Miðafríkulýðveldið sagan,


MIÐAFRÍKULÝÐVELDIÐ
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Demantaleitarmenn hafa fundið slípuð verkfæri úr tinnu og kvartsi, sem eru a.m.k. 8000 ára.  Fyrir u.þ.b. 2500 árum reistu íbúar þessa hluta álfunnar nokkurra tonna einsteinunga í grennd við Bouar.  Slíkt átak hefur krafizt mikils skipulags og stórra samfélaga.  Á 15. öld e.Kr. bjuggu ólíkir þjóðflokkar, sem töluðu svipuð tungumál núverandi tungum, í landinu.  Þetta fólk bjó í litlum og tiltölulega einangruðum byggðum, þar sem það stundaði veiðar og brenndi land til ræktunar.

Allt fram á 17. öld voru landsmenn ekki beintengdir aðalverzlunarleiðum.  Um þær mundir fóru arabískir þrælakaupmenn að láta til sín taka á svæðinu og tengdu það úlfaldaleiðunum yfir Sahara og meðfram Níl.  Fyrir miðja 19. öld hnepptu þessir þrælasalar fjölda fólks í ánauð og sendu það til Norður-Afríku eða niður Ubangi- og Kongófljótin til Atlantshafsstrandarinnar.  Þaðan sigldu þrælaskipin til Ameríku.

Um miðja 19. öldina var bobangi-fólkið sjálft frá svæðinu við Ubangi-fljótið orðið að þrælasölum og fór í reglulegar herferðir til að hneppa baya- og mandjia-menn í ánauð fram undir aldamótin 1900.  Fjöldi þjóðflokka í Mið-Afríku elur enn þá á hatri gegn ráðandi ættbálkum, sem eru aðallega frá fljótasvæðunum, þ.á.m. bobangi-menn.  Röskunin, sem þrælaverzlunin olli, dró mjög úr þróun samfélaga í landinu.


Nýlendutíminn Í lok 19. aldar gerðu hraðskreiðari skip, öflugri vopn og kínín gegn malaríu Evrópumönnum kleift að ná yfirráðum yfir stórum svæðum í Afríku.  Iðnbyltingin í Evrópu skapaði þörf fyrir fleiri markaði og nýjar uppsprettur hráefna.  Síðustu tvo áratugi 19. aldar kepptu Belgar, Bretar, Þjóðverjar og Frakkar um yfirráðin á svæðinu, sem síðar varð Miðafríkulýðveldið.

Franska stjórnin leigði evrópskum einkafyrirtækjum stór svæði til að þurfa ekki að kosta neinu til þróunar þeirra og lét athafnir fyrirtækjanna að mestu afskiptalausar.  Þau greiddu leigu af landinu og ráðskuðust með íbúanna að vild.  Ráðsmenn þeirra neyddu íbúana til að safna gúmmíkvoðu, fílatönnum og dýraskinnum og til að vinna á plantekrunum.  Miðafríkumenn höfðu engan tíma til að sinna eigin ræktun vegna þessarar nauðungarvinnu og afleiðingin var fæðuskortur og hungursneyð.  Þeir voru neyddir til að vinna í nýju umhverfi, þar sem þeir voru óvarðir gegn svefnsýki, nýjum afbrigðum af malaríu og öðrum sjúkdómum, þannig að dánartíðni jókst verulega.

Í upphafi 20. aldar höfðu Evrópuríkin ákveðið landamæri Ubangi-Shari-nýlendunnar.  Margir Afríkumenn börðust gegn frönskum yfirráðum og fjöldi herleiðangra var gerður þeim til höfuðs á fyrsta áratugi aldarinnar.  Kongó-Wara-uppreisnin (1928-31) bar ekki árangur, þótt hún væri víðtæk í vestur- og suðvesturhlutum nýlendunnar.  Eftir að hún var bæld niður voru foringjar hennar fangaðir og teknir af lífi og stórir hópar fólks voru hraktir brott af heimalöndum sínum til svæða, þar sem auðveldara var að hafa auga með þeim.

Franska nýlendustjórnin lét byggja vegakerfi og kom upp farandheilsugæzlu í Ubangi-Shari til að berjast gegn sjúkdómum.  Katólska kirkjan kom upp skólum og sjúkrastöðvum.  Frakkar héldu Miðafríkumönnum að nauðungarvinnu á plantekrunum, þar sem þeir ræktuðu kaffi, baðmull og korn til að fæða franskar hersveitir og verkamenn.  Frakkar sendu miðafríska verkamenn til Suður-Kongó til að leggja járnbraut til sjávar (Kongó til Pointe-Noire).

Í síðari heimsstyrjöldinni hvatti Charles de Gaulle, hershöfðingi, nýlendubúa til að berjast gegn Þjóðverjum og 3000 hermenn komu frá Mið-Afríku.  Eftir stríðið snéru þeir, sem lifðu það af, aftur heim fullir stolts og betur meðvitaðir um uppruna sinn.  Þá stofnaði de Gaulle Franska sambandið og kom á fót héraðsþingum franskra landnema og nokkurra Afríkumanna.  Barhélemy Boganda varð fyrsti þingmaður Miðafríkumanna í franska þjóðþinginu árið 1946.

Sjálfstæði og leiðtogaslagur.  Boganda var rómversk-katólskur prestur.  Hann hætti því starfi og stofnaði Þróunarhreyfingu svartra Afríkumanna (MESAN).  Árið 1957 náði hann meirihluta í þinginu og Boganda varð forseti stórþings Frönsku Mið-Afríku.  Hann bar þá von í brjósi, að fyrrum franskar nýlendur, Chad, Gabon, Kongó og Ubangi-Shari yrðu að einni þjóð.  Þegar þessi von brást, samþykkti hann með tregðu að lögleiða stjórnarskrá fyrir Ubangi-Shari, sem Frakkar höfðu undirbúið.

Að Boganda látnum, í mar z 1959, varð David Dacko, fyrrum kennari, forseti.  Miðafríkulýðveldið fékk sjálfstæði 13. ágúst 1960.  Dacko leyfði Frökkum að hafa nokkra umsjón með viðskiptum, vörnum og utanríkismálum.  Hann fjölgaði líka opinberum embættum til að umbuna stuðningsmönnum sínum og jók útgjöld ríkisins umfram greiðslugetu þess.

Árið 1962 gerði Dacko MESAN að eina löglega stjórnmálaflokki landsins.  Snemma árs 1964 var hann því sjálfkjörinn forseti.  Efnahag landsins hrakaði hratt og erlendar skuldir hlóðust upp.  Í desember 1965, þegar landið stóð á barmi gjaldþrots og allsherjarverfall var yfirvofandi, vék Jean-Bédel Bokassa, hershöfðingi, Dacko frá völdum.

Bokassa afnam stjórnarskrána, leysti upp þingið og fól eigin þingi framkvæmdavaldið.  Hann bannaði alla stjórnarandstöðu.  Frakkar héldu áfram stuðingi við hann og efnahagslífið vegna hagsmuna sinna í demantanámunum og væntanlegum úraníumbirgðum landsins.  Árið 1972 lýsti Bokassa sig forseta landsins til æviloka.  Í desember 1976 lýsti hann sig keisara og krýndi sig sjálfur næsta ár sem Bokassa I.  Hann tók stjórn demantannámanna í sinar hendur og hirti mestan hluta ágóða þeirra.  Árið 1979 gripu Frakkar í taumana og komu Dacko aftur til valda.

Einræði Kolingba.  Endurkomu Dacko var ekki vel tekið.  Hann varð að treysta á stuðning franskra fallhlífahermanna og embættismanna Bokassa til að halda völdum.  Andstöðunni gegn honum óx fiskur um hrygg, verkföll voru tíð og sprengjutilræðum fjölgaði og Dacko beitti síauknu hervaldi.  Í sept. 1981 vék André Kolingba, hershöfðingi, honum frá völdum án blóðsúthellinga og myndaði herstjórn.

Stjórn landsins var að mestu í höndum hersins til 1985, þegar Kolingba leysti upp herráðið, sem hafði stjórnað landinu eftir byltinguna, og skipaði 25 manna þing með nokkrum borgurum.  Snemma árs 1986 beittu Alþjóðabankinn og aðrar lánastofnanir þrýstingi til að þingið samþykkti stjórnarskrá, sem var lögleidd eftir þjóðaratkvæðagreiðslu seinna sama ár.  Almennar þingkosningar voru haldnar í júlí 1987 en ríkisstjórnin var áfram handbendi Kolingba, sem hafði alla stjórn á lagasetningu og framkvæmdum í landinu.

Snemma á tíunda áratugnum voru íbúar landsins búnir að fá sig fullsadda af einræði Kolingbas og lífsháttum hans.  Lýðræðisleg félög efldust annars staðar í Afríku og urðu Miðafríkumönnum fyrirmyndir.  Óeirðir brutust út árið 1991 eftir að embættismenn höfðu ekki fengið útborgað í átta mánuði.  Kolingba fékkst ekki til að halda opnar og almennar kosningar fyrr en 1993, þegar hann leyfði stofnun annarra stjórnmálaflokka og framboð þeirra til embættis forseta.  Honum var hafnað í fyrstu lotu kosninganna og hann skildi eftir sig næstum gjaldþrota þjóð og ævareiða embættismenn, sem höfðu ekki enn þá fengið útborgað.  Árið 1993 varð Ange-Félix Patassé, leiðtogi Frelsishreyfingar Miðafríku (MLPC), fyrsti lýðræðilega kjörni forseti landsins eftir að það fékk sjálfstæði.

Patassé og leiðin til lýðræðis.  Valdatíð Patassé var ófriðartími.  Hann tók við næstum gjaldþrota ríkissjóði og þurfti að glíma við stöðugar óeirðir.  Árið 1996 reyndu kauplausir hermenn þrisvar að steypa honum af stóli og rán og morð voru tíð í höfuðborginni Bangui.  Ræningjagengi í héruðum landsins juku enn á óöldina og drógu úr útflutningi landbúnaðarafurða.  Stjórn Patassé og herinn virtu ekki réttindi almennings.  Lögreglan skipulagði sérsveit gegn ræningjagengjunum á árunum 1996-97 og leyfði aftökur meintra glæpamanna daginn eftir að þeir voru handsamaðir.  Sérsveitin pyntaði og líflét 20 grunaða afbrotamenn án dóms og laga.  Ríkisstjórnin lét ekki verða af sveitarstjórnarkosningum síðla árs 1990 vegna fjárskorts.

Í janúar 1997 komst ríkisstjórnin að samkomulagi við stjórnarandstöðuna og trúfélög um aðgerðir til að sætta andstæðar fylkingar, eflingar efnahagsins og endurskipulagningar hersins.  Þetta samkomulag dugði ekki til að koma á friði í landinu og í október 1997 kölluðu Frakkar hersveitir sínar heim frá Bangui og lokuðu herstöðinni í Bouar.  Sameinuðu þjóðirnar sendu sveitir til friðargæzlu í apríl 1998.  Þær áttu að miðla málum milli hinna andstæðu fylkinga í landinu og veita ráðgjöf og stuðning í þingkosningunum 1998.  MPLC náði naumum meirihluta í kosningunum með óvæntum stuðningi eins flokks stjórnarandstæðinga.  Aðrir stjórnarandstæðingar mótmæltu þessum ráðagerðum kröftuglega en MINURCA stuðlaði að friði og reglu til þess að þingið gæti komið saman.  Patassé var endurkjörinn forseti árið 1999 og MINURCA hélt áfram friðargæzlu.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM