Casablanca Marokkó,


CASABLANCA
MAROKKÓ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Casablanca er aðalhafnarborg Marokkó á Atlantshafsströndinni.  Upphaf borgarinnar er ekki þekkt en þar stóð berbaþorp á 12. öld.  Sjóræningjar, sem réðust aðallega á skip kristinna manna, leituðu þar skjóls og Portúgalar lögðu byggð þeirra í eyði árið 1468.  Portúgalar komu aftur árið 1515 og byggðu borg, sem þeir kölluðu Casa Branca (Hvíta húsið).  Þeir yfirgáfu hana 1755 eftir gífurlegan jarðskjálfta en Alawi-soldáninn Sidi Muhammak ibn ‘Abd Allah endurbyggði borgina síðla á 18. öld.  Spænskir kaupmenn, sem kölluðu borgina Casablanca, og aðrir evrópskir kaupmenn settust þar að.  Frakkar urðu brátt fjölmennastir og nafnið Maison Blanche festist í sessi.

Frakkar lögðu borgina undir sig árið 1907 og gerðu hana að verndarsvæði (1912-56) og aðalhöfn landsins.  Vöxtur og þróun borgarinnar hefur verið stöðug og hröð frá þeim tíma.  Í síðari heimsstyrjöldinni héldu Bretar og Bandaríkjamenn leiðtogafund þar (1943).  Árið 1961 stjórnaði Muhammad V, konungur Marokkó, ráðstefnu í borginni, þar sem Samband Afríkuríkja var stofnað.

Manngerð höfn borgarinnar er varin stórum og miklum varnargörðum og um hana fer mestur hluti inn- og útflutnings landsins.  Hansali-breiðgatan, sem liggur að höfninni, er mesta verzlunargata borgarinnar.  Upp frá bryggjunum er gamla arababorgin (medina).  Þar standa enn þá hlutar gamalla borgarmúra og innan þeirra völundarhús þröngra gatna milli hvítkalkaðra múrsteinshúsa.  Franski borgarhlutinn liggur í hálfhring umhverfis borgarmúrana.  Breiðgötur geisla út frá Muhammad V-torgi og hringgötur, sem enda á ströndinni beggja vegna hafnarinnar, skera þær.  Muhammad V-torgið og Torg Sameinuður þjóðanna eru aðalviðskiptahverfi borgarinnar.  Þar eru bankar, hóte og stórar, nútímaverzlanir.  Sunnar, þar sem sést vel yfir Garð Arababandalagsins, er hin hvíta dómkirkja Sacré Coeur.  Vestan garðsins í átt að ströndinni eru garðar og einbýlishús íbúðahverfanna (Anfa).  Fjöldi fátækra múslima búa í fátækrahverfum (biconvilles) í útjaðri borgarinnar.

Helztu samgöngutæki borgarinnar eru strætisvagnar.  Borgin er í vegasambandi við aðrar helztu borgir landsins.  Járnbraut liggur til norðausturs til Alsír og Túnis.  Anfa-flugvöllurinn suðvestan borgarinnar og Casablanca-Nouaceur-flugvöllruinn austan borgarinnar annast millilandaflug.

Hraður uppgangur í viðskiptalífi Casablanca, sem tengist vexti og viðgangi hafnarinnar, hefur ger
t borgina að aðalviðskiptamiðstöð landsins.  Þar fer meira en helmingur bankaviðskipta landsins fram og iðnaðarframleiðslunnar.  Iðnaðurinn byggist aðallega á framleiðslu textílvöru, rafeindatækja, leðurvöru, matvæla, bjórs, áfengis og gosdrykkja.  Fiskveiðar eru mikilvæg atvinnugrein og góð fiskimið eru meðfram ströndinni.  Aflinn er aðallega lúða, rauðmúli, sandhverfa, áll, krabbi og rækja.

Í borginni eru arabískir og franskir skólar á ýmsum sviðum.  Þar er Göthe-stofnunin,
Borgarlistaskólinn, Borgarbókasafnið, Sögufélag, Fiskifélag og Ylræktarfélag.

Fjöldi baðstranda er í og umhverfis borgina, einnig fallegir skemmtigarðar og fallegar gönguleiðir meðfram sjónum.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1982 var rúmlega 900 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM