Nelson Rolihlahla Mandela Suður Afríka,
Flag of South Africa


NELSON ROLIHLAHLA MANDELA
SUÐUR AFRÍKA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Nelson MandelaNelson Rolihlahla Mandela (1918-2013 ) var stjórnmálamaður, sem sat rúmlega 25 ár í fangelsi í Suður-Afríku og var meðal þekktustu stjórnmálalegu fanga síns tíma.  Hann var loks leystur úr haldi ob varð fyrsti svarti forseti landsins í apríl 1994.  Hann fæddist í Umtata í Transkei.  Faðir hans var aðalráðgjafi höfðingja Thembuættbálkanna og Mandela var alinn upp til að taka við höfðingjastöðunni.  Hann nam í Fort Hare háskólanum, þar sem hann fór að blanda sér í stjórnmál og hitti Oliver Tambo, sem varð ævilangur vinur hans.  Báðir tóku þeir þátt í stúdentaverkfallinu 1940, sem leiddi til brottrekstrar þeirra úr skólanum.  Mandela yfirgaf Transkei, m.a. til að komast hjá hjónabandi innan ættbálksins, og gerðist lögreglumaður við námurnar í Jóhannesarborg.  Hann hitti Walter Sisulu, sem hjálpaði honum að komast í skjöl lögfræðiskrifstofu nokkurrar.  Hann, ásamt Sisulu, Tambo og Anton Lembede, varð stofnfélagi ungliðahreyfingar Afríska þjóðarráðsins (ANC) árið 1944 og aðalritari ungliðasamtakanna árið 1948.

Hann var mótfallinn samvinnu við aðra kynþáttahópa þar til hann snéri við blaðinu árið 1952, þegar samtökin beittu þeirri baráttuaðferð að hunza hvíta minnihlutann, sem stjórnaði landinu.  Í framhaldi af þessum aðgerðum barðist hann fyrir sameiginlegum aðgerðum svartra og þeldökkra í landinu gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda.  Um þessar mundir var hann orðinn forseti ungliðahreyfingarinnar og stofnaði fyrstu lögfræðistofu svartra með Tambo.  Í desember 1952 var hann tekinn fastur í krafti laganna gegn kommúnistum og fékk níu mánaða skilorðsbundinn dóm.  Honum var líka bannað að sækja fundi samtakanna og yfirgefa Jóhannesarborg á meðan hann afplánaði dóminn.  Þessi ákvæði voru síðan stöðugt endurnýjuð næstu níu árin.  Hann hélt engu að síður áfram starfi sínu í samtökunum og átti þátt í stofnun sérstakra flokkseininga ANC, sem áttu að starfa hver í sínu lagi með fullri leynd.  Í desember 1956 var hann, ásamt 155 öðrum, sakaður um landráð.  Réttarhöldunum yfir hópnum lauk ekki fyrr en 1961 með sýknu allra ákærðra.  Hann kvæntist Nkosikazi Nomzamo Madikizela, Winnie Mandela, árið 1968.

Í kjölfar fjöldamorðanna í Sharpeville 1960, þar sem öryggislögreglan myrti 67 svertingja úr hópi mótmælenda aðskilnaðarlaganna, voru Afríska þjóðarráðið og Sambandsráð Afríkuríkja bönnuð með lögum.  Í marz 1961 fór Mandela í felur til að komast hjá handtöku og frekari bannaðgerðum.  Hann ferðaðist á laun um landið með Sisulu og skipulagði þriggja daga allsherjarverkfall.  Hann fékk viðurnefnið „svarta nónblómið”.  Í júní 1961 ákvað stjórn ANC að hefja vopnaða baráttu og stofnaði herinn „Umkhonto we Size” (Spjót þjóðarinnar) og gerði Mandela að æðsta hershöfðingja.  Í janúar 1962 fór hann úr landi á laun og tók þátt í Samafrísku ráðstefnunni í Addis Ababa í Eþíópíu.  Þaðan fór hann til Alsír, þar sem hann fékk þjálfun í skæruhernaði og síðan til London, þar sem hann hitti leiðtoga stjórnarandstöðunnar.  Hann snéri aftur til Suður-Afríku í júlí sama ár og var handtekinn 5. ágúst.  Hann var dæmdur til 5 ára frelsissviptingar fyrir undirróður og fyrir að fara úr landi án tilskilinna leyfa. 

Lögreglan réðist á höfuðstöðvar ANC á Lilliesleaf-búgarðinum í Rivonia á meðan hann var í fangelsi.  Flestir leiðtogar samtakanna voru handsamaðir og mikið skjalasafn, þ.á.m. dagbók Mandela úr utanlandsferðinni, var gert upptækt.  Hann og aðrir byltingarmenn voru ákærðir og réttarhöldin voru kölluð „Rivona landráðaréttarhöldin”.  Þau stóðu yfir frá október 1963 til júní 1964 og Mandela var varði sig og félaga sína.  Hann var dæmdur til lífstíðar fangelsis og varnarræða hans varð að því efni, sem mest var vitnað í, þegar rætt eða ritað var um stefnu stjórnar landsins í kynþáttamálum.  Honum var haldið í fangelsinu á Robbeneyju í 18 ár áður en hann var fluttur til Pollsmoorfangelsins í Höfðaborg árið 1882, þegar samtök og hópar um allan heim kröfðust þess, að hann yrði látinn laus.  Árið 1985 afþakkaði Mandela boð P.W. Botha, forseta, um skilyrðisbundið frelsi á þeim forsendum, að hann gæti ekki sætt sig við málamiðlun í deilunni um aðskilnaðarstefnuna.

Stjórn F.W. de Klerk sleppti honum úr fangelsi í febrúar 1990 eftir að hún aflétti banni við starfsemi ANC og annarra stjórnmálaflokka.  Mandela tók við forystu ANC og stýrði hinum erfiðu samningum við ríkisstjórnina á árunum 1990-94.  Oft leit út fyrir, að samningarnir væru að sigla í strand og ógnaröld blóðbaðs og mannvíga væri yfirvofandi.  Árið 1991 afnam ríkisstjórnin leifarnar af lögunum, sem héldu aðskilnaðarstefnunni við lýði.  Árið 1993 deildu Mandela og de Klerk með sér friðarverðlaunum Nóbels fyrir að stuðla að lýðræði og samkennd kynþátta Suður-Afríku.  Í kjölfar fyrstu almennu kosninganna í landinu í maí 1994 varð Mandela fyrsti svarti forseti landsins.  Árið 1992 tilkynnti hann skilnað sinn og Winnie Mandela en gerði hana síðar að aðstoðarráðherra í ríkissjórn sinni í maí 1994.  Hann rak hana úr embætti í apríl 1995 og sótti opinberlega um skilnað við hana í ágúst.  Skilnaðurinn varð löglegur í marz 1996.  Í september sama ár tilkynnti hann samband sitt við Graca Machel, ekkju fyrsta forseta Mozambique, Samora Moises Machel.  Í maí 1996 var ný stjórnarskrá lögð fyrir þingið og leidd í lög í desember.  Nokkrum dögum síðar undirritaði Mandela lög, sem kváðu á um náðun allra, sem voru sakaðir um pólitíska glæpi fram að kosningu hans í forsetaembættið.  Mandela tók þátt í fjölda funda og ráðstefna um frið í Afríku og reyndi að bjarga lífi stjórnarandstöðumannsins Ken Saro-Wiwa, sem var líflátinn í Nígeríu 1995.  Hann vann að málamiðlun milli stríðandi fylkinga í Zaire árið 1997.

Nelson Rolihlahla Mandela lést 5 desember 2013.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM