Í
grófum dráttum má lýsa landslagi Nígeríu þannig, að
hásléttur og hæðir skipti norður- og suðursléttum landsins í
tvennt. Sokotoslétturnar eru í norðvesturhorninu en
Bornoslétturnar í norðausturhorninu umhverfis Chadvatnið og
næsta nágrenni þess. Undir lægðinni, sem stöðuvatnið
er í, eru ung og laus setlög, líkt og undir strandhéruðunum
með óshólmum Nígerfljóts og vesturhluta Sokotosvæðisins
lengst í norðvestri. Sléttur með ávölum öldum, sem
verða vatnssósa á regntímanum, eru á þessum svæðum
Einkennandi fyrir landslag þessara sléttna eru aðrar hærra
yfir sjó, skornar breiðum og grunnum dölum, þaktar fjölda
hæða eða stökum fjöllum. Þar er
berggrunnurinn kristallaður eða sandsteinn umhverfis árnar.
Jos-sléttan rís í landinu miðju. Hún er að hluta þakin hrauni og
útbrunnum eldfjöllum og rís hæst í Sherehæð (1781m). Önnur,
veðruð svæði eins og Udi-Hsukka-jaðarinn rísa bratt í allt að 300 m
yfir slétturnar. Mesta fjalllendið er meðfram
suðausturlandamærunum að Kamerún, þar sem hæsti tindur landsins,
Dimlang, rís í 2042 m.
Helztu vatnasvið
landsins eru Níger-Benue-lægðin, Chadvatnslægðin og Gíniuflóalægðin.
Nígerfljótið, sem landið er nefnt eftir, og Benue, stærsta þveráin, eru
mestu vatnsföll landsins. Fjöldi fossa og flúða er í Nígerfljótinu en
Benue er skipgeng alla leið nema á þurrkatímanum. Árnar, sem renna frá
svæðinu norðan Niger- og Benue-fljótanna, eru m.a. Sokoto, Kaduna,
Gongola og árnar, sem renna til Chadvatns. Stuttar ár renna um
strandsvæðin til sjávar í Gíneuflóa. Nýting árdalanna hefur leitt til
myndunar margra og stórra uppistöðulóna, þ.m.t. Kainji-vatn í
Nígerfljóti og Bakolori í Rimaánni.
Óshólmar Nígarfljótsins eru mjög víðáttumikið láglendi, sem vatn
fljótsins rennur um til Gíneuflóa. Bugðulöguð stöðuvötn, árbugður og
áberandi varnargarðar einkenna landslagið á þessu svæði. Stór
ferskvatnsfen taka við af ísöltum fenjum með fenjatrjám næst sjó.
Regntíminn er almennt styttri eftir því, sem norðar dregur. Í
suðurhlutanum rignir frá marz til nóvember en nyrzt í landinu frá miðjum
maí til sept. Í ágúst verður skammvinnt hlé á úrkomunni í suðurhlutanum.Úrkoman er mun meiri í suðurhlutanum, einkum suðaustanlands, þar sem hún
nær allt að 3000 mm á ári. Suðvestanlands er hún aðeins 1800 mm. Hún
fer minnkandi eftir því, sem fjær dregur ströndinni og allranyrzt í
landinu er hún aðeins 500 mm á ári.
Hiti og rakastig
haldast tiltölulega stöðug allt árið í suðurhlutanum en árstíðirnar eru
fjölbreyttari í norðurhlutanum. Þegar þurrkar ríkja þar verður
dægurmunur hitans verulegur. Í strandhéruðunum er mánaðalegur meðalhiti
stöðugur allt árið, í kringum 32°C í Lagos og 33°C í Port Harcourt.
Mánaðalegur lágmarkshiti á í sömu borgum er 22°C og 20°C. Í heildina
tekið er hámarkshitinn hærri í norðurhlutanum og lágmarkshitinn lægri.
Í borginni Maiduguri er meðalhiti mánaðarins 38°C, þegar heitast er (apríl
og maí) en samtímis má einnig búast við frosti á nóttunni. Rakastigið
er almennt hátt í norðurhlutanum en það lækkar þegar heitir og þurrir
norðaustanstaðvindarnir (harmattan) blása rúmlega þrjá mánuði en aðeins
í rúmlega tvær vikur í strandhéruðunum. |