Forsagan.
Fornleifafundir á 20. öld gefa til kynna, að menn hafi setzt að á
Madagaskar í kringum árið 700. Tunga fólksins í landinu, malagasí, er
skyld malæ-pólínesísku, þótt eyjan sé mun nær Afríku, þar sem
bantu-mælandi fólk bjó og býr enn. Tungumálið er bantu-skotið og í
öllum mállýzkum eru áhrif bantu-málsins áberandi.
Malagasísamfélagið er einstæð blanda asískra og afrískra áhrifa í útliti
og menningu íbúanna. Afrísk áhrif eru víðtæk, þótt asískra áhrifa gæti
meira. Sumir mannfræðingar telja, að malæ-pólínesískir sæfarar hafi
fyrst setzt að í Austur-Afríku og á Kómóroseyjum, þar sem bantu-menn
bjuggu þegar, áður en þeir eða afkomendur þeirra komu sér fyrir á
Madagaskar. Einnig hafa fundizt merki um búsetu bantu-manna á nokkrum
svæðum á eyjunni vestanverðri fyrir 17. öld. Eftir 14. öld fór aukinna
afró-arabískra áhrifa að gæta á Madagaskar. Aðflutningur annnarra en
Frakka virðist hafa stoppað eftir aldamótin 1600.
Madagaskar fyrir
1650.
Mestur hluti eyjarinnar var þegar byggður fyrir aldamótin 1500 vegna
dreifingar þáverandi íbúa (tompontany = upprunalegir íbúar eða þeir, sem
réðu yfir jarðveginum) en pólitísk eining var ekki til. Flestir hinna
20 malagasíættbálka, sem búa nú á eyjunni fengu enga þjóðernisvitund
fyrr en stjórnmálahugmyndir flutu á land á 16. öld og dreifðust meðal
íbúanna. Mikið er til af rituðum heimildum í Evrópu frá 16. og 17. öld
um Madagaskar. Þær geta ekki um stórt ríki, konungs- eða keisaraveldi á
eyjunni og margar málvenjur malagasímanna má rekja til þessara tíma.
Skipverjar Evrópsku
skipanna, sem komu fyrst til landsins, fundu fjölda smáríkja meðfram
ströndinni. Aðalbæir þeirra voru yfirleitt í grennd við árósa,
yfirráðasvæðin voru oftast lítil og höfðingjarnir voru sjálfstæðir
innbyrðis. Bandalög þeirra og stríðsrekstur voru oftast skammlíf og
beindust aðallega að efnahagslegum ávinningi án mikilla mannfórna.
Ófriður milli ríkjanna olli sjaldnast breytingum á landamærunum milli
þeirra. Fólkið byggði afkomu sína á hirðingjalífi og landbúnaði og
flestir bjuggu við sömu kjör. Í sumum ríkjanna voru völd höfðingjanna
alger en annars staðar öldungar og prestar úrslitavöld. Í
suðausturhlutanum, þar sem varð síðar Fort-Dauphin, aðsetur Franska
Austurindíafélagsins, álitu fyrstu Evrópumennirnir sig hafa fundið ríki
múslima meðal antanosy-fólksins í landshlutanum. Þar réði ríkjum
márískur konungur og aðalsmenn hans líkt og í islömskum ríkjum.
Konungarnir þar báru nafnið Zafindraminia, sem þýðir afkomendur Raminia,
konungs konunganna.
Fyrsta ársfjórðung
16. aldar fundu portúgalskir sæfarar fjölda strandbæja á norðurhluta
eyjarinnar, sem líktust Kilwa í núverandi Tanzaníu. Bæirnir tilheyrðu
afró-arabískri verzlunarkeðju í Vestur-Indlandshafi fyrir aldamótin
1600. Í bænum Vohemar, í fyrrum norðausturríki eyjarinnar, aðalmiðstöð
millilandaviðskipta, gætti blöndu frumlegra malagasí og afró-arabískra
lista og menningar.
Portúgalskir
landkönnuðir, sem heimsóttu Matitanadalinn í suðausturhlutanum, urðu
vitni að komu hóps fólks af afró-asísku kyni (frá Malindi) á árunum
1507-13. Næstu tvær kynslóðir þessa hóps mægðust við innfædda
tompontanímenn og blönduðust þeim og myndaði annan ættbálk, sem nefndist
antemoro. Á fjórða tugi 17. aldar höfðu antemoromenn stofnað eigið
ríki, hið eina í landinu, sem átti ritmál og texta. Þeir notuðu
arabíska starfrófið til að rita malagasí og voru bæði trúaðir og
veraldlegir í senn. Þeir byggðu rétt sinn til valda í ríkinu á islam og
hinir fjórir trúflokkar þeirra voru fylgdu boðskap kóransins mun betur
en zafindraminia-fólkið á Fort-Dauphin-svæðinu. Síðar nutu heilagir
antemoromenn mikillar virðingar um alla eyjuna og höfðu áhrif á trú- og
stjórnmál.
Stjórnmálaþróunin
1650-1810.
Fyrstu gestunum frá Evrópu var ókunnugt um gamlar og nýjar
höfðingjaættir, sem voru að brjótast til valda í mið- og suðvesturhluta
landsins fram á miðja 16. öld. Tvær þeirra, maroserana í
suðvesturhlutanum og andiana-merina í miðhlutanum, stofnuðu aðskilin
stórveldi, sem áttu sín blómaskeið og hnignun á tímabilinu 1650-1896,
árið sem Frakkar innlimuðu Madagaskar. Maroseranamönnum tókst að færa
veldi sitt út í suðurhlutanum og mesta afrek þeirra var stofnun tveggja
ríkja í vesturhlutanum, Menabé og Boina. Þau sameinuðust síðar í
Sakalavaríkið, sem réði mestum hluta vesturstrandarinnar og nokkrum
svæðum langt inni í landi.
Sakalavamenn voru
upphaflega hópur stríðamanna, sem tengdust maroseranamönnum fyrir árið
1660, þegar konungur þeirra, Andriandahifotsy, stofnaði ríkið Menabé.
Fjöldi ættbálka í vesturhluta landsins fékk borgararéttindi sakalava og
blönduðust sakalavamönnum með mægðum. Trúin var einnig sameiningarafl,
þegar konungar maroseranamanna voru gerðir að dýrlingum og lýstir
forfeður allra sakalavamanna. Veldi sakalavamanna hnignaði vegna
innbyrðis átaka um krúnuna, tilrauna til að innleiða islam í stað gömlu
trúarbragðanna og stríðanna við merinafólkið (eftir 1810), sem bjó á
miðhásléttunni og var vaxandi stórveldi.
Betsimisaraka-bandalagið var skammlíf tilraun á dögum sakalavaríkisins á
18. öld til að sameina ættbálkana á austurströndinni. Leiðtogi þess,
Ratsimiliaho, sonur ensks sjóræningja og malagasíprinsessu, réði yfir
u.þ.b. 370 km langri strandlengju. Að honum látnum 1750 fór ríkið að
liðast í sundur.
Merinakonungsríkið
var stofnað í lok 16. aldar í mýrlendum Ikopa-dalnum á miðhásléttunni.
Antananarivo varð höfuðborg þess. Á 18. öld var Imerina skipt milli
fjögurra, stríðani konunga. Einn þeirra, Andrianampoinimerina, sem
ríkti á árunum 1787-1810, sameinaði konungsríkið á ný árið 1797. Hann
setti allt ríkið undir sömu lög og stjórn og seldi Frökkum þræla og fékk
greitt með skotvopnum, sem hann notaði til að sigra nágranna sína,
Betsileo. Undir stjórn hans skiptust þegnarnir í aðal (andriana),
frjálsa menn (hova) og þræla (andevo). Á dánarbeði lýsti hann síðustu
ósk sinni við son sinn: „Ég vil, að hafið verði landamæri
konungsdæmisins”.
Fyrstu kynni af
Evrópumönnum.
Marco Polo nefnir Madagaskar í skjölum sínum en fyrsti Evrópumaðurinn,
sem heimsótti eyjuna árið 1500, var portúgalski sæfarinn Diogo Dias.
Portúgalar, sem rændu og rupluðu í múslimabæjunum á ströndum eyjarinnar
á 16. öld, kölluðu hana Eyju heilags Lárensíusar. Fleiri Evrópuþjóðir
komu til skjalanna. Frakkar byggðu Fort-Daupin-virkið árið 1942 og
héldu því til 1674. Einn landstjóra þeirra, Étienne de Flacourt,
skrifaði fyrstu raungóðu lýsingu eyjarinnar. Síðla á 17. öld og snemma
á hinni átjándu áttu margir sjóræningjar sér hæli á eyjunni og stunduðu
iðju sína á Indlandshafi (William Kidd o.fl.).
Á 18. öld gerðu
Frakkar Mascarene-eyjar, austan Madagaskar, að nýlendu með hjálp þræla
af malagasíkyni. Tvær árangurslausar árásir voru gerðar á virki Frakka,
Fort-Dauphin og virki við Antongil-fjörð. Franskir verzlunarstaðir
blómstruðu, einkum Tamatave.
Konungsríkið
Madagaskar.
Tilurð
konungsríkisins 1810-61.
Sonur Andrianampoinimerina, Radama I (1810-28) gerði bandalag við brezka
landstjórann í Máritíus, Sir Robert Farquhar. Landstjórinn studdi
Radama með vopnasendingum til að ná völdum á eyjunni og gaf honum
titilinn
Konungur
Madagaskar til að koma í veg fyrir, að Frakkar legðu austurströnd
eyjarinnar undir sig á ný. Radama samþykkti að berjast með Bretum gegn
þrælasölunni. Árið 1817 náði hann undir sig austurstrandarborginni
Tamatave, sem hann gerði að miðstöð herferða sinna gegn byggðunum á
ströndinni. Hann náði loks mestum hluta austurstrandarinna undir sig,
norðurhluta eyjarinnar og mestan hluta hinna tveggja stóru konungsríkja
sakalava. Aðeins suðurlandið og hluti vesturlandsins héldu sjálfstæði
sínu. Frakkar héldu einungis smáeyjunni Sainte Marie. Radama bauð
evrópska verkamenn velkomna, fékk Kristniboðsfélagið í London til
trúboðs og lét innleiða latneska stafrófið fyrir malagasí. Hann dó
fyrir aldur fram árið 1828. Ekkja hans, Ranavalona I, tók við völdum og
afnam evrópustefnu fyrrum bónda síns.. Hún rak kristniboðana úr landi
og ofsótti þá, sem höfðu snúizt til kristinnar trúar. Nokkrir
Evrópumenn voru um kyrrt í landinu vegna erlendra viðskipta og
framleiðsluiðnaðar landsins en að lokum var þeim einnig vísað úr landi.
Bretar og Frakkar sendu herlið gegn Ranavalona en biðu ósigur við
Tamatave 1845. Þegar hún lézt 1861, var Madagaskar algerlega einöngruð
frá Evrópu.
Erlend áhrif 1861-95.
Radama II, sonur Ranavalona, tók við völdum og opnaði landið fyrir
útlendingum. Enskir mótmælendur og franskir katólíkar kepptu um
yfirráðin og athafnamenn fengu miklar tilslakanir. Þessi stefna leiddi
til þess, að merina-höfðingjaættin velti Radama úr sessi 1863.
Hova-maðurinn Rainilaiarivony, yfirmaður hersins, varð forsætisráðherra
og áfram æðsti maður hersins. Hann hélt völdum sínum með því að kvænast
þremur prinsessum í röð: Rasoherina, Ranavalona II og Ranavalona III.
Hann hóf miklar umbætur og nútímavæðingu og kom því til leiðar árið
1869, að mótmælendatrú var tekin upp og trúarbrögð malagasí voru bæld
niður. Stjórnsýslan var aðlöguð hinn evrópsku og landstjórar settir
yfir héruðin. Fyrrum hermenn stjórnuðu þorpunum. Lýst var yfir
skyldunámi og menntunarmálin falin kristniboðum. Stjórnarskrá var samin
í anda fornra hefða og vestrænna hátta (s.s. einkvæni).
Frakkar hófust handa
við að auka áhrif sín á sakalava-fólkið og fyrsta stríði milli þeirra og
merinamanna var háð á árunum 1883-85. Því lauk með tvíræðum samningi:
Frakkar fengu byggðina í Diégo-Suarez og landstjóra í Antananarivo án
þess að landið væri lýst verndarsvæði Frakka að sinni. Þessu fylgdi
tímabil óreiðu og óeirða innanlands. Árið 1890 viðurkenndu Bretar
Madagaskar sem vendarsvæði Frakka en Rainilaiarivony neitaði að beygja
sig undir frönsk yfirráð. Í janúar 1895 lentu franskar hersveitir í
Majunga og 30. sept. 1895 lögðu þær höfuðborgina undir sig.
Forsætisráðherrann var rekinn úr landi. Drottningin undirritaði
verndarsamning og hélt sæti sínu sem þjóðhöfðingi.
Franska öldin.
Nýlendutíminn
1896-1945.
Frakkar náðu brátt undir sig yfirráðasvæði merina-fólksins en í Imerina
börðust skæruliðar (menalamba) gegn nútímavæðingunni og yfirráðum
Frakka. Franska þingið ákvað, að eyjan skyldi innlimuð í Frakkland 6.
ágúst 1896 og sendi Joseph-Simon Gallieni, hershöfðingja til landsins,
þar sem hann var síðar skipaður aðallandsstjóri. Þrælahald var
afnumið. Gallieni bældi niður óeirðirnar, setti aðlinum þröngar skorður
og vísaði drottningunni úr landi 27. febrúar 1897. Árið 1898 var kominn
friður á í gamla Merina-konungsríkinu. Gallieni snéri sér síðan að hinu
erfiða verkefni að færa nýlenduveldið yfir sjálstæðu smáþjóðirnar í
landinu. Hann varð að bæla niður tvær uppreisnir, í norðvesturhlutanum
1898 og suðausturhlutanum 1904. Honum tókst að sameina landi áður en
hann snéri heim árið 1905. Frakkar skipuðu staðarmenn í embætti
héraðsstjóranna og gerðu frönsku að skyldunámi. Tollar voru lágir eða
engir á frönskum vörum en samtímis var lögð áherzla á uppbyggingu
atvinnulífsins, iðnaðar og framleiðslu. Járnbrautin milli Tamatave og
Antananarivo og vegir voru lagðir og nútímaheilsugæzla var tekin upp.
Eftirmenn Gallieni
héldu áfram að þróa efnahag landsins. Lagningu járnbrautarinnar og
hliðarspora hennar var lokið 1913. Önnur járnbraut milli Fianarantsoa
og Manakara var tekin í notkun 1935. Fleiri vegir vöru lagðir eftir
1920 og flugumferð jókst eftir 1936. Borgir og hafnir voru byggðar og
búnar þátíma tækjabúnaði og lán fengust í Frakklandi. Útflutningurinn
byggðist á landbúnaðarafurðum og hráefnum til iðnaðar. Fyrst í stað var
megináherzlan lögð á ræktun hrísgrjóna, cassava, gúmmítrjáa og
raffíapálma og framleiðslu kjötvöru og grafíts. Milli heimsstyrjaldanna
kynntu Evrópumenn ræktun kaffis, vanilla, smára og tóbaks og innfæddir
hófu ræktun. Í kringum 75% útflutningsins fór til Frakklands.
Lífshættir innfæddra urðu sífellt vestrænni, einkum í borgunum og
helmingur íbúanna snérist til kristni.
Árið 1915 var
leynileg þjóðernishreyfing, Vy Vato Sakelika (VVS) gerð útlæg. Árið
1920 hóf kennari nokkur, Jean Ralaimongo, herferð fyrir frönskum
borgararéttindum íbúa landsins og aðild þess að Frakklandi sem
utanlandshéraðs. Hreyfing hans gerðist þjóðernissinnuð, þegar franska
þingið snérist öndvert við þessum hugmyndum. Árið 1940 snérust
landsmenn hálfshugar á band með Vichy-stjórninni. Í kjölfarið kom
siglingabann og Bretar og Suður-Afríkumenn hernámu eyjuna 1942 en síðar
var henni skilað til Frjálsra Frakka.
Franska bandalagið
1946-58.
Tveir
malagasí-þjóðernissinnar voru kosnir á franska þingið 1945.
Samkvæmt stjórnarskránni frá 1946 varð Madagaskar að frönsku
utanlandshéraði með fulltrúa á franska þinginu og eigin stjórn í
Antananarivo. Síðar voru sex héraðsstjórnir myndaðar.
Stjórnmálabaráttan snérist í blóðugar óeirðir 30. marz 1947 og
allsherjaruppreisn í suðurhlutanum. Leiðtogar
lýðræðishreyfingarinnar, þ.á.m. þrír fulltrúar landsins í franska
þinginu, voru reknir úr landi. Opinberar tölur um fallna í
þessum blóðsúthellingum voru 11.000, en fullvíst þykir, að þúsundir í
viðbót hafi soltið í hel og dáið af öðrum afleiðingum upplausnarinnar
í landinu, margir í frumskógum landsins á flótta undan stríðandi
fylkingum.
Stjórnmálalíf var
lamað á meðan á þessum ósköpum stóð þar til á sjötta áratugnum. Eftir
að lögin um utanlandshéraðið voru samþykkt 1956 var komið á fót
framkvæmdavaldi, sem þing Madagaskar kaus. Philibert Tsiranana,
forsætisráðherra, stofnaði Sósíaldemókrataflokkinn, sem bauð
merina-mönnum samstarf, þótt aðeins fáeinir þeirra væru meðlimir. Árið
1958 samþykktu Frakkar að veita utanlandshéruðum sínum sjálfstjórn.
Madagaskarbúar kusu heimastjórnarfyrirkomulagið 28. sept. Hinn 14.
október 1958 var lýst yfir stofnun heimastjórnarlýðveldisins Malagasí og
Tsiranana var forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar.
Malagasílýðveldið.
Stjórnarandstaðan sameinaðist í Þingflokknum um sjálfstæði Madagaskar.
Fylgjendur hans voru m.a. mótmælendatrúaðir merina-menn og kommúnistar.
Flokkurinn átti mest fylgi í Antananarivo og nokkuð í héruðum
landsins. Vegna kosningakerfis, sem sósíaldemókratar komu á, dugði
fylgi þeirra aðeins til að koma þremur mönnum á þing.
Sósíaldemókratar
komu reglu á í héruðunum. Framkvæmdavaldið þar var í höndum héraðsþinga
en ákvörðunarvaldið í höndum sérstaks ráðherra í ríkisstjórninni.
Tsiranana var kosinn forseti lýðveldisins og hann var frumkvöðull í
sjálfstæði landsins, sem var lýst yfir 26. júní 1960. Hann og flokkur
sósíaldemókrata voru við völd til 1972. Hann og stjórn hans stefndu að
umbótum fyrir smábændur og fleiri framförum. Sambandið við Frakkland
var áfram styrkt og náin samskipti voru tekin upp við BNA,
Vestur-Þýzkaland, Tævan, Suður-Afríku og önnur andkommúnísk ríki.
Tsiranana var
endurkjörinn í janúar 1972 en ólga í stjórnmálum og meðal verkamanna auk
hrakandi heilsu hans ollu því, að hann fól Gabriel Ramanantsoa,
hershöfðingja, embætti forsætisráðherra. Þessi ráðstöfun var staðfest í
almennum kosningum 8. október 1972. Forsetaembættið var lagt niður
eftir að Tsiranana sagði af sér 11. október. Nýji forsætisráðherran
gjörbreytti stefnu stjórnar landins í utan- og innanríkismálum. Hann
samdi við Frakka um brottflutning sjó- og landhersveita frá herstöðvum í
landinu og eftirleiðis skyldi líta á alla franska ríkisborgara sem
útlendinga. Hann tók upp samband við Sovétríkin og önnur kommúnistaríki
og tenging gjaldmiðilsins við franska frankann var rofin. Árið 1973 var
hafin var skipuð nefnd til að endurskipuleggja starfsemi í sveitum
landsins. Hún kom á fót afurðasölu til ríkisfyrirtækja og yfirtók
stjórn fransk-malagasískra fyrirtækja.
Eftir pólitískar
óeirðir 5. febrúar 1975 afsalaði Ramanantsoa völdum til Richard
Ratsimandrava, ofursta og fyrrum innanríkisráðherra. Hann varð forseti
og forsætisráðherra en var myrtur sex dögum síðar. Þá var stofnuð
herstjórn, sem skipaði Didier Ratsiraka, herforingja, forseta og formann
byltingarráðsins 15. júní. Staða hans og ný stjórnarskrá voru
staðfestar með þjóðaratkvæði 21. desember 1975. Hann sór forsetaeiðinn
4. janúar 1976 og hélt áfram á sömu braut og Ramanantsoa. Hann
þjóðnýtti banka, tryggingarfélög og náttúruauðæfi í jörðu og tryggði enn
betur tengslin við kommúnistaríkin. Hann endurvakti Þjóðvarnar- og
byltingarflokkinn, sem hafði verið bannaður, á eigin forsendum og
tryggði sér þannig mun víðtækari völd en áður.
Ratsiraka var
sjálfkjörinn 1983. Undir merkjum vísindalegs sósíalisma herti hann enn
tökin á efnahagsmálum landsins. Lán frá Alþjóðabankanum dugðu ekki til
að halda í horfinu og hröð efnahagsleg hnignun hélt áfram. Árið 1986
snéri Ratsiraka blaðinu algerlega við og innleiddi frjálshyggju og
frjálsa verzlun. Í júní 1990 afskrifuðu Frakkar 4 miljarða skuld
Madagaskar og erlendir fjárfestar fóru að sýna landinu áhuga, þó einkum
Suður-Afríkumenn. Í sept. 1990 hófst svokallað nýtt skeið samvinnu
milli Madagaskar og Suður-Afríku með samráðsfundi í Antananarivo
(Ratsiraka og F.W. de Klerk). Þá var komið upp vikulegu áætlunarflugi
milli Pretoríu/Durban og Antananarivo. Í lok síðustu aldar bólaði ekki
á neinum væntanlegum eftirmanni Ratsiraka. |