Tripoli Líbýa,
Flag of Libya


TRIPOLI
LÍBÝA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

LYTIP018BWTripoli, höfuðstaður Líbýu, er í norðvesturhluta landsins við Miðjarðarhafið.  Hún er stærst borga landsins og aðalhafnarborgin.  Í fornöld var hún kunn undir nafninu Oea og ein upprunalegu borganna ásamt Sabratha og Leptis Magna, sem mynduðu hina svonefndu „þríborg” (Tripolis eða Tripolitania).  Borgin stendur á klettaskaga beint sunnan Sikileyjar.  Fönikíumenn stofnuðu hana og Rómverjar réðu henni á tímabilinu 146 f.Kr. til 450 e.Kr., vandalar á 5. öld og Býzantínumenn á 6. öld.  Á valdatímum vandala voru borgarmúrar Sabratha og Leptis Magna brotnir niður og Trípólí, sem hafði verið veigaminnst þríborganna, dafnaði á þeirra kostnað.  Arabískir stríðsmenn spámannsins Múhameðs lögðu hana undir sig árið 645 og héldu henni nema á tímabilinu 1146-58, þegar normanar frá Sikiley náðu henni á sitt vald.  Spánverjar réðust á borgina árið 1510 og Tyrkir 1551 og gerðu hana að nýlenduhöfuðborg Ottómanaveldisins.  Frá 1911-1943 var hún í höndum Ítala og Bretar réðu henni til 1951, þegar landið fékk sjálfstæði.

Borgin skiptist í gömlu og nýju hverfin.  Gamla, víggirta borgin (medina) er niðri við höfnina og yfir henni gnæfir spænskur 16. aldar Kastali.  Þar er m.a. marmarasigurbogi Markúsar Árelíusar (163) og Gurgi-moskan (1883) og Karamanli (18. öld) með átthyrndri mínarettu.  En-Nagah-moskan, oft kölluð „Kamelmoskan” var reist á miðöldum fram á 17. öld.  Margar sögulegar byggingar nutu góðs af endurbygginarstyrkjum síðla á 20. öld.  Í nýja borgarhlutanum, sem hefur vaxið mjög eftir 1970, eru margar opinberar byggingar, leikhús og hótel auk fyrrum konungshallar.  Al-Fateh-háskólinn var stofnaður 1973 og tók við af Líbýuháskóla.

Trípólí er í stórri strandvin og þjónar héraði, þar sem bændur rækta ólífur, grænmeti, sítrusávexti, tóbak og korn.  Fiskveiðar eru mikilvægur atvinnuvegur og nokkrar niðursuðuverksmiður í borginni vinna aflann.  Iðnaðurinn byggist aðallega á litun og framleiðslu vindlinga og teppa.  Þarna er einnig olíubirgðastöð og verksmiðja, sem tappar gasi á kúta.  Borgin er í þjóðvegasambandi við Banghazi og Kaíró og skammt utan hennar er millilandaflugvöllur.  Trípólí er á þéttbýlasta svæði landsins, þannig að Íbúafjöldinn þar er rúmlega ein miljón.  Áætlaður íbúafjöldi borgarinnar sjálfrar árið 1988 var tæplega 600 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM