Líbýa sagan,
Flag of Libya


LÍBÝA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Núverandi landamæri Líbýju ramma inn risastórt landsvæði á stærð við samanlagt flatarmál Texas, Oklahoma, Louisiana og Mississippi í BNA.  Þetta mikla flæmi er aðallega eyðimörk, þótt nokkur svæði séu fallin til byggðar í norðvestur- og norðausturhornunum.  Líbýja hefur aldrei verið fjölbýlt eða voldugt ríki.  Nafn landsins, líkt og nafn Alsír, er nýyrði, sem Ítalar skírðu landið snemma á 20. öldinni.  Saga þessara landa er að mörgu leyti lík, bæði fyrir og eftir islam.  Þau höfðu og hafa hvort um sig náin samskipti innbyrðis og við grannana í austri og vestri, Túnis og Egyptaland.  Þegar landið var undir yfirráðum Tyrkja (Ottómana) var því skipt í tvö meginsvæði, hið vestara tengdist Trípólí og hið eystra Banghazi.

Sameining þessara svæða byggist því ekki á sögulegri þróun eða landfræðilegum þáttum, heldur tiltölulega nýlegri þróun, s.s. vegna áhrifa Sanusiyah-hreyfingarinnar allt frá 19. öld, ítölskum yfirráðum frá 1911 fram yfir síðari heimsstyrjöldina og olíufunda seint á sjötta áratugnum.  Sanusiyah-hreyfingin á aðallega fylgjendur í vesturhlutanum.  Grimmdarleg yfirráð Ítala stóðu skamma hríð.  Mestur hluti uppbyggingar í landinu á nýlendutímanum eyðilagðist í átökum styrjaldarinnar.  Skyndilegur olíuauður hefur verið bæði blessun og bölvun vegna breytinga á þjóðfélaginu og hraðrar efnahagsþróunar.

Ottómanatíminn.  Líbýja var hluti Ottómanaveldisins frá fyrri hluta 16. aldar en hafði stjórn á eigin málum líkt og Alsír og Túnis, þar sem Ottómanar réðu einnig.  Karamanli-konungsættin var við völd frá 1711 til 1835.  Síðasta árið komu upp deilur um réttinn til krúnunnar og Ottómanar gripu tækifærið og komu á eigin stjórn á ný.  Næstu 77 árin stjórnuðu landstjórar Tyrkja landinu og innleiddu svipaða nútímaþróun og varð í öðrum hlutum heimsveldisins.  Mikilvægasti atburður þessa tímabils var stofnun Sanusiyah-Islambræðralagsins, sem prédíkaði hreinræktaða trú, túlkaði kóraninn og efnisheiminn, þannig að samhyggð jókst meðal múslima og þjóða þeirra.  Fyrsta Sanusiyah-bræðralagið var stofnað í Líbýju árið 1843 í grennd við rústir Kýrenu.  Það breiddist aðallega út í þessu héraði en náði einnig til suðurhlutans.  Hinn mikli Sanusi, eins og stofnandinn var kallaður, flutti höfuðstöðvar sínar til Jaghbub-vinjarinnar við egypzku landamærin og árið 1895 flutti eftirmaður hans og sonur, Sidi Muhammad Idris al-Mahdi, þær sunnar í Sahara, til vinjarinnar Al-Kufrah.  Þótt Ottómanar kysu fremur útbreiðslu bræðralagsins en aukin, frönsk áhrif norðan Chad og Tibesti, höfðu þeir vakandi auga á pólitískum áhrifum þess.  Árið 1908 varð uppreins Ungu Tyrkjanna til nokkurra umbóta.  Árið 1911 réðust Ítalar, sem áttu m.a. bankahagsmuna að gæta, inn í Líbýju

Ottómanar hófu friðarumleitanir árið 1912 en Ítalar áttu í erfiðleikum með að brjóta innfædda undir sig.  Andstaðan gegn hernámi Ítala hélt áfram alla fyrri heimsstyrjöldina.  Að henni lokinni féllust Ítalar á kröfur þjóðernissinna í héraðinu Trípólítaníu og Sanusiyah-bræðralagsins, sem var öflugt í Kýrenu.  Samningaviðræðurnar fóru út um þúfur og Giuseppe Volpi, nýr og öflugur landstjóri, og fasistastjórnin á Ítalíu (1922) gerðu Líbýju að nýlendu.  Andstaðan á strandsvæðum Trípólítaníu var bæld niður (1923) en erfiðara var um vik í Kýrenu, þar sem Umar al-Mikhtar leiddi andspyrnu bræðralagsins, þar til hann var gómaður og líflátinn 1931.

Ítölsk nýlenda.  Á þriðja og fjórða áratugnum eyddi ítalska stjórnin stórfé til þróunar borga, vegabóta og uppbyggingar landbúnaðarsvæða fyrir ítalska innflytjendur.  Landnámið var hugmynd Benito Mussolinis (1935) og u.þ.b. 150 þúsund landar hans (18% af líbýsku þjóðinni) settust að í Líbýju fram að síðari heimsstyrjöldinni.

Öll þessi uppbygging fór í súginn í hernaðnum í Norður-Afríku í síðari heimsstyrjöldinni (1941-43) og í lok árs 1942 voru allir ítölsku landnemarnir horfnir heim frá Kýrenu og íbúarnir voru hirðingjar.  Nokkuð af efnahags- og stjórnsýsluumbótum Ítala í Trípólítaníu lifði stríðið af.  Eftir það var Líbýja fátækt, stjálbýlt og skipt í Kýrenu og Trípólítaníu, tvö héruð, sem höfðu mismunandi hefðir og siði, stjórnmála- og trúarskoðanir.

Sjálfstæði.  Eftir stríðið hófust umræður um framtíð Líbýju.  Brezki utanríkisráðherran lagði áherzlu á, að Sanusi-menn, sem veittu Bretum mikla aðstoð í stríðinu, yrðu ekki settir aftur undir ítalska stjórn (1942).  Umræðan tók fjögur ár og m.a. var stungið upp á, að Ítalar eða Sameinuðu þjóðirnar sæu um fjármál Líbýju, að Rússar fengju yfirráðin yfir Trípólítaníu og fleiri málamiðlanir voru ræddar.  Loks kvað allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna upp þann úrskurð, að Líbýja skyldi verða sjálfstætt konungsríki eigi síðar en 1. janúar 1952.

Samin var stjórnarskrá fyrir sambandsríki tveggja héraða, hvort um sig með eigin ríkisstjórn, og hinn Bretasinnaði leiðtogi Sanusiyah-bræðralagsins, Sidi Muhammad Idris al-Mahdi as-Sanusi, var kjörinn konungur í þjóðþinginu 1950.  Hinn 24. desember 1951 lýsti Idris I, konungur, landið sjálfstætt.  Stjórnmálaflokkar voru bannaðir og völd konungs voru alger.  Sanusi-menn í Trípólíhéraði sættu sig við við einveldi konungs vegna loforðs Breta um, að þeir yrðu ekki settir undir ítalska stjórn.  Konungurinn valdi Kýeníu sem dvalarstað.  Þar byggði hann nýja höfuðborg á svæði Sanusi-zawiyah í Al-Bayda.  Líbýja gerðist aðili að Arababandalaginu 1953.  Stjórn landsins neitaði Bretum landgöngu í Súezstríðinu 1956, þótt hún aðhylltist vestræna stjórnarhætti og siði.

Olíufundir.  Árið 1959 urðu mikil umskipti, þegar sárafátækir landsmenn, sem byggðu afkomu sína að hluta á leigu af bandarískum og brezkum flugherstöðvum, urðu moldríkir vegna olíugróða.  Miklar birgðir olíu fundust í báðum héruðum landsins og tryggðu afkomu landsins.  Skömmu eftir olíufundina þandist opinber umsýsla gífurlega út og mikil uppbygging hófst.  Efnahagur landsins blómstraði og verðlag hækkaði verulega.

Hinn 1. sept. 1969 steypti hópur ungra herforingja undir stjórn Muammar al-Qaddafi, ofursta, konungnum af stóli og lýsti yfir stofnun lýðveldis.  Nýja stjórnin, sem var mjög arabasinnuð, rauf hin nánu tengsl við Breta og BNA og hóf aðgerðir til hækkunar olíuverðs.  Stjórnin tók undir sig yfirráð yfir olíufyrirtækjunum (51%) eða þjóðnýtti þau að fullu.

Stjórn Qaddafis.  Líbýja, Egyptaland, Súdan og Túnis stefndu að sameiningu allra araba og hófu viðræðum tengslum við hana.  Þessum ríkjum tókst ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu vegna ágreinings um ýmis atriði.  Stjórn Qaddafis studdi fjölda hópa skæruliða víðs vegar í Afríku og Palestínumenn í Ísrael stjórnum þessara landa til mikils ama.  Í júlí og ágúst 1977 brutust út átök milli Líbýju og Egyptalands og fjöldi Egypta, sem starfaði í Líbýju, varð að halda heimleiðis.  Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu Qaddafis um einingu araba, voru samskipti stjórnar hans við flest arabaríki lítil.  Hann undirritaði samning um bandalag við Marokkó í ágúst 1984, en Hassan II, konungur Marokkó rifti honum í agúst 1986.

Stjórn Qaddafis kom á margs konar nýjungum í landinu.  Hinn 2. marz 1977 tilkynnti „þjóðþingið”, að eftirleiðis skyldi landið heita Sósíalistalýðveldi fólksins, Líbýja.  Árið 1981 fór að fjara undan tilraunum Qaddafis til að skapa sér sess sem öflugur leiðtogi í arabaheiminum, þegar eftirspurn eftir olíu á heimsmarkaði minnkaði og verð hennar lækkaði.  Qaddafi varð að gíra rekstur þjóðfélagsins niður og sums staðar brutust út óeirðir.  Andspyrnuhreyfingar gerðu skyndiárásir á hersveitir Qaddafis, sem fangelsaði marga meðlimi þeirra og tók þá af lífi.

Samband Líbýju við BNA, sem höfðu verið mikilvægur viðskiptavinur landsins, hraðversnaði, ekki sízt vegna stuðnings Qaddafis við arabíska hryðjuverkamenn.  Ríkjum, sem lýstu yfir viðskiptabanni á Líbýju, fjölgaði og hernaðarátök náðu hámarki, þegar Bandaríkjamenn gerðu loftárás á Trípólí og Banghazi í apríl 1986.  Grunur Bandaríkjamanna um framleiðslu efnavopna í landinu juku enn á spennuna eftir 1988.  Allt frá áttunda og níunda áratugi 20. aldar reyndu Líbýjumenn að ná yfirráðum yfir nágrannaríkinu Chad, þó aðallega málmauðugri landræmu á umdeildu landamærasvæði.  Þessir hernaðartilburðir Qaddafis leiddu til afskipta Frakka og Bandaríkjamanna enn á ný.  Árið 1987 urðu Líbýjumenn fyrir auðmýkjandi ósigri í bardaga við her Chad.  Stjórnmálasambandi við Chad var komið á á ný í október 1988.  Líbýjumenn neituðu að hafa stuðlað að hallarbyltingu í Chad árið 1990.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM