Í
flestum miðafrískum fjölskyldum leika konur lykilhlutverkið. Þær annast
söfnun, framleiðslu, varðveizlu, dreifingu og undirbúning matar. Veiðar
eru verksvið karlanna en sums staðar veiða konur fisk á þurrkatímanum.
Karlmenn annast uppskeru afurða, sem eru seldar (kaffi, baðmull og tóbak),
en konur sjá um matargerð fyrir fjölskylduna. Kirkjur eru alls staðar
mikilvægar til trúariðkana og félagslega. Auk messu á sunnudögum recur
kirkjan skóla og margs konar starfsemi fyrir konur, karla, unglinga og
börn. Sóknarbörnin safnast oft saman til að dansa og syngja (ndoye =
gjöf á sangomáli) til heiðurs einhverjum einstaklingi í söfnuðinum. Fólkið færir heiðursgestinum mat, sápu og steinolíu en hann/hún ber fram
kaffi, te og léttar veitingar. Knattspyrna er vinsælasta íþróttin meðal
ungra Miðafríkumanna. Jafnvel í minnstu þorpunum er knattspyrnuvöllur.
Kirkjan og skólar styrkja oft keppnislið drengja og stúlkna. Körfubolti
og ruðningur eru einnig vinsælar íþróttir, einkum í Bangui.
Allt
fram á 19. öld skapaði handverksfólk marga fagra gripi. Þrælaverzlunin
og fyrstu ár nýlendutímans voru hemlar á listsköpun og flestir
listamennirnir hættu henni. Á okkar dögum eru einu merkin um þetta
tímabil ofnar mottur og körfur, einföld verkfæri, útskornir stólar,
sjaldgæf gríma, leirmunir og hljóðfæri (þ.m.t. balafon; líkt xylofón en
gert úr horni, skinni óg viði). Skömmu fyrir aldamótin 2000 hóf
handverksfólk gerð einstæðra verka og mynda úr fiðrildavængjum, sem það
límir á pappír og útskurð fílabeins og harðviðar. Bogandasafnið í
Bangui hýsir margs konar hefðbundin hljóðfæri, stríðsbúnað, veiðiáhöld,
leirmuni, helgimuni og sýnishorn af byggingarlist. Samtímalistamenn
byggja á gömlum hefðum og verklagi við útskurð dýra og fólks og mörg
verka þeirra eru til sölu í stærri borgum og á handverksmarkaðnum í
Bangui.
Miðafríkumenn búa við ríka dans- og söngvahefð. Akafólkið í
suðvesturskógunum hefur náð alþjóðlegri athygli fyrir söng og dans og
margir hópar þeirra hafa komið fram í Frakklandi. Í Bangui og nokkrum
héraðsborgum hafa tónlistarmenn myndað dansflokka (Musiki; Zokela;
Makembe; Cool Stars; Cannon Stars; Super Stars). Þessir tónlistarmenn
leika rafmagnstónlist eins og starfsbræður þeirra í báðum Kongólöndunum
og blanda saman afrískum takti og tungumálum, rúmbu, cha-cha-cha og
merengve. Hljómsveitir Miðafríkumanna hafa þróað eigin útgáfu af
Kongótónlist. Zokela, nefnt eftir hljómsveit á 9. áratugnum, hefur náð
miklum vinsældum í Lobaye-héraði. Í þessari tónlist blandast saman
hefðbundin sveita- og borgarmúsík og margar hljómsveitir í Bangui hafa
orðið fyrir áhrifum af henni.
Fátt eitt af bókmenntaverkum frá Miðafríkulýðveldinu hefur verið gefið
út en safnarar hafa náð saman margs konar þjóðsögum og ævintýrum vítt og
breitt um landið. Þessar sögur hafa lifað meðal fólksins allt frá 19.
öld og eru sögu- og menningarlegur brunnur. Góðir sögumenn ná tökum á
áheyrendum sínum með söngli og rauli inni á milli.
Makombo Bamboté, höfundur skáldsagnanna Mandupa prinsessa (1972) og
Svarta byltinging (1987) er þekktasti rithöfundur þjóðarinnar. Meðal
annarra þekktra rithöfunda eru Étienne Goyémidé, Faustin Lpeko-Entomane,
Cyriaque Yavoucko, Pierre Sammy-Mackfoy og Gabriel Danzi. Þekktasti
kvikmyndaleikstjóri landsins er Joseph Akouissonne (Zo kwe zo, Les dieux
noirs du stade). Listmálarar landsins hafa málað með vatns- og
olíulitum (Jerome Ramedane). Áberandi verkefni þeirra er daglegt líf í
þorpum, veiðiferðir og dýralíf eins og víða má sjá á veggjum
veitingahúsa
Útvarpið er mikilvægasti ljósvakamiðillinn í landinu og ríkið á og
stjórnar helztu útvarps- og sjónvarpsstöðvunum. Ríkisútvarpið sendir út
innlendar, erlendar og svæðisfréttir um allt land en Ríkissjónvarpið nær
aðeins til Bangui og næsta nágrennis. Africa Number One er einkarekin
útvarpsstöð, sem er hluti af franskri fjölmiðlakeðju í Gabon. Hún hefur
rekið stöðina í Bangui síðan 1995 í samstarfi við katólsku kirkjuna.
France Internationale hefur verið rekin síðan 1997 og Radio-MINURCA,
útvarpsstöð friðargæzluliða Sameinuðu þjóðanna, hóf útsendingar 1998.
Fyrsta
dagblað landsins, hið ríkisrekna E Le Songo, hóf útgáfu 1986. Til þess
tíma var öll útgáfustarfsemi á höndum ríkisins. Nokkur einkarekin dag-
og vikublöð eru nú gefin út. Sum þeirra gagnrýna forsetann og
ríkisstjórnina, þegar þeim finnst ástæða til. Meðal helztu blaðanna eru
Le Novateur, Renouveau centrafricaine og Terre africaine. Einkarekið
símafyrirtæki annast nú netþjónustu (þ.m.t. netpóst). Fáir
Miðafríkumenn hafa aðgang að netinu heima fyrir en fjöldi borgarbúa fær
takmarkaðan aðgang að því á netkaffistöðum. |