Sómalía íbúarnir,


SÓMALÍA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Næstum helmingur íbúanna hefur fasta búsetu en hinir eru hirðingjar eða hálfhirðingjar, sem stunda einnig akuryrkju til sjálfsþurfta.  Búsetufólkið býr á svæðum, þar sem það nýtur hentugs loftslags og getur séð sér farborða með landbúnaði, aðallega í suður- og norðvesturhlutum landsins.  Það býr í þorpum, sem er víða skammt á milli við árnar og í smáþorpum fjær þeim.  Þéttbýli er einnig þar sem voru fyrrum verzlunarstaðir við ströndina, s.s. í Kismaayo, Baraawe, Marka, Mogadishu, Berbera og Boosaaso.

Gömlu borgirnar á ströndinni bera sterkt yfirbragð arabískra og persneskra áhrifa og nokkuð ber á ítölskum áhrifum í Mogadishu.  Sterklegar byggingar úr kóralkalksteini og nútímamúrsteini eru einkennandi fyrir strandbyggðirnar.  Í borgunum inni í landi eru timburhús með bárujárns- eða stráþökum allsráðandi.  Einkum er um að ræða tvær tegundir hefðbundinna húsa í landinu.  Hringlaga hús (mundul) finnast aðallega inni í landi og ferhyrndu, arabísku húsin (caniish) með bárujárnsþökum á ströndinni eða í norðurhlutanum.

Hirðingjar búa enn þá í færanlegum, hringlaga kofum (agal).  Um þurrkatímann rísa heilu þorpin af þessum kofum um tíma í árdölum Suður-Sómalíu og við brynningarstaði vítt og breitt um landið.

Mikið aðstreymi frá sveitum til borga hefur valdið mikilli útþenslu borganna, einna mestu í Mogadishu.  Hirðingjarnir eru orðnir markaðssinnaðri og hafa aukið við búsmala sinn af þeim sökum auk þess að færa sig minna úr stað.  Þessi þróun hefur leitt til myndunar byggða hirðingja, einkum meðfram þjóðvegum og vegaslóðum inni í landi.


Menning, tunga og lifnaðarhættir Sómala eru á sama grunni og fólksins, sem byggir Kenja, Ogaden-svæðið í Eþíópíu og suðurhluta Djibouti.

Uppruni.  Sómalar skiptast í fjölda ættkvísla, sem síðan skiptast í enn meiri fjölda undirkvísla, sem sameinast síðan í stórfjölskyldum.  Þær, sem byggja helzt vatnasvæði Suðurlandsins, eru Rahanwayn og Digil, sem eru saman kallaðar Sab.  Sabfólkið er aðallega bændur og hálfhirðingjar, bæði innfæddir og aðfluttir Sómalar, sem hafa kosið búsetu í þessum loftslagslega þægilega landshluta.  Aðrar stórfjölskyldur eru m.a. Daaroodmenn í norðausturhlutanum, Ogaden og við landamærin að Kenja, Hawiye-fólkið, sem býr aðallega beggja vegna miðhluta árinnar Shabeelle og í miðsuðurhluta landsins, og Isaaq-fólkið, sem býr í mið- og vesturhlutum Norður-Sómalíu.  Dirfólkið býr í norðaustasta horni landsins en einnig dreift um Suðurlandið.  Tunnifólkið býr á strandlengjunni milli Marka og Kismaayo.  Er nær dregur landamærunum að Kenja býr Bagiunisfólkið á ströndinni og á eyjunum úti fyrir.  Það er Swahili-fiskimenn.

Auk Sómala býr talsverður fjöldi Bantumanna í landinu.  Þeir stunda aðallega arðvænlegan áveitubúskap við mið- og neðri hluta ánna Jubba og Shabeelle.  Félagslega eru þeir álitnir óæðri stétt vegna þess að margir þeirra eru afkomendur þræla.  Áberandi greinarmunur er gerður á hinum æðri Sómölum, afkomendum hirðingjanna, og Bantumönnum.

Annar mikilvægur minnihlutahópur er nokkrir tugir þúsunda araba, aðallega frá Jemen.  Í lok níunda áratugarins hafði Ítölum, sem voru aðallega bananabændur, fækkað í nokkur hundruð.


Tungumál Sómala er grein af meiði kúsítamála.  Þrátt fyrir margar mállýzkur þess, skilst það um allt land.  Annað opinbert tungumál er arabíska, sem er aðallega töluð í norðurhlutanum og strandborgunum.  Vegna nýlendufortíðarinnar tala margir ensku og ítölsku, sem er einnig notuð í æðri skólum og háskólanum.  Í suðurhluta landsins er einnig talað swahili.  Árið 1973 var tekið upp ritmál byggt á latneska stafrófinu.  Fram að því átti sómalskan ekkert ritmál.

Trúarbrögð Flestir Sómalar eru múslimar af shafi’i-grein sunníta.  Helztu bræðralög múslima í landinu eru Qadiriyah, Ahmadiyah og Salihiyah.

Búseta.  Íbúafjölgunin var rúmlega við 3% á ári nokkra áratugi fyrir aldamótin 2000, þrátt fyrir mikinn barnadauða og lífslíkur innan við 50 ár.  Miklir flutningar fólks, aðallega ungra karla, til borganna hafa leitt til hærra hlutfalls eldra fólks í sveitunum og mikils atvinnuleysis í borgunum.  Eftir átökin í Ogaden 1977-78 flúðu hundurð þúsunda Sómala frá Eþíópíu til Sómalíu og í borgarastyrjöldinni, sem kom í kjölfarið, leitaði rúmlega miljón Sómala hælis í nágrannaríkjunum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM