Ströndin
meðfram Indlandshafinu er hafsjór af fróðleik og sögu.
Um miðbik hennar er höfnin í Mombasa eins og safn minninga,
sem ná aftur til fyrstu sjóferða sögunnar.
Samkvæmt „Paradísarmissi” eftir skáldið John Milton varð
höfnin og afþreyingarstaðurinn í Malindi norðan Mombasa til árið
4026 f.Kr. eftir sköpunina. Þessa
er getið í kvæðinu, þegar erkiengillinn Mikael var að gefa Adam
yfirsýn yfir heiminn.
Tengsl
við gamla testamentið. Nói
átti vínekru og þótti sopinn góður.
Þegar hann var eitt sinn undir áhrifum, stofnaði hann til
rifrildis við fjölskyldu sína vegna sonar síns Hams og barnabarnsins
Kanaans. Það endaði með
því, að Nói bölvaði afkomendum sínum Hamítum og Kanaanítum.
Þetta leiddi til þess, að Jósúa sigraði þá í orrustu og
rak þá frá Palestínu. Þeir héldu suður um eyðimerkur Norður-Afríku.
Síðar sameinuðust þeir skyldum ættbálkum shem og héldu
lengra suður og austur um Horn til svæða upp af ströndinni í Kenya.
Samtímis
þessu voru Salómon og Seba virk í þessum heimshluta. Áhrifasvæði drottningarinnar
náði frá Rauðahafi að Mósambík samkvæmt bókinni um dýrð
konunganna. Floti Salómons
flutti gull frá höfninni í Ophir, sem Milton minntist á, en týndist
á dularfullan hátt við Atlantis.
Samkvæmt nýlegustu rannsóknum kynni það að hafa verið
talsvert sunnar en Mósambík. Floti
konungsins safnaði fílabeini, öpum og páfuglum í höfnum á leiðinni
til baka, sem þýðir líklega að hann hafi komið við í Mombasa.
Um
svipað leyti og hamítar og semítar voru á leiðinni innan úr landi
voru Egyptar að kanna strandhéruðin.
Frásögn af slíkum leiðangri er að finna í hofinu Deir el
Bahri í Þebu við Níl, þar sem sjá má mynd, sem líkist höfninni
í Mombasa verulega. Á myndinni sjást skip fermd með reykelsi, mirru og appelsínutrjám
í bölum og apar eru að leik í möstrum þeirra.
Nacho,
síðasti faraóinn, hleypti öðrum leiðangri af stokkunum árið 600
f.Kr. Hann kannaði hafnir
í Puntlandi (Punt er borið fram Pwane að sögn Egyptalandsfræðingsins
og prófessorsins Petrie), en þetta nafn nota arabískir sæfarar enn
þá um strandlengju Kenya. Þar
sem egypzkum heimildum sleppir taka hinar grísku við og þar er
Kenyastrandar getið. Samkvæmt sjóferðabókum skipstjórans á Periplus frá
Eritreuhafi var siglt milli Egyptalands Arabíu, Indlands og Mombasa um
miðja 1. öld í viðskiptaerindum.
Þar er meira að segja getið um helztu innfluttu vörutegundirnar,
s.s. vefnaðarvörur og fatnað frá Aden og tvíkögraðar línkápur,
muni úr tinnu, gler og látún til skrauts og í myntir, þunnar
koparskífur, járn, ólífuolíu, verkfæri, sverð, aktygi og hunang
úr sykurhálmi (sacchari), fílabein,
nashyrningshorn og skjaldbökuskeljar, eintrjánunga o.fl.
Fólkið
frá Muza réði miklu í strandhéruðum Kenya og sendi þangað
skipstjóra og umboðsmenn, sem skildu og töluðu mál innfæddra og
margir þeirra blönduðust þeim.
Það lítur því út fyrir að flutningar á sjó hafi hafizt
fyrir Krists burð. Þá hafa Mombasa og Malindi verið miðstöðvar viðskipta
og viðskiptamálið svahili, sem er blanda arabísku og máli innfæddra,
hefur orðið til. Svahili
byggir líka á arabísku letri. Grískir
kaupmenn áttu sitt blómaskeið í Egyptalandi undir skipulegri stjórn
Rómverja.
Meðal
kaupmannanna, sem sigldu lengst til suðurs með ströndinni, var
Diogenes. Hann sagðist
hafa tekið land við Rhaptum (Pangani) og gert út leiðangur inn í
landið, þar sem hann sá tvö stór stöðuvötn og snævi þakinn
fjallgarð við upptök Nílar. Hann
sagðist hafa verið 25 daga í leiðangrinum, sem er ótrúlega skammur
tími. Kládíus Ptolemaeus
fékk opinberlega heiðurinn af því að finna upptök Nílar 17 öldum
síðar. Frásagnir hans
voru helzta heimild um landafræði Afríku fram á miðaldir.
Hann staðfesti legu stöðuvatna og fjalla og sagði frá
strandlengjunni milli Jubaárinnar og Durnfordhafnar, en þar er öll
strönd Kenya innifalin. Hann
kallaði þetta strandsvæði Parvum Litus, Lamu nefndi hann Serapion,
Malindi var Essina og Mombasa var Tonika.
Fyrsta landakort, sem er eignað honum er frá árinu 130.
Viðskipti
og velmegun. Þótt
undarlegt sé, eru heimildir um viðskipti Grikkja og Araba á Kenyaströnd
fáar. Kristnir arabar héldu
áfram að setjast þar að og verzla við Mombasa og Malindi.
Mestur var fjöldi arabískra innflytjenda eftir að spámaðurinn
Múhammeð kom fram á sjónarsviðið.
Þetta fólk var á flótta undan trúarlegri og stjórnmálalegri
óreiðu. Á þessum tíma lifðu hafnarborgirnar á austurströndinni
blómaskeið sín. Arabarnir
lögðu undir sig Mogadiscio, Mombasa, Malindi, Lamu og strandbæi
sunnar á ströndinni. Vegna
hinnar miklu fólksfjölgunar var lítið byggt af fallegum húsum í
arabískum stíl og kofar úr kóröllum og leðju spruttu upp eins og
gorkúlur. Landbúnaðurinn
blómstraði og fólkið var vel klætt.
Arabíski sagnaritarinn Mahsaudi, sem heimsótti austurströndina
á 9. öld, skýrði svo frá í bók sinni „Gullinakrar og eðalsteinanámur”,
að Mombasa og Malindi væru ríkar af gulli og fílabeini.
Um
þetta leyti, á 8. og 9. öld, fóru hegiraarabar að verzla við stórveldi,
sem náði yfir Miðjarðarhaf, sunnan Frakklands, við Rauðahaf og inn
fyrir landamæri Kína og Indlands.
Þessi viðskipti voru möguleg vegna tilkomu þríhyrnda
seglsins, sem olli gjörbyltingu í sjóferðum vegna þess eiginleika
þess, að sigla má með þeim upp í vindinn.
Austurströnd
Afríku var aldrei hluti af arabíska stórveldinu, þótt íbúar
hennar nytu viðskipta við það.
Tækniframfarir, nýjar vörutegundir, nýjar og breyttar áherzlur
og viðskiptasiðir voru afrakstur Austurstrandar-búa af viðskiptum við
hinn fjölbreytta og stækkandi markað.
Þetta var tiltölulega friðsamlegt fimm til sex alda tímabil
þar til Portúgalar komu til sögunnar.
Fólkið í borgríkjunum var metnaðargjarnt og viðskiptin
efldu stöðugleika og samkennd. Þröngar
göturnar (kitoto) iðuðu af lífi og þrælar unnu sleitulaust að
fermingu og affermingu árabáta.
Þegar
leið að lokum 15. aldar fóru evrópskir könnunarleiðangrar að
raska skipulaginu. Jóhann,
konungur Portúgals, og sonur hans, prins Henry sæfari, voru aðalaflvakar
könnunarleiðangra fram undir aldamótin 1700.
Árið 1498 er portúgalska árið á Austurströndinni.
Það kom í kjölfar skipunar Henrys prins til Vasco da Gama um
að sigla fyrir Góðravonarhöfða og finna sjóleiðina til Indlands.
Þegar
litli flotinn hans kom til stranda Mósambík, fundu leiðangursmenn
einna helzt araba fyrir. Meðal
þess, sem da Gama gat um í skýrslu sinni var, að nokkur arabísk smáskip
hefðu verið í höfninni, hlaðin hringjum, perlum, gimsteinum og rúbínum. Aröbunum, sem voru orðnir heimaríkir, var ekki skemmt við
komu Evrópumanna. Það
kom upp ágreiningur milli leiðangursmanna og arabanna og Portúgalarnir
höfðu sig sem skjótast á brott, en hugsuðu aröbunum þegjandi þörfina.
Eitt arabísku smáskipanna lagði samtímis úr höfn til að aðvara
fólkið norðar á ströndinni. Það
varð til þess, að da Gamaleiðangurinn varð fyrir leifturárásum á
skipalæginu við Mombasa og skorið var á akkerisfestar skipa hans.
Da Gama vildi forðast bein átök og hélt því til Malindi, þar
sem hann fann loksins vinveittan soldán.
Samkvæmt
skýrslunni var heimsóknin ákaflega ánægjuleg og sagt var, að húsin
þar væru háreist og hvítmáluð með mörgum gluggum.
Ofan bæjarins voru pálmalundir og allt um kring var ræktaður
maís og grænmeti. Í
heila níu daga var haldin hátíð til heiðurs gestunum, sýndarbardagar
og tónlist voru til skemmtunar. Loksins
voru portúgölsku skipin hlaðin ávöxtum, grænmeti og kjöti.
Soldáninn lagði til leiðsögumann, sem þekkti leiðina til
Calicut (Kalkútta), þannig að ferðin til Indlands var tryggð.
Langt
samband við Portúgala. Hið
svonefnda „vinasamband” Portúgala og Malindi náði yfir tvær
aldir en aðrar hafnarborgir á
ströndinni guldu fyrir óblíðar móttökur fyrstu Evrópubúanna.
Cabral hernam og rændi Mombasa árið 1500, Almeida gerði hið
sama 1505 og árið 1528 hjó Nuña da Cunha í sama knérunn.
Í
annálum sínum gáfu þeir lýsingar á borginni:
„Mombasa er falleg borg með háreistum húsum úr steini og
steinlími við beinar götur. Timburverk
er mjög vel fellt saman. Fólkið
er klætt fötum úr silki og af gulli er nóg.
Það er mikil umferð í borginni og höfnin er góð”.
Árið
1593 hófu Portúgalar byggingu virkisins Fort Jesus ofan við höfnina
í Mombasa. Í fyrstu var
það ekki annað en lágreistir veggir, sem voru hækkaðir og stækkaðir
þar til virkið fékk núverandi útlit.
Portúgölum fannst þeir öruggir innan veggja þess.
Þeir voru vel búnir vistum, skotvopnum og skotfærum og
atvinnuher-menn sáu um varnirnar, þannig að þeir þóttust standa
betur að vígi en herskáir arabarnir og ættbálkar innfæddra fyrir
utan múrana. Arabar börðust
með kjafti og klóm á sjó og á landi til að ná yfirráðunum á ný
en án árangurs, jafnvel með aðstoð Ali Bey, sem var Tyrki.
Þeir áttu líka vafasama bandamenn, WaSimba, herskáan ættbálk,
sem átti um sárt að binda eftir meðferð Portúgala í Mósambík. Þessir WaSimbar (Ljón á kisvahili) héldu norður á bóginn
og skildu eftir sviðna jörð. Þeir
réðust árangurslaust á setulið Portúgala í Mombasa og héldu til
Malindi, þar sem þeir biðu annan ósigur.
Það nægði til þess, að þeir drógu sig í hlé og létu
ekki á sér kræla aftur.
Portúgalar
lögðu æ meira af strandlengjunni undir sig og kröfðust skatta.
Íbúarnir liðu fyrir harðstjórnina og þoldu mikla harðýgi
fyrir minnstu brot. Því
betur sem Portúgalar festu sig í sessi þeim mun lakari varð árangur
kristinboðs þeirra meðal múslima og heiðinna innfæddra.
Portúgalar
voru í vonlausri aðstöðu. Þeir
reiddu sig á innflutning allra nauðsynja frá Góa á Indlandi nema
matvæla. Malaría og aðrir
sjúkdómar hjuggu stór skörð í herlið þeirra og skipin, sem
fluttu þeim liðsauka urðu að berjast hatramlega til að komast inn
í höfnina í Mombasa. Árið
1696 hófu arabarnir og bandamenn þeirra umsátrið um Jesúsvirkið,
sem leiddi til falls Portúgala. Árásin
hófst með því, að arabískur floti réðist á Mombasa með
sprengjuregni. Fimmtíu
Portúgalar og 2500 íbúar lögðu virkið undir sig og bjuggu þar í
níu mánuði við þröngan kost og takmörkuðum matvælum var smyglað
inn að næturlagi. Varnarherinn
var að niðurlotum kominn á jóladag, þegar fjögur portúgölsk
herskip skriðu inn á höfnina. Fögnuðurinn
varð skammur, því að fallstykkjum araba var beint gegn þeim og þau
hörfuðu og sigldu brott. Mánuði
síðar brauzt svarti dauði út í virkinu.
Fáir lifðu pestina af, aðeins yfirmaður virkisins, tvö börn,
nokkrir karlmenn og 50 konur. Virkisstjórinn
lézