiðimanna í Norður-Kenja og Suður-Sómalíu, wa-ribi eða wa-boni, ættbálka, sem hafa svipað útlit og san-fólkið annars staðar í Afríku.

Sjórán.  Allt frá upphafi 10. áratugar 20. aldar hafa sjórán undan ströndum landsins verið ógn við skip á alþjóðlegum siglingaleiðum.  Margar alþjóðastofnanir lýstu áhyggjum frá árinu 2005, enda mannslíf í hættu og kostnaður óx.  Sjóræningjarnir hafa ævinlega krafizt lausnargjalds fyrir skipin, sem þeim hefur tekizt að ræna og færa inn fyrir landhelgi Sómalíu.  Á þessu tímabili var landið nokkurn veginn stjórnlaust og erjur miklar milli stórra og smárra hópa innanlands.  Fátækt og örbirgð gífurleg og margir sáu leik á borði með sjóránum.  Skip sigldu helzt ekki um Adenflóa án herskipafylgdar.  Mjög dró úr árangri sjóræningjanna og margir voru handteknir og sumir voru sendir til að sæta dóma fyrir afbrot sín til landa, sem leyfa ekki dauðarefsingu.  Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktaði hinn 7. október 2008, að þjóðir með herskip á svæðinu skyldu leita og elta uppi skip sjóræningjanna.  Þjóðum heims hefur verið óheimilt að selja Sómölum vopn síðan 1992.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM