Beitilöndin uppi í hlíðum hásléttunnar
og fjalladölum eru óbyggð og þar hafast smalar við á sumrin langt
frá mannabyggðum með hjarðir sauðfjár og nautgripa. Sums staðar í dölunum eins og í Senqunyane er ræktað
hveiti, baunir og linsubaunir. Rúmlega
80% Sótómanna búa á láglendinu, sem nær mest 40 km breidd meðfram
Kaledónánni.
Sótómenn (Basuto) eru langfjölmennasti þjóðflokkur
landsins. Þeir lifa bæði
nútíma- og hefðbundu lífi, sem heldur velli, þrátt fyrir truflanir,
sem verða af farandlífi verkamanna.
Höfðingjaveldið heldur enn þá velli, þrátt fyrir stjórnmálaþróunina
síðan landið fékk sjálfstæði 1966.
Höfðingjarnir eru ábyrgir gagnvart konungi og annast
skipulagningu vinnu og verkefna og skiptingu lands, þótt lög frá
1979 skerði vald þeirra verulega á því sviði.
Eftir að landið varð
sjálfstætt hefur gætt talsverðra búferlaflutninga til höfuðborgarinnar
Maseru. Engu að síður búa
u.þ.b. 75% þjóðarinnar enn þá í dreifbýli.
Höfuðborgin státar af nútímakjarna og umhverfis eru úthverfi
með skrifstofubyggingum og erlenda hjálparstarfsmenn og starfsfólk
erlendra samtaka um þróunaraðstoð.
Fátækrahverfi eru á víð og dreif í grennd við borgina.
Maseru er eina stóra borg landsins.
Fjölskyldur og ættkvíslir halda enn hópinn í fjölda sveitaþorpa
og lögð er áherzla á tryggðarbönd innan hvers hóps eða fjölskyldu.
Þorpin eru misstór, allt frá stórfjölskyldu til fjögurra eða
fimm fjölskyldna. Þorpin
eru oft falleg og velstaðsett með góðu útsýni til fjalla.
Á sléttunum eru þau umkringd aloe-kaktusum og trjám.
Veggir og hurðir margra heimila eru skreyttar munstrum.
Húsin eru annaðhvort hringlaga eða ferhyrnd og byggð úr
torfi, óbrenndum múrsteini eða grjóti.
Þökin eru annaðhvort stráþök eða bárujárnsþök.
Hver fjölskylda býr í 2-3 kofum.
Hinn stærsti er notaður til íbúðar og hinir minni sem eldhús
og búr og svefnstaður fyrir börnin.
Húsnæði höfðingjanna er oftast í miðju þorpinu og
umhverfis það eru kofar aðaleiginkonunnar og hinna eiginkvennanna.
Torgið eða opna svæðið í hverju þorpi er fyrri framan kofa
höfðingjans og til hliðar við það eru kvikfjárréttir fyrir
nautgripi og hesthús. Þorpslífið
snýst aðallega um vinnuna á ökrunum, aðaltorgið, réttirnar, skólann,
kirkjuna og vígsluhúsið. Umskurður
er undirstöðuatriði í helgisiðunum, þegar ungir drengir eru vígðir
til manndóms og verða fullgildir meðlimir fjölskyldunnar, ættkvíslarinnar
og þjóðarinnar. Margir
ungir drengir eru enn þá smalar öll unglingsárin en konur og ungar
stúlkur annast að mestu erfiðisvinnuna á ökrunum.
Eftir að landið fékk sjálfstæði hafa verið lagðir varanlegir
vegir til afskekktra þorpa á láglendinu, malarvegir á hálendinu
fyrir aldrifsbíla og flugvellir byggðir fyrir innanlandsflug.
Samt sem áður er hinn smávaxni og kröftugi basotho-hestur enn
þá mikið notaður í sveitunum og sums staðar er einungis hægt að
ferðast gangandi eða ríðandi. Karlar
og konur klæðast gjarnan marglitum teppum vegna mismunandi loftslags
og sothohatta, sem eru ofnir úr stör og keilulaga með skrítinn
toppskúf.
Lesótó er þéttbýlt land í samanburði við önnur lönd álfunnar,
þrátt fyrir hve fjöllótt það er.
Fólksfjölgunin er hægari en víðast annars staðar en samt
hærri en heimsmeðaltalið. Stór hluti íbúanna býr á vesturláglendinu, þar sem
þéttbýli er mest. Rúmlega
40% landsmanna eru yngri en 15 ára.
Lesótó er fátækt land og náttúruauðæfi þess eru ónóg.
Ónýttar birgðir úrans í grennd við Teyateyaneng, 50 km
norðaustan Maseru, gætu rétt efnahaginn við.
Rekstur þjóðfélagsins væri ekki mögulegur án nálægðar
Suður-Afríku, sem er í tollabandalagi við Lesótó og deilir
vegakerfi með því. Fjöldi
Lesótómanna sækir atvinnu til nágrannans, þrátt fyrir auknar
hömlur um miðjan níunda áratug 20. aldar.
Næstum þriðjungur vinnufærra karlmanna eru atvinnulausir.
Flest vinnandi fólk starfar fyrir ríkið eða í landbúnaði.
Lunginn af tekjum ríkisins fer í launakostnað. Á tíunda áratugnum byggðist rúmlega helmingur tekna ríkisins
á tollum en það hefur verið að reyna að auka sjálfstæði sitt með
innheimtu tekju- og söluskatts. Í
landinu starfa nokkur verkalýðsfélög.
Sótómenn tala sótó,
sem er af sama stofni og bantutungumálin kennd við Níger-Kongó.
Þessar tungur samhæfðust vegna sameiginlegrar hollustu við
konungsætt Mshweshwe, sem er rakin til Moketeli-greinar Kwenaættarinnar.
Innbyrðis skipting milli goðorða og innan konugsættarinnar
hefur haft pólitísk áhrif en út á við kemur þjóðin fram sem ein
heild. Sótó og enska eru
opinber tungumál. Lítill
en voldugur hópur zulumanna talar eigin tungu.
Í landinu búa nokkur þúsund manna af asísku eða blönduðu
kyni. Flestir Evrópumenn
í landinu eru kennarar, trúboðar, hjálparstarfsmenn, tæknifólk og
þróunarráðgjafar.
Landið er allt of ásetir fólki, þannig að brottflutningur er mikill. Um miðjan tíunda áratuginn var rúmlega fjórðungur
vinnufærra karla starfandi í Suður-Afríku.
Flestir þessara farandverkamanna eru yngri en 40 ára og ungum
konum, sem sækjast eftir vinnu í Suður-Afríku, löglega eða
ólöglega, fjölgar stöðugt.
Flestir Sótómenn eru rómversk-katólskir, evangelistar, í
öldungakirkjunni eða angikanar. Óháðir
söfnuðir starfa einnig í landinu ásamt síonistum.
Þriðjungur landsmanna aðhyllist trú forfeðranna. |