Timbuktu
eða
Tombouctou er borg við suðurjaðar Saharaeyðimarkarinnar, rétt norðan
stóru bugðunnar í Nígerfljótinu.
Borgin er tengd fljótinu með skurðum og þar er smáhöfn, sem
kallast Kabara. Borgin er héraðsmiðstöð
verzlunar með salt og aðrar nauðsynjavörur.
Fáskrúðugur iðnaður borgarinnar byggist á framleiðslu
vefnaðarvöru (baðmull), leðurvöru og leiríláta.
Fyrrum var Timbuktu mikill
verzlunarstaður og miðstöð islamskra fræða.
Tuareghirðingjar stofnuðu borgina líklega síðla á 11. öld.
Snemma á 14. öld, þegar hún var innlimuð í hið forna
konungsríki Malí, var hún mikilvægur áfangi á leið úlfaldalesta
yfir Sahara og dreifingarmiðstöð við efri hluta Nígerfljótsins.
Eftir að hið volduga Sonhai-veldi náði borginni undir sig
1468, lifði hún sitt mesta blómaskeið sem miðstöð viðskipta og
islam. Íbúafjöldinn var
í kringum 40 þúsund snemma á 16. öld.
Kaupmenn frá norðurafrískum borgum seldu salt og dúk gegn
greiðslu í gulli og svörtum þrælum á markaðnum.
Sankoré-moskan stofnaði trúarbragðaskólann og sótti fræðimenn
í islömskum fræðum til beztu menntastofnana á þessu sviði í Mið-Austurlöndum.
Árið 1591 náðu innrásarmenn
frá Marokkó borginni á vald sitt og hnignun hélt innreið sína, bæði
vegna árása fólks af kynþáttum bambara, Fulani og tuareg og viðskipta,
sem fluttust til annarra borga. Í
upphafi 19. aldar var Tumbuktu ekki stór bógur.
Frakkar hernámu hana á árunum 1893-94).
Áætlaður íbúafjöldi 1987 var tæplega 32 þúsund. |