Rabat
er höfuðborg Marokkó við ósa Bou Regreg-árinnar, beint andspænis
borginni Salé, og ein fjögurra konunglegra borga á Atlantshafsströndinni.
Saga borgainnar er nátengd Salé, þar sem stóð fyrst byggð Rómverja,
Sala. Zenata
Berbar, rétttrúaðir múslimar, stofnuðu Salé á 10. öld til að hýsa
Berghouata berba.
Rabat
var stofnuð á 12. öld.
Þar var að verki ‘Abd al-Mu’min, fyrsti konungur Almohada.
Þar var herstöð (ribat) fyrir hersveitir hans, sem háðu
heilagt stríð (jihad) gegn Spáni. Konungurinn
hætti síðan að berja á Spánverjum til að geta einbeitt sér að
landvinningum í Norður-Afríku.
Abu Yusuf Ya’qub al-Mansur, þriðji soldán Almohada, skírði
staðinn Ribat al-Fath (Sigurkampur).
Hann lét líka reisa mikinn múr umhverfis borgina og innan þessara
múra hefur nútímaborgin þróast.
Hann lét líka reisa Hassan-turninn, sem enn stendur.
Eftir 1609 settist fjöldi andalúsískra mára að í hinum
sameinuðu borgum Rabat og Salé.
Þeir höfðu verið reknir frá spáni og síðar komu Sallee
Corsairs, óttalegustu sjóræningjar í barbaríinu.
Á yfirráðatíma Frakka var Rabat höfuðborg landsins og eftir
að sjálfstæði fékkst var hún sameinuð Salé.
Heildarflatarmál beggja þessara borga er 1275 km².
Gamli
bærinn, nærri ströndinni, er umkringdur borgarmúr.
Innan hans er medina (forn múslimaborg) og Millah (gyðingahverfi).
Norðar, á klettum fyrir ofan Bou Regreg-ána, er 17. aldar
virkið Casbah de Quadia með fögru 12. aldar Almohad-hliði, andalúsískum
garði og aðliggjani madrasah (skóla), sem hýsir nú safn marokkóskrar
listar.
Suðaustan gamla bæjarins er fjöldi sögulegra mannvirkja, s.s.
12. aldar Hassan-turninn, fögur mínaretta og rústir mosku Abu Yusuf
Ya’qub al-Mansur, sem var aldrei fullbyggð.
Suðvestan gamla bæjarins er fornminjasafn og ar-Rouah borgarhlið,
sem er líka frá dögum Almohada.
Nýji borgarhlutinn er að hluta innan borgarmúranna.
Í suðurúthverfi borgarinnar eru m.a. konungshöllin, sem var
byggð á sjötta áratugi 20. aldar, Háskóli Muhammad V (1957), Þjóðarbókhlaðan
og margar stjórnsýslubyggingar.
Hlutverki
Rabat er lokið sem hafnarborg vegna árframburðar.
Borgin er nú miðstöð mikils textíliðnaðar og er kunn fyrir
gólfteppi, teppi og leðurhandverk.
Talsverð ávaxta- og fiskvinnsla er stunduð og framleiðsla múrsteina
og asbests er líka mikilvæg.
Rabat er tengd Casablanca (92 km til suðvesturs) og Tangier (280
km til norðausturs) með vegum og járnbrautum.
Millilandaflugvöllur er við Rabat.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1982 var rúmlega hálf milljón. |