Jóhannesarborg sagan 3 Suður Afríka,
Flag of South Africa

       

JÓHANNESARBORG
SAGAN 3
SUÐUR AFRÍKA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Aðskilnaðarstefnan.  Þessar breytingar höfðu áhrif á hvíta stjórnmálaleiðtoga.  Framtíð Jóhannesarborgar og annarra borga landsins varð aðalkosningamálið 1948.  Sameiningarflokkur Jan Smuts hélt því fram að alger aðskilnaður væri fjarstæða, þótt hann styddi heilshugar yfirráð hvítra, því að þróun efnahagslífsins krefðist svarts vinnuafls.  Þjóðarflokkur F. Malan varaði við því, að hvítir væru að verða undir og krafðist tafarlausrar endurvakningar gamla skipulagsins.  Hann skírði stefnu sína „aðskilnaður”.  Þjóðarflokkurinn tryggði sér meirihluta á þingi, sem hann hélt í 46 ár.  Á þessu tímabili var samþykktur fjöldi laga, sem sögðu til um búsetu, vinnuskilyrði, skólagöngu o.fl. samkvæmt kynþætti.  Búðirnar, sem höfðu sprottið upp umhverfis borgina á miðju fimmta áratugnum voru jafnaðar við jörðu auk fjölda annarra, sem voru innan borgarskipulags hvítra.  Í stað svertingja settist þar að hvítt miðstéttarfólk.

Sjöundi áratugurinn var hinn bezti og hinn versti í þróun borgarinnar eftir því, hvernig hörundslitur fólksins var.  Það var búið að banna alla andstöðuflokka og Þjóðarflokkurinn hafði óheft völd til að vinna að fullkomnum aðskilnaði.  Nærri fjórar milljónir svartra voru fluttir með valdi milli svæða í landinu, þar af nokkur hundruð þúsund frá Jóhannesarborg.  Þeir voru settir niður á afskekktum „heimalöndum”.  Vegabréfslögin tryggðu, að iðnaðurinn hefði nægilegt vinnuafl og þeim var framfylgt með mikilli nákvæmni í aldarfjórðung áður en þau voru afnumin.  Á þessu tímabili voru nærri 10 milljónir manna sóttar til saka fyrir brot á lögunum, sem samsvarar rúmlega 1000 málum á dag.  Efnahagslegur uppgangur landsins var gríðarlegur á þessum árum.  Á sjöunda áratugnum var hagvöxtur í kringum 6% á ári, sem var næstbezti árangur í heimi á eftir Japan.  Lunginn af arðinum lenti í höndum hvítra, sem verðlaunuðu Þjóðarflokkinn með síauknum meirihluta á þingi.

Hrun aðskilnaðarstefnunnar.  Undir rólegu yfirborði aðskilnaðarins kraumaði vaxandi óánægja, sem kom óhjákvæmilega upp á yfirborðið í Jóhannesarborg.  Hinn 16. júní 1976 hóf lögreglan skothríð á stúdenta frá Soweto, sem voru í kröfugöngu gegn lögum um kennslu á afrikaans í skólum svartra.  Þessi atburður olli miklum almennum óeirðum í marga mánuði í rúmlega 80 borgum landsins.  Óeirðir brutust aftur út í bæjum og þorpum í kringum Jóhannesarborg árið 1984, þegar lög voru sett um takmörkuð réttindi indverja og annarra þeldökkra án þess að svarti meirihlutinn fengi nokkrar úrbætur.  Níundi áratugurinn var óstöðugur, þrátt fyrir lög um neyðarástand og sérþjálfun deilda í hernum til að glíma við uppreisnarseggi.  Verkalýðsfélög svartra tóku aftur til starfa og í kjölfarið fjöldi verkfalla og heimasetu verkamanna, sem leiddu oft til algerrar stöðvunar atvinnulífsins í Witwatersrand.  Þessar aðgerðir og harðnandi viðskiptahömlur erlendra ríkja urðu til þess að þvinga stjórnvöld að samningaborðinu og í kjölfarið að efna til fyrstu lýðræðislegu kosninga í landinu árið 1994.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM