Suðurhluti Níger er
hluti af risastóru landsvæði, sem bar nafnið Súdan, þegar álfan skiptist
í fjölda konungsríkja (Ghana, Mali, Songhai, Hausaríkið, Sokoto, Bornu
o.fl.).
Norðurhlutinn er svæði tuaregmanna og hinir hlutarnir eru hefðbundin
svæði, sem bera enn þá gömlu nöfnin, þótt stjórnskipulag sé allt annað
nú. Stjórnmálalegt, efnahagslegt og landfræðilegt mikilvægi
þessara héraða er mjög mismunandi og sveiflukennt. Héruðum
hausafólksins var skipt milli Níger og Nígeríu. Víðast um landið
hafa hinir mismunandi þjóðflokkar (hausa, tuareg, kanuri, zerma o.fl.)
blandast á ýmsa vegu.
Þéttbýlingar eru í kringum fimmtungur þjóðarinnar. Í dreifbýlinu búa og
ferðast hirðingjar og búsetubændur. Fjöldi þorpa er u.þ.b. 10.000.
Helmingur þeirra er smár í sniðum með nokkur hundruð íbúa hvert. Ekkert
þessara þorpa er á eyðimerkursvæðunum. Fulanihirðingjar, sem rækta
hyrnda nautgripi og uxa og tuareghirðingjar, sem rækta geitur, sauðfé og
drómedara, ferðast um norðurhlutann á veturna. Þeir hittast á Gall-svæðinu
í ágúst og sept., þar sem gripir þeirra komast í salt á þurrkatímanum.
Báðir þessir hirðingjahópar skiptast í ættkvíslir, sem búa og ferðast
saman og lifa af búsmala sínum. Aðalfæða fulanimanna er mjólk, sem er
matreidd á marga vegu, en tuaregmenn lifa aðallega á kjöti og döðlum.
Fólkið, sem hefur fasta búsetu (hausa, songhai-zerma og kanuri) og býr
aðallega í Nígerdalnum og Chadlægðinni, lifir af landbúnaði. Það ræktar
hirsi, hrísgrjón, maís, jarðhnetur og baðmull. Meðal þess eru einnig
iðnaðarmenn (járnsmiðir, skósmiðir o.fl.). Handan Chadvatns og
Nígerfljóts búa buduma- og sorkomenn, sem lifa af fiskveiðum. Húsnæði
þessara fastbýlinga er leir- og strákofar og tjöld (wogo).
Hirðingjar sýna áhuga á fastri búsetu og bændur færa stöðugt út kvíarnar
með ræktun lengra til norðurs. Lífið í borgum og bæjum landsins hægir
verulega á sér á þurrkatímanum en samtímis ber mest á flóttanum úr
sveitunum til þéttbýlisins.
Þéttbýlismyndunar fór fyrst að gæta á 15. öld (Agadez, Zinder o.fl.),
þegar áningar- og birgðastaðir á leið úlfaldalestanna yfir Sahara fóru
að vaxa. Þegar verzlunarleiðir opnuðust meðfram ströndum Afríku,
glötuðu þessar borgir langt inni í landi mikilvægi sínu. Þá risu aðrar
miðstöðvar verzlunar og samgangna. Bæir eins og Birni Nkonni og
Tessaoua hættu að vera mikilvægar miðstöðvar á nýlendutímanum.
Níger státar af fjórum aðalborgum. Niamey, höfuðborgin, hefur vaxið
hratt. Hún hefur alþjóðlegt yfirbragð og óstöðugan íbúafjölda.
Lífsmunstur íbúanna er mismunandi eftir uppruna (Evrópumenn, innfæddir)
og menntun innfæddra (Zinder). Hið afríska nafn Zinder er Damagaram og
hún er eldri borg en Niamey. Hún óx sem borg hausafólksins og var
höfuðborg Níger til 1926. Þar búa margir góðir iðnaðarmenn, sem starfa
m.a. við leðurgerð, sútun og litun. Iðnaður hefur farið vaxandi í
borginni og hún er í nánu sambandi við Nígeríu. Maradi hefur einnig
þróazt hratt. Borgin er í miðju jarðhnetuhéraði í grennd við landamærin
að Nígeríu. Mörg evrópsk fyrirtæki hafa komið upp útibúum þar. Borgin
er einna bezt þekkt fyrir geitur, en skinn þeirra eru flutt til Evrópu
og Rómönsku-Ameríku. Tahoua hefur vaxið við jaðar eyðimerkurinnar. Þar
er stór kvikfjármarkaður og mótstaður hirðingja og bænda. Alltar
borgirnar eru að einhverju leyti stjórnsýslumiðstöðvar. Ör vöxtur hljóp
í Agadez í kringum aldamótin 2003, þegar úran fannst í nágrenninu.
Hausafólkið er stærsti tungumálahópurinn. Tunga þess er einnig töluð í
Nígeríu og víðar í Vestur-Afríku. Stór hluti Nígermanna skilur og talar
hausamál, enda er búið að gefa út mikið efni með latnesku letri í
Nígeríu. Songhai er annað mikilvægasta tungumálið. Það er einnig talað
í Mali, Norður-Burkina-Faso og Norður-Benin. Í Níger deilist það í
ýmsar mállýzkur, songhai, zerma, dendi o.fl. Fulfulde er tunga
fulanimanna. Hún skiptist í austur- og vesturmállýzkur í Níger og
mörkin milli þeirra liggja um Boboye-hérað. Tamashek er tunga
tuaregmanna, sem segjast oft vera kel tamagheg- eða tamashekmælandi.
Tungan er einnig töluð í Alsír og Mali og hefur eigið ritmál, tifinagh,
sem er allútbreitt. Kanuritungan er töluð í Níger, Kamerún og Nígeríu.
Hausamenn kalla hana beriberi. Þessi fimm tungumál eru höfuðtungur
Níger en fleiri eru töluð í landinu (teda í Tibestihéraði). Margir tala
einnig arabísku og enn fleiri lesa og skrifa málið. Einhver elzti
arabíski skóli Afríku er í Agadez. Notkun arabíska stafrófsins olli því,
að hausamál og fulfulde urðu einnig ritmál, sem er kallað ajami.
Talsverð áherzla hefur verið lögð á að finna gömul handrit á þessari
tungu.
Hausa- og songhaimælandi fólk getur gert sig skiljanlegt um allt land.
Franska er engu að síður opinbert tungumál landsins. Hún er notuð við
kennslu í skólum, þótt lítill minnihluti skilji hana. Enska er kennd
sem fyrsta erlent tungumál í framhaldsskólum.
Þjóðflokkaskiptingin
er í samræmi við framangreinda tungumálaskiptingu. Hausafólkið er
fjölmennasti þjóðfélagshópurinn, rúmlega helmingur núverandi íbúafjölda,
þótt það búi flest í Nígeríu. Hausafólkið í Níger býr flest í
miðsuðurhlutanum, alla leið til Dogondoutchi. Songhai-zermafólkið er
aðallega í suðvesturhlutanum. Songhaifólkið býr við Nígerfljótið, þar
sem það blandast kurtey- og wogofólkinu. Langflest songhaifólkið býr
samt í Mali. Zerma (djerma)-fólkið býr á suðurbakka Nígerfljóts í nánu
sambandi við mauri- og arewafólkið. Fulanifólkið býr dreift um allt
land og er að mestu hirðingjar. Það býr einnig dreift um alla
Vestur-Afríku. Tuaregfólkið, sem er líka hirðingjar, skiptist í þrjá
undirhópa, Iullemmiden á Azaouak-svæðinu í vestri, asben (Kel Aïr) á
Aïr-svæðinu og itesen (Kel Geres) sunnan og austan Aïr-fjalla.
Tuaregfólið býr einnig í Alsír og Mali. Kanurifólkið, sem býr austan
Zinder, skiptist í fjölda undirhópa, manga, dogara, mober, buduma og
teda í Tibesti-héraði, sem er áhrifamikill minnihlutahópur. Aðrir
þjóðfélagshópar eru arabar, negrar frá öðrum löndum Afríku og Evrópumenn,
sem eru flestir franskir.
Rúmlega 95% íbúa
Níger eru sunnítar (islam). Hópar hausa- og fulanimanna hafa ævinlega
hafnað islam. Kristið fólk (katólskir og mótmælendur) býr aðallega í
borgunum, einkum Niamey. Nokkrar trúboðsstöðvar eru á Songhai- og
Arewa-svæðunum. Kristni er aðallega evrópsk trúarbrögð, þótt nokkrir
aðfluttir negrar aðhyllist hana. Trúarbrögð forfeðranna eiga sér
vaxandi hóp fylgjenda. |