Kenja vagga mannkyns,


KENJA
VAGGA  MANNKYNS

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Á míósenskeiðinu, fyrir 25 milljónum ára, var Kenya stór háslétta, sem hallaði lítillega í átt að Indlandshafi.  Miklir skóga huldu mestan hluta landsins og þar lifðu margar tegundir mannapa (dryopithecine).  Ef til vill var ein þeirra fortegund mannkyns.  Þessi veröld umbyltist, þegar jarðskorpa þessarar hásléttu fór að rísa og eldgos hófust.  Mörg há eldfjöll mynduðust og veðruðust síðan í núverandi myndir Kilimanjaro-, Kenya- og Elgonfjalla.  Við aukið landris sprakk jarðskorpan frá norðri til suðurs og í vestri varð landsig, þar sem Viktoríuvatn myndaðist.

Sprungan í jarðskorpunni stækkaði og breikkaði í jarðhræringum á margra milljóna ára tímabili og Misgengisdalurinn mikli myndaðist.  Hann teygir sig frá Jórdan til Mósambík.  Í Kenya streymdu ár niður frá hálendinu beggja vegna misgengisins og mynduðu mörg stöðuvötn, sem eru misstór eftir úrkomu.  Myndun háreistra fjalla og misgengisins hafði mikil áhrif á þróun gróðurs og dýralífs á forsögulegum tímum.  Fjallgarðarnir mynduðu regnskugga hlémegin og þar með eyðingu frumskóga, einkum á heitari og láglendari svæðum, og steppur mynduðust í staðinn.


Talið er að einhver apategundin hafi flutzt út úr skóginum inn á grasslétturnar og aðlagast aðstæðum þar.  Þessir apar urðu smám saman að frummönnum, sem breyttu umhverfi sínu miklu meira en aðrar dýrategundir.  Þessir frummenn lifðu í misgengisdalnum, við vötn og ár, þar sem nóg var af fæðu.  Þeir gengu næstum uppréttir og höfðu því not af höndum sínum til annars en að styðjast við.  Þar hafa fundizt ævaforn eldstæði með matarleifum og steináhöldum, sem varðveittust undir vatnaseti eða ösku frá eldfjöllunum.  Á þessu svæði er hægt að rekja þróunarsögu mannsins í 8 milljónir ára.

Fátt var kunnugt um þetta þar til ungur og áhugasamur Kenyamaður, Louis Leakey, gróf upp fjöldann allan af steingervingum í Sigdalnum árið 1926.  Sem stúdent og könnuður fyrir Cambridgeháskóla leiddi hann marga fornminjaleiðangra í Kenya og safnaði mörgum tonnum af gripum og steinrunnum beinum apa og frummanna frá 25 milljón ára tímabili.  Leakey kvæntist Mary, sem hann hitti í Cambridge, og saman lögðu þau grunninn að þeim skilningi, sem við höfum á þróun mannkynsins í Austur-Afríku.  Mikilvægasta verk þeirra fór fram í gilinu Olduvai í Tansaníu á árunum 1950-1980.  Gilið er djúp sprunga á Serengeti sléttunni með reglulegum setlögum.  Þar reyndu hjónin að rekja þróunarsöguna frá því fyrir 1,8 milljónum ára til fyrir 20.000 árum.  Eftir merkilegar uppgötvanir í Suður-Afríku komu þau fram með kenninguna, að tvær tegundir manna hafi þróast samtímis á fyrri hluta ísaldar.  Önnur var lítil og grönn (Australopithecus africanus) og hin stærri og þyngri (Australopithecus robustus). 

Louis Leakey var sannfærður um, að hann hefði fundið þriðju manntegundina, sem væri skyldari okkur.  Steingervingum hennar var raðað saman og hún var kölluð „Homo habilis” vegna þess, að talið var, að hún hafi búið til grófgerð áhöld, sem fundust í lægri setlögum gilsins.  Að áliti Leakeys lifði þessi tegund áfram en „Australopithecus” dó út.  Á árunum 1960-1980 reyndu vísindamenn um allan heim að túlka niðurstöðurnar.  Sumir þeirra álitu að aðeins hefði verið um eina tegund manna að ræða og stærðarmunur steinrunninna beina sýndi karl- og kvenkyn sömu tegundar.  Aðrir féllust á kenninguna um tvær tegundir  og enn aðrir studdu kenningar Leakeys um þrjár tegundir.  Á þessu stig blandaði næstelzti sonur Leakeys, Richard, sér í umræðuna.  Árið 1968 dvaldist hann í búðum á austurbakka Turkana (Rudolfsvatns) við stað, sem heitir Koobi Fora.  Næstu 15 árin uppgötvaði hann geysimikið af miklu áhugaverðari steingervingum frummanna og annarra dýra frá plíosen og ísöld en áður höfðu fundizt.  Þessar uppgötvanir urðu þó ekki til þess að leysa gátuna.

Árið 1972 gerði Bernard Ng'eneo, meðlimur í leiðangri Richards frá Þjóðminjasafni Kenya, einhverja mestu uppgötvun þessarar aldar, þegar hann fann frábæra steingervinga beina, sem stóðu út úr sandlagi í bröttu gili.  Síðar var staðfest, að beinin væru úr höfuðkúpu frummanns.  Gilið var rannsakað gaumgæfilega og fleiri beinbrot komu í leitirnar.  Þegar búið var að raða beinunum saman kom í ljós höfuðkúpa, sem gerði vísindamenn alveg agndofa.  Henni var aldrei gefið nafn, heldur merkt númerinu 1470.  Hátt enni höfuðkúpunnar og stórt heilarými skipaði henni án alls vafa meðal frummanna, þótt efri gómurinn væri einkennilega frumstæður.  Þessi bein fundust í setlögum, sem talin eru vera 2,9 milljón ára.  Leakey fjölskyldan var frá sér numin, því að þarna þóttust þau finna kenningunni um þriðju tegundina stoð.  Louis Leakey dó skömmu síðar sama ár sannfærður um, að hann hefði haft rétt fyrir sér. 

Frummannsgátan.  Kenningar Leakeys voru teknar gildar með hálfum huga um tíma.  Eftir röð rannsókna var komizt að þeirri niðurstöðu, að nr. 1470 væri nær því að vera 2,2 milljón ára gamall.  Það hefur verið stungið upp á því, að hann gæti verið snemmgróin grein af meiði Australophithecus, þótt umræðan sé enn þá opin.  Árið 1976 var önnur hauskúpa grafin upp.  Hún var af Homo erectus, afkomanda Homo habilis og óumdeilanlegum forföður Homo sapiens, nútímamannsins.  Þessi hauskúpa var aldursgreind og talin 1,6 milljón ára, þegar A. robustus var á lífi og Homo erectus var greinilega ekki kvenkyns.

Skömmu fyrir 1980 fundust margar mikilvægar vísbendingar í Hadar í Afarþríhyrningnum í Eþíópíu og Mary Leakey uppgötvaði ýmislegt við Laetoli í Tansaníu.  Beinin, sem hún fann voru a.m.k. 3,5 milljón ára, og flestir vísindamenn eru á einu máli um, að þau og önnur álíka gömul kunni að vera úr Australopithecus afarensis. 

Nútímakenningar um þróun mannsins er hægt að draga saman á eftirfarandi hátt:

A. africanus þróaðist frá A. afarensis fyrir u.þ.b. 2,4 milljónum ára.  A. africanus kvíslaðist 200.000 - 600.000 árum síðar í A. robustus og Homo habilis, sem þróaðist í sérstaka átt vegna annars konar mataræðis og lífshátta. 

A. robustus var að mestu jurtaæta með stóra jaxla og stóra og sterkbyggða kjálka til að bryðja harðar trefjar.  Homo habilis varð kjötæta og fór að stunda ómarkvissar veiðar með áhöldum, sem hann gerði sér til þess.  Þessi iðja krafðist hæfileikans til að hugsa.

Steingervingar sýna skipulega mannlega hegðun fyrir u.þ.b. 2 milljónum ára, þegar H. habilis lifði í hópum, sem unnu saman.  Fornleifafræðingar flokkuðu þessar fornu menningarhópa eftir þeirri tækni, sem hver þeirra beitti.  Þessa flokkun byggðu þeir á ýmsum áhöldum, sem fundust á sérstöku svæði.

Fyrst er að nefna olodowanfólkið (Gorge Olduvai), sem notaði fleygaðar steinvölur og steinabrot (H. habilis).  Acheulianfólkið (heilagur Acheuls) í Frakklandi kemur næst í þróunarstiganum.  Það skildi eftir sig  handaxir og  meitla, sem hafa síðan fundizt vítt og breitt í Afríku.  Í Austur-Afríku tengjast slíkir fundir tímabili Homo erectus.  Nokkrir slíkir fundarstaðir í Kenya (Olorgesailie við Magadi og Kariandusi við Nakuru) eru opnir ferðamönnum. 

Tækni Acheulianfólksins þróaðist úr grófgerðum öxum úr hraungrýti (1,5 m. ára) í Koobi Fora í nettari og fínslípaðar axir úr steinflísum fyrir 200.000 árum í Kariandusi.  Samtímis breyttist hegðun, líkamlegt útlit og líffræði Homo erectus.  Mestu breytingarnar urðu samt sem áður á höfði þessa frummanns.

Árið 1984 fann Richard Leakey næstum heila beinagrind 12 ára Homo erectus drengs vestan Turkanavatns.  Einu afbrigðilegu einkenni hans frá nútímamanni eru framstæðar augnabrýr, lágt enni og framstæður munnur.

Fyrir u.þ.b. 300.000 árum fór H. sapiens að þróast frá H. erectus.  Yfirlit yfir þennan þróunarferil er mjög óljóst enn þá vegna ónógra upplýsinga.  Í Kenya er lítið um steingervinga og áhöld frá þessum tíma, þótt nokkrar vísbendingar hafi fundizt við Baringovatn.  Þó er vitað, að H. sapiens var á þessum slóðum fyrir 100.000 árum, því að þrjár hauskúpur fundust í grennd við Omoána í Suður-Eþíópíu.  Þegar þar var komið sögu, var maðurinn farinn að veiða antilópur, gasellur og fleiri villt dýr á sléttum Austur-Afríku með góðum árangri.

Nútímamaðurinn kom fyrst fram fyrir u.þ.b. 40.000 árum um biðbik steinaldar, þegar flest áhöld voru gerð úr steinflögum.  Fyrir u.þ.b. 20.000 árum fór hann að búa til fíngerðari áhöld úr steini og viði eða beinum til að létta sér daglegu verkin.  Steinöldinni lauk ekki í Kenya fyrr en fyrstu ræktendurnir komu frá Eþíópíu (cushitic) og bantu bændur frá frumskógunum við miðbaug í Kongó.

Hinar merku uppgötvanir steingervinga fyrr og nú í Austur-Afríku hafa dregið athygli manna frá Evrópu og Asíu að Misgengisdalnum mikla og akasíusléttunum umhverfis hann sem vöggu mannkyns.

Verndunarstríðið.  Richard Leakey fór að gefa villidýralífinu æ meiri gaum og Moi forseti hann skipaði yfirmann eftirlits með því árið 1989 (KWS = Kenya Wildlife Service).  Honum tókst að vekja athygli og áhuga erlendra styrkja og ferðamanna.  Hann sagði af sér vegna ásakana úr báðum áttum árið 1994 og taldi sér ekki fært að starfa við takmarkanir Mois á verndun svæða.  Orðstír hans sem fornleifafræðings og verndunarsinna var svo mikill, að litið var á afsögn hans sem mikið áfall fyrir ferðaþjónustuna og það dró úr fjárstyrkjum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM