Malavi sagan,


MALAVI
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fundizt hafa minjar um ísaldarmenningu fyrir rúmlega 50.000 árum í Malaví í steingervingum mannabeina Homo sapiens, sem er talinn hafa lifað á tímabilinu frá því fyrir 80.000 árum til 2000 árum f.Kr.  Þessir forsögulegu forfeður okkar eru skyldir san-fólkinu í suðurhluta Afríku og voru líklega forfeður twa- og fula-fólksins, sem bantu-mælandi þjóðflokkar fundu, þegar þeir réðust inn í Malaví-svæðið á milli 1. og 4. aldar e.Kr.  Frá þeim tíma fram undir 1200 lögðu bantu-menn meira land undir sig og unnu járn og brenndu skóg til að auka við ræktunarland.  Engar ritaðar heimildir eru til um þessa þróun en munnmæli geyma nöfn ættbálka, s.s. kalimanjira, Katanga og zimba, sem e.t.v. má rekja svo langt aftur í tímann.

Á 13. til 15. öld, þegar skráð saga Malaví hófst, komu fleiri hópar bantu-manna.  Þetta fólk kom úr norðri og blandaðist smám saman íbúunum, sem fyrir voru.  Afkomendur þessa fólks varðveittu munnlegar heimildir og eftir árið 1500 skráðu Portúgalar og Englendingar ýmislegt um sögu landsins.

Meðal merkilegustu afreka síðustu bantu-innflytjendanna var stofnun miðstýrðra stjórnsýslusamfélaga.  Þeir stofnuðu Malavíbandalagið í kringum 1480.  Á 16. öldinni náði bandalagið yfir mestan hluta þess svæðis, sem er nú Mið- og Suður-Malaví, og á blómaskeiði þess, á 17. öld, náði stjórn þess til nágrannahéraða núverandi Zambíu og Mósambík.  Norðan Malavísvæðisins stofnuðu ngonde-menn konungsríki í kringum 1600.  Á 18. öld stofnuðu innflytjendur frá austanverðu Malavívatni Chikulamayemble-ríkið sunnan Ngonde.  Áður en nýlendur voru stofnaðar í Afríku þróuðust bættir landbúnaðarhættir.  Á sumum svæðum Malaví hófst skiptiræktun innlendra nytjaplantna (hör, fóðurgras = sorghum) auk maís, kassava og hrísgrjóna.

Þrælaverzlunin seint á 18. öldinni og koma útlendinga á síðari hluta hinnar 19. skaðaði þróun og vöxt innlendra ríkisstjórna og efnahagsstjórn.  Þrælaverzlun jókst gífurlega í Malaví frá 1790 til 1860 vegna vaxandi eftirspurnar á austurströnd Afríku.  Svahilimælandi þjóðflokkar frá austurströndinni og ngoni- og yao-menn fluttust til Malavísvæðisins á áratugunum milli 1830-60 sem kaupmenn eða landflótta stríðsmenn frá Zulu-ríkjunum í suðri.  Þetta fólk kom sér vel fyrir og varð að ráðandi stéttum.  Svahilimælandi þjóðflokkarnir og yao-menn tóku mjög virkan þátt í þrælasölunni.

Islam breiddist út um Malaví frá Austurströndinni.  Svahili-þrælasalar, jumbe,  boðuðu fyrstir islam í Nkhotakota á sjöunda tugi 19. aldar.  Kaupmenn á heimleið frá ströndinni boðuðu islam meðal yao-manna á Shire-hálendinu milli 1770 og 1790.  David Livingstone († 1873) og aðrir skozkir trúboðar boðuðu kristni eftir 1860.  Kristniboðar Hollensku mótmælendakirkjunnar í Suður-Afríku og Hvítu feðurnir (katólskir) stunduðu trúboð á árunum 1800-1910.

Kristnir trúboðar áttu velgengni sína verndarhendi nýlendustjórnarninnar að þakka.  Bretar gerðu Malavísvæðið að nýlendu á árunum 1880-1900.  Trúboðarnir og nokkur afrísk samfélög fögnuðu nýlenduvæðingunni en yao-, chewa- og aðrir ætt- og þjóðflokkar snérust öndverðir gegn henni.  Árið 1891 stofnuðu Bretar Nýasaland-verndarsvæðið, sem þeir kölluðu Brezka Mið-Afríkuverndarsvæðið frá 1893 en Nýasaland frá 1907.

