Meknes
er borg í miðnorðurhluta Marokkó.
Hún er u.þ.b. 110 km frá Atlantshafi og 58 km suðaustan Fez.
Hún er ein fjögurra konungsborga landsins. Meknassa-berbaættbálkurinn Zanatah stofnaði hana á 10. öld
umhverfis virkið Takarart og skírði hana Meknassa ez-Zeitoun (Ólífuborgin
Meknes). Meknes varð höfuðborg
landsins árið 1673, þegar Maulay Ism’il var soldán.
Hann bygði hallir og moskur, sem áunnu borginni nafnið
Versalir Marokkó. Borgarmúrar
hans með fjórum hornturnum og níu hliðum standa enn þá.
Að honum látnum hallaði undan fæti fyrir borginni.
Árið 1911 lögðu Frakkar hana undir sig.
Þeir byggðu nýjan borgarhluta handan Bou Fekrane-árinnar.
Meknes státar af voldugum og fögrum byggingum, s.s. Roua-hesthúsunum,
þar sem 12.000 hestar voru geymdir og fögrum görðum, sem vatni er
veitt á úr 4 hektara lóni.
Meknes
er viðskiptamiðstöð fjrósams landbúnaðarhéraðs og einnig handiðnaðarmarkaður
(útsaumur og teppi). Berbakonur
í Mið-Atlasfjöllum eru afburðateppavefarar.
Gott vega- og járnbrautasamband er milli Meknes, Fez, Tangier og
Casablanca. Rústir hins rómverska
Volubilis og hinnar helgu borgar Idris eru í næsta nágrenni.
Vínber,
korn (aðallega hveiti), sítrusávextir, ólífur, sauðfé, geitur og
nautgripir eru rætkaðir umhverfis borgina.
Flúorít er unnið úr námum í grenndinni.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1982 var 320 þúsund. |