Mogadishu er höfuðstaður, stærsta borg og mikilvæg hafnarborg norðan
miðbaugs í Sómalíu við Indlandshaf. Borgarstæðið var meðal fyrstu
byggða araba á strandlengju Austur-Afríku á 10. öld. Þarna vorur
stunduð mikil viðskipti við arabaheiminn fram á 16. öld, þegar verulega
dró úr þeim. Viðskiptasambönd við Portúgala og konunginn í Muscat
voru einnig mikilvæg þar til soldáninn af Zanzibar náði völdum 1871.
Ítalar tóku
höfnina á leigu árið 1892 og keyptu hana árið 1905 vegna þrýstings frá
Bretum, sem höfðu gert soldánsdæmið Zanzibar að verndarsvæði sínu.
Síðar varð höfuðborg Ítalska-Sómalílands, Mogadishu, höfuðborg
sjálfstæðrar Sómalíu árið 1960.
Gamlar byggingar og
moskur í arabískum stíl blönduðust nútímabyggingum ríkisháskólans (1954;
háskólaréttindi 1959) og sjúkrahússins. Í borginni spruttu upp margs
konar skólar, s.s. islamski lagaskólinn, kennaraskóli, iðnlistaskóli,
lækna- og hjúkrunarskóli, dýralæknaskóli o.fl. Þjóðminjasafninu var
einnig valinn staður í fyrrum höll soldánsins af Zanzibar.
Höfn borgarinnar var
stækkuð seint á sjöunda áratugnum. Á níunda áratugnum og snemma á hinum
tíunda olli borgarastyrjöldin mikilli eyðileggingu í borginni.
Millilandaflugvöllurinn er 8 km vestan borgarinnar. Áætlaður íbúafjöldi
árið 1985 var 700 þúsund. |