Á nýlendutímanum voru byggðir vegir og járnbrautir, evrópskir landnemar hófu kornrækt og dregið var úr kúgun.  Nýlendustjórnin gerði lítið til að auka velferð afríska meirihlutans vegna hagsmuna evrópsku landnemanna.  Hún vanrækti þróun landbúnaðarins fyrir innfædda og fjöldi vinnufærs fólks flykktist til nágrannalandanna í atvinnuleit.  Á árunum 1951-53 ákvað nýlendustjórnin að bindast samtökum við nýlendurnar í Suður- og Norður-Ródesíu og Nyasalandi gegn mikilli andstöðu innfæddra.

Þessar neikvæðu aðgerðir nýlendustjórnarinnar leiddu til stofnunar þjóðernishreyfingar.  Hún þróaðist hægt á milli heimstyrjaldanna en snemma á sjötta áratugnum óx henni fiskur um hrygg.  Þjóðernissinnar höfðu mestar áhyggjur af nýlendusambandinu, sem þeir álitu skref í átt til enn rótgrónara nýlenduveldis.  Áhrif þjóðernishreyfingarinnar í baráttunni fyrir breytingum urðu mest árið 1958 undir stjórn Hastings Kamuzu Banda.  Nýlendusambandinu var slitið árið 1963 og Malaví varð sjálfstætt ríki í Brezka samveldinu 6. júlí 1964.

Skömmu eftir að landið fékk sjálfstæði, kom upp alvarleg deila milli Banda og forsætisráðherrans.  Í sept. 1964 var þremur ráðherrum vikið úr embættum og hinir sögðu af sér í samúðarskyni.  Henry Chipembere, einn þessara ráðherra, komst undan stofufangelsi og öllum tilraunum til að hafa hendur í hári hans og varð tákn andspyrnu gegn ríkisstjórninni til dauðadags 1975.  Hinn 6. júlí 1966 varð Malaví lýðveldi og Banda var kosinn forseti.  Árið 1971 var hann endurkjörinn til lífstíðar.

Stjórnarskrá landsins frá 1966 kvað á um einsflokkskerfi, þar sem Þingflokkur Malaví réði.  Banda stjórnaði honum með harðri hendi og bældi niður alla andspyrnu.  Þingflokkurinn var íhaldssamur og Vesturlandasinnaður frá því að landið fékk sjálfstæði og einbeitti sér að þróun efnahagsmála.  Lítil kosningaþátttaka í júníkosningunum 1992 vakti ráðamenn til umhugsunar um umbætur í stjórnmálum.

Utanríkisstefna Banda var ólík því, sem tíðkaðist í nýfrjálsum ríkjum í hitabelti Afríku.  Hann taldi, að Afríska einingarbandalagið (OAU) setti sér markmið, sem það hefði ekki bolmagn til að ná.  Hann kom á viðskiptasambandi við Suður-Afríku og reyndi að telja aðra leiðtoga Afríkuríkja á raunhæfari stefnu í kynþáttamálum.

Malaví tók þátt í Samhæfingarráðstefnu um þróunarmál í Suður-Afríku 1980.  Þátttakendur voru öll lýðræðisleg nágrannaríki Suður-Afríku og þar neituðu fulltrúar Malaví að rjúfa stjórnmálasambandið við Suður-Afríku.  Malavímenn urðu að eiga tryggar flutningaleiðir til hafna og reyndu því að bæta samband sitt við nágrannaríkin.  Þeir undirrituðu samning um samstarf í öryggismálum við Mósambík á níunda áratugnum, þótt þeir hefðu verið ásakaðir fyrir stuðning við skæruliðasveitir Renamo þar í landi.  Her Malaví hefur starfarð með her Mósambík síðan 1987 við varnir Nacala-járnbrautarinnar gegn skemmdarverkum Renamo.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM