Malavi íbúarnir,


MALAVI
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Malavi er þéttbýlasta land í sunnanverðri Afríku en samt sem áður búa aðeins 10% landsmanna í borgum.  Víðast búa aðeins stórfjölskyldur í litlu þorpunum (mudzi), enda takmarkast fjöldinn við vatnsbirgðir og ræktanlegt land í nágrenni þeirra.  Á hásléttunum, þar sem flestir íbúanna búa, eru algengustu þorpsstæðin á jaðri ræktanlegra svæða (madambo), sem eru oftast í grennd við ár eða læki, skóg- og graslendi.  Á hálendinu eru standa þorpin dreift við ár og læki og ræktanlega skika.  Hin stærri þéttbýli við Malavivatn þróuðust á 19. öld sem safnstöðvar þræla og hafnir.  Bættar samgöngur og gröftur brunna á hálfþurrkasvæðum hafa gert fólki kleift að setjast að á áður óbyggilegum svæðum.  Íbúarnir eru að hverfa frá byggingu hinna hefðbundnu moldarkofa með stráþökum og farnir að byggja múrsteinshús með bárujárnsþökum.

Borgir fóru að þróast á nýlendutímanum, þegar trúboðar, kaupmenn og embættismenn komu til landsins, og síðar enn frekar við lagningu járnbrauta.  Einu borgir landsins eru Blantyre-Limbe, Zomba, Mzuzu og Lilongwe.  Þótt nokkrar héraðsmiðstöðvar og trúboðsstöðvar hafa á sér yfirbragð borga, eru þær nátengdar sveitunum umhverfis.  Blantyre er aðalmiðstöð iðnaðar og verzlunar í landinu í dalverpi á Shire-hálendinu í 1030 m hæð yfir sjó.  Zomba er setur Malaviháskóla við rætur Zombafjalls og er stjórnsýslusetur að auki.  Norðar er Lilongwe, hin nýja höfuborg landsins, sem byggist á iðnaði tengdum landbúnaði.

Níu aðalkynþættir eru sögulega tengdir Malavi nútímans (chewa, nyania, lomwe, yao, tumbuka, sena, tonga, ngoni og ngonde).  Öll tungumálin, sem landsmenn tala, eru af bantustofni.  Chichewa er þjóðartungan og enska er opinbert tungumál, þótt einungis 20% landsmanna skildu hana, þegar sjálfstæði fékkst.  Næstum tveir þriðjungar íbúanna tala chichewa.  Önnur mikilvæg tungumál eru chilomwe, chiyao og chitumbuka.

Tveir þriðjungar íbúanna eru krisnir og u.þ.b. helmingur þeirra aðhyllist ýmsa trúflokka mótmælenda en hinn helmingurinn er katólskur.  Fimmtungur íbúanna aðhyllist islam og þeir, sem eftir eru, stunda trúarbrögð forfeðranna.

Fólksfjölgun í Malavi er talsvert meiri en meðaltal landanna sunnan Sahara.  Fæðingatíðnin er einhver hin hæsta í álfunni en dánartíðnin er einnig há.  Lífslíkurnar, 47 ár, eru verulega lægri en meðaltalið í sunnanverðri Afríku.  Rúmlega helmingur íbúanna eru undir 15 ára aldri, þannig að búast má mikilli fólksfjölgun á 21. öldinni.  Snemma á tíunda áratugi 20. aldar óx vandinn, sem ör náttúruleg fjölgun veldur, vegna mikils fjölda flóttamanna frá Mósambík (áætlaður 1 miljón vegna borgarastyrjaldar þar).

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM