Madagaskar íbúarnir,
Flag of Madagascar


MADAGASKAR
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Mikil ræktun hrísgrjóna er mjög áríðandi fyrir íbúa Madagaskar en engu að síður beinist landnýtingin aðallega að kvikfjárrækt.  Nautgripir eru ræktaðir um land allt, þótt fátt sé um þá á þéttum skógasvæðum, en ræktun nytjaplantna er stunduð samhliða.  Á hásléttunni, í dölum og áveitusvæðum í hlíðum þeirra og hásléttnanna er stunduð hrísgrjónaræktun.  Skógafólkið hefur löngum ræktað hrísgrjón á svæðum, þar sem skógi hefur verið rutt burt.  Yfirvöld í landinu hafa hvatt til stöðugrar ræktunar á áveitusvæðum en dregið verði úr eyðingu skóga.

Gömlu þorpin í Merina og Betsileo stóðu oft uppi á hæðum innan mikilla varnarskurða.  Nú standa þau neðar og smáþorp og smábýli standa dreift.  Á hásléttunni standa nautgriparéttir úr grjóti og víða eru grafir með fagurlega útskornum viðarstólpum.  Litlar borgir þróuðust sem miðstöðvar stjórnsýslu í konungsríkjum eyjarinnar fram á 18. öld.  Fjölmennustu borgir landsins eru Antananarivo á miðhásléttunni, Mahajanga á norðvesturströndinni, Fianarantsoa á suðursléttunni, Toamasina á austurströndinni, Antsiranana í norðurhlutanum, Toliara í suðvesturhlutanum og Antsirabe á austursströndinni (ferðamannastaður).

Í gömlu borgunum eins og Antananarivo og Fianarantsoa gætir hvorki kynþátta- né efnahagslegs aðskilnaðar íbúanna eins og í nýrri borgunum.  Vegna mikilla fólksflutninga innanlands á síðustu árum 20. aldar eru borgirnar deigla margra kynþátta.

Byggð á Madagaskar er ekki gömul, aðeins u.þ.b. 2000 ára.  Tungumál og menningu má ótvírætt rekja til Indónesíu án þess að ástæður þess liggi í augum uppi.  Ekki er heldur vitað hvaðan fyrstu landnemar eyjarinnar komu.  Rannsóknir á loft- og hafstraumum Indlandshafs gefa til kynna að siglingar frá Indónesíu hafi verið mögulegar.  Talið er, að fyrstu landnemarnir hafi verið fámennur hópur sömu menningar, sem hafi náð landi í sömu förinni.

Tungumál, fornleifarannsóknir og hefðir sýna líka ótvírætt fram á áhrif landnáms Afríkumanna og araba á ströndinni fyrir árið 1000.  Merki um indversk áhrif eru ekki eins áberandi í orðaforða og ekki gætir áhrifa hindi í menningu malagasy og rétttrúnaðar-islam kom ekki fram fyrr en í síðari byggðum á ströndinni.  Íbúar landsins tala Malagasy og nota latneska starfrófið.  Þessi tunga er staðlað afbrigði af merinatungunni, sem er af ástrónesískum uppruna.  Malagasy á sér margar mállýzkur, sem skiljast um allt land.  Franska er einnig útbreidd og er einnig opinbert mál, sem er notað við kennslu samhliða Malagasy á efri menntastigum.

Þjóðin skiptist í u.þ.b. 20 kynþætti og þjóðerni.  Stærsti hópurinn er merinafólkið, sem býr dreift um eyjuna.  Merinanafnið (Imerina) er sagt þýða „fólkið úr efri byggðum”, því það bjó á hásléttunni.  Næststærsti hópurinn er betsimisarakafólkið („óaðskiljanlegi meirihlutinn”), sem býr aðallera í austurhlutanum.  Hinn þriðji stærsti er betsileofólkið („ósigrandi meirihlutinn”), sem býr á hásléttunni umhverfis Fianarantsoa.  Aðrir veigamiklir hópar eru tsimihety („fólkið, sem sker ekki hár sitt”), sakalava („fólkið í langa dalnum”), antandroy („þyrnirunnafólkið”), tanala („skógarfólkið”), antaimoro („árbakkafólkið”) og bara (óviss uppruni).  Smærri hópar eru m.a. antanosy („eyjafólkið”), antaifasy („sandfólkið”), sihanaka („vatnafólkið”), antakarana („klettafólkið”), betanimena („rauðmoldarfólkið”), sem hefur að mestu blandast merinafólkinu, bzanozano („hárfléttufólkið”) og mahafaly („glaðlynda fólkið”).  Þessi kynþáttanöfn tákna ekki skýr menningarleg skil, því að víða skarast menning þessara hópa.  Nafnaþýðingarnar eru lauslegar og mörg nafnanna eru tiltölulega ung og eiga tíðum uppruna sinn á nýlendutímanum.  Það er ekki hægt að nota þau um ættkvíslir.

Næstum helmingur þjóðarinnar er kristinn og skiptist jafnt milli rómversk-katólsku og mótmælenda.  Talsverður fjöldi múslima býr í norðvesturhlutanum.  Aðrir íbúar stunda hefðbundin trúarbrögð (forfeðratrú).  Hinum látnu er komið fyrir í grafhýsum og talið er að þeir annaðhvort umbuni eða refsi hinum lifandi.  Æðsti guðinn nefnist Zanahary (skaparinn) eða Andriamanitra (hinn viðkvæmi).  Fólkið trúir líka á anda og flókið kerfi bannhelga setur lífi þess ýmsar hömlur.

Rúmlega 95% íbúanna eru Malagasy.  Stærstu hópar innflytjenda eru Frakkar, Kómórosmenn, Indverjar, Pakistanar og kínverjar.  Fæðingatíðni er oftast hærri en dánartíðni, þannig að fólkinu fjölgar fremur hratt.  Opinber stefna yfirvalda er gegn takmörkunum barneigna.  Helmingur þjóðarinnar er yngri en 17 ára.  Brottflutningur íbúa af frönskum, kómóskum, indverskum og pakistönskum uppruna síðla á 20. öldinni fækkaði þeim mjög.  Malagasyfólkið hefur ekki flutt brott svo neinu nemi.

Þéttbýlasti hluti eyjarinnar er miðhásléttan og austurstrandsléttan er næstþéttbýlust.  Austurskógasvæðið og norðausturströndin eru næst í röðinni.  Mestur hluti vesturhlutans er strjálbýll.  Allar aðalborgir landsins eru í austurhlutanum.  Antananarivo er fjölmennasta borgin.  Gamli hluti hennar er á tveimur þverhníptum fjallahryggjum og yfir gnæfir Manjakamiadana-kastalinn.  Yfirbragð gömlu borgarhlutanna er mjög fallegt og næstum miðaldarlegt.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM