Kongófljótið, sem rennur aðallega um Kongólýðveldið,
er önnur lengsta á Afríku og ein hin lengsta í heimi. Fljótið er u.þ.b. 4375 km langt og 0,8-16 km breitt.
Það verður til úr ánum Lualaba og Luvua í Suður-Kongó og
rennur fyrst til norðurs til Stanleyfossa, rétt sunnan miðbaugs.
Þaðan líkist árfarvegurinn stórum og óreglulegum boga til
norðausturs, vesturs og suðurs unz fljótið hverfur í Atlantshafið
(mest 34.000 m³/sek). Í
fljótinu eru rúmlega 4000 eyjar og 40 þeirra eru rúmlega 16 km
langar. Sunnan ármóta
Ubangi, aðalþverárinnar úr norðri, að Malebovatni (Stanleyvatni)
markar fljótið landamærin að hinu Kongólýðveldinu.
Innan hins 4,1 miljóna ferkílómetra vatnasviðs fljótsins eru
óteljandi þverár og lækir, sem falla til þess (Aruwimi, Kasai,
Lomami) og mynda aðalsamgönguleiðirnar í Mið-Afríku.
Innan Kongólægðarinnar er stærsti hluti ríkjanna Norður-Angóla,
Vestur-Sambíu, Tansaníu og Suður-Miðafríkulýðveldið. Allt þetta stóra svæði er þakið þéttum hitabeltisgróðri,
þéttustum þó í árdölunum.
Á leið sinni niður vesturhluta landsins myndast fjöldi
flúða (cataracts), sem eru kallaðar Livingstonefossar.
Syðstu flúðirnar eru skammt norðan Matadi, aðalhafnarinnar
í árósunum. Þessi hluti
fljótsins, sem er u.þ.b. 400 km langur, er ekki skipgengur.
Neðan Matadi er fljótið skipgengt til sjávar, u.þ.b. 134 km
leið. Eini óskipgengi
hluti efri hluta fljótsins er röð flúða við Stanleyfossa.
Margir fljótabátar sigla samkvæmt áætlun á þessum slóðum
(1650 km), bæði á fljótinu og mörgum þverám þess.
Heildarlengd skipgengu hluta fljótsins er í kringum 14.500 km.
Talið er, að fyrsti Evrópumaðurinn,
sem sigldi inn í ósa Kongófljótsins á árunum 1482-84, hafi verið
portúgalski landkönnuðurinn Diogo Cam.
Hann lýsti svæðið umhverfis ósana portúgalskt land og
skildi eftir marmarasívalning á árbakkanum til merkis um uppgötvun sína.
Fljótið fékk nafnið Súlufljót af þessum atburði.
Síðan var það kallað Zaïre, sem líkist orði, sem innfæddir
nota um á eða fljót, og það leiddi til núverandi nafns.
Aðrir Evrópumenn komu í kjölfarið til að stunda viðskipti
við innfædda en rúmlega þrjár aldir liðu þar til efnt var til alvörulandkönnunar.
Árið 1816 náði brezkur leiðangur til staðar milli núverandi
Matadi og Kinshasa en neyddist til að snúa við vegna veikinda leiðangursmanna.
Skozki landkönnuðurinn og trúboðinn David Livingstone komst að
Lualaba-ánni árið 1871. Fyrsta
könnun aðalfljótsins kom í hlut landkönnuðarins Henry M. Stanley.
Hann ferðaðist niður Lualabaána og Kongófljótið árin 1876
og 1877, 2575 km leið. Tiltölulega
greið siglingaleið um Kongófljótið og margar þveránna gerði síðari
nýlenduþróun í Mið-Afríku auðveldari og fýsilegri. |