Madagaskar er skipt í
þrjú samhliða svæði, miðhásléttuna, strandlengjuna austanverða
og lægri sléttur að vestanverðu.
Vesturslétturnar eru í 800-1400 m hæð yfir sjó.
Þær hafa risið og lækkað á víxl vegna jarðskorpuhreyfinga
og hallar til vesturs. Þær
rísa hæst á þremur stöðum í tæplega 2800 m.
Tsaratanana-svæðið í norðurhlutanum er aðskilið frá hinum
hlutum sléttnanna um Tsaratananafjöll, sem rísa hæst í 2876 m (hæsti
hluti eyjarinnar). Ankaratrafjöllin
í miðju landi er gríðarmikill og eldvirkur fjallabálkur (2626m).
Um hann liggja vatnaskil milli austurs og vesturs og þriggja aðalvatnsfalla
eyjarinnar. Sunnar eru
Andringitrafjöll, mikill granítfjallabálkur norðan Tôlanaro.
Boby-tindur er 2642 m hár.
Halli sléttnanna er jafnari í átt að syðsta hlutanum en við mörkin
milli austurs og vesturs er brattinn meiri.
Þær lækka til austurs um greinilegt misgengi á milli 300-600
m. Klettabeltin þar (Miklaklif,
Angavoklif), eru víða ókleif. Þau
ná austur að Betsimisaraka-klettabeltinu, sem er lægra og gnæfir
yfir strandlengjunni. Handan
þess eru ummerki fornra stöðuvatna (Alaotra).
Sunnantil hallar báðum misgengnunum niður á Mahafaly- og
Androy-slétturnar, sem enda í þverhníptum sjávarhömrum.
Hallinn til vesturs er stöllóttur.
Sums staðar er miðhásléttan girt ófærum klettabeltum (Bongolava).
Lengst í norðri eru lágreist Ambohitrafjöllin, sem ná yfir
nokkrar gígaþyrpingar.
Strandlengjan er að meðaltali 50 km breið.
Hún er mynduð af árframburði næst sjó og þar eru lón, sem
voru tengd með 600 km löngum Pangalanes-skipaskurðinum.
Sunnan Farafangana verður ströndir klettótt og í suðvesturhlutanum
eru margar víkur. Að norðaustanverðu
er hinn djúpi Antongil-fjörður.
Vestursvæðið er 100-205 km breitt.
Setlögum þess hallar niður að Mósambíksundi um hæðótt
landslag og endar í klettahlíðum.
Strandlengjan er bein með lágum sandöldum og fenjum.
Hafstraumarnir í sundinu hafa borið með sér árset og valdið
myndun þurrlendis í árósum. Á
norðvesturströndinni er fjöldi árósa og fjarða.
Fyrir ströndinni þar eru kóralrif og eldvirkar eyjar (Nossi-Bé),
sem skýla Ampasindaya-flóa.
Fjöldi stuttra en straumþungra vatnsfalla fellur um brattan
austurhluta hásléttunnar. Þessar
ár renna annaðhvort til fenjanna eða beint í sjó fram um foss og
flúðir. Hinar helztu eru
Mandrare, Mananara, Faraony, Ivondro og Maningory.
Lengri og stærri ár falla um flatari vesturhlutann (Onilahy,
Mangoky, Tsiribihnina og Betsiboka).
Þær flytja með sér mikið magn ársets, sem sezt til á
sléttunum og ósunum. Á eyjunni
er fjöldi gígvatna (Itasy). Alaotravatn er hið eina, sem er
eftir í austurhlíðunum. Tsimanampetsotsa-vatn niðri við ströndina
sunnan Toliara er eina salta stöðuvatnið, sem hefur ekki frárennsli.
Berggrunnur miðhásléttunnar er aðallega gneiss, granít, kvarts og aðrar
kristallaðar bergmyndanir. Gneiss rotnar og umbreytist í járnlitað
efni, báxít og djúpan, rauðan jarðveg, sem ljær eyjunni rauðan blæ
(Stóra rauða eyjan). Mikil ræktun er stunduð í frjósömum árframburði
í dölunum. Inn á milli er einnig frjósamur gjóskujarðvegur, sem er
laus í sér og auðveðranlegur. Alaotravatn er stór, uppþornaður
vatnsbotn, sem er eitthvert bezta ræktunarsvæði eyjarinnar. Á
vesturþriðjungi eyjarinnar eru aðallega miðlungs- og ófrjósöm
setlög. |