Heildarfjöldi þjóðflokka í
Kenja er rúmlega fjörutíu. Hinir helztu eru: Kikuyu
(21%), meru (5%), kalenjin,
luyha, luo (14%),
kisii, kamba,
swahili, masai, and
turkana. Sé saga landsins
rakin, er auðséð, að aðalþjóðflokkarnir eru bantu-fólkið, sem kom frá
vesturhluta heimsálfunnar, Nílarfólkið, sem kom frá Súdan og
hamíska fólkið, sem var aðallega hirðingjar í Eþíþópíu og Sómalíu.
Hinir stóru þjóðflokkarnir eru luo, luhja, kamba og kalenjin.
Innan um þessa stærstu þjóðflokka eru mjög fámennir flokkar fólks.
Kikuyu-þjóðflokkurinn er af bantu-kyni.
Stofnandi hans var Gikuyu. Sagan segir, að guðinn Ngai hafi farið
með Gikuyu upp á topp Kirinyaga og sagt honum að verða um kyrrt og
byggja sér heimili þar. Honum var einnig gefin kona, Mumbi.
Þau áttu 9 dætur saman. Í rauninni áttu þau tíu dætur en
kikuyu-fólkið álítur töluna 10 óheillatölu. Frá þessum dætrum
spruttu ættkvíslirnar achera, agachiku, airimu, ambui, angare, anjiru,
angui, aithaga og aitherandu. Kikuyu-menn eru bændur og byggðir
þeirra eru góð til landbúnaðar.
Maasai. Maasaimenn eru u.þ.b. 250.000 talsins. Þeir tala tungumálið maa, sem þjóðflokkurinn dregur
nafn af. Þeir búa aðallega
í Narok- og Kajiadohéruðunum ásamt samburu-, lichamus-, arusha- og
baraguyufólkinu. Maasaifólkið varð til við samruna ættbálka við
Níl og hamíta við norðvestanvert Turkanavatn fyrir u.þ.b. 1000 árum.
Maasaifólkið fluttist yfir fjöllin úr Keriodalnum og á 17.
öld fór að að flytja niður á frjósamt graslendið í Sigdalnum og
hærra liggjandi svæði umhverfis hann.
Um aldamótin 1800 hafði það orð á sér fyrir dugnað og
grimmd. Stríðsmenn þess
fóru langt að heiman til að drepa og ræna og kröfðust gjalds af
kaupmannalestum.
Á
síðustu árum 19. aldar drápust húsdýrahjarðir maasaimanna af
pestum og þurrkum og þeir flosnuðu upp í innbyrðis átökum og
deilum. Ríkisstjórnin færði
sér ástandið í nyt í samningum við þá árin 1904 og 1911 og
flutti fólk frá svæðum í Laikipia á öxl Kenjafjalls.
Þar voru byggð smáþorp með 10 - 20 húsum umkringdum þyrnigerðum
þar sem fjölskyldurnar beita húsdýrum sínum á landinu umhverfis.
Þorp stríðsmannanna, manyatta eru stærri, 50 hús eða
fleiri.
Fersk
og yst mjólk, sem er geymd í skreyttum, kúlulaga ílátum,
er aðalfæða maasaimanna.
Þeir blanda hana gjarnan nautgripablóði.
Geita- og kindakjöt er veigamikill hluti fæðunnar en
nautgripum er aðallega slátrað við trúarathafnir.
Maasaimenn neyta ekki annarrar villibráðar en elandantílópna
og buffala af trúarástæðum.
Uppistaða
maasaiþjóðflokksins eru 5 - 7 ættflokkar, il-makesen, il-aiser,
il-molelian, il-taarrosero og il-ikumai, sem búa vítt og breitt um
Maasailand. Ættflokkarnir
eru líka sundurgreindir eftir tegundum nautgripa, sem þeir rækta.
Völdin eru í höndum valins höfðingja, sem ræður sínum
aldurshópi til elli. Þessir
höfðingjar eru líka trúarleiðtogar (sbr. goðaveldið á Íslandi).
Karlmenn eru ekki umskornir fyrr en þeir hafa náð kynþroska
og aldurshópar eru valdir saman á 12-15 ára fresti. Ungu stríðsmennirnir, ilmurran, eru byrjendur í ákveðinn
tíma og veiða litla fugla, sem eru stoppaðir upp og bundnir á höfuðskraut.
Stríðsmenn mega ekki neyta mjólkur í húsum foreldra sinna og
kjöts í „manyattakofunum”. Uxum
er slátrað fjarri þorpunum til að fæða stríðsmennina.
Þeir bera spjót með löngu blaði og skildi úr buffalahúðum.
Rauð, svört og hvít tákn á þeim lýsa stöðu viðkomandi
meðal stríðsmannanna.
Eldri
stríðsmennirnir víkja á hefðbundinn (eunoto) hátt með árunum
fyrir hinum yngri. Góður
orðstír, sem stríðsmaður getur sér án líkamlegra áverka, og
forystuhæfileikar leiða til þess, að viðkomandi leiðir skírn
jafnaldra sinna til þátttöku og verður höfðingi þeirra.
Þegar hann (olotuno) fær viðurkenningu „oloiboni”, er
nauti slátrað og hann drekkur fyrstur blóð úr hálsæð þess.
Húsið, sem þessi fjögurra daga athöfn (eunoto) fer fram í,
heitir enkang o sinkira. Hver
stríðsmaður, sem vígður er í hópinn, situr á sömu kýrhúðinni
og hann var umskorinn á og móðir hans rakar höfuð hans.
Siðan er nauðrakað höfuðið skreytt með blöndu af
litarefni og feiti. Síðan
er hinum nývígða (olotuno) boðið að velja sér maka. Að afloknum
helgiathöfnunum er banninu við mjólkurdrykkju og kjötáti í húsi
foreldra og heimahúsi aflétt.
