Jóhannesarborg sagan I Suður Afríka,
Flag of South Africa

SAGAN 2      

JÓHANNESARBORG
SAGAN 1
SUÐUR AFRÍKA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Saga Jóhannesarborgar er jafnframt saga gullfunda í landinu.  Árið 1853 fann landkönnuðurinn Pieter Jacob Marais gull í árfarvegi Jukskei-árinnar, norðan núverandi legu borgarinnar.  Næstu árin fannst talsvert meira gull en ekki var farið að leita í Witwatersrand fyrr en 1886, þegar ástralskur landkönnuður, George Harrison, fann gull fyrir tilvilnun á jörð Langaagte-búgarðsins.  Hann áttaði sig ekki á mikilvægi þessa fundar, seldi spilduna sína fyrir 10 pund og fór til gullsvæðanna í Austur-Transvaal.  Aðrir voru framsýnni og þolinmóðari og um mitt sama ár hafði sægur gullgrafara leitað á u.þ.b. 60 km breiðu belti frá austri til vesturs í Witwatersrand.  Stjórn litla bóalýðveldisins Transvaal, sem Witwatersrand féll undir, fól varaforsetanum, Christiaan Johannes Joubert, og aðalumsjónarmanni námuréttinda, Johann Rissik, að rannsaka gullsvæðin og finna borgarstæði.  Nýja borgin var kölluð Jóhannesarborg í viðurkenningarskyni við þessa tvo menn.

Jóhannesarborg varð síðasta alvöru gullgrafaraborgin á 19. öldinni, þegar í ljós kom, hversu mikið gull fannst í jörðu í nágrenni hennar.  Ævintýramenn og reyndir námumenn frá mörgum heimshornum flykktust til landsins.  Námumennirnir frá Cornwall lögðu jafnframt grunninn að öflugri hefð fyrir verkalýðsfélögum í landinu.  Fátækir bóar, sem höfðu flosnað upp af heimilum sínum vegna þurrka og skulda, komu sér fyrir í fátækrahverfum (Brickfields, Vrededorp o.fl.) og margir hópar mismunandi kynþátta komu frá ýmsum hlutum suðurálfunnar.  Margir þeirra störfuðu sex til níu mánuði í námunum og héldu síðan heim á ný.  Aðrir settust að í sístækkandi borginni og stunduðu margs konar störf, s.s. sem vagnahlauparar, við þjónustustörf og þvotta, til að sjá sér farborða.  Íbúafjöldi borgarinnar var orðinn u.þ.b. 100 þúsund árið 1996.

Þessi nýja borg, sem byggðist á ágirnd, fór ekki varhluta af öllum gerðum lasta.  Bankar og gistihús börðust um rými við rúmlega 500 krár og skemmtistaði.  Glæpagengi með rætur í New York og London þrifust vel í frjóum jarðvegi borgarinnar.  Karlmenn voru í miklum meirihluta og vændi blómstraði.  Blaðamaður, sem kom í heimsókn árið 1913, skrifaði, að Nievah og Babýlon hefðu verið endurvaktar í Jóhannesarborg.  Þetta er borg saurlífis og óheyrilegrar sóunar.

Gullbirgðirnar í Main Reef voru tryggar en dýrar í vinnslu.  Það varð að grafa upp völublönduð berglög svo tonnum skipti, mala þau, blanda þau kvikasilfri (síðar blásýru) og eima til að framleiða nokkra tugi gramma af gulli.  Gullið var selt á föstu verði á heimsmarkaði, þannig að þessi dýra vinnsluaðferð var vafasöm, ekki sízt vegna þess, að jarðlögunum, sem það fannst í, hallaði lágu stöðugt dýpra til suðurs.  Dýpstu gullnámurnar urðu rúmlega þriggja kilómetra djúpar og þarmeð hinar dýpstu í heimi.  Þessi þróun leiddi til samþjöppunar í iðnaðinum og eftir 1890 höfðu 5-6 fyrirtæki töglin og hagldirnar.  Hvert þeirra höfðu aflað milljóna dollara hjá fjárfestum í Evrópu og Bandaríkjunum og höfðu þúsundir manna í vinnu.  Yfirráðin voru í höndum fárra manna (Randlords) eins og Alfred Beit, Barney Barnato og J.B. Robinson, sem aflaði þeim auðlegðar á demantasvæðunum og var vel að sér í stóriðnaði og námuvinnslu.  Fyrirtækin voru undir stöðugu eftirliti Námuráðsins og forstjórarnir stóðu í ströngu við að halda þeim á floti með hagræðingu í rekstri og lækkun kostnaðar, einkum vinnulauna.

Samtímis auknum völdum og áhrifum forstjóra gullfyrirtækjanna óx barátta þeirra við ríkisstjórn Transvaal, sem þeir álitu of spillta og óhæfa til að takast á við nútímaumhverfi iðnaðar og efnahagsmála.  Embætttismenn bóastjórnarinnar voru frekir til fjárins, þáðu mútur og hygluðu pólitískum samherjum.  Ríkisstjórnin megnaði heldur ekki að lögleiða og framfylgja skattalögum og lögum um atvinnuréttindi, sem forstjórarnir álitu nauðsynleg til að halda launakosnaði niðri.  Eitt sinn sagði æstur iðnaðarsérfræðingur, að bóastjórninni væri ókleift að skilja kapitalisma, iðnvæðingu og framfarir.

Brezkir embættismenn kyntu undir óánægju námueigenda, enda ásældust margir þeirra gullnámurnar fyrir hönd Brezka heimsveldisins.  Á þessum tímum var pólistískur efnahagsstyrkur mældur í gjaldeyrisbirgðum hvers lands og birgðir Englandsbanka voru orðnar hættulega litlar.  Árið 1895 studdu brezkir embættismenn á laun Jameson hallarbyltinguna gegn ríkisstjórninni í Transvaal.  Potturinn og pannan í henni var námujöfurinn Cecil John Rhodes.  Hún mistókst og byltingarmenn höfðuðu til heita erlendra námumanna, flestra Breta, í Jóhannesarborg, sem var neitað um kosningarrétt samkvæmt lögum Transvaal.  Í september 1899 setti brezka ríkisstjórnin bóum úrslitakosti og krafðist umsvifalalauss kosningaréttar fyrir alla hvíta úrlendinga.  Í október sama ár hófst Suður-Afríkustríðið eða Bóastríðið.  Þegar bardögum lauk tveimur og hálfu ári síðar, urðu Transvaal og orange Free State brezkar nýlendur.

Brezkar hersveitir héldu inn í Jóhannesarborg án andstöðu í júní 1900.  Bóar hörfuðu frá námunum án þess að valda spjöllum og þær voru teknar í notkun aftur á næsta ári.  Vonir námueigendanna rættust, því að nýlenduherrarnir voru á þeirra bandi.  Það var dregið úr tollum, skattar á einstaklinga voru hækkaðir og Afríkumenn voru neyddir til að vinna fyrir þeim launum, sem í boði voru hverju sinni.  Þegar þessar aðgerðir urðu ekki til að auka framboð vinnafls nægilega, sameinuðust Námaráðið og embættismenn hans hátignar um að flytja 60.000 kínverja inn til vinnu í námunum.  Um svipað leyti og Bandalag Suðurafríkuríkja var stofnað 1910 var fjárhagur námufyrirtækjanna tryggður.

SAGAN 2

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM