Aðskilnaðarstefnan Suður Afríka,
Flag of South Africa


AÐSKILNAÐARSTEFNAN
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Aðskilnaðarstefnan (Apartheid) stuðlaði að aðskilnaði kynþátta í Suður-Afríku.  Þetta orð er úr afrikaans og þýðir aðskilnaður og var notað um stefnu hvítu minnihlutastjórnarinnar í landinu í málefnum þeldökkra íbúa landsins.  Í nóvember 1993 náðist samkomulag um að segja skilið við þessa stefnu og fyrstu almennu kosningarnar með þátttöku allra litarhátta urðu að veruleika árið eftir.

Þjóðarflokkurinn (NP) barðist fyrir aðskilnaði hvítra og þeldökkra fyrir kosningarnar 1948 og eftir sigur flokksins var aðskilnaðurinn lögleiddur allt til 1990.  Þessi vinnubrögð Þjóðarflokksins voru gagnrýnd á alþjóðavettvangi og mörg lönd beittu Suður-Afríku viðskiptaþvingunum.  Þrátt fyrir afnám laga um aðskilnað, viðgengst enn þá efnahagsleg- og stjórnmálaleg mismunun milli svartra og hvítra og vart er að búast við snöggum umskiptum.

Aðskilnaðarlögin drógu fólk í þrjá aðaldilka:  Hvíta, bantú (svarta) og þeldökka (blandað).  Síðar bættust fólk af asískum uppruna við sem fjórði flokkurinn.  Þessi lög kváðu á um búsetu hvers flokks fyrir sig og menntunarskilyrði.  Þau bönnuðu líka félagslega blöndun þessara hópa og komu í veg fyrir aðgang svartra og þeldökkra að stöðum í stjórn landsins.  Þau höfðu gífurlega víðtæk áhrif á líf hinna undirokuðu og splundruðu stundum fjölskyldum vegna sérstakra ákvæða um vega- og leyfisbréf.  Sem dæmi má nefna, að eiginmenn gátu ekki heimsótt eiginkonur, sem unnu á svæðum hvítra, ef þeir höfðu ekki atvinnuleyfi þar.  Fólkið, sem mótmælti aðskilnaðinum opinberlega, var álitið kommúnistar og stjórn landsins kom á ströngum öryggisreglum, sem gerði landið að lögregluríki.

Landið á langa sögu aðskilnaðar og yfirráða hvítra áður en lögin tóku gildi.  Árið 1910 var seta á þingi takmörkuð við hvíta og eftir 1913 var svörtum úthlutað 13% af heildarflatarmáli landsins til búsetu.  Margir mótmæltu þessum takmörkunum.  Árið 1912 var Afríska þjóðarráðið (ANC) stofnað til að berjast gegn þessari stefnu stjórnarinnar.  Á sjötta áratugnum lýsti ANC því yfir, að Suður-Afríka væri eign allra íbúa landsins, svartra og hvítra, og vann að afnámi aðskilnaðarstefnunnar.  Eftir fjölda uppreisna og óeirða, sem leiddu til fjöldamorðanna í Sharpeville í marz 1960, bannaði stjórnin alla stjórnmálaflokka, þ.m.t. ANC

Á árabilinu 1960-75 reyndi stjórnin að stuðla að mismunandi þróunarferli fyrir svarta og hvíta.  Komið var á fót heimalöndum (Bantustan) fyrir svarta, sem urðu sjálfstæðar smáeiningar.  Hvítu íbúarnir komust þannig yfir 80% alls landsins.  Ólga og ofbeldi óx, verkföll og verkbönn urðu daglegt brauð og mótmælaaðgerðum andstæðinga aðskilnaðarstefnunnar fjölgaði stöðugt.  Fall nýlendustjórnanna í Mozambique, Zimbabwe og Angóla neyddu stjórn Suður-Afríku til að slaka svolítið á taumunum.

Allt frá miðjum áttunda áratugnum fram á hinn níunda stuðlaði ríkisstjórnin að ýmsum umbótum og leyfðu m.a. stofnun verkalýðsfélaga svartra og takmarkaða stjórnarandstöðu.  Stjórnarskráin, sem var samþykkt 1984, gerði ráð fyrir setu fulltrúa fólks af asískum uppruna og þeldökkra á þingi en svartir, 75% þjóðarinnar, voru enn þá útilokaðir.  Þessi niðurstaða leiddi til uppreisna í borgum landsins og þrýstingur erlendra ríkja óx.  Ríkisstjórn landsins lét smám saman undan og árið 1990 lýsti nýkjörinn forseti landsins, F. W. de Klerk yfir afnámi aðskilnaðarstefnunnar og leysti foringja ANC, Nelson Mandela úr haldi.  Hann varð síðan fyrsti blakki forseti landsins eftir forsetakosningarnar árið 1994 og stýrði samsteypustjórn með Þjóðarflokknum.

Í maí 1996 var samþykkt ný stjórnarskrá í anda lýðræðis og vestræns skilnings á kynþáttamálum.  Mandela var hælt á hvert reipi fyrir þennan árangur eftir tveggja ára undirbúning.  Það var mikill sigur fyrir hann að rúmlega tveir þriðjungar þingmanna samþykktu stjórnarskrána aðeins tólf klukkustundum áður en fresturinn til þess rann út 8. maí.  Þjóðarflokkurinn með de Klerk í fararbroddi dró sig út úr samsteypustjórninni daginn eftir vegna mikilla fyrirvara um stjórnarskrána.

Fjöldamorðin í Sharpeville.  Sharpeville er borg í Transvaal.  Þar hóf lögreglan skothríð á hóp mótmælenda 21. marz 1960, drap 69 manns, þ.á.m. konur og börn og særði a.m.k. 180 manns.  Hinn 30. marz lýsti stjórn landsins yfir neyðarástandi og fangelsaði u.þ.b. 11.700 manns.  ANC og PAC voru bönnuð  og neydd til að fela starfsemi sína eða fara í útlegð.  Í kjölfarið sögðu bæði samtökin skilið við þá stefnu sína að mótmæla friðsamlega og snéru sér í auknum mæli að vopnuðum átökum.  Aðgerðir stjórnar Suður-Afríku ollu gífurlegri öldu mótmæla á alþjóðavettvangi og fordæmingu Sameinuðu þjóðanna.  Fjöldamorðin mörkuðu þáttaskil í sögu landsins eftir síðari heimsstyrjöldina.  Það einangraðist æ meir næstu þrjá áratugina vegna viðskiptabanns og annarra aðgerða erlendra ríkja og alþjóðasamtaka.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM