Áætlað er, að innan
við 1% landsins sé ræktanlegt, þótt tveir þriðjungar henti til
kvikfjárræktar. Aðrir landshlutar eru firnindi, fjöll og eyðimerkur, og
runnalendi eða stepper með strjálum trjágróðri og lítið skógabelti.
Næstum helmingur
þjóðarinnar býr allranyrzt í landinu, u.þ.b. 15% á kvikfjárræktarsvæðum
norðan og sunnan Windhoek, 10% í mið- og suður fyrrum heimalanda svartra,
rúmlega 10% á Stór-Windhoeksvæðínu og hinir í borgum og byggðum á
ströndinni og námubæjum inni í landi. Rúmlega fjórðungur þjóðarinnar
býr í þéttbýli. Helmingur hennar er yngri en 16 ára og fólksfjölgun er
tiltölulega hæg miðað við önnur Afríkulönd.
Í
kringum 85% landsmanna eru svertingjar, 5% af evrópskum uppruna og 10%
þeldökkir. Tveir þriðjungar hinna svörtu eru af ovambokyni
(kavango, herero, damara og caprivi). Aðrir kynþættir eru mun
fámennari. Afrikanar (búar) og Þjóðverjar eru tveir þriðjungar
og fimmtungur aðrir Evrópumenn. Flestir afkomendur Evrópumanna
eru ríkisborgarar Namibíu en sumir hafa haldið suðurafrískum
borgararéttindum.
Enska er opinber tunga, þótt hún sé ekki aðaltungumál nema 3%
þjóðarinnar. Rúmlega 80% tala ovambotungur, 6% tala nama-damara.
Kavango-, caprivi- og hererotungur auk afrikaans eru 4%
heimatungnanna. Margir Namibíumenn tala tvö eða fleiri tungur
innfæddra og a.m.k. tvö hinna þriggja evrópsku tungumála (ensku,
afrikaans og þýzku).
Kristnin nær til 80-90% landsmanna. Mest fer fyrir lútersku
kirkjunni, sem nær til helmings þjóðarinnar. Rómversk-katólskir
eru fimmtungur en hollenzka siðbótarkirkjan og enska kirkjan ná til 5%
hvor. Þarna eru einnig smærri sérsöfnuðir (meþódistar,
öldungakirkjan o.fl.).
Fólksfjölgunin nemur að meðaltali 3%. Meðallífslíkur eru u.þ.b.
55 ár. Barnadauði er alvarlegt vandamál en er svipaður og í
öðrum löndum í suðurhluta Afríku og minni en í flestum löndum á
beltinu sunnan Sahara. |