Líbýa íbúarnir,
Flag of Libya


LÍBÝA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landið skiptist í þrjú svæði, vesturhlutann (fyrrum Tripolitania-hérað), austurhlutann (fyrrum Kýreníu) og suðurhlutann (fyrrum Fezzen-hérað).  Tveir þriðjungar þjóðarinnar búa í vesturhlutanum, flestir í Trípólí og öðrum borgum við ströndina og á Nafusah-sléttunni.  Í kringum 20% búa í austurhlutanum, aðallega í Banghazi og öðrum borgum á ströndinni.  Aðrir búa í vinjabæjum í suðurhlutanum.

Langflestir íbúa sveitanna búa í strandvinjunum og stunda áveitubúskap.  Landskikarnir eru oftast í eigu bændanna.  Á Nafusah-sléttunni, þar sem erfiðara er um vatnsöflun, er stundaður sérhæfðari búskapur, sem byggist á ólífu- og ávaxtarækt samhliða kvikfárrækt.  Í austurhlutanum byggðist efnahagurinn á hirðingjalífi og hálffastri búsetu með smáræktun byggðri á nytjaplöntum, sem eru þurrkþolnar.  Landeignarétturinn er ekki lengur í höndum ættkvíslanna, heldur búa bændur sem leiguliðar gagnstætt bændunum í vesturhlutanum.  Í suðurhlutanum fer öll ræktun fram í eyðimerkurvinjunum.

Algengasta lífsmunstrið í sveitunum er föst búseta og ræktun.  Í vinjunum byggja bændur ræktunina á áveitum frá grunnum brunnum, sem dýr draga vatnið upp úr í geitaskinni (dalu) með reipi eða dælt er upp úr með rafmagns- eða dísildælum.  Landareignir í vinjunum eru litlar og dreifðar.  Meðalstærð þeirra er 2-3 hektarar á mann, sem er síðan skipt í 3-4 svæði.  Á láglendinu við ströndina búa bændur oftast á eigin landi og eiga víða rétt á almenningum til beitar og ræktunar korns.  Bæði í austur- og vesturhlutunum búa arabískir bændur á stórum, fyrrum evrópskum búgörðum, þar sem hvert landhólf er 5-250 hektarar.

Hirðingjar búa á þurrka- og hálfþurrkasvæðum, einkum í Akhdarfjöllum og steppunum á austurhlutanum.  Hópar hirðingja lifa aðallega á húsdýrum sínum (geitur, sauðfé og drómedarar) en stunda einnig skiptiræktun (korn).  Bedúínar flytjast suður um leið og beitarlönd eru tilbúin á haustin og halda þar kyrru fyrir þar til þessi skammtímabeitisvæði eru fullbeitt og snúa þá aftur til hæðanna í norðri.

Upphaflega voru þorpin framandi fyrirbæri í ættkvíslasamfélainu.  Eftir fyrsta hernám Tyrkja á 16. öld þróuðust borgir og þorp aðallega sem herstöðvar og stjórnsýslumiðstöðvar.  Mörg þorpin hafa verið byggð um aldir og smærri byggðir hófust oft sem mótsstaðir hirðingjahópa, sem dvöldu í vinjum eða á beitisvæðunum í hæðunum á sumrin.  Talið er, að berbar í vesturhlutanum hafi löngum búið í víggirtum þorpum á Nafusah-sléttunni.  Í suðurvinjunum voru þorpin bæði varnarstaðir fyrir dreifðar byggðir og vatnsból á leið úlfaldalestanna yfir Sahara.  Nútímaþróun hefur leitt til þess að þrop hafa orðið að borgum og ýtt undir aðstreymi úr sveitunum.

Trípólí og Banghazi eru aðalborgir Líbýu.  Þar býr rúmlega þriðjungur borgarbúa landsins og u.þ.b. fjórðungur íbúa landsins.  Íbúafjöldi Stór-Trípólí er á aðra miljón.  Borgin er raunveruleg höfuðborg landsins í stjórnmálalegum skilningi og mikilvægasta viðskiptamiðstöð þess.  Íbúafjöldi Banghazi, helztu borg austurhlutans, er rúmlega hálf miljón.  Nútímaborgirnar hafa þróast umhverfis gömlu borgarhlutana (medina) og útborgir og þorp hafa myndast í vinjunum í kring.  Fátækrahverfi, þar sem aðflutt fólk kemur sér fyrir af vanefnum eru einnig í grennd við báðar þessar borgir.  Uppbygging húsnæðis fyrir láglaunafólkið, sem býr í þeim, gengur hægt og sorphirðu-, frárennslis- og vatnsveitumál eru stórvandamál í þeim.

Auk Trípólí og Banghazi eru 12 aðrar stórar borgir í landinu   Í vesturhlutanum eru Gharyan, Al-Khums, Misratah, Tajura’, Suq al-Jum’ah, Janzur og Az-Zawiyah.  Í austurhlutanum eru Ajdabiya, Al-Marj, Al-Bayda’, Damah og Tobruk.  Þessar borgir eru aðallega viðskipta- og iðnaðarmiðstöðvar héraðanna.  Í sumum eru olíuhreinsunarstöðvar og framleiðsla ýmiss konar olíuvöru.

Langflestir Líbýumenn tala arabísku, sem er opinber tunga landsins, og eru sunnítamúslimar.  Þeir segjast vera afkomendur arabísku bedúínaættkvíslanna Banu Hilal og Banu Sulaym, sem réðust inn í Maghrib á 11. öld.  Í austurhlutanum eru áhrif Sanusiyah, 19. aldar herbræðralag islams, mikil.  Flestir minnihlutahópar Ítala og gyðinga, sem bjuggu löngum í Tripolitania (vesturhl.), hurfu brott eftir að yfirvöld lögðu undir sig eignir þeirra árið 1970.  Enn búa í landinu litilir hópar katólika og kopta.  Vestræn áhrif hafa dvínað í kjölfar vaxandi þjóðernishreyfingar araba en enska er enn þá töluð víða og notuð í viðskiptum og stjórnmálum.  Fjöldi farandverkamanna nam u.þ.b. 20% þjóðarinnar á síðasta hluta 20. aldar.  Ættkvíslarnar voru löngum grunnur samfélagsins í landinu og átta af hverjum tíu íbúum bjó í ættkvíslasamfélagi.

Berbar voru stærsti hópur upprunalegra íbúa landsins.  Aðalhópar þeirra voru luata, nefusa og adassa.  Þeir bjuggu í strandvinjunum og höfðu þar fasta búsetu.  Flestir þeirra hafa blandast hinu arabíska samfélagi nema á Nafusah-sléttunni, Awjilah, Hun, Socra og Zuwarah.  Berbar tala sitt eigið hamítamál en hafa tekið upp arabíska stafrófið.  Margir þeirra tala bæði berbamál og arabísku og flestir eru múslimar.

Innrásir araba hófst á 7. öld.  Hinar fyrstu voru gerðar með hervaldi og höfðu lítil áhrif á samsetningu þjóðfélagsins.  Banu Hilal-innrásin árið 1049 og árásir á Banu Sulaym síðar á 11. öld leiddu til mikilla fólksflutninga hirðingja frá Austur-Arabíuskaga til Líbýu.

Banu Sulaym skiptis í grófum dráttum í Banu Hebib, ‘awf, demmah og zegb.  Hebibar settust að í Kýrenu en aðrir fóru til Tripolitania.  Eftir að ættkvíslirnar komu undir sig fótunum ríkti tímabil óreiðu í landinu og fjandskapar milli ættkvísla, sem jókst við innrás arabísku ævintýramannanna frá Egyptalandi.  Í lok þessa tímabils stjórnleysis tók debbabfólkið stjórnina í mestum hluta Tripolitania.  Þegar komið var fram á 20. öldina voru 97% þjóðarinnar arabískumælandi múslimar af blönduðu kyni berba og araba.

Nokkrir aðrir hópar búa í landinu við hlið ættkvíslanna.  Það eru heilögu ættkvíslirnar (sharifs), sem eru upprunnar í Fezzan, marabout (múslimamunkar), sem sagðir eru búa yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum og komu frá Saquia el Hamra (nú Vestur-Sahara), koulouglisfólkið, sem er komið af tyrkneskum hermönnum (janissaries) og berbar og kristnar konur, sem þeir hafa blandað kyni við.

Heilögu ættkvíslirnar þykjast komnar af spámanninum í beinan legg.  Þessi meinti skyldleiki við hann skipar þeim á háan stall í múslimasamfélaginu, þar sem litið er til þeirra sem heilagra manna, sem sjá lengra en nefn þeirra nær.  Stór landsvæði eru undir stjórn þeirra í öllum vinjunum í Vestur-Líbýu.  Maraboutmenn eru afkomendur heilagra manna, sem þóttust einnig eiga ættir sínar að rekja til Múhammeðs.  Þeir byggðu frómleika sinna á meinlætalíferni einsetumanna.  Þeir settust að, þar sem þeir fundu hljómgrunn hjá íbúunum og stofnuðu söfnuði hinna hreinlífu.  Koulouglismenn hafa víða þjónað sem skrifarar, einkum í og í kringum þorp og borgir, síðan á tyrkneskum tíma.  Þeir tala arabísku og iðka islam.

Flutnignur þræla yfir Sahara, sem hélt áfram á dögum Tyrkja, kom mörgum ættkvíslunum í tengsl við svertingjana og menningu þeirra, einkum í Fezzan og Tripolitania.  Tungumál þeirra er ættað frá Mið-Sahara og Austur-Súdan, en flestir tala líka arabísku og hafa samið sig að Islam.  Litlir hópar tuaregfólks búa í suðvesturhlutanum, einkum í Ghadamis- og Ghat-vinjunum.  Þeir eru hirðingjar, sem eru smám saman að laga sig að fastri búsetu.  Tedafólkið í afskekktum byggðum í suðausturhlutanum er smám saman að færa sig til norðurs og til Al-Kufrah-vinjarinnar í leit að atvinnu.

Fólksfjölgunin í Líbýu er meðal hinna mestu í Afríku, rúmlega 3% á ári á síðari helmingi 20. aldar.  Gríðarlegt aðstreymi farandverkafólks síðan 1960 er hluti skýringarinnar en náttúruleg fjölgun var engu að síður einhver hin hæsta í Afríku alla öldina.  Dánartíðnin lækkaði nánast í heimsmeðaltalið og fæðingatíðnin hélzt há.  Næstum helmingur þjóðarinnar er yngri en 15 ára, þrátt fyrir mikinn barnadauða, sem er hinn hæsti í álfunni.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM