Mali íbúarnir,


MALI
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Mali skiptist í héruð hirðingja í Sahel og Sahara og landbúnaðarhéruð í súdanska hlutanum.  Innan við fimmtungur íbúanna býr í borgum.  Í sveitunum býr fólkið í leirkofum með stráþökum í þorpum með 150-600 íbúa.  Þau eru umkringd ræktuðum ökrum og beitarlöndum.  Eldri borgirnar, Djenné, Timbuktu, Gao og Ségou eru byggðar í súdönskum stíl.  Nýrri borgir, Bamako, Kayes, San og Kati hafa viðskiptahverfi með íbúahverfum umhverfis.  Húsin eru byggð úr blöndu af leir og steinsteypu.

Þjóðinni má skipta í þrjár stéttir.  Meirihluti þjóðarinnar telst til hins hefðbundna þjóðfélagsþegns, sem hefur erft stöður aðalsmanna og höfðingja og meðlimi ættkvísla.  Margir borgarbúar hafa notið þeirra sérréttinda að menntast og verða embættismenn, kaupmenn eða iðnaðarmenn.  Lægst setti hópurinn er atvinnulausir og fátæklingar.

Meðal hvítra íbúa landsins eru berbahirðingjar og ein ættkvísl þeirra, tuareg og arabískir berbar, sem eru kallaðir márar.  Þetta fólk hefst aðallega við á Sahel-svæðinu og norðan Nígerbugðunnar.  Svartir íbúar landsins skiptast í marga hópa, s.s. afkomendur hinna fornu konungsdæma Ghana, Mali og Songhai.  Stærsti hópurinn er bambarafólkið, sem býr meðfram Efra-Nígerfljótinu.  Soninkefólkið (sarakole) er afkomendur stofnenda Ghana-stórveldisins og býr í vesturhluta Sahel-svæðisins.  Malinkefólkið er afkomendur íbúa Maliveldisins og býr í suðvesturhlutanum en songhai-fólkið býr í Nígerdalnum milli Djenné og Ansongo.  Dogonfólkið býr á hásléttunum í kringum Bandiagara.  Voltafólkið (þ.m.t. bwa, senufo og minianka) býr í austur- og suðausturhlutunum,  Fulanifólkið er hirðingjar í Sahel og Macina.  Meðal annarra þjóðernishópa eru tukulor, khasonke, bozo og somono
.

Franska er opinbert tungumál landsins.  Tungumál og mállýzkur innfæddra eru margar og skiptast í grófum dráttum eftir kynþáttum og héruðum.  Algengast er mande, sem nær yfir bambara (2/3 hl. Íbúanna tala það), malinke, khasonke og wasulunka (quassoulou).  Soninke og dogon eru líka skyld bambara og innan dogon eru margar mállýzkur.  Tunga voltafólksins er einnig skyld því en samt sjálfstæð tunga, sem skiptist í bwa, senufo og minianka.  Fulani- og Tukulorfólkið talar ful (fulah eða peul) og songhai er talað meðfram allri Nígerbugðunni.  Tuaregfólkið hefur haldið sinni fornu berbatungu og ritmálinu tifinagh, sem er skylt forn-líbýsku.  Márar tala arabísku.

Íbúar landsins játa flestir þrenn höfuðtrúarbrögð landsins:  Islam (>90%), andatrú og kristni (lítill hópur).  Islam breiddist út á 11. öld og hefur náð yfirhendinni meðal Soninke-, songhai-, tukulor-, tuareg- og fulanifólksins auk mára.  Andatrú á enn þá djúpar rætur meðal volta-, malinke- og bambarafólksins

Íbúum landsins fjölgar stöðugt, þó hægar eftir 1980 en áratugina tvo á undan.  Lífslíkur frá fæðingu eru 43 ár fyrir karla og 46 ár fyrir konur og nokkuð hefur dregið úr fæðinga- og dánartíðnum, sem eru samt enn þá háar á afrískan mælikvarða.  Meira en helmingur íbúanna er yngri en 17 ára.  Flestir landsmenn búa í dreifbýli.  Gao- og Timbuktusvæðin eru líka strjálbýl utan borganna.  Þau hafa löngum verið strjálbýl en þurrkarnir á áttunda og níunda áratugnum hröktu marga íbúana til borganna eða suður á bóginn í leit að beitilöndum fyrir búfénaðinn, jafnvel alla leið til Burkina Faso.  Borgarbúum með fasta búsetu hefur fjölgað mjög og nú (2000) eru þeir í kringum 20% landsmanna.  Atvinnuleysi í borgum er mikið.  Tæplega helmingur vinnuaflsins starfar í iðnaði og margir stunda smáviðskipti.  Gefist ungu fólki tækifæri, flytzt það til Frakklands eða annarra Evrópulanda til að mennta sig.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM