Sambesifljótið rennur um suðurhluta Afríku. Það er fjórða lengsta fljót
álfunnar, u.þ.b. 3540 km langt og vatnasvið þess nær yfir u.þ.b. 1,3
miljónir ferkílómetra. Upptök þess eru í Norðvestur-Sambíu. Það rennur
í tvölfaldri S-beygju til suðausturs út í Indlandshaf. Frá upptökum í
1524 m hæð yfir sjó rennur það um Austur-Angóla og Vestur Sambíu og
myndar landamærin að Norðaustur-BBotswana. Það myndar einnig landamærin
milli Sambíu og Simbabve og rennur um Karibavatn, sem myndaðist eftir að
Karibastíflan var byggð. Svo heldur það áfram um Mið-Mósambík um
stöðuvatn handan Cahora Bassa-stíflunnar, um Mósambíkskurðinn þar til
það greinist í fjölda kvísla í ósunum.
Á efsta
svæði fljótsins, á 800 km kafla, er fallhæðin aðeins 180 m og u.þ.b. 100
km neðan ármóta þess og Cuando (Kwando)-árinnar myndast Viktoríufossar (Mosi-Oa-Tunya).
Næstu 72 km rennur það hvítfyssandi um 122 m djúpt gljúfur. Um miðbikið
rennur það 1300 km leið um hæðótt landslag að Quebrabasa-flúðunum, sem
eru síðasta hindrun skipaferða í Mósambík. Neðri hluti fljótsins rennur
um víðan dal til sjávar. Auk Cuando-árinnar renna margar þverár til
fljótsins um miðbikið og Shire-áin er aðalþveráin, sem fellur í neðri
hluta fljótsins. Meðalrennslið í árósunum er 7000 m³/sek. Þrátt fyrir
fossa, flúðir og sandeyrar, er fljótið skipgengt langar leiðir.
Skipgengar leiðir eru alls 645 km Langar. Skozki trúboðinn David
Livingstone var fyrsti Evrópumaðurinn til að kanna Sambesifljótið. |