Líf
maasaimanna snýst að miklu leyti um leit að beitilandi og vatni.
Á þurrlendum svæðum Maasailands eru hjarðirnar reknar á
milli staða til að beita þeim á minna beittum svæðum eða þar sem
nýr gróður hefur vaxið í kjölfar rigninga. Valdir nautgripir eru leiddir til slátrunar og seldir kjötvinnslufyrirtækjum
ríkisins við Athiána eða kaupendum frá Næróbí og Nakuru.
Áform um nokkurs konar samyrkjubú í Kajiado hafa fjölgað
maasaimönnum á svæðinu og þeir nýta nú sjálfir frjósöm hveitræktarlönd
í Narok.
Kamba. Akambafólkið er sléttuþjóðflokkur, sem býr í
Machakos- og Kituihéruðunum í Austur-Kenja.
Það er fjölmennt, nærri 1,8 milljón, fjórði stærsti þjóðflokkur
landsins. Athiáin, sem verður
að Sabakiánni, þegar neðar dregur,
er stærsta áin á þessum slóðum.
Á slóðum Sabakiárinnar eru allt að 1000 m há granítfjöll
og gömul eldfjöll. Kambafólkið
rekur veru sína á þessum slóðum til þess tíma, þegar Mulungu (guð
þeirra) skapaði fyrsta karlmanninn og konuna á Nzauifjalli.
Þar kom til þeirra par úr iðrum jarðar og Munungu lét rigna
og gerði landið frjósamt. Líklega
fluttist kambafólkið frá Kilimanjarosvæðinu í suðri til núverandi
heimaslóða. Það er líka
hugsanlegt, að þetta fólk hafi staðnæmst, þegar bantafólkið
fluttist norður á bóginn frá strandhéruðunum, eða eigi uppruna
sinn til mijikendafólksins að sækja.
Kambafólkið var og er veiðisamfélag, sem ræktar líka búfénað
og hirsi. Svo virðist sem þessi þjóðflokkur hafi sezt að í
Mbooni fyrir u.þ.b. fjórum öldum, þar sem er meiri úrkoma og landið
frjósamara en víða annars staðar og síðan breiðzt út um stórt
svæði umhverfis Mbooni.
Kambafólkið
upplifði annað blómaskeið, þegar það hóf viðskipti með örvaeitur
og járnáhöld við nágranna sína, kikuyu, embu, tharaka og
mijikenda. Sögur segja, að
kaupmannalestir kambamanna, hlaðnar fílabeini, hafi komið vikulega
til strandbyggðanna í kringum 1840.
Þær fluttu glerperlur, kopar, baðmullarefni (þ.m.t. kaliko)
og salt til vöruskipta inni í landi.
Makasu
spáði fyrir um komu járnbrautanna, snáksins langa, og veldi Evrópumanna,
sem mundu skipta landinu á milli sín.
Byggð
Masakus var blómlegur verzlunarstaður, þar sem Bretar komu fyrir stjórnarmiðstöð.
Makusu flutti til Kangundo í vanþóknun sinni.
Skömmu eftir komu Evrópumanna, skæða nautgripapest, sem eyddi
nærri öllum gripum kambamanna, bann við frekari landnámi hvítra á
löndum ulu- og yattamanna og byggingu járnbrautarinnar, versnaði lífsafkoma
kambafólksins. Landið var
ekki lengur frjósamt. Þeir
neituðu að minnka hjarðir sínar og ollu þar með mikilli landeyðingur,
sem leiddi við og við til hungursneyðar.
Hagleikssmiðir
kambamanna smíða til armbönd, hálsfestar, örvaodda og spjót úr járni
og kopar. Trésmiðirnir smíða
m.a. forkunnarfagra, útskorna og innlagða stólkolla, sem margir kaupa
sem minjagripi. Útskurður
er grundvöllur margs konar handiðnar.
Konur búa til potta til eldunar úr leir.
Þær vefa líka fínlega málaðar körfur (chiondo, flt.
vyondo) úr trefjum baobab- og fíkjutrjáa.
Kambamenn framleiða líka alls konar gildrur til veiða villtra
dýra.
Stórfjölskyldurnar
eru kjarninn í lífi kambamanna, miklu mikilsverðari en ættflokkurinn
og allt, sem honum fylgir. Stjórnmálalegt
vald var í höndum öldunganna, líkt og annars staðar meðal bantufólks
í Kenja. Bretar umturnuðu þessu kerfi í lok 19. aldar, þegar þeir
skipuðu höfðingja eins og Kasina Ndoo.
Bæði
kynin meðal kambamanna eru umskorin.
Sums staðar eru tvær athafnir, hin minni (nzaikonini), þegar börnin
eru 4-5 ára, og hin stærri (nzaikoneni) á kynþroskaaldri en henni
fylgir mikið helgisiðahald ásamt hnífaristum á brjósti og maga til
skreytingar.
Hefðbundin
vopn kambamanna eru bogi, langt bardagasverð (simi) og kastkylfa.
Örvarnar eru oftast eitraðar og leðurhlífar eru hafðar um
oddana til að halda raka á eitrinu og koma í veg fyrir slys.
Ólíkt
kikuyufólkinu var kambafólkið lengi að aðlagast ýmsum nýstárlegum
aðferðum við landbúnaðinn og kusu heldur að vinna sem lögreglumenn
og her Breta. Þurrkar og
hungursneyð valda kambafólkinu enn þá tjóni, einkum í Kitui.
Lögð er áherzla á að hjálpa fólkinu til sjálfsbjargar og
borað fyrir vatni til neyzlu og áveitna.
Landi kambafólksins, Ukambani, fer stöðugt hrakandi vegna
rangra aðferða við landbúnaðinn og eyðing skóga eykst vegna viðarkolaframleiðslu.
Allt þetta leiðir til stöðugt lakari afkomu íbúanna.
Samburu. Samburufólkið er hirðingjaþjóðflokkur, u.þ.b.
74000 talsins, sem talar maa. Það
heldur sig að mestu í Maralal og á landamærasvæðum Marsabithéraðs
í Norður-Kenja á milli Turkanavatns og Uasa Kyiroárinnar.
Fyrrum var samburufólkið þekkt sem „fólkið með hvítu
geiturnar” og kallar sig stundum loikop.
Það skiptist aðallega í 17 ættkvíslir og 8 stórfjölskyldur.
Þetta fólk hefur löngum tregðast við að breyta lifnaðarháttum
sínum, líkt og maasaimenn. Bretar
fylgdust náið með ferðum þess æ lengra suður á bóginn frá
Marsabit í nokkra áratugi og árið 1914 ákváðu þeir að láta það
í friði og ráða ferðum sínum. Baragoi, Maratal og Wamba eru aðalstjórnsýslusetur þess.
Fólkið lifir einkum af afurðum nautgripa sinna, mjólk blandaðri
blóði úr lifandi nautgripum eða kindum, og geitum er slátrað til
neyzlu á þurrkatímanum. Ýmsum
tegundum barkar og rótna er bætt út í súpur.
Þar sem fólkið heldur sig á hálfgerðum eyðimörkum, getur
það ekki ræktað neitt, en á Lerogisléttunni og á efri svæðum
Karisiahæða er æ meira ræktað af maís, hirsi og grænmeti og
margir leigja sér stór svæði til framleiðslu sáðhveitis.
Samburuþorpin
eru lítil, fjórir til tíu nautgriparæktendur.
Kofum þeirra úr viðarteinungum, grasmottum, leðju og húðum
er skipt í tvennt innandyra. Umhverfis
hvern kofa og gripastíu er þyrnigerði.
Ungir drengir annast kindur og geitur, mjólkurkúm er haldið í
nánd við þorpin en ungir stríðsmenn sjá um gæzlu aðalhjarðanna
fjær.
Umskurður
og vígsla drengja (ilayeni) til stríðamanna (il-murran) og síðari hátíðahöld
fara eftir hagstæðri stöðu tunglsins og eru haldin í sérstökum búðum
(lorora). Drengirnir klæðast
svuntum, skreyttum viðarkola-teikningum, og bera eyrnalokka (ikemo).
Hár þeirra er rakað af og þeir fá nýja sandala.
Hver drengur er látinn sitja á uxahúð fyrir framan kofa móður
sinnar með tvo stuðningsmenn sér við hlið.
Venjulega framkvæmir einhver utan þjóðflokksins umskurðinn,
dorobo eða aðrir umskerarar, og síðan syngja drengirnir saman
lebarta. Næsta eða þarnæsta
dag fá þeir boga og örvar með resínkúlur á oddunum til að veiða
litla fugla með til höfuðskrauts, sem þeir bera í einn mánuð.
Þá eru þeir orðnir fullgildir stríðamenn og mega skreyta
sig með rauðum lit sem tákn um nýja stöðu sína.
Fimm árum síðar eru þeir teknir í tölu fullorðinna stríðsmanna
og sex árum síðar kemur ilmugit lolaingoni-athöfnin, sem felur í sér
leyfi til að kvænast (ipayan). Þá
kemur helgisiðameistarinn með naut, sem er kæft og snætt.
Öldungar
samburumanna ráða mestu um ákvarðanir og helgisiði samfélaganna.
Stúlkur
eru umskornar hver um sig á svipuðum aldri og drengirnir og giftar
strax að því loknu. Brúðurin
verður að vera í sérstakri svuntu, með eyrnalokka og smápjötlu af
ljónsskinni bundið um fótinn, glerperlur og í sandölum og með staf
úr nkoitaviði. Snemma morguns á brúðkaupsdaginn er stúlkan síðan
umskorin. Innan eins til
tveggja klukkutíma birtist brúðguminn og jafnaldrar hans með naut, kú
og kind. Móðir brúðarinnar tekur niður staurana í þorpshliðinu
og nautið er rekið í gegn til slátrunar, sem táknar að brúðkaupssamningurinn
sé endanlega staðfestur. Öldungarnir
skipta kjötinu og annast aðra helgisiði allan daginn.
Næsta dag gengur brúðurinn milli tveggja raða öldunga til að
taka við blessun þeirra og hefur göngu sína til heimilis brúðgumans,
þar sem nýr eldur er kyntur.
Samburumenn
tala sömu tungu og maasaimenn og menningararfleifð þeirra er hin sama
en samburufólkið er langt frá því eins áleitið og sýnir öðrum
þjóðflokkum ekki sama menningarhroka og maasaimenn.
Þess í stað leggur það mikla áherzlu á gildi gagnkvæmrar
virðingar (nkanyit). Ýmsar
breytingar í ræktun nautgripa og aukin menntun hefur verið meðal þess,
sem samburufólkið hefur streitzt mikið á móti, en er smám saman að
ná fótfestu. Margir
samburustríðsmenn gengu í brezka herinn í síðari heimsstyrjöldinni
og margir þjóna nú í her lands síns eða í lögreglunni.
Turkana. Turkanafólkið, sem býr aðallega í norðvesturhluta
landsins, milli Turkanavatns í austri og hæðanna við landamæri Úganda
í vestri, er u.þ.b. 210 þúsund talsins.
Aðalstjórnsýslumiðstöð þess er Lodwar.
Muruaolonfjallgarðurinn í miðjum vesturhluta Turkanalands er
mun hærri en önnur fjalllendi nema Lorionetom í norðaustri.
Turkanafólkið kom upprunalega frá svæðum í vestri.
Sagan segir að ungir jiemenn hafi verið að leita að villuráfandi
uxa í Tarashdalnum, þegar þeir hittu gamla konu af ættbálki sínum,
þar sem hún var að safna villtum ávöxtum.
Þeir hrifust af umhverfinu og komu aftur með fleiri unga menn
og konur ásamt búsmala og settust að.
Síðan hafa jie- og turkanafólkið verið bandamenn.
Turkanafólkið er annaðhvort afkomendur skógarfólksins
(nimonia) eða sléttufólksins (nocuro).
Ættbálkarnir eru u.þ.b. 20 og karlmennirnir tilheyra tveimur
aldurshópum, nimur (steinunum) og nerisal (hlébörðunum).
Blóðblönduð mjólk er aðalfæðan.
Nautgripahúðir eru notaðar sem svefnbæli, til kofagerðar og
í sandala. Hornin eru notuð
í tóbakspunga. Drómedarar
eru mikilvægir fyrir efnahag fólksins.
Ungar
stúlkur gæta geita og kinda, sem er slátrað, þegar gesti ber að
garði, fórnað við helgiathafnir eða til eigin neyzlu.
Asnar eru notaðir sem burðardýr og húðir þeirra eru skornar
í ræmur, sem fiskikörfur eru gerðar úr.
Þurrmjólk er framleidd með því að sjóða mikið magn
ferskmjólkur, sem er síðan þurrkuð á húðum.
Það er ekki hægt að strokka drómedaramjólk í smjör en hún
er góð fyrir ungabörn, því að hún er fitusnauð og auðmeltanleg.
Villt ber eru pressuð, blönduð blóði og þurrkuð í kökur.
Konurnar rækta hirsi við ár og læki á regntímanum.
Fiskveiðar eru stundaðar í Turkanavatni á þurrkatímanum
(akumo) og í bjargræðisskorti.
Turkanafjölskyldur
eru samheldnar en þegar dæturnar giftast, fara þær að heiman.
Híbýlin eru sjaldnast eitt hús, heldur býr höfuð fjölskyldunnar
í einu og aukakonur og börn þeirra og kvæntir synir í öðrum.
Aðalinngangur þyrnigerðisins umhverfis húsaþyrpinguna snýr
í austur og dag- og næturkofar aðaleiginkonunnar er til hægri.
Giftingarathöfn tekur þrjú ár til að tryggja andlega og
veraldlega velferð hjónanna. Hjónabandið
er ekki fullkomnað fyrr en fyrsta barn er farið að ganga.
Brúðarverð er hátt og er greitt með mismunandi miklum fjölda
nautgripa eða drómedara, sem biðillinn tekur úr eigin hjörðum og fær
frá ættmennum og vinum. Mikilvægi
eiginkonu á heimilinu birtast í nánum tengslum eiginmannsins við föður
hennar og bræður.
Turkanafólkið
hefur þróað sérstaka veraldlega menningu.
Vatnstrog og ílát eru úr útskornum viði með draugamyndum.
Ílát undir fitu, smjör og mjólk eru úr húðum (einkum drómedarahúðum),
skreytt með glerperlum og skeljum.
Hefðbundin vopn eru 2,4 m langt spjót, bardagastafir með hnúði
á enda, úlnliðshnífur, krækjur og skildir úr húðum buffala, gíraffa
eða flóðhesta. Konur
bera mikið skraut úr glerperlum um hálsinn og hálshringa úr látúni
eða áli.
Turkanamenn
hafa orð á sér fyrir ræktun búsmala og að vera óttalausir verðir.
Bættar samgöngur eru smám saman að draga úr hefðum þeirra
og siðum. Ríkisstjórnin
og kristinboðsstöðvar hvetja til aukinna áveitna meðfram Turkwel-
og Kerioánum og stofnunar samvinnufélaga um veiðar meðfram
vesturbakka Turkanavatns. Stórhuga
framkvæmdir við byggingu raforkuvers og vatnsmiðlunar í Turkwelgljúfrinu
munu sjá þúsundum hektara lands fyrir áveitum.
Boran. Hluti fólksins, sem talaði oromomálið í Suður-Eþíópíu
af boranþjóðflokknum (70 þús.) fluttist suður á bóginn inn á þurrlendissvæði
norðaustur Kenja til að setjast þar að um aldamótin 1900.
Það gerði sér bústaði í kringum Moyale, Marsabit, meðfram
Nyiroánni og í Isiolohérðaði. Oromofólkið stofnaði hið kristna konungsríki í Eþíópíu
á 16. öld, þegar það lagði undir sig stóra hluta landsins og
settist þar að. Menelik
II keisari lagði þessa landshluta undir sig 1890-1900 með mikilli
grimmd og krafðist skatta, þannig að margt boranfólk og líklega
einnig fólk af burjiættflokknum hraktist suður til Kenja undan
ofbeldinu.
Boranfólkið
stunda aðallega nautgriparækt og trúa á guðinn Wak, sem þeir hafa
samband við gegnum presta (Qallu) og með fórnum og bænum.
Boranfólkið, sem býr syðst hefur verið snúið til islam.
Starfandi prestar eru álitnir vera fyrsti presturinn endurholdgaður.
Veiðimenn og safnarar (wata) fundu hann sem fullvaxta mann, þar
sem hann gætti þriggja svartra kúa og hrúts.
Boranfólkið fyrirlítur watafólkið og mægist því ekki en
samt gæti þess talsvert í helgisiðunum.
Prestarnir (qallu) halda enn þá hjarðir af svörtum kúm,
afkomendum hinna upprunalegu, sem fyrsti presturinn gætti.
Gonahópurinn,
sem skiptist í ful'leli (oditu, gallantu, konitu, macitu, bacitu og
sirraiyu) og haroresa (arussi, hawartu, qarcabdu, jilitu, nonitu og
dambitu) auk sabho (digalu, matari og karaiyu) er uppistaðan í boraþjóðflokknum.
Margir
flóknir helgisiðir og hátíðir tengjast fæðingu og skírn barns. Fyrsta
athöfnin er bundin fjölskyldum og nánustu vinum, en síðan tekur
allt samfélagið þátt í jillaathöfninni, þegar skírnin fer fram
og guðnum Wak er þakkað og beðið er um blessun hans.
Stór stytta (galma) af presti er gerð og watamaður kveikir
eld. Sé barnið drengur,
rakar faðirinn hárbrúsk (gutu) hans af og nefnir hann eftir mikið
teiti og söng. Við næstu
dagrenningu er naut blessað og því slátrað.
Armbönd eru skorin úr húð þess fyrir barnið og ættingjana,
helgur maður les framtíð barnsins og kjötinu er skipt.
Watamaðurinn fær líka sinn skammt af kjötinu og mjólk í þakklætisskyni
fyrir að hafa fundið fyrsta prestinn (qallu).
Hátíðahöld tengd meybörnum eru einfaldari.
Áður
en ungum manni leyfist að láta hár sitt vaxa á ný verður hann að
sanna manndóm sinn með því að drepa mann af öðrum ættflokki, ljón
eða fíl eða sanna kyngetu sem heimilisfaðir (aba worra) með því að
kvænast og geta barn. Á síðasta
ári gadamojihringsins er hár hans lagt á þann hátt, að það líkist
geislabaug (guduru) og skreytt með fílabeini eða málmi (kalacha).
Gadamojihátíðir eru haldnar áttunda hvert ár.
Allir, sem taka skulu vígslu, verða að fórna nauti við
upphaf þeirra (barati), kind á elejesadegi og öðru nauti á
buffatdegi, þegar eiginkonurnar raka hárlagninguna af við hátíðlega
athöfn og hún grafin í fjóshaugnum (dobu).
Eftir þessar athafnir á hinn vígði aldrei að bera spjót
aftur og hann á að bölva eða fljúgast á við einhvern áður en
honum er vottuð virðing.
Boranfólkið
skiptist í 5 aldurshópa (luba). Hver
þeirra á sér „föður (aba gada)”, sem öldungarnir skipa og fær
nafn hans sem hópnafn. Fjórar
vígsluhátíðir í röð skilja kynslóðirnar að, þannig að 40 ár
líða milli vígslu föður og sonar.
Brúðargjald
er nautgripir, tóbak eða þurrkuð kaffiber (buni). Brúðirnar eru umskornar án sérstakra athafna.
Borankonurnar yfirgefa ekki heimili sín í þrjár vikur eftir
barnsburð og nærast á kjöti, súpu og blóði.
Nú
orðið er þrengt alvarlega að boranfólkinu með landamærum og
hreppamörkum, þannig að það hefur æ minna frjálsræði.
Það hópast að vatnsbólum með hjarðir sína á þurrkatímum
og dreifist um beitilöndin eftir rigningar.
Boranfólkinu er ekkert gefið um launaða vinnu og fáir
flytjast til borganna. Hæfir
nautgriparæktendur eru á mörgum býlum.
Áætlanir um aukna menntun og áveitur hafa lítið breytt hefðbundnu
lífi fólksins.
Rendille
(austurhamízkur
uppruni). Nágrannar
samburufólksins í norðausturhlutanum, sem það hefur haft alls kyns
samskipti við um aldir, þrátt fyrir ólíka menningu og tungu, er
rendillefólkið (22000) í Marsabithéraði, sem byggir afkomu sína aðallega
á ræktun drómedara. Rendillefólkið hefur líka verið í nánu sambandi við Sómala
um aldir. Einkenni þess
koma skýrast fram í þjóðlögum, sem leggja áherzlu á góð
samskipti ættflokka og búferlaflutninga fortíðarinnar. Ariaalfólkið
(rendillefólkið syðst) ræktar nautgripi og góð sambönd við
samuru.
Samkvæmt
einni þjóðsögunni villtust níu sómalskir drómedarasmalar fyrir
langa löngu frá afskekktu tjaldstæði. Eftir margra daga göngu komu
þeir að útjaðri Samburulands. Áður
en öldungar samburu leyfðu þeim að kvænast konum af ættkvíslinni
urðu þeir að láta af siðum sínum og hefðum og varpa kóraninum
fyrir róða. Þeir samþykktu
og út frá þeim óx ættkvísl rendille, sem skiptist í tvo hópa.
Annar þeirra byggist á fimm ættstofnum en hinn á fjórum,
belisi bahai (dibshai eða dubsahel, uiyam, nahagan, matarpa og rongumo)
og belisi beri (saale, unwen, tubsha eða turcha og galdeelan eða
galthile).
Drómedararæktin
er bundin stórum, færanlegum byggðum, þar sem búa einungis fjölskyldur,
og færanlegum tjaldbúðum, þar sem eldri drengir og ungir menn gæta
meginhluta hjarðanna og gæta þess að flytja sig og elta beitina. Karlkyns drómedarar geta borið allt að 80 kg byrði yfir
60 km leið á dag. Ungar
stúlkur annast gæzlu stórra hjarða geita og sauðfjár.
Rendillefólkið blandar blóði í drómedaramjólkina.
Það opnar dýrunum æð á hálsi með litlum hnífum eða örvaoddum
og loka sárinu aftur með mykju blandaðri hárum.
Kofar
fólksins (afaf) eru þaktir ofnum trefjamottum (eima) og húðum.
Eldunarsteinarnir (kindase) eru vinstra megin inngangsins og leðurbelgur
með vatni (haan, flt. haanan) er innan seilingar í hægra horninu.
Pottar (thiri, flt. thiryo), trog og svefnflet úr húðum (nim,
flt. niiboi) eru aðalhúsbúnaðurinn.
Vatnsfötur eru gerðar úr húðum gíraffa og málmlagðar
trefjakörfur eru notaðar undir mjólk og vatn.
Vatnsburður er kvennastarf.
Þegar
drengir eru innan ákveðins aldurskeiðs eru þeir umskornir við
talsverða athöfn í sérstökum vígslukofum (mingidakhan).
Beri drengirnir sig mannalega við umskurðinn, eru þeir verðlaunaðir
með drómedarakvígu. Frekari
vígsluathafnir (khandi) fara venjulega fram þremur árum síðar en hjá
samburunágrönnunum. Aldurshópurinn,
sem er umskorinn, fær venjulega eigið nafn ári eftir athöfnina.
Hátíðahöldin (galgulumi) samfara því fara fram á sérstökum
hátíðastað á austurströnd Turkanavatns.
Rendvillefólkið
heldur tvær aðalhátíðir á ári.
Soriu, sem öll fjölskyldan tekur þátt í, í janúar/febrúar
og í júní/júli, að loknum regntímanum, þegar beitilönd eru góð
nærri byggðunum og unga fólkið, sem gætir dýranna getur líka verið
viðstatt. Almahato, við upphaf regntímans.
Hver fjölskylda færir dýr til slátrunar á soriuhátíðum.
Öldungarnir eru viðstaddir slátrunina og maka blóði dýrsins
á sig. Feður eða elzti kvænti sonur klínir síðan blóði á drómedarana
og litlar hjarðir, sem eftir standa.
Almhato er mjólkurhátíð og trúarathöfn til að bægja brott
ógæfu. Hver aldurshópur
fremur sínar athafnir og mikið er drukkið af mjólk áður en síðustu
atriði helgiathafnarinnar fara fram.
Síðan er byggðin flutt á nýjan stað.
Verði
rendvillekona barnshafandi áður en hún er umskorin, er það álitin
mikil hneisa. Munnmæli
segja, að í slíkum tilfellum hafi stúlkur og ástmenn þeirra verið
bundin saman á drómedara og hann rekinn fyrir björg.
Rendvillestúlkur eru gefnar strax eftir umskurðinn og brúðargjaldið
hefur verið greitt í drómedörum.
Þegar fyrsti drengur fæðist, leggja konurnar hár sitt eins og
hanakamb (doko) með feiti og litarefni.
Rendvillefólkið
beitir enn þá hjörðum sínum á þurrum runnasvæðum en
Consolata-trúboðsstöðin er að reyna að undirbúa það undir 20.
öldina.
El-molo (austur hamízkt). El-molofólkið
er mjög fámennt (færri en 500 manns).
Það býr á litlum eyjum og í Loyangalani við suðausturhorn
Turkanavatns í Norður-Kenja. Þetta
er óaðlaðandi, vindbarið og sólbakað eyðimerkursvæði með
hraunum. Næstum eini gróðurinn,
sem sést, eru stakir akasíubrúskar meðfram þurrum vatnsrásum og smáþyrpingar
doumpálma. El-molo lifa á
fiskveiðum.
Saga
þessa fólks er hulin móðu tímans.
Nafnið er dregið af orðinu „molo”, sem þýðir „maður”.
Við það var bætt maasai-samburu fleirtöluforskeytinu
„il” og það síðan enskað í „el”. El-molofólkið, sem nefnir sig sjálft „Ldes”, skiptist
í fjórar ættkvíslir, lmarle, orikara (amakara), origijijo og Ndes.
Það er hvorki í útrýmingarhættu né minnsti ættflokkur Afríku
eins og svo oft er fullyrt. Yaakufólkið
í Kenja og aðrir ættflokkar eru minni en el-molofólkið hefur komist
hjá því að hverfa af sjónarsviðinu með því að blanda kyni við
samburu- og turkanamenn.
El-molomenn
fluttust frá norðurenda vatnsins, e.t.v. frá Omo-óshólmunum, til núverandi
aðseturs. Munnlegar sagnir
um þetta 250 km langa ferðalag lýsa því í smáatriðum, ástæðum
þess og töngum og eyrum á leiðinni, þar sem fólkið hafði aðsetur
um nokkra áratugi á leiðinni. Ein
sagan segir frá löngu liðnum tímum, þegar fólkið bjó langt í
norðri. Dag nokkurn fóru
karlmennirnir til fiskveiða alllangt frá þorpinu og á meðan komu ræningjar
innan úr landi, réðust á varnarlaust þorpið, drápu konurnar og börnin
og rændu eigum þeirra og búsmala.
Karlmennirnir komu til baka og hryggir og leiðir, ásamt
nokkrum, sem komust lífs af, héldu þeir í suðurátt til núverandi
heimkynna við El-moloflóa.
Flestir
el-molomenn tala nú mál samburu.
Aðeins fáir öldungar tala enn þá gamla tungumálið.
Menning el-molo líkist í mörgu menningu rendillefólksins,
s.s. að jarðsetja látna undir steinvörðum og dýrka guðinn wak.
Ferskur
og þurrkaður fiskur er aðalfæða fólksins en að auki leggur það
sér krókódíla, skjaldbökur og flóðhesta til munns.
Önnur villt dýr og fuglar eru líka á matseðlinum.
El-molofólkið skýrir lifnaðarhætti sína án hefðbundins búsmala
á þann veg, að fyrir löngu hafi það ræktað krókódíla, skjaldbökur
og flóðhesta í stað drómedara, nautgripa, sauðfjár og geita.
El-molofólkið
býr sér til fleka úr doumpálmanum til að veiða frá og sigla til
El-moloeyjar. Hluti af brúðarverði
er tveir slíkir flekar. Þegar
þeir eru þurrir, bera þeir 2-3 fullorðna en stærri flekar úr allt
að 12 bolum geta borið heilu fjölskyldurnar og eigur þeirra.
Pálmastofnarnir eru mjög æðóttir og mettast fljótt, þannig
að aðeins er hægt að nota flekana í nokkrar klukkustundir í senn. Fiskveiðarnar eru stundaðar með skutlum, netum og línu og
hin síðari ár hefa tágagildrur verið notaðar æ meir. Skutlarnir, sem eru gjarnan notaðir til að veiða hinn
risavaxna nílarkarfa, eru búnir til úr tréskafti með skörðóttum
járnoddi og tágareipi.
Skrautmunir
eru ekki eins vandaðir og hjá samburu- og turkanafólkinu.
Konurnar bera festar með skurn strútseggja eða glerperlum.
Bæði karlar og konur bera armbönd og olnbogabönd úr málmi.
Ódýr ílát úr áli hafa tekið við af leirílátum. Hvolf- og hringlaga kofarnir eru byggðir úr fléttuðum
akasíugreinum og þakið er úr doumpálmablöðum, reyr, grasi eða
öðrum gróðri, sem er fergður með steinum.
Fólkið sefur á fléttuðum mottum úr pálmablöðum.
Lífsmunstur
el-molofólksins breytist hratt. Það
tekur upp nýjar aðferðir við fiskveiðarnar, sem eru í auknum mæli
stundaðar í atvinnuskyni, og í Loyangalani er það farið að rækta
nautgripi og stunda launavinnu í ferðaþjónustunni.
Þessi þróun hefur leitt til stærri þorpa og bætts húsnæðis.
Luo (Vestur-Nílarsvæðið). Næststærsti
ættflokkurinn, sem er ekki af bantukyni í Kenja, eftir kikuyu (2,2
millj.) er luofólkið, sem býr aðallega í Mið- og Suður-Nyanzahéruðum
við Kavirondoflóa Viktoríuvatns.
Þetta fólk kom upprunalega frá Nílarhéruðunum við
vestanverða Níl í Súdan. Fyrstu
flutningarnir urðu fyrir u.þ.b. 5 öldum.
Síðustu hóparnir komu á 18. öld og samtímis var fólkið
farið að sækja til Suður-Nyanza, þar sem gusil-, kuria- og subaættflokkarnir
urðu að hopa. Jafnframt
komst luofólkið í tengsl við maasai- og kipsigismenn.
Fjórir aðalhópar þessa dholuotalandi fólks, joka-jok,
joka-owiny, joka-omolo og joka-suba, eru aðaluppistaða ættflokksins,
sem telur sig afkomanda þjóðsögupersónunni Ramogi, stofnanda fyrstu
luobyggðarinnar á hæð í Kadimu.
Líf
fyrstu innflytjendanna byggðist á stöðugum flutningi milli
beitilanda en þegar fólkinu fjölgaði, varð til föst byggð á tiltölulega
afskekktum býlum. Nautgripirnir
héldu áfram að vera aðaltekjulindin en akuryrkja og fiskveiðar juku
mikilvægi sitt. Aðaluppskeran
var sorghum, sim-sim og fingurhirsi og við hafa bætzt jarðhnetur, grænmeti,
kaffi og sykurreyr. Flökkueðlisins
gætir enn þá meðal fólksins og tugþúsundir þess hafa flykkzt til
borganna, einkum Næróbí og Mombasa, í atvinnuleit.
Luofólkið,
sem á hæfustu fiskimenn Kenja, notar aðallega net og línu til að
veiða „tilapia (rigege)” og aðrar fisktegundir.
Körfugildrur eru enn þá mikið notaðar, annaðhvort einar sér
eða með osagerurangala og fyrirdráttarnetum í ám og obalalafyrirdrætti
í árósum. Fyrrum notuðu
luomenn grófgerða fleka úr viði og papírus á Viktoríuvatni.
Djúpmið eru sótt á eintrjáningum og stórum flekum.
Asíumenn notuðu dhowbáta fyrst við Winamflóa og síðan tóku
luomenn upp smíði slíkra báta og hafa síðan sótt æ fastar á
fiskimiðin í flóanum og meðfram ströndum þessa stóra vatns.
Þeir nota líka báta, sem líkjast Ssessekanóum bagandafólksins
og æ fleiri slíkir eru gerðir úr glertrefjum.
Þessir bátar eru búnir utanborðsmótorum og eru notaðir vítt
og breitt í fiskveiðisamfélögum allt í kringum vatnið og á öðrum
vötnum landsins.
Höfðingi
hvers þorps á sér kofa (duol) nærri nautgripagerðinu. Þar ræða öldungarnir öll mál samfélagsins.
Eiginkonurnar hafa sérkofa og mega ekki sofa í duol-kofunum.
Þegar biðill hefur innt af hendu greiðslu brúðarverðs,
tekur hann og vinir hans væntanlega brúður með valdi og ber hana á
brott úr föðurhúsum. Margar
athafnir fylgja þessu brottnámi (meko) og ná hápunkti í hátíðinni
(riso), sem biðillin heldur ættingjum sínum.
Nú á dögum er brúðarverð oft greitt með peningum í stað
nautgripa og giftingar fara fram að kristnum hætti.
Ófrískar konur fylgja ákveðnum siðvenjum og sérstöku
matarræði. Stundum er köldu
vatni hellt yfir nýfædd börn til að þau gráti eða tóbaksreyk er
blásið upp í nef þeirra. Luofólkið
umsker hvorki drengi né stúlkur, nema óskað sé og núorðið láta
æ fleiri foreldrar umskera drengi af trúarlegum ástæðum og vegna þess
álits, að það sé manndómsmerki að vera umskorinn.
Forfeðradýrkun
er talsverð og andar hinna miklu Gor Mahia, Ramogi og Lwanda Magere eru
í hávegum hafðir. Góðir
andar (nyasaye, flt. nyiseche) verða að sætta sig við sæg af illum
öndum (jochiende) og galdramönnum (jajuok).
Galdrar blómstruðu á mörkum þessa skuggaheims.
Luofólkið,
sem var og er gáfaður og félagslega hugsandi þjóðflokkur, tók af
heilum hug þátt í sjálfstæðisbaráttu landsins í fremstu víglínu
stjórnmála og viðskipta. Meðal
þeirra, sem áttu mikinn þátt í góðum árangri, voru Tom Mboya og
fyrrum varaforseti landsins, Oginga Odinga.
Rithöfundarnir Grace Ogot og Tom Okoya hafa skrifað listilegar
skáldsögur byggðar á þjóðsögum luofólksins.
Bajun,
swahili og shirazi (Austur-Bantu). Svahilimælandi
þjóðflokkar strandhéraða Kenja eiga sér sameiginleg trúarbrögð,
islam, og menningu. Svahili
er af bantuuppruna og er þjóðartunga Kenja og er víða talað í
Austur- og Mið Afríku og Saír.
Bajunfólkið
(37000), sem býr á Lamueyjum og strandlengjunni norðan þeirra, talar
eigin mállýzku, kitikuu, auk kiamu og kivita, eina af a.m.k. 12 útgáfum
af svahili. Bajun-, pokomo-
og mijikendafólkið er talið hafa komið frá ótilteknum stað í
Sungawaya í norðri. Það
varð fyrir áhrifum frá aröbum, sem komu frá Hijaz, Persaflóa og Suður-Arabíu
og síðar frá oromotalandi fólki.
Aldalangir fólksflutningar, sigrar, gegnumstreymi þjóðflokka
og blöndun varð grundvöllurinn að bantusvahili, sem blandaðist arabísku
og persnesku. Lausleg
merking orðsins svahili nær yfir næstum hvaða múslima frá strandhéruðunum
sem er.
Shirazi- og svahilifólkið
(5500) er sjómenn og bændur, sem segjast eiga uppruna sinn í Persíu
á 10. - 12. öld, og forfeðurna
hafa verið höfðingja í Ozikonungsríkjunum í Shaka, Mwana og
Ungwana, Malindi og Bombasa. Nú
á dögum trúa fáir á þessar sögur og fátt skilur þessa þjóðflokka
að annað en fortíðarstolt, sem er á völtum grunni.
Fiskveiðar
og landbúnaður eru veigamestu atvinnuvegir bajun-, svahili- og
shirazimanna. Fiskispjót
og línur (mishipi) eru notaðar til veiða ýmissa fiskitegunda
(chungu, danfu, kile, kole og riguru) og körfugildrur úr pálmatrefjum
og klofnum bambus og fiskikistur eru líka algengar.
Fínmöskvuð kastnet (kidifu) eru notuð til að veiða dagaa,
reknet (majerifa) eru notuð til að veiða fisk í yfirborðinu frá bátum
og stór fiskinet (majuya) eru lögð frá bátum og dregin á höndum
upp á ströndina.
Á
sögulegum tímum hefur fólkið í strandhéruðunum stundað
breytilegan landbúnað. Brennsla
lands til að fjarlægja óæskilegan gróður áður en landið er
brotið frekar sáningar fyrir regntímann hefur verið stunduð allt frá
2. öld samkvæmt lýsingum í Periplus Erítreuhafs.
Kókoshnetur eru talsvert mikilvægar fyrir efnahaginn og daglegt
líf. Þær gefa hráefni
til bygginga og þakgerðar, kaðla- og körfugerðar auk olíu, matar
og drykkjar. Strandbúar rækta
margs konar rótarávexti, s.s. cassava (til brauðgerðar; muhogo), sætar
kartöflur (kiasi), yam (kiasi kikuu) og taro (majungwa).
Einnig er ræktað korn, s.s. hirsi (mtama), hrísgrjón (mpunga)
og maís (mahindi) og alls konar ávextir, m.a. bananar (mgomba; ávöxturinn
heitir ndizi), mangó (mwembe), appelsínur (mchungwa), límónur
(mlimao) og papæja. Cashews-,
baðmullar- og mangroveskurður á Lamusvæðinu gefur arð í aðra hönd.
Dhowskip
(madau), sem notuð eru til langsiglinga með vörur suður eftir
austurströndinni frá Arabíu, Persaflóa og jafnvel Indlandi koma enn
þá við í Lamu, Malindi og Mombasa við upphaf suðvesturmonsúnsins.
Floti þessara litlu skipa taldi fyrrum mörg hundruð en nú eru
þau orðin örfá og vélknúin. Eintrjáningar
(mtumbwi) eru enn þá notaðir í höfnum og víkum. Á Lamueyjum eru fallegir seglbátar, sem eru kallaðir
jahazi, algengir auk kjalarlausu skjaldbökubyttnanna, sem kallast dau
la mwao.
Margir
strandbúar eru hagleiksiðnaðarmenn.
Kalkvinnsla úr kóröllum er enn þá mikilvægur iðnaður.
Skipasmíðar og trésmíði, málmhúður karfna, mottugerð, kaðlagerð
úr kókostrefjum og málmi og leðuriðnaður eru hefðbundnar
atvinnugreinar í þorpunum.
Fyrrum
réði soldánin á Sansibar yfir strandlengjunni, sem hann leigði
Bretum sem verndarsvæði árið 1895, og margar kisvahilimælandi byggðir
lögðu meira upp úr samskiptum við araba en íbúana inni í landi.
Nú á dögum er þetta breytt og bajun-, svahili- og shirazifólkið
hafa tekið sér stöðu með öðrum þjóðflokkum Kenja. |