Suður Afríka menningarlífið,
Flag of South Africa


SUÐUR-AFRÍKA
MENNINGARLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Ellefu tungumál eru opinberlenga viðurkennd í Suður-Afríku samkvæmt stjórnarskránni frá 1993 (Afrikaans, enska, ndebele, sotho, swazi, tswana, venda, xhosa og zulu).  Önnur ellefu eru á biðlista (arabíska, þýzka, gríska, gujarati, hebreska, hindi, portúgalska, sanskrít, tamil, telugu og urdu).  Öll suðurafrísk tungumál eru töluð í mismunandi mæli á mismunandi svæðum.  Afrikaans og enska eru lykiltungur, sem tengja alla íbúana.  Íbúarnir eiga aðgang að skólakerfi, sem byggist á öllum ofangreindum, opinberum tungum.  Enskan er í stöðugri sókn í viðskiptalífinu, opinbera geiranum og í menntakerfinu.

Listir
.  Tungumálafjöldinn í landinu gefur til kynna fjölbreytileika menningarinnar.  Landsmenn hafa tileinkað sér vestrænt líferni en kjarni menningarinnar og hefðanna, tónlistar og dans lifir góðu lífi og tengir nútímann við fortíðina.  Þessara áhrifa gætir greinilega í jassinum og flutningi tónlistar (African Jazz Pioneers, Ladysmith Black Mambazo o.fl.).  Margir ættbálkar, trúarhópar og fleiri eiga djúpstæða sögu hefða, sem koma m.a. fram í frásagnarhefð, ljóðum, sögu og söguljóðum.  Þessar hefðir hafa orðið fyrir áhrifum frá öðrum menningarsvæðum landsins, Karíbaeyjum, Latnesku-Ameríku og Evrópu, eins og kemur greinilega fram í nútímabókmenntum.

Margir rithöfundar, s.s. Guybon Sinxo (xhosa), B.W. Vilakazi (zulu), Oliver Kgadime Mtsepe (norður-sotho) og Thomas Mofolo (suður-sotho), hafa orðið fyrir meiri áhrifum fornrar menningar síns fólks en evrópskum.  Verk þessara og annarra rithöfunda hafa ekki fundið náð fyrir augum fræðsluyfirvalda og menntastofnana, þótt þau hafi verið aðalfrásagnarmáti afrískra menntamanna árum saman.  Menningarsaga Suður-Afríku byggist á þessum verkum, hvort sem þau eru stór eða smá og án tillits til stærðar lesendahópa eða fjölda áheyrenda.

Á áttunda áratugi 20. aldar urðu til skýr og greinileg munstur þjóðlegrar-, margkynja- og margtyngdrar menningar, þegar rithöfundar, skáld og listamenn lýstu ólgunni í suðurafrísku þjóðfélagi.  Viðbrögðin við aðskilnaðnarstefnunni voru efling meðvitundar svartra fyrir menningu sinni og sögu eins og kom skýrt fram í fjöldahreyfingum í Vestur-Afríku, á Karíbaeyjum og Norður-Ameríku.  Þau komu fram í ljóðagerð og texta borgarskálda (Mothobi Mutloatse og Miriam Tlali) í tímaritum eins og Staffrider og fleiri slíkum.


Áratugum saman voru listir, sem byggðust á pólitískum grunni eða innifólu kynferðislegar athafnir bannaðar.  Ríkið bannaði verk margra rithöfunda, þ.á.m. Breyten Breytenbach, Dan Roodt, André Brink og Étienne Leroux.  Adam Small og Alex La Guma hafa ritað á afrikaans og ensku um áhrif kynþáttafordóma og flókið og ofbeldisþrungið líf í Suður-Afríku.  Fjöldi svartra og hvítra rithöfunda, sem skrifa á þessum nótum, hafa öðlast alþjóðlega viðurkenningu (Es’kia Mphahlele, Alan Paton, Brink, Leroux, J.M. Coetzee, Sipho Sepamla og Mongane Wally Serote).  Árið 1991 fékk Nadine Gordimer bókmenntaverðlaun Nóbels.  Leikritahöfundar landsins brugðust við nýju menningar- og stjórnmálalegu umhverfi með verkum á mörgum tungumálum.  Stuðningur við ný innlend leikhús barst frá fordómalausum félögum, s.s. Market Theatre í Jóhannesarborg.  Leikrit eftir Athol Fugard, Mbonbeni Mgema, Fatima Dike og Pieter-Dirk Uys hafa komizt á fjalirnar víða um heim.  Helzti stuðningur við leiklistina kom frá listanefndum héraðanna á dögum aðskilnaðarstefnunnar.  Þessar nefndir styrktu leikhúsin, ballet, symfóníuhljómsveitir og aðra menningarviðburði.  Eftir að aðskilnaði lauk eru þessi mál í höndum nýju héraðsstjórnanna samkvæmt stjórnarskránni frá 1993.

Fjölmiðlar voru lítt bundnir ritskoðun fram að sjöunda áratugi 20. aldar.  Öflugastir þeirra voru og eru dagblöðin Argus og Perskor, sem eru gefin út á ensku og afrikaans.  Lesendahópurinn í landinu hefur stækkað mjög, þótt mörg dagblöð (The World m.a.) væru bönnuð á ofsóknarárunum.  Þá var mörgum blaða- og fréttamönnum ógnað og þeir hnepptir í fangelsi.  Á níunda áratugnum komu ný og óháð dagblöð fram á sjónarsviðið (New Nation og Weekly Mail).  Vrye Weekblad varð fyrsta dagblaðið á afrikaans en útgáfu þess var hætt 1994.  Eftir að dró úr viðskiptahömlum erlendra ríkja og landið komst aftur inn á heimsmarkaðinn hafa alþjóðlegir fjölmiðlar sýnt landinu meiri áhuga og stærsta dagblaðið komst undir yfirráð erlends auðhrings.

Sjónvarp, sem hóf göngu sína um miðjan áttunda áratuginn, og útvarp eru veigamikil öfl í suðurafrísku þjóðfélagi.  Ríkið stjórnaði fjölmiðlum með harðri hendi þar til ritskoðun lauk í febrúar 1990.  Ríkisstjórnin notaði þá til að koma skoðunum sínum á framfæri og bæla niður andstöðuna gegn aðskilnaðarstefnunni.  Flestar útvarps- og sjónvarpsstöðvar eru enn þá í ríkisreknar en þátttaka almennings í stjórn þeirra eftir 1994 gjörbreytti stefnunni.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM