Kenja villidýrasvæðin í norðurhlutanum,


KENJA
VILLIDÝRASVÆÐIN í NORÐURHLUTANUM

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

RhinoSamburuþjóðgarðurinn er norðan axlar Kenjafjalls, þar sem gríðarstórt runnalendið milli fjallsins og Turkanavatns hefst og nokkuð lengra þó.  Hirðingjar, sem eru litskrúðugri en maasaimenn, reika um verndarsvæðið með hjarðir sínar.  Þar lifa einnig margar dýrategundir, sem eru sjaldgæfar annars staðar í landinu, s.s. Grevy sebrahestar, beisa antílópur, bláleggjaði, sómalski strúturinn og hin fagra gerenuk antílópa, sem stendur oftast aðeins á afturfótunum.

Það er sérstök sjón að sjá yfir 104 km², rauðbrúna sléttuna til stapafjallsins Ololokwe í bakgrunni og á leiðinni þangað setja græn skógarbelti svip á landslagið meðfram Ewaso Nyiroánni (Brúná).  Nyiroáin streymir frá Aberdaresfjöllum í vestri og hverfur í Lorianmýrlendið handan Samburu.  Áin breiðir mest úr sér á verndar-svæðinu og bugðast þar lygn og myndar kjörlendi fyrir flóðhesta og krókódíla.  Stórar hjarðir fíla reika um hæðirnar í Samburu á daginn og staldra við í Ewaso Nyiro á kvöldin, þar sem þeir bera við blóðrautt sólarlagið.  Þarna skartar landslagið líka akasíutrjám, doumpálmum og tamarindtrjám, sem símalandi apar una sér í og litfagrir turacofuglar (haukaætt) eiga sér hæli.

Þjóðgarðurinn Buffalólindir er næstum eins stór og Samburu, 104 km², og landið er svipaðrar náttúru.  Aðalmunurinn er tærar lindir, sem spretta fram og laða til sín dýr af stóru svæði.

Shaba verndarsvæðið er hið þriðja og stærsta.  Það er sunnan Brúnár (Ewaso Nyiro) og skipar sérstakan sess í verndunarsögu Kenja.  Þar var rithöfundurinn Joy Adamson myrt snemma árs 1980.  Henni auðnaðist ekki að ljúka ritverki, sem fjallaði um tilraunir til að laga dýragarðshlébarða að villtu lífi á svæðinu.

Nafn verndarsvæðisins er dregið af keilulaga gíg.  Ferðalangar verða að fara yfir úfið hraun hans og fleiri gíga til að komast inn á þetta afskekkta svæði.  Brúnárbakkar eru athyglisverðasti hluti þess, þar sem hún er á leið sinni til Lorianmýranna.  Margar litlar hæðir rjúfa tilbreytingarleysi landslagsins í Shaba og fjórar lindir gera það meira aðlaðandi en nágrannasvæðin.  Miklar regnskúrir gera vegaslóðirnar stundum ófærar öðrum farartækjum en jeppum og skapa þannig ímynd afskekktra öræfa í hugum ferðamanna á þessum slóðum.

Meru þjóðgarðurinn er líklega kunnastur utanlands sem Elsuland.  Elsa, hin fræga ljónynja Joy Andamson, var vanin við villt líf í þessum þjóðgarði auk fleiri ljóna, sem komu fram í kvikmyndinni „Fædd frjáls”.  Blettahlébarðinn hennar, Pippa, fékk líka frelsi á þessum slóðum og eignaðist tvisvar sinnum hvolpa.  Garðurinn er ekki nema u.þ.b. 777 km² og algerlega ósnortinn.  Þar er tiltölulega gott vegakerfi og því er óvíða betra að aka um og skoða umhverfið.  Ferns konar ferðir eru skipulagðar um Meru:

Mýrahringurinn er farinn um norðvesturhluta Meru samhliða aðalveginum frá Murerehliðinu til höfuðstöðva garðsins.  Þarna er aragrúi villtra dýra, þ.á.m. meirihluti hinna 5000 buffalóa, sem lifa í þjóðgarðinum.  Karlkyns fílar una sér líka vel þarna og skilja gjarnan kýrnar og kálfana eftir sunnar á runnalendinu um tíma.

Sléttuhringurinn liggur um vegakerfi í kringum höfuðstöðvarnar og allt að hinni einmanalegu Mughwango-hæð í vestri, Hlébarðakletti í norðri, Golokampnum í austri og að vaðinu á Rojeweroánni, þar sem vegurinn heldur áfram að Tanaánni í suðri.  Þarna eru stórar hjarðir antílópna, gasellna, sebrahesta, gíraffa og annarra dýra, sem halda sig á sléttunni.  Þarna er eitthvert bezta svæði Kenja til að fylgjast með ljónum.

Sígræni hringurinn (Combretum) teygist langt til vesturs frá Nashyrningsöldu og um Kioluslétturnar.  Vegurinn að Urahliðinu kemur líka inn á þennan skoðunarhring og frá honum liggja nokkrar leiðir að Pungurusléttunum lengst í vestri.  Nashyrningar sjást aðallega á þessu svæði.  Þar eru líka fílar, buffalóar og fleiri sléttudýr.

Commiphora runna- og Tanahringirnir liggja um þurrar og rykugar runnasléttur að skógarræmum við Ura- og Tanaárnar.  Ekin er 19 km leið meðfram ánum, þar sem hlébarðar, kudu- og gerenukantílópur og orysgasellur spóka sig auk krókódíla og flóðhesta í ánum.

Merusvæðið var orðinn snautt af dýrum vegna ofveiði árið 1959, þegar wamerufólkið ákvað að gera það að verndarsvæði án tilstillis yfirvalda.  Síðan hefur dýrastofnunum vaxið fiskur um hrygg, einkum buffalóarnir, sem sjá má í allt að 300 dýra hjörðum í kringum mýrarnar og árnar.  Steingervingar sýna, að þar lifðu hvítir nashyrningar og reynt hefur verið að koma þeim á legg aftur með aðfluttum dýrum.  Veiðiþjófar skutu nokkra þeirra á áttunda áratugnum en þeirra, sem eftir lifðu er vel gætt á afgirtu svæði nærri aðalstöðvum þjóðgarðsins.  Árum saman voru hlébarðar fangaðir annars staðar í Kenja og fluttir til Meru, þannig að fjöldi þeirra er talsverður.  Rúmlega 300 tegundir fugla hafa fundizt á svæðinu.  Í ánum eru krókódílar, flóðhestar og nokkrar fiskategundir, sem leyft er að veiða gegn gjaldi.

Fáfarnari svæði Meruþjóðgarðsins eru mörg undurfögur og sum virðast ekki vera þessa heims.  Við Adamson-fossana í Tanaánni hafa granítklettar veðrast þannig, að þeir líkjast helzt nútímahöggmyndum.  Á björtum morgnum sjást snævi þaktir tindar Kenjafjalls í suðvestri en mesta prýðin á sjóndeildarhringnum eru Nyambeni-fjöllin með sólina í baksýn.  Það er rómantísk og fögur sjón.  Jarðfræði þjóðgarðsins er mjög áhugaverð.  Mestur hluti yfirborðsins er ólínvínblágrýti, sem hefur runnið frá Nyambenifjöllum.  Ofan á því er brúnn og grár jarðvegur með gjallhnullungum.  Sums staðar trónir blágrýtisundirlagið í gegn og rýfur hinn einhliða svip sléttunnar.

Rojewerooánin skiptir garðinum nokkurn veginn í tvennt og tvö landslagssvæði.  Öðrum megin er opið graslendi að rótum Nyambenihæðanna og hinum megin er þéttvaxið runnasvæði (commiphora), sem teygist 480 km til norðurs og austurs að ströndinni.  Þetta þurrlenda svæði er þakið óteljandi sandöldum.

Í þjóðgarðinum eru 19 ár og lækir og 15 þeirra renna allt árið.  Þar að auki er fjöldi mýra og uppsprettna á stöðum, þar sem hraunin eru þunn og þar sem jarðgrunnurinn er sprunginn frá suðvestri til norðausturs milli Kinna og Kilimakieru.  Aðaluppspretturnar og mýrlendin eru Kithima ya Mugumu (fíkjutrjáalindir), Mureralindir, Bisa-nadi-, Buguma- og Mulikamýrar, þar sem eina hótelið með allri þjónustu er að finna.

Austur- og suðurhlutar garðsins liggja að fjórum öðrum verndarsvæðum.  Norðan og austan Tanaárinnar eru Bisanadi- og Raholeverndarsvæðin.  Sunnan árinnar eru Norður-Kitui- og Koraverndarsvæðin.  þau eru öll lítt eða óundirbúin til móttöku ferðamanna og einungis hægt að komast um þau á jeppum um mjög vonda og erfiða slóða.  Árið 1990 var byggt hótel í Kora.

Tanaáin.  Ein hinna vinsælli safarileiða liggur meðfram Tanaánni til strandar.  Skipuleggjendur slíkra ferða hafa hana ekki venjulega á boðstólnum, en hún er fær jeppum og ferðamennirnir verða að vera sjálfum sér nægir um allan útbúnað og fæði á leiðinni.  Tana er stærst áa í Kenja, u.þ.b. 600 km löng (1014 km sé öllum bugðum fylgt).  Upptök hennar eru fyssandi lækir í hlíðum Kenjafjalls og Aberdaresfjalla, sem sameinast í straumharða móðu.  Síðan hægir hún á sér og bugðast um láglendið, einkum í hinum illaðgengilega Kora-þjóðgarði, u.þ.b. 130 km frá Garissa.  George Adamson eyddi miklum tíma í Kora (Born free), þar sem ræningjar myrtu hann árið 1989.  Það eru ekki ýkja mörg dýr í þessum þjóðgarði, einkum fílar, ljón, kudu-antílópur og vatnabuffalóar, en áin er sérstaklega falleg á þessu svæði og mikið er um krókódíla og flóðhesta.  Sunnan Kora er runnasvæðið prýtt nokkrum tegundum akasíutrjáa.  Þrátt fyrir þurrkinn á þessu svæði, eru þar margar tegundir villtra dýra og húsdýra, þegar og þar sem vatn finnst.  Sum dýranna, s.s. kuduantílópurnar, þurfa ekki aðgang að vatnsbólum, því að safinn úr jurtum og blöðum þeirra nægir þeim.  Þegar vatnsból þorna upp, verður áin aðalbrynningarstaður dýranna.

Hirðingjaland.  Hirðingjar af sómölskum uppruna og ormafólkið hefur aðlagast aðstæðum á þurrum svæðum og færir sig á milli vatnsbóla og beitilanda, þar sem það dvelur unz allt er bitið í rót niður og landeyðing fylgir í kjölfarið.  Merki þessa sjást greinilega umhverfis bæinn Garissa, sem er stjórnsýslumiðstöð í norðaustur-héraðinu.  Garissa er enn þá nokkurs konar frumherjabær, þar sem var fyrrum aðalbækistöð baráttunnar gegn glæpagengjum shiftamanna.  Sómalskt fólk er í meirihluta í norðausturhluta landsins, sem liggur að sólmölsku landamærunum.  Þetta stolta og sjálfstæða fólk er menningarlega ólíkt flestum ættbálkum Kenja.  Öldum saman hefur það ásamt gallafólkinu verið á leið suður og vestur frá upprunalegum heimkynnum sínum í Afríkuhorninu (Horn of Africa) í leit að betri beitilöndum.

Þyrpingar klasturslegra graskofa þeirra, umkringdar nautgripum og drómedörum, eru algeng sjón norðan og austan Tanaárinnar.  Listilega útskornir gripir og vefnaður stingur í stúf við kofaskriflin.  Smástólar, sem eru notaðir sem höfuðhægindi, eru sérstaklega vel unnir.  Korakorafólkið er meðal þeirra, sem búa í kringum Garissa og stunda landbúnað.  Nokkrar undirættkvíslir pokomo búa neðan þorpsins Nanigi.  Allt er það fólk af bantuþjóðflokknum, sem er í bandalagi við þjóðflokkana á ströndinni.  Bantufólkið er ólíkt nágrönnum sínum, sómölum og ormafólkinu, að öllu leyti og sögulegir óvinir þess.  Það getur ekki byggt ræktun sína á úrkomunni einni, þannig að það er algerlega háð ánni til framfæris.  Það holar út eintrjáninga til veiða og ferðalaga milli þorpa.  Rakinn í árbökkunum gerir því kleift að rækta banana og regluleg flóð í ánni styðja við ræktun hrísgrjóna og maís.  

Áin er bæði lífgjafi og eyðingarmáttur, því að flóðin í henni geta valdið miklu tjóni fari þau úr böndunum.  Af þessari ástæðu hafa áætlanir um geysimikil áveitukerfi verið í bígerð.  Sunnan Garissa heldur þurrt runnalendið áfram.  Neðan við Hola verður landið smám saman grænna vegna meiri úrkomu.  Þarna er líka lífvænlegra fyrir ýmsar villtar dýrategundir, sumar þeirra mjög sjaldséðar.  Á austurbakka árinnar, í kringum Hola og á ræmu að sómölsku landamærunum, eru einu heimkynni hunterantelópunnar með hörpulöguðum hornum.  Lítið er vitað um þessa dýrategund en hún sést stundum í nánd við Ijara.  Arawaleverndarsvæðið var stofnað sérstaklega til verndar þessum dýrum.

Tanasvæðið er líka heimkynni margra frumskógategunda, þar á meðal tveggja sjaldgæfra og einstakra í Kenja, rauðra colobusapa og typptra mangabeyapa.  Báðar þessar tegundir finnast langoftast í Vestur-Afríku og tilvist þeirra við Tanaána gefur til kynna, að fyrrum hafi frumskógabelti náð yfir alla álfuna.  Dýrin halda sig á 64 km löngu belti milli þorpanna Wenje og Garsen.  Framtíð þeirra hefur verið ógnað með eyðingu skóga og landbúnaði pokomofólksins.  Landeyðing var einkum áberandi í shiftaátökunum, þegar allt pokomofólkið á austurbakkanum flúði heimili sín og varð að hefja nýtt líf á vesturbakkanum.  Í grennd við Wenje er verndar-svæði fyrir prímata til að verja síðustu heimkynni apanna.

Suðurmörk svæðis þessara sjaldgæfu apategunda eru í grennd við Garsen, þar sem flæðislétturnar enda í víðum, þríhyrndum og grasi vöxnum óshólmunum við Kipini og Karawa.  Á þessum slóðum beitir gallafólkið búsmala sínum á þurrkatímanum.  Þessir þjóðflokkar, sem tala oromomál, búa í hópum milli eþíópsku landamæranna og strandar Kenja.  Þjóðflokkurinn, sem býr syðst á þessu svæði, er kallaður orma.  Hann talar sómalska tungu og iðkar svipaða menningu en hús hans eru hærri og meira til þeirra vandað, enda heldur fólkið lengur kyrru fyrir í óshólmunum og grösugum svæðum við ána.  Lífsvenjur þessa fólks endurspegla enn þá einn þáttinn í afkomu hirðingja.  Það heldur kálfum og kúm að beit á safaríku graslendinu í óshólmunum og lifir á mjólkinni en nautunum er beitt á rýrari svæði langt í norðri og vestri.  Nautin eru ræktuð til manneldis eða til að selja ríkinu eða aröbum fyrir peninga.  Seldu nautin eru síðan send til býla á hásléttunum, þar sem þau eru stríðalin til slátrunar.

Landkönnuðaleiðin.  Óshólmarnir eru líka sögulega áhugaverðir, því að þar lágu höfuðleiðir inn í landið áður en Ugandajárnbrautin var lögð um aldamótin 1900.  Margir landkönnuðir, Charles New, Karl Peters, Denhardtbræður o.fl. vonuðu, að þeir kæmust um Tanasvæðið inn í landið.  Frásögnum þeirra um ógnir moskítóflugna, sjúkdóma og flóða ber saman.  Áhrif trúboða meðal innfæddra á óshólmasvæðinu voru mjög áberandi á fyrstu könnunarárunum og hluta pokomofólksins var snúið til kristinnar trúar.  Það var kallað malachinifólkið til að greiningar frá ættmennum þess við ána, ofan Garsen, sem er að mestu múslimar.  Islömsk áhrif eru jafngömul eða lítið eitt eldri en hin kristnu.  Ormafólkið, Sómalar og svahilifólkið í grennd við Kipini hefur verið múslimar mun lengur. 

Þjóðgarðarnir og lögreglan halda úti vel þjálfuðum björgunarsveitum, sem taka til höndum, ef einhver gestur kemur ekki fram eða lætur í sér heyra innan 36 tíma eftir að heimsókn á að vera lokið.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM