Loftslagið
í borginni er temprað. Sumarhitinn
er að meðaltali 24°C og meðalhitinn á veturna 13°C.
Fátítt er að hitinn fari niður fyrir frostmark.
Að jafnaði skin sólin 8 klst. á dag árið um kring og úrkoman
er 700 mm á ári að meðaltali, þótt nokkur munur sé á milli ára.
Þurrkar eru algengir og venjulega er úrkoman að mestu á
sumrin, einkum síðla síðdegis, oftast í þrumuveðrum.
Loftmengun er mikið vandamál, einkum á veturna, þegar hitahvörf
hindra loftstreymi frá Indlandshafi til vesturs.
Mengunin er mest í hinum þéttbýlu hverfum og útborgum
svartra, þar sem kolanotkun er mikil.
Borgarmyndin.
Miðborgin er miðstöð viðskipta og fjármála landsins.
Hún er skipulögð í ferhyrningum og óbreytt frá fyrsta
skipulaginu frá 1886. Göturnar
eru þröngar og eru í skugga steinsteyptra háhýsa, sem gera það að
verkum, að fólki finnst það vera í einhvers konar göngum, þegar
það á leið þar um. Hún er deigla byggingarstíla, sem lýsir hraðri
uppbyggingu og ónæmi fyrir varðveizlu sögulegra bygginga.
Tjöld og leirkofar upprunalegu námusvæðanna eru horfnir líkt
og hin skrautlegu viktoríuhús, sem spruttu upp á síðasta áratugi
19. aldar (Markhamsbyggingin við Pritchard Street er undantekning).
Á fyrri hluta 20. aldar gætti ýmissa byggingarstíla.
Þá risu m.a. bygging hæstaréttar og Listasafnið (Beaux
Arts), sem standa eins og útverðir Brezka samveldisins og stórhýsi
úr stáli og steypu, m.a. Corner House, aðalstöðvar helztu námufyrirtækjanna,
sem sýna aukin bandarísk áhrif á byggingarlistina.
Þeirra gætti þó mun meira á fjórða áratugnum, þegar skýjakljúfarnir
fóru að rísa s.s. ESKOM-byggingin (1937; 21 hæð; Art Deco), sem var
rifin árið 1983. Allar
bitastæðar byggingar borgarinnar hurfu eftir síðari heimsstyrjöldina
og í staðinn risu sviplausar íbúðablokkir og háhýsi. Stór-Jóhannesarborg nær yfir rúmlega 500 km² svæði og
a.m.k. 500 hverfi og smábæjarfélög.
Samkvæmt lögum um hópasamfélög kynþátta frá 1950 var
hvert þeirra stofnað fyrir ákveðna þjóðfélagshópa.
Þessi lög voru afnumin 1991 en engu að síður er Jóhannesarborg
enn þá þekkt fyrir aðskilnað kynþátta að þessu leyti.
Afríkumenn
búa nú um alla borgina en meirihluti þeirra býr enn þá í bæjarfélögunum
umhverfis hana, einkum í svefnhverfum þeirra, sem sækja vinnu í
borginni. Í Alexandrahverfinu býr rúmlega hálf milljón manna í
tuttugu húsaröðum og a.m.k. þrefaldur sá fjöldi býr í Soweto
(South-West Townships) u.þ.b. 17 km suðvestan borgarinnar.
Flestir þeldökkir íbúar búa í hverfum vestan borgarinnar en
flestir indverjar búa í Lenasia, sérstöku hverfi Asíumanna frá sjötta
áratugnum fyrir indverja, sem voru fluttir þangað með valdi frá
borgarmiðjunni. Annars staðar
búa hvítir.
Híbýli
manna eru mismunandi að gerð og gæðum.
Soweto er alræmd fyrir endalausar raðir tveggja herbergja íbúða
auk ríkmannlegri bústaða og fátækrabúða, þar sem tugir þúsunda
búa án rennandi vatns, rafmagns eða skolplagna.
Afrískir farandverkamenn, sem voru löngum hryggjarstykkið í
vinnuafli landsins, búa í vinnubúðum, þar sem karlar og konur eru aðskilin.
Í vesturúthverfunum (Brixton, Melville o.fl.) býr hvít miðstétt
í yfirlætislausum, litlum einbýlishúsum eða raðhúsum, sem hýstu
áður hvíta verkamenn. Ástandið
er verra í hverfum eins og Cottesloe, Vrededorp og Booysens, þar sem
flestir hinna hvítu fátæklinga búa.
Betur settir hvítir búa í norðurhverfunum, s.s. Houghton og
Parktown, þar sem námueigendurnir bjuggu fyrrum, eða í einhverjum
hinna nýju hverfa. Heimilin
í norðurhverfunum eru með garði, sundlaugum og háum girðingum.
Fólkið.
Rúmlega 70% íbúanna eru Afríkumenn, 25% hvítir og restin þeldökkir
eða indverjar. Fjöldi
tungumála (10-15) er talaður í borginni.
Flestir hinna hvítu eru af ensku eða afrísku bergi brotnir en
víða býr fólk af öðrum uppruna, s.s. Portúgalar, Grikkir, Ítalar,
Rússar, Pólverjar og Líbanonar.
Afrísku íbúarnir eru frá öllum landshornum. Öll megintrúarbrögð heimsins eiga sína fulltrúa í
borginni en flestir íbúanna, svartir og hvítir, eru kristnir. Gyðingakirkjur eru víða og þær sækja litlir trúarhópar
Afríkumanna, sem blanda saman gyðingatrú og trú forfeðra sinna.
Gyðingaklerkar í skrautlegum klæðum halda útimessur um alla
borg á sunnudögum.
Efnahagurinn.
Jóhannesarborg er miðstöð námuvinnslu, framleiðslu og fjármála.
Öllu námufyrirtækin eiga aðalstöðvar í borginni og þar er
líka Námuráðið, sem hefur yfirumsjón með iðnaðnum.
Margs konar verksmiðjur í borginni og East Rand framleiða allt
frá vefnaðarvöru til sérunnins stáls.
Allstór hópur sérfræðinga sinnir þörfum námuiðnaðarins.
Næstum allir bankar, tryggingarfélög og byggingarfyrirtækja
landsins eiga aðalstöðvar í borginni.
Verðbréfamarkaðurinn, sem var stofnaður 1887 til að afla fjár
fyrir djúpnámuvinnsluna, nær nú yfir mörg hundruð fyrirtæki. Höfuðborg
landsins, Pretoría, er aðeins 65 km norðar en flest ráðuneyti
landsins eru í Jóhannesarborg. Fjöldi
ræðismanna, sem þjóna hagsmunum erlendra fyrirtækja, eru í
borginni.
Samgöngur.
Jóhannesarborg er miðstöð samgangna innanlands og við útlönd.
Járnbrautir og margakreina þjóðvegir liggja um alla borgina
og bera hundruð þúsunda farþega daglega til og frá úthverfum og nærliggjandi
sveitarfélögum. Strætisvagnar
á vegum borgarinnar annast ferðir innan borgar og einkarekin sérleyfisfyrirtæki
annast mannflutninga til og frá Soweto og Alexandra.
Þau hafa ekki staðið sig sem skyldi og þar með skotið stoðum
undir blómlegan rekstur leigubíla.
Alþjóðaflugvöllur borgarinnar er 23 km norðaustan borgarmiðjunnar. Þaðan er flogið til allra helztu borga í suðurhluta álfunnar,
Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Ástralíu og Asíu.
Borgarstjórn.
Samkvæmt stjórnarskránni frá 1994 er Suður-Afríku skipt í
fylki eða ríki, sem fara með stjórn í eigin málum og valdinu er
skipt milli stjórna alríkisins, fylkjanna og sveitarfélaga.
Stjórn Jóhannesarborgar er í höndum borgarráðs, sem fulltrúar
allra sveitarfélaga á svæðinu eiga sæti í.
Þjónustusvið.
Borgin annast mannflutningar með strætisvögnum, sorpeyðslu og
skolplagnir og rekstur slökkviliðs en húsnæðismál eru í höndum
stjórnar Gauteng-fylkis. ESKOM,
sem er ríkisrekið fyrirtæki, annast raforkumál.
Vatnsveita er í höndum Rand vatnsveitunnar.
Borgarlögreglan annast umferðarstjórnun en ríkislögreglan önnur
mál. Ríkisútvarpið
hefur aðalaðsetur í Aukland Park, vestan borgarmiðjunnar.
Heilbrigðismál.
Aðskilnaðarstefnan skildi eftir sig dýpstu sporin í þessum málaflokki.
Í hverfum svartra var og er barnadauði mun hærri en í hvítum
samfélögum og lífslíkur verulega skemmri.
Berklar, sem eru næstum horfnir úr röðum hvítra, eru meðal
erfiðustu heilbrigðisvandamála, sem ríkisstjórnin glímir við í röðum
svartra.
Fjöldi
sjúkrahúsa og heilsugæzlustöðva var reistur á tímum aðskilnaðarstefnunnar
og ætlaður hinum ýmsu þjóðfélagshópum en er nú opinn öllum
samkvæmt lögum. Johannesburg
General sjúkrahúsið er hið bezt búna í borginni með 2000 sjúkrarúmum
og var einungis ætlað hvítum, þegar það var opnað á Parktown
Ridge 1978. Stærsta sjúkrahúsið
í borginni, og reyndar í öllu landinu, er Baragwanath við norðurjaðar
Soweto. Þar er rúmlega
5000 manns þjónað á hverjum degi.
Eftir afnám aðskilnaðarins snéru margir hinna hvítu sér til
dýrra einkastöðva, sem bjóða svipaða þjónustu og nútímasjúkrahús
í BNA.
Menntamál.
Rekstur barna- og gagnfræðaskóla er mjög mismunandi.
Afnám aðskilnaðarins hefur ekki náð fram að ganga í öllum
skólum. Fjöldi æðri skóla
er mikill. Witwatersrand-háskólinn
er aðalháskóli landsins. Hann
var stofnaður árið 1896 sem Námuskóli Suður-Afríku.
Nú eru þar deildir fyrir nám í viðskiptum, listum, vísindum,
byggingarlist, lögum, menntun, lækningum og tannlækningum.
Rand Afrikaans-háskólinn (RAU), afrískur fjölmiðlaháskóli,
opnaði árið 1968. Vista-háskólinn opnaðir deildir í Soweto 1982.
Fimm mismunandi háskólar mennta kennara.
Hver þeirra er tileinkaður ákveðnum tungumálum.
Technikon Witwatersrand-háskólinn býður margs konar tæknimenntun.
Menningarlíf.
Framboð á þessu sviði er sérkennilegt og margflókið.
Listavinir geta hlustað á Synfóníuhljómsveit landsins og
farið á eftir í jassklúbb til að hlusta á flytjendur á heimsvísu,
sem snéru aftur heim eftir afnám aðskilnaðarstefnunnar eftir áralanga
útlegð. Listasafn
borgarinnar, sem var stofnað á fyrstu árum 20. aldarinnar, býður góð
söfn verka evrópskra impressjónista en flest hinna 10-15 einkasafna
borgarinnar leggja áherzlu á innlenda list.
Leikhúslíf blómstrar. Borgarleikhúsið,
sem tekur 1100 manns í sæti, býður evrópskar óperur og bandaríska
söngleiki en mörg minni leikhúsanna hlúa að innlendum listamönnum,
höfundum og leikurum, hvítum og svörtum.
Allir, sem heimsækja borgina ættu að fara í Markaðsleikhúsið,
sem er í rauninni mörg leikhús á gamla markaðstorginu í borginni.
Borgin
státar af mörgum söfnum og bókasöfnum.
Borgarbókasafnið (1889) á útibú víða um land.
Mörg safnanna eru sérhæfð á svið jarðfræði, sögu, hersögu,
fornleifafræði, samgöngum, sögu fjármálastarfsemi, leikbúninga og
sögu réttarfars. Gestir, sem vilja kynna sér gömlu borgina, ættu að líta
við í Gold Reef City, sem er skemmtigarður nokkra kílómetra sunnan
borgarinnar, þar sem áður voru gullnámur.
Afríkusafnið og Bensusan-ljósmyndasafnið við gamla markaðstorgið
sýna allt aðra hlið á gömlu borginni.
Afþreying.
Sólin skin glatt í Jóhannesarborg og íbúar og gestir eyða
talsverðum tíma undir beru lofti. Í norðanverðri borginni eru mörg og stór auð svæði,
þar sem er upplagt að stunda fuglaskoðun og lautarferðir.
Margir bregða sér í hinar hefðbundnu grillveizlur úti í náttúrunni
um helgar á sumrin. Íþróttir
eru stundaðar af miklum áhuga. Eftir
afnám aðskilnaðarins hafa verið haldnar margar alþjóðlegar
keppnir í ruðningsbolta, knattspyrnu, krikket, golfi og tennis í
borginni. |