Nouakchott, höfuðborg Máritaníu, er á hásléttu nærri Atlantshafsströnd
Vestur-Afríku, u.þ.b. 435 km norðnorðaustan Dakar í Senegal. Þarna var
upprunalega smáþorp á eyðimerkurleiðinni norðan Dakar, sem stækkaði og
þróaðist eftir að landið fékk sjálfstæði 1960, og varð höfuðborg
landsins. Hirðingjar frá þurrkasvæðum Sahara á áttunda áratugi 20.
aldar flykktust til Nouakchott og settust þar að, þannig að vöxtur
borgarinnar var mikill á þessum tíma og jafnframt fækkaði hirðingjum í
landinu mjög. Miðja borgarinnar er torgið Place de l’Indépendence. Í
útjaðri hennar eru iðnaðarsvæði og flugvöllur. Iðnaðarsvæðið er við
norður-suður þjóðveginn, sem tengir fremur þéttbýl landbúnaðarhéruð í
suðri við strjálbýlli námuhéruð í norðri. Átta kílómetrum vestan
borgarinnar var byggð höfn til útflutnings olíu og kopars.
Koparnámurnar eru nærri Akjouit, 195 km norðaustan Nouakchott.
Athafnalífið við höfnina hefur stöðugt aukizt. Háskóli borgarinnar var
stofnaður 1981. Áætlaður íbúafjöldi árið 1987 var 600 þúsund. |