Suður Afríka efnahagslífið,
Flag of South Africa


SUÐUR-AFRÍKA
 EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Allt frá lokum síðariheimsstyrjaldarinnar hefur grózkan í efnahagslífi Suður-Afríku verið misjöfn, allt að því að vera hin mesta í heimi.  Verg þjóðarframleiðsla er hin mesta í álfunni.  Erlend fjárfesting var mikil en dvínaði á áttunda og níunda áratugnum vegna vaxandi óeirða gegn aðskilnaðarstefnunni.  Efnahagur landsins byggðist löngum á landbúnaði og námuvinnslu, útflutningi verðmætra málma og steina og innflutningi iðnvarnings.  Frá styrjaldarlokum var byggður upp iðnaður, sem nægði þó ekki innanlandsþörfum en útflutningur verðmætra jarðefna gerði og gerir landinu kleift að halda jákvæðum og stöðugum viðskiptajöfnuði.

Efnahagur landsins byggist að mestu á einkaframtaki en ríkið hefur hönd í bagga á ýmsum sviðum.  Iðnvæðingarstofnun ríkisins hefur stjórnað mörgum almennum fyrirtækjum, s.s. Kola-, olíu- og gasfélagi Suður-Afríku, sem framleiðir olíu úr kolum og var síðar einkavætt.  Stjórn ISCOR, aðaljárn- og stálframleiðanda landsins og ESKOM, aðalorkuveitunnar, var líka í höndum ríkisins.  Ríkið á og rekur járnbrautirnar, þjóðarflugfélagið, hafnarmannvirki, eldsneytisleiðslur og fjarskipti.  Ríkið hvetur til iðnvæðingar, tollverndar og sölu- og markaðsvæðingar framleiðslu landsins.  Það rekur einnig staðalskrifstofu.  Þróunabanki Suður-Afríku er hálfríkisrekinn og var stofnaður til að greiða fyrir þróunarverkefnum og Húsnæðisstofnun annast fjármögnun sameiginlegra verkefna ríkisins og einkafyrirtækja við byggingu ódýrs húsnæðis.

Skattheimta ríkissjóðs byggist aðallega á tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja og viriðisaukaskatti.  Héraðsstjórnir byggja afkomu sína aðallega á fjárveitingum frá ríkisstjórninni en sveitarstjórnir fá til sín eignaskatta og skatta af fyrirtækjum.

Stefnan í efnahagsmálum er að viðhalda og auka hagvöxt og gera landið sjálfu sér nægt í iðnaði.  Allt frá upphafi sjöunda áratugarins ólgaði verðbólgan og mikið dró úr erlendri fjárfestingu.  Innflutningsbann margra landa vegna aðskilnaðarstefnunnar jók enn á vandann.  Helztu deilumálin á viðskiptasviðinu varða frjálsa verzlun eða ríkisafskipti, iðnað til útflutnings eða iðnað til að draga úr innflutningi.

Verkalýðshreyfingunni var stjórnað af hvítum verkalýðsfélögum fram yfir 1970 og þau ráðstöfuðu öllum æðstu stöðum til hvítra.  Eftir verkföllin 1973-74 fæddist herská hreyfing svartra verkalýðssinna, sem hélt þeim áfram.  Áhrifamesta verkalýðshreyfingin er COSATU (Congress of South African Trade Unions), sem blönduð og nær til stærstu verkalýðsfélaganna, s.s. námuverkamanna (NUM).  NCTU (National Council of Trade Unions) og FSAL (Federation of South African Labour) eru aðallega skipaðar hvítum félögum.

Auðlindir.  Demantar og tull eru ásamt kolum mikilvægustu auðlindirnar.  Auk þeirra má nefna járngrýti, platínu, magnesíum, króm, kopar, úraníum, silfur, beryllíum og títaníum.  Enn þá hefur ekki fundizt næg olía til nýtingar en nokkuð magn af gasi er í jörðu við suðurströndina.  Olía er framleidd úr kolum í norðanverðu Free State og Mpumalanga Highveld.

Gríðarlegar birgðir af kolum eru á viðráðanlegu dýpi í Mpumalanga og norðanverðu Free State Highveld.  Einnig er mjög mikið ónumið af platínu og krómi í Bushveld, norðan Pretoríu.  Miklar birgðir af járngrýti og magnesíum eru einkum í Norður-Höfðahéraði og mikið finnst af títaníum í sandi á austurströndinni.

Landbúbnaður er mjög mikilvæg atvinnugrein en víðast er vatnsbúskapur lélegur.  Vatn er nægilegt á nokkrum svæðum, s.s. í árdölum Vestur-Höfðahéraðs, á strönd KwaZlulu-Natal,  Highveld í Mpumalanga og Free State, þar sem skilyrði til kornræktar eru góð.  Áveitur gera ræktun víða fýsilega, s.s. í Fiskilækjardal í Austurhéraði.

Lítið er um skógarhögg og reynt er að bæta við hið takmarkaða, upprunalega skóglendi í austur- og suðausturhlutunum.  Möguleikar til raforkuframleiðslu með vatnsafli eru takmarkaðir, þótt ríkið hafi byggt nokkur orkuver.  Lögð er áherzla á innflutning raforku frá orkuverum í Mozambique.

Landbúnaður, skógarhögg og fiskveiðar.  Landbúnaðarafurðir eru lítill hluti vergrar þjóðarframleiðslu en engu að síður drjúgur þáttur í útflutningi.  Þar er einkum um að ræða maís, hveiti, sykurreyr, hirsi, sorghum, jarðhnetur, sítrusávexti, vínber, tóbak, ull og kjöt.  Sauðfé, geitur, nautgripir og svín eru ræktuð til matvælaframleiðslu og annars.  Framleiðsla mjólkurafurða og eggja er líka mikilvæg, einkum umhverfis þéttbýli og borgir.  Mikið er ræktað af blómum í gróðurhúsum til útflutnings með flugi.

Helztu fiskimið landsins eru fyrir vestur- og suðurströndunum.  Á grunnsævi veiðast m.a. síld og masbankari og á djúpsævi m.a. agulhaslúða, kóngafiskur, höfðakolmúli og þorskur. 

Timburvinnslan skilar trjákvoðu, pappír og borðviði, sem nægir innanlandsþörfum vegna þess, hve mikið er byggt úr múrsteinum, steypu og stáli.

Iðnaður.  Þrátt fyrir áratugalanga uppbyggingu, síaukna þörf fyrir vinnuafl og hærra hlutfall vergrar þjóðarframleiðslu, víkur framleiðsluiðnaðurinn enn þá fyrir mikilvægi námuiðnaðarins sem kjarni efnahags landsins.  Gullið er mikilvægasta efni, sem er unnið úr jörð í Suður-Afríku.  Gullvinnslan samsvarar þriðjungi heimsframleiðslunnar og birgðir eru miklar, þótt framleiðslan hafi dregizt saman.  Gullið er rúmlega helmingur útflutnings jarðefna og u.þ.b. fjórðungur framleiðslunnar kemur frá námum, sem voru að mestu uppurnar.  Aðalgullsvæðin voru í kringum Jóhannesarborg en eru nú talsvert fjær til austurs, vesturs (Far West Rand) og suðurs (Norður-Free State) í kringum borgirnar Evander, Carletonville og Welkorn.

Næstmikilvægasta jarðefni landsins eru kol.  Mestur hluti þeirra er seldur til Austur-Asíu og Evrópu en mikið er notað til raforkuframleiðslu innanlands.  Suður-Afríka er mesti framleiðandi platínu og króms í heiminum.  Helztu framleiðslustaðir þessara málma eru í Rustenburg og Steelpoort í norðausturhlutanum.  Demantaframleiðslan fór aðallega fram í kringum Kimberley en nú er hún mun dreifðari.  Landið er meðal helztu demantaframleiðenda heims og fyrirtækið De Beers Consolidated Mines Ltd hefur töglin og hagldirnar.

Mestur hluti raforkunnar er framleiddur með kolum á vegum ESKOM í Mpumalanga Highveld.  Olía, sem er unnin úr kolum mætir hluta orkuþarfar landsmanna en mestur hluti hennar er fluttur inn og hreinsaður við hafnir landsins eða leiddur með pípum til hreinsunarstöðvarinnar við Sasolburg inni í landi.

Helztu framleiðsluvörur landsins eru matvæli, vefnaðarvörur, málmar og efnavörur.  Landbúnaður og fiskveiðar eru undirstöður mikilvægs niðursuðuiðnaðar, sykurframleiðslu o.fl. greina.  Rúmlega helmingur afurðanna er fluttur út.  Víðtækur og flókinn efnaiðnaður, sem hefur þróazt frá upphafi framleiðslu sprengiefna fyrir námuiðnaðinn.  Olíuframleiðsla úr kolum skilar hliðarafurðum, s.s. lífrænum efnum, harpis og efnavöru til iðnaðar.  Málmiðnaðurinn, sem á sínar höfuðstöðvar í Gautenghéraði, fær mestan hluta hráefna frá ISCOR, járn- og stálframleiðanda.  Aðrir birgjar annast líka sölu stál, tæki til þungaiðnaðar og vélakost.  Helztu álver landsins eru í KwaZulu-Natal.  Hráefni til þeirra eru að mestu innflutt.  Helztu framleiðsluvörunar eru farartæki, skip, byggingarvörur, refeindatæki og margt fleira (vopn og aðrar vörur ótengdar hernaði).  Framleiðsluiðnaðurinn hefur byggzt á erlendu fjármagi að verulegu leyti.  Hann jókst hratt á sjöunda áratugnum og fyrri hluta hins næsta en verulega dró úr honum á níunda áratugnum og hann minnkaði jafnvel um stund.  Útflutningur nemur u.þ.b. 25% heildarframleiðslunnar.

Fjármál.   Fjármálakerfi landsins er velþróað.  Seðlabankinn sér um seðlaútgáfu, annast framkvæmd fjármálastefnunnar og viðskipti við útlönd.  Fjöldi bankastofnana er rúmlega 50 og 15 þeirra starfa á sviði viðskipta.  Landsbankinn er mikilvæg ríkisstofnun, sem annast fjármögnun í landbúnaði (fyrrum fengu aðeins hvítir bændur lán).

Eftirlaunasjóðir og rúmlega 90 tryggingarfélög gegna veigamiklu hlutverki í fjármálageiranum.  Mikil fjármálastarfsemi fer fram í kauphöllinni í Jóhannesarborg.

Verzlun og viðskipti.  Suður-Afríka á talsvert undir innflutningi.  Efnahagslífið er því háð verðsveiflum á heimsmarkaði.  Verðmætir málmar hafa verið aðalútflutningsvara landsins og landbúnaðarafurðir hafa líka vegið talsvert þungt.  Útflutningur hergagna, einkum til Mið-Austurlanda, hefur líka talsvert að segja.  Mikilvægustu innflutningsvörurnar eru olía, raftæki, vélbúnaður og samgöngutæki.  Helztu viðskiptalöndin eru BNA, Bretland, Þýzkaland, Ítalía og Japan.  Mörkuðum hefur fjölgað í áranna rás, þannig að Taiwan, nokkur latnesk-amerísk löng. fjöldi Afríkuríkja og nokkur Asíuríki (Singapúr, Malasía og Indland) hafa bætzt í hópinn.

Samgöngur.  Fæstar ár landsins eru skipgengar en strandsiglingar eru mikilvægar.  Vega- og jórnbrautakerfi landsins eru stór og standa undir mestum hluta flutninga.

Járnbrautakerfið er að langmestu leyti í höndum ríkisins og þjónar öllum stærstu borgum, flestum hinum smærri og fjölda staða í dreifbýlinu.  Sporvíddin er 1,067 m síðan á áttunda áratugi 19. aldar til að draga úr kostnaði við lagninguna í fjalllendi.  Rúmlega 75% kerfisins (23 þúsund km) eru rafvædd og ríflega 80% flutninga fer fram með rafmagnslestum.  Rúmlega fjórðungur flutninganna eru kol, önnur jarðefni þriðjungur og landbúnaðarafurðið áttungur.  Dregið hefur úr fjölda farþegar á lengri leiðum en æ fleiri nýta sér lestarnar innan þéttbýlissvæða.  Bláu lúxuslestarnar sinna leiðunum milli Pretoríu, Jóhannesarborgar og Höfðaborgar og nokkrar eimlestir eru notaðar til að laða að ferðamenn.

Vegakerfið er u.þ.b. 200 þúsund km langt.  Í dreifbýlinu er mikið um malarvegi og helztu samgönguæðar eru margakreina vegir með bundnu slitlagi (u.þ.b. 60 þúsund km).  Hraðbrautin milli Durban og Jóhannesarborgar er fjögurra akreina í hvora átt.  Ríkið stendur undir kostnaði við byggingu flestra vega en undanfarin ár hafa einkafyrirtæki tekið að sér byggingu og rekstur vega á lengri leiðum og þar er innheimtur vegtollur.

Ríkisflugfélagið „South African Airways” annast frakt- og farþegaflutninga innanlands.  Fjöldi einkaflugfélaga keppir við það.  Flogið er áætlunarflug milli helztu borga landsins og erlend flugvélög tengja landið við nágrannalöndin og hinar heimsálfurnar.  Alþjóðaflugvöllurinn við Jóhannesarborg er aðalmiðstöð millilandaflugsins og flugvellirnir við Durban og Höfðaborg eru aðalmiðstöðvar innanlandsflugsins.

Allar hafnir landsins eru ríkisreknar.  Höfnin í Durban er aðalhöfnin fyrir KwaZulu-Natal, Mpumalanga og Norður-Free State.  Hafnirnar í Port Elizabeth, Höfðaborg og Austur-London annast blandaða skipaumferð og þjóna næsta nágrenni þeirra og fjarlægari stöðum.  Allar þessar hafnir eru notaðar til umskipunar fyrir nágrannalöndin, s.s. Zambíu, Zimbabwe, Kongó (Kinshasa) og Mabuto (Mozambique).  Nýjar hafnir hafa risið við Richardsflóa á norðurströnd KwaZulu-Natal og góð, náttúruleg höfn við Saldanhaflóa norðan Höfðaborgar fyrir útfluting kola og járngrýtis.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM