Sahara eyðimörkin,
Flag of Chad

Flag of Egypt

Flag of Libya

Flag of Sudan

Flag of Tunisia


SAHARA


.

.

Utanríkisrnt.

 

Sahara (arabíska = eyðimerkur) er stærst eyðimarka heims.  Hún nær yfir mestan hluta Norður-Afríku, 4800 km frá austri til vesturs og 1320 – 1980 km frá norðri til suðurs, alls 8.600.000 km2.  Hún nær vestur til Atlantshafs, norður til Atlasfjalla og Miðjarðarhafs, austur að Rauðahafi og suður að kyrrstæðu sandöldunum á 16°N.

NáttúrufarHelztu landslagseinkenni eru árstíðabundnar, öldóttar lægðir (chott og daya) og stórar vinjalægðir, stórar malarsléttur (serir eða reg), grýttar sléttur (hammada), fjalllendi og sendin svæði, sandöldur og sandhöf (erg).  Hæsti hluti Sahara er Koussifjall (3415m) í Tibestifjöllum í Chad.  Lægsta svæðið, 133 m neðan sjávarmáls, er Qattaralægðin í Egyptalandi.

Nafnið Sahara er úr arabísku (eintala sahra, fleirtala sahara).  Það er líka skylt atviksorðinu „ashar”, sem þýðir auðnarlegur og vísar til rauðleitra, gróðurlausra svæða.  Þetta stóra eyðimerkursvæði skiptist í aragrúa smærri svæði með sérnöfnum, s.s. Tanezrouft í Suðvestur-Alsír og Ténéré í Mið-Niger.  Mörg þessara nafna eiga uppruna hjá berbum.

Sahara er á Afríska skildinum, sem er stórt, mjög rofið og forkambrískt fellingasvæði.  Vegna þess, hve þetta risastóra svæði er jarðfræðilega stöðugt, safnaðist mikið lárétt og lítt breytt áset á það á 370 miljón ára tímabili fyrir 600-230 miljónum ára.  Víðast í Sahara liggja setlög frá næsta tímabili (230-70 m.á.), m.a. kalklögin í Alsír, Suður-Túnis og Norður-Líbýu, og núbíski sandsteinninn í líbýsku eyðimörkinni, þ.á.m. mörg svæðisbundin grunnvatnslög.  Víða í Norður-Sahara eru þessar jarðmyndanir tengdar lægðasyrpum frá vinjum Vestur-Egyptalands til öldóttu lægðanna (chott) í Alsír.  Á lágfellingasvæði suðurhluta skjaldarins eru stórar lægðir með stöðuvötnum frá því fyrir allt að 60 miljónum ára og sandhöf í líkingu við hið forna Mega-Chad.  Malarslétturnar (serir og reg) eru mismunandi eftir svæðum en eru einnig raktar 60 miljónir ára aftur í tímann.  Forn, uppblásin, rauðleit og gljáandi setlög blönduð járnmangani eru áberandi á sléttunum.  Víða eru slétturnar, s.s. Tademaitsléttan í Alsír, þaktar veðruðum steinum, sem Þorleifur Einarsson, jarðfræðingur, kallaði tví- eða þríflötunga.  Í Mið-Sahara er tilbreytingarleysi víða rofið með eldfjallabálkum, s.s. Uwaynat, Tibesti og Ahaggar.  Aðrar athyglisverðar jarðmyndanir er að finna á Ennedi-sléttunni í Chad, Air-fjöll í Niger, Iforas-fjöll í Mali og klettaröðlarnir á Adrarsvæðinu í Máritaníu.

Sandur og öldur þekja u.þ.b. 25% yfirborðs Sahara.  Helztu tegundur sandaldna eru hinar kyrrstæðu hlémegin við hæðir, fleygbjúgar öldur, hryggöldur og þveröldur og langöldur (seif) og milli þeirra eru hin svonefndu sandhöf.  Margar pýramídaöldur ná allt að 150 m hæð en fjallasandöldurnar (draa), sem eru áberandi á sandöldu- og sandhafssvæðum (erg), eru allt að tvöfalt hærri.  Ein af ráðgátum sandsvæðanna er sérstakt vindhljóð, sem sumir tengja við kvartskristalla, þótt ekkert sé sannað í þeim efnum.


Vatnasvið Nokkrar ár koma upp utan marka Sahara og renna til eyðimerkurinnar.  Sumar þeirra byggja vatnsbúskap sinn sumpart eða að mestu leyti á grunnvatni undir henni.  Árnar, sem spretta upp á hitabeltishálendinu sunnantil eru mest áberandi.  Aðalþverár Nílar sameinast í Sahara og streyma áfram til norðurs meðfram austurjaðri eyðimerkurinnar til Miðjarðarhafs.  Nokkrar ár renna til Chad-vatns í Suður-Sahara og verulegt vatnsmagn heldur áfram til norðausturs og viðhalda grunnvatnsbirgðum á leiðinni.  Niger kemur upp á Fouta Djallon-svæðinu í Gíneu og rennur um Suðvestur-Sahara áður en hún sveigir suðurs og sjávar.  Smáár, sumar árstíðabundnar (wadi), renna frá Atlasfjöllum og strandhálendinu í Líbýju, Túnis, Alsír og Marokkó.  Hinar stærstu þeirra eru Saoura og Drâa.  Fjöldi árstíðabundinna lækja rennur til öldóttu lægðasvæðanna (chot) í Norður-Sahara.  Inni á eyðimerkursvæðinu er víðáttumikið kerfi árstíðabundinna árfarvega.  Sumir þeirra mynduðust, þegar meiri úrkomu gætti fyrrum, en nokkrir hafa myndast á sögulegum tímum í skyndilegum regnstormum, líkt og gerðist í tortímandi vatnsflóði í Tamanrasset í Alsír 1922.  Árfarvegir (wadi), stöðuvötn og Tjarnir eru áberandi á vatnasvæðum Tibesti-fjalla, Tassili n’Aijer-svæðisins og Ahaggar-fjalla (t.d. Wadi Tamanrasset).  Sandöldur Sahara geyma talsverðar birgðir regnvatns, sem kemur sums staðar fram í bleytublettum og lindum í hlíðum.

Jarðvegur Sahara er snauður af lífrænum efnum og víðast lífrænt óvirkur.  Skilin milli laga hans eru lítt mismunandi.  Sums staðar eru jarðvegslög með köfnunarefnisbakteríum.  Í lægðum er jarðvegur oft saltur.  Við jaðra eyðimerkurinnar er hann mun auðugri af lífrænum efnum, sem eru sum næm fyrir veðrun, og þar leirkenndur, efnavirkur jarðvegur algengur.  Hann inniheldur oft kolefni, sem gefur til kynna að lítið vatn síist um hann.  Þétt og hörð lög eða skorpulög finnast einungis í norðvesturhlutum eyðimerkurinnar, þar sem kalkkennd lög eru undir.  Fínkornótt set, s.s. kísilgúr, finnst aðeins í lægðum.

LoftslagUpphaf eyðimerkurloftslagsins á Saharasvæðinu má rekja u.þ.b. 5 miljónir ára aftur í tímann (snemm-plíósen).  Síðan þá hafa orðið stuttar og miðlungssveiflur milli þurrari og rakari tímabila.  Búseta manna virðist hafa aukið stöðugleika loftslagsins vegna umferðar og minni uppgufunar.  Síðustu 7 teinaldir hefur grasbítum verið beitt þar og við jaðrana.  Af þessum sökum hefur loftslagið verið tiltölulega stöðugt síðustu tvær teinaldirnar.  Áberandi frávik frá þessum stöðugleika urðu frá 16. til 18. aldar (litla ísöldin í Evrópu).  Þá jókst úrkoma verulega við hitabeltisjaðarinn, í eyðimörkinni sjálfri og e.t.v. einnig við norðurjaðarinn.  Á 19. öldinni fór loftslagið aftur í sama farið og áður.

Loftslaginu má skipta í tvo höfuðflokka, þurrt jaðartrópískt í norðurhlutanum og þurrt trópískt í suðurhlutanum.  Hið fyrrnefnda einkennist af óvenjulega miklum hitasveiflum hvers dags og árs, svölum og köldum vetrum og heitum sumrum og tveimur hámarksregntímum.  Hið síðarnefnda einkennist af tveimur hitatímabilum, mildum og þurrum vetrum og heitum og þurrum tímabilum á undan mismunandi úrkomusömum sumartímabilum.  Á mjórri ræmu, vestast við Atlantshafið, er loftslagið tiltölulega svalara og hitastig stöðugra vegna áhrifa hins kalda Kanarístraums.

Stöðug háþrýsisvæðisbelti norðan hitabeltisins veldur hinu þurra jaðartrópíska loftslagi í Norður-Sahara.  Meðaldagshitinn er 20°C.  Vetur eru fremur kaldir nyrzt og svalir í Mið-Sahara.  Meðalhitinn á öllu þessu svæði á veturna er 13°C.  Sumrin eru heit.  Hæsti, skráði hiti er 58°C við Al-‘Aziziyah í Líbýju við norðurjaðar eyðimerkurinnar.  Daglegar hitasveiflur eru verulegar allt árið.  Meðalúrkoman er 76 mm en hún er mjög mismunandi milli ára.  Mest er hún á tímabilinu desember til marz og í ágúst koma oft úrkomusöm þrumuveður, sem geta valdið skyndiflóðum á úrkomulausum svæðum.  Lítið rignir í maí og júní.  Stundum snjóar á norðursléttunum.  Annað einkenni þessara þurru jaðartrópísku svæða er hinir heitu sunnanvindar, sem bera oft með sér ryk innan úr landi.  Þeir láta á sér bæra á mismunandi tímum allt árið en eru algengastir á vorin.  Í Egyptalandi eru þeir kallaðir „khamsin”, í Líbýju „ghibli” og í Túnis „chilli”.  Sandstormarnir í Súdan (haboob) standa skemur yfir, aðallega á sumrin og oft kemur mikil úrkoma í kjölfar þeirra.

Sama háþrýstibeltið ræður veðurlaginu í hitabeltishlutanum í suðri en þar hafa stöðugir, jaðartrópískir meginlands- og óstöðugir úthafsloftmassar einnig áhrif á loftslagið.  Þarna er dagsmeðalhitinn 17,5°C.  Meðalhiti kaldasta mánaðarins er svipaður og í norðurhlutanum en dagsveiflur eru minni.  Hærra yfir sjó er hitafarið líkt og í norðurhlutanum.  Minnsti hiti, sem hefur mælzt, er -15°C (Tibesti-fjöll).  Seint á vorin og snemma á sumrin er heitt (allt að 50°C).  Uppi í fjallendi þessa svæðis rignir smávegis allt árið en á láglendinu er úrkoman mest á sumrin.  Líkt og í norðurhlutanum fylgir mesta úrkoman þrumuveðrum.  Meðalársúrkoman er í kringum 127 mm og stundum snjóar í hæstu fjöll.  Á vesturjaðri Sahara dregur hinn kaldi Kanarístraumur í Atlantshafi úr hitanum og jafnframt úrkomunni, þótt rakastigið sé hærra og stundum leggist þoka yfir.  Í Suður-Sahara eru veturnir tímabil „harmattan”, kalds norðaustanvinds, sem þykkur af sandi og ryki.

Flóran Sahara er að langmestu leyti gróðursnauð en ýmsar tegurndir grasa, runna og trjáa vaxa á hásléttum, í vinjum og meðfram árfarvegum.  Ýmsar saltþolnar plöntur (halophyte) vaxa í saltlægðunum.  Hita- og þurrkaþolnar gras-, jurta-, runna- og trjátegundir vaxa á sumum úrkomulitlum svæðum.  Athyglisvert er, hve margar plöntur hafa aðlagast óstöðugri úrkomu.  Myndunarfræði þeirra er mismunandi eftir rótakerfi, aðlögun, staðarvali, venzlum og æxlun.  Margar jurtanna eru skammlífar og æxlast innan þriggja daga eftir úrkomu og dreifa fræjum innan 10-15 daga.  Uppi í fjöllum eyðimerkurinnar eru strjálar og stakar plöntur, sem rekja má til svæða við Miðjarðarhafið.  Meðal þeirra eru tegundir ólífu-, kýprus- og harpistrjáa auk akasía og artemisiarunna, doum-pálma, oleander, döðlupálma og blóðbergs.  Saltþolnar plöntur eins og Tamarix senegalensis vaxa á vesturstrandsvæðinu.  Meðal útbreiddra grasategunda eru Aristida, Eragrostis og Panicum.  Aeluropus littoralis og aðrar saltþolnar grastegundir vaxa á strönd Atlantshafsins.  Ýmsar tegundir skammlífra plantna (acheb) eru undirstaða beitar fyrir grasbíta hirðingjanna.

FánanMeðal hitabeltistegunda eru vatnakarfar og „chromides” á Biskrasvæðinu í Alsír og í einangruðum vinjum Sahara.  Gleraugnaslöngur og dvergkrókódílar eru vafalaust enn þá til í afskekktum aðrennslislægðum í Tibestifjöllum.  Stöðugt hefur gengið á hreyfanlegri stofna dýra vegna veiða með skotvopnum og ágangs manna.  Norðurafríski fílastofninn dó út á dögum Rómverja en ljón, strútar og aðrar tegundir komu sér fyrir við norðurjaðar eyðimerkurinnar allt fram til 1830.  Síðasta arabíska antelópan (addax) var drepin snemma á þriðja áratugi 20. aldar.  Þessi tegund hefur einnig átt í vök að verjast við suðurjaðarinn og í fjöllum Sahara.

Meðal spendýra, sem lifa enn þá í Sahara, eru „gerbilar” (nagdýr með loðinn hala og langar afturlappir; Gerbilinae), jerbóar (svipað nagdýr, sem er næturdýr; Dipodidae), kápuhérar, broddgeltir, barbarísauðfé, bjúghyrndar antelópur (oryx), dorkasgasellur, damadádýr, villtir núbíuasnar, anubisbavíanar, deplahýenur, sjakalar, sandrefir, lýbískir randahreysikettir og mjómerðir.  Fuglategundir eru rúmlega 300 (varp- og farfuglategundir).  Aragrúi fugla finnst við vatnsföll inni í landi og við ströndina.  Meðal innlandsfugla eru strútar, ránfuglar, einkaritarafuglar, gíneufuglar, núbíugammar, arnar- og hlöðuuglur, sandælvirkjar, ljósar klettamúrsvölur og brúnbringu- og breiðstélshrafnar.


Froskar, halakörtur og krókódílar lifa í stöðuvötnum og tjörnum.  Eðlur, kamelljón og gleraugnaslöngur eru á grýttum svæðum og sandöldum.  Í vötnum eru einnig þörungar, saltvatnsrækjur og önnur skeldýr.  Sniglar eru mikilvæg fæða fugla og annarra dýra.  Eyðimerkursnákar, sem leggjast í híði, vakna oft ekki til lífsins fyrr en rignir.

AuðlindirSahara var nýlenda í heila öld frá miðri 19. öld.  Á þessu tímabili urðu engar stórbreytingar aðrar en að meiri friður ríkti á þessu stóra svæði.  Nýlenduveldin höfðu lítinn áhuga á efnahagslegri þróun þessa óaðlaðandi heimshluta.  Eftir síðari heimsstyrjöldina vaknaði mikill áhugi á Sahara, aðallega vegna olíufunda.  Innan nokkurra ára fundust einnig önnur auðæfi í jörðu, s.s. málmar.  Alsíringar eiga verulegar birgðir járns í jörðu og í Vestur-Máritaníu er talsvert járn í Ijill-fjalli.  Minni birgðir hafa fundizt í Egyptalandi, Túnis, Marokkó, Vestur-Sahara og Niger.  Í Suðvestur-Máritaníu, í grennd við Akjoujt, eru talsverðar koparbirgðir.  Manganbirgðir fundust sunnan Béchar í Alsír.  Úran finnst víða í eyðimörkinni en mest hefur verið numið í Niger.  Aðrar málmtegundir hafa fundizt í fjöllum Ahaggar, Air, Tibesti og Eglab.  Auðugar fosfatnámur eru í Marokkó og Vestur-Sahara og minni birgðir annars staðar.

Eldsneytisbirgðir eru í formi kola og gass.  Gljákolalög eru í Marokkó og tjörulindir nærri Béchar.  Olía fannst í grennd við I-n-Salah í Alsír eftir síðari heimsstyrjöldina og síðar í Vestureyðimörkinni í Egyptalandi, Norðaustur-Líbýju og Norðaustur-Alsír.  Minni birgðir hafa fundizt í Túnis og Marokkó og Chad og Niger í suðri.  Olíuflögur fundust einnig í Sahara.  Mikil gassvæði eru nýtt í Alsír og minni í Egyptalandi, Líbýju og Túnis.  Rannsóknir leiddu í ljós miklar grunnvatnsbirgðir í sandsteini undir setlagalægðum.  Á nokkrum stöðum er einnig hægt að nýta vatn í yfirborðslögum sands og sandsteins.

Mjög erfitt er að standa að efnahagsþróun í eyðimörkinni, þannig að breytingar hafa verið litlar og hægfara.  Olíu- og málmgrýtisnám hafa leitt til tæknibyltingar og samgöngubóta en ekki aukið atvinnutækifæri innfæddra að sama skapi.  Mörg olíusvæði í eyðimörkinni bíða síðari tíma nýtingar vegna kostnaðar en meiri áherzla er lögð á slík svæði á þettbýlari strandsvæðum.  Grunnvatnið getur nýtzt til landbúnaðar og iðnaðar en mikill kostnaður hefur staðið í vegi fyrir þeirri þróun.  Einnig verður að hafa í huga, að ofnýting grunnvatns gæti leitt til breyinga náttúrufars og aukið engisprettufaraldra vegna fæðuskorts skordýranna.

Íbúar eyðimerkurinnar hafa borið lítið úr bítum í tengslum við nýtingu auðlindanna og að mörgu leyti hefur hún verið þeim til óhagræðis.  Mikið dró úr hirðingjalífi vegna breytts efnahags og laga um búsetu víða í eyðimörkinni.  Umhverfisspjöll hafa líka hrakið hirðingja til fastrar búsetu í vinjum eða borgum og þar með valdið offjölgun íbúa og aukinni fátækt.  Há laun á olíusvæðunum draga að sér verkamenn en trufla hefðbundið líf auk þess, að störfin eru tiltölulega fá og ekki trygg til frambúðar.  Landbúnaðarafurðir eyðimerkurbúa, húðir, ull, ávextir og salt eru óveruleg tekjulind en döðlur frá norðurvinjunum (einkum daglet mour) seljast í miklu magni.  Saltsala til Vestur-Súdan hefur minnkað vegna ódýrara, innflutts salts.  Áætlain um iðnvæðingu til að draga úr vaxandi atvinnuleysi hafa verið meira í orði en á borði.  Vaxandi framleiðslukosnaður í hinum þróuðu og ofbyggðu Vesturlöndum kann að verða til þess að ýta undir iðnþróun í Sahara, þótt hún sé dýr.  Ferðaþjónustunni hefur vaxið fiskur um hrygg síðan um miðja 20. öldina, þótt erfiðar samgöngur hafi takmarkað hana við jaðra eyðimerkurinnar.

Samgöngur Hefðbundinn ferðamáti um Sahara byggðist á hægfara úlfaldalestum og var bæði erfiður og hættulegur.  Eyðimörkin er villugjörn, hitinn gífurlegur, sandstormar banvænir og margur ferðalangurinn dó úr þorsta og hungri.  Ekki bætti úr skák, að úlfaldalestirnar urðu oft fyrir árásum ræningja.  Þrátt fyrir alla áhættuna, voru slíkar ferðir stundaðar frá alda öðli, því að umbunin eftir velheppnaðar verzlunarferðir var mikil.  Flestar aðalleiðirnar voru vestan Tibestifjalla og breyttust nokkuð í tímans rás, þótt hinar austlægustu þeirra, norðan frá Chad-vatni til Bilma (Niger) og um Fezzan-svæðið til Tripoli, væru notaðar óbreyttar um aldir.  Austan Tibestifjalla eru fáar vinjar en „Fjörutíudagavegurinn” (darb al-arab’in) vestan Nílar var fyrrum notuð til þrælaflutninga.  Gull, fílabein, þrælar og salt voru aðalverzlunarvörurnar en nú er mjög fátítt að sjá úlfaldalestir.  Enn þá er nokkuð flutt af salti frá námunum í Ijill-fjalli, Bilma og Taoudenni í Mali.  Aðalleiðirnar eru enn þá notaðar í ferðum sérbúinna flutingabíla, sem ferðast oftast margir saman.  Nútímavegir á þessum leiðum lengjast ár frá ári.  Frakkar voru upphafsmenn að rútuferðunum um Sahara, sem er enn þá haldið uppi.  Hliðarleiðir út frá þessum aðalleiðum eru víðast færar sé varlega farið en inni í eyðimörkinni sjálfri eru farartæki með drifi á öllum hjólum nauðsynleg.  Mönnum er ráðlegt að vera aldrei einbíla á ferðinni og hafa með sér nauðsynlega varahluti, nægar birgðir eldsneytis, matar og vatns.  Víða eru sérstakar reglur í gildi um ferðalög í eyðimörkinni.  Flest kort af Sahara eru ónákvæm og varasöm, þannig að beita verður nútímaaðferðum við rötun og leiðaval.

Mörg flugfélög bjóða áætlunar- og sérferðir yfir Sahara og helztu byggðir eyðimarkarinnar eru í flugsambandi innbyrðis og við borgir utan Sahara.  Eftir að hætt var við lagningu Sahara-járnbrautarinnar hefur þróunin á því sviði verið hæg.  Eina varanlega járnbrautin er notuð til flutninga hráefna frá námum í Máritaníu.

Rannsóknir.  Allt frá upphafi frásagna um Sahara er eyðimörkinni lýst sem risastórri og ógnvekjandi hindrun.  Egyptar réðu vinjunum innan landamæra sinna og stundum sunnan þeirra.  Karþagómenn héldu áfram viðskiptum við byggðir innfæddra, sem höfðu búið þar síðan á bronsöld.  Heródus lýsti ferð yfir eyðimörkina með berbum á 5. öld f.Kr. og áhugi Rómverja á Sahara kemur bezt fram í lýsingum á ferðum þeirra um eyðimörkina frá árinu 19 f.Kr. til ársins 86 e.Kr.  Ritaðar heimildir, kenndar vi Trabo, Plíníus eldri og Tólemeus, bera áhuga á þessu svæði vitni.  Á miðöldum voru gerðir út margir leiðangrar til Sahara á vegum Abbasída, Fatímída, Mamlúka og annarra ríkja í Miðausturlöndum, Norður-Afríku og Spánar á dögum mára.  Frásagnir um Sahara er að finna í verkum margra arabískra ritara (Ya’qubi, ash-Sharif al-Idrisi og Ibn Battuta).

Kaupmenn og trúboðar miðalda, sem ferðuðust um Sahara, juku þekkingu manna á þessum heimshluta og íbúum hans.  Abraham Cresque, sem gerði heimskort fyrir Karl V Frakkakonung í kringum 1375, endurvakti áhuga Evrópumanna á eyðimörkinni.  Kortið var byggt á upplýsingum frá gyðingakaupmönnum, sem ferðuðust um Sahara.  Útgáfa þess olli mikilli umferð Portúgala, Feneyinga, Genúa- og Flórensbúa um eyðimörkina.  Margir landkönnuðir skráðu ferðir sínar nákvæmlega, s.s. Alvise Ca’ da Mosto, Diogo Gomes og Pedro de Sintra.  Áhugi Norður-Evrópubúa á Sahara kom skýrt fram í ferðum hollenzka 17. aldar landfræðingsins Olfert Dapper.

Síðari könnunarferðir Evrópumanna, sem beindust margar að könnun helztu vatnsfalla Afríku, hófust fyrir alvöru á 19. öld.  Tilraunir til að kanna farveg Nigerárinnar árið 1819 leiddu til ferðar brezku landkönnuðanna Joseph Ritchie og George Francis Lyon til Fezzansvæðisins og árið 1822 til ferðar landa þeirra, Dixon Denham, Hugh Clapperton og Walter Oudney, yfir Sahara þar til þeir fundu Chad-vatnið.  Skozki landkönnuðurinn Alexander Gordon Laing ferðaðist yfir Sahara og komst til þjóðsagnaborgarinnar  Timbuktu árið 1826, þar sem hann var drepinn áður en hann gat snúið heim á leið.  Franski landkönnuðurinn René Caillié snéri til baka frá Timbuktu yfir Sahara dulbúinn sem arabi árið 1828.  Þjóðverjinn Heinrich Barth (1849-55), Frakkinn Henri Duveyrier (1859-62), Þjóðverjinn Gustav Nachtigal (1869-75) og Þjóðverjinn Gerhard Rohlfs (1862-78) fóru einnig í könnunarleiðangra á þessum slóðum.

Eftir að mörg nýlenduveldna Evrópu höfðu skipt Sahara á milli sín var eyðimörkin könnuð mun nánar og í lok 19. aldar var hún að mestu könnuð í stórum dráttum.  Á 20. öldinni jókst þekkingin enn vegna pólitískra, viðskiptalegra og vísindalegra athafna, þótt enn þá séu stór, afskekkt svæði lítt könnuð og erfið yfirferðar.

SPRENGISANDUR
Ódáðahraun

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM