Pedro de Sintra,
portúgalskur sæfari, kom að ströndum Líberíu árið 1461. Landkönnuðir,
sem komu í kjölfarið, nefndu m.a. Stórhöfðafjall, Mesuradohöfða og
Pálmahöfða, sem eru áberandi í landslaginu á ströndinni. Svæðið varð
þekkt undir nafninu Kornströndin vegna melegueta-piparsins, sem var
virði þyngdar sinnar í gulli og aðalverzlunarvaran.
Í upphafi 19. aldar
fóru raddir um afnám þrælahalds og sölu að fá hljómgrunn og lagt var
til, að Kornströndin yrði framtíðarríki leysingja frá Ameríku. Árið
1818 heimsóttu tveir fulltrúar Bandaríkjastjórnar og tveir frá
Bandaríska nýlendufélaginu (stofnað 1816) Kornströndina. Eftir
misheppnaðar tilraunir til landnáms þar var undirritaður samningur 1821
milli fulltrúa nýlendufélagsins og höfðingja á svæðinu, þar sem félaginu
var tryggður eignarréttur Mesurado-höfða. Fyrstu amerísku leysingjarnir
lentu á Providence-eyju í ósum Mesurado-árinnar 1822. Skömmu síðar kom
Jehudi Ashmun, hvítur Bandaríkjamaður, sem varð hinn raunverulegi
stofnandi Líberíu. Þegar hann fór þaðan 1828, var búið að mynda
ríkisstjórn, lagaramma fyrir landnema og arðvænleg, erlend viðskipti
voru hafin. Byggðir mynduðust meðfram St. John-ánni, í Greenville og
Harper. Árið 1839 var Thomas Buchanan skipaður fyrsti landstjórinn.
Eftir lát hans árið 1841 tók Joseph Jenkins Robers, svertingi, sem
fæddist sem frjáls maður í Virginíu 1809, við embættinu. Hann færði út
landamæri svæðisins og gerði umbætur í efnahagsmálum.
Fyrri hluti
lýðveldisins. Roberts lýsti
Líberíu sjálfstætt lýðveldi 1847, þegar nýlendufélagið lýsti yfir, að
Líbería ætti ekki að vera háð því lengur. Sjálfstæði landsins var
viðurkennt á alþjóðavettvangi á árunum 1848-56, þótt BNA veittu ekki
viðurkenningu sína fyrr en 1862.
Samtímis
sjálfstæðisyfirlýsingunni var tekin upp stjórnarskrá byggð á hinni
bandarísku. Roberts, sem var kosinn fyrsti forseti landsins, hélt því
embætti til 1856. Á því tímabili tókst brezku og bandarísku sjóherjunum
að koma í veg fyrir alla þrælasölu frá höfnum Líberíu.
Árið 1871 tók
ríkisstjórn landsins fyrsta, stóra erlenda lánið í London (£
100.000.-). Þessi aðgerð naut ekki almennra vinsælda og enn óvinsælli
var nýi forsetinn, Edward J. Roye, sem var hrakinn frá völdum og
fangelsaður í Monróvíu. Roberts var kvaddur aftur til starfa og sat í
forsetastóli til 1876.
Á fyrstu árum
Líberíu voru stöðugar landamæraerjur við Frakka á Fílabeinsströndinni og
Breta í Sierra Leone. Líberíumenn reyndu að færa áhrifasvæði sitt inn í
landið, þótt þeir hefðu ekki fulla stjórn á strandsvæðinu. Tilraunir
til að leysa landamæradeilurnar enduðu með samningum við Breta 1885 og
Frakka 1892. Árið 1904 hóf Arthur Barkley, forseti (fæddur á Barbados)
beina samvinnu við ættbálkana í landinu. Eftir að hann fékk lán í
London 1907 efldi hann átak til endurbóta. Erlendar skuldir voru orðnar
mikil byrði og ríkisstjórninni var ókleift að beita stjórnsýslu lengra
en 35-40 km inn í land frá ströndinni. Árið 1919 afsöluðu Líberíumenn
sér rúmlega 5200 km2 innlandsins til Frakka vegna þess, að
þeir höfðu ekki bolmagn til að stjórna því.
Erlend afskipti.
Árið 1909 skipaði Theodore Roosevelt, forseti BNA, nefnd til að rannsaka
stjórnmála- og efnahagsástandið í Líberíu og lagði til
endurskipulagningu efnahagsmála. Alþjóðlegar bankastofnanir skutu saman
1,7 miljóna dollara láni með tryggingu í tollatekjum árið 1912 og
fulltrúi þeirra tók við tollum. Herforingjar í bandaríska hernum
skipulögðu landamæri ríkisins, þannig að stjórnsýslan varð mun virkari.
Hin nýja og efnilega ríkisstjórn varð illa fyrir barðinu á fyrri
heimsstyrjöldinni, því tekjur drógust saman um 75% og stöðugt hallaði
undan fæti í fjármálum.
Á þriðja áratugnum
fékk Firestone, hjólbarða og gúmmífyrirtækið, 400.000 ha land fyrir
gúmmíplantekru (1926). Samtímis tók fyrirtækið að sér að tryggja lán
til Líberíu. Með þessu láni tókst stjórninni að gera hreint fyrir sínum
dyrum og koma stjórnsýslunni á stöðugan grundvöll. Bandarískum
fjármálaráðgjafa var falið eftirlit með tollum og fjárreiðum ríkisins.
Árið 1952 tókst stjórn landsins að greiða upp allar erlendar skuldir,
sem hafði ekki tekizt síðan fyrsta erlenda lánið var tekið 1871.
Rannsókn
Þjóðabandalagsins vegna þegnaskylduvinnu og þærlahalds í Líberíu, sem
fór á stúfana eftir að sendingu farms af Afríkumönnum til spænskrar
plantekru í eigu Fernando Po, olli afsögn Charles King, forseta og Allen
Yancy, forsætisráðherra og kom í veg fyrir kosningu Edwin Barcley í
forsetaembættið 1931. Líbería bað Þjóðabandalagið um fjárhagsaðstoð og
rannsóknarnefnd var skipuð. Næstu þrjú árin voru gerðar árangurslausar
tilraunir til að veita neyðaraðstoð. Erlendir sérfræðingar voru fengnir
til að stjórna landinu, greiðslustöðvun var beitt vegna lánsins frá
Firestone og stjórnmálasambandi við Bretland og BNA var slitið. Eftir
að Þjóðarráðsnefndin dró sig í hlé tókst ríkisstjórn Líberíu að komast
að samkomulagi við Firestone á svipuðum nótum og nefndin hafði lagt til.
Síðari
heimsstyrjöldin.
Líbería fékk nýtt hlutverk eftir að síðari heimsstyrjöldin brauzt út. Í
stríðinu voru gúmmíplantekrur landsins og á Ceylon hinar einu, sem
birgðu bandamenn með latex-gúmmíi. Árið 1942 undirritaði ríkisstjórnin
varnarsamning við BNA. Í framhaldi hans voru lagðir vegir,
alþjóðaflugvöllur var byggður og höfn Monróvíu var gerð að
hafskipahöfn. Bandarískir dollarar urðu að löglegum gjaldmiðli í
landinu 1943 í stað brezks Vestur-Afríku-gjaldmiðils. Árið 1943 var
V.S. Tubman kosinn fyrst í forsetaembættið. Líbería lýsti yfir stríði
gegn Þýzkalandi og Japan í janúar 1944 og í apríl varð landið aðili að
Sameinuðu þjóðunum. Í desember 1960 varð Líbería aðili að Öryggisráði
Sameinuðu þjóðanna og tók eftirleiðis virkan þátt í málefnum Afríku og
alþjóðamálum. Árið 1963 varð landið stofnaðili að Samtökum um afríska
einingu.
Árið 1963 var Tubman
kosinn til að gegna embætti forseta fimmta kjörtímabilið í röð. Í maí
1964 undirrituðu BNA og Líbería samning um afhendingu fríhafnarinnar í
Monróvíu til Líberíumanna. Tubman var sjálfkjörinn 1967. Hann lézt í
London 23. júlí 1971, skömmu eftir endurkosningu fyrir sjöunda
kjörtímabilið. Eftirmaður hans, William R. Tolbert, varaforseti, tók
strax við völdum.
Verðlækkun á
aðalútflutningsvörum landsins, járngrýti og náttúrugúmmís, leiddu
efnahagskerppu yfir þjóðina á sjöunda og fram á áttunda áratuginn.
Erlend lán stóðu undir efnahagnum á því tímabili.
Hinn 12. apríl 1980
var Tolbert myrtur í hallarbyltingu, sem Samuel K. Doe, síðar
hershöfðingi, var forsprakki fyrir. Hann varð þjóðarleiðtogi og
formaður frelsisráðsins (PRC). Ráðið lofaði nýrri stjórnarskrá, sem
gekk í gildi 1986 og lýðræðislegum stjórnarháttum. Almennar kosningar
voru haldnar 1985 með þátttöku nokkurra stjórnmálaflokka en háværar
raddir voru uppi um svik. Doe varð fyrsti forseti annars lýðveldisins í
janúar 1986. Valdatíð hans lauk 1990 eftir borgarastríð, sem geisaði
aðallega milli krahn-, annars vegar, og gio- og mano-ættbálkanna.
Fjölþjóðlegur her Vestur-Afríkuríkja (ECOWAS) reyndi að koma á lögum og
reglu en leiðtogar uppreisnarmanna, Charles Taylor og Prince Johnson,
börðust um völdin eftir fall Does og aftöku hans. Ýmsar
bráðabirgðastjórnir voru við völd fram yfir miðjan 10. áratuginn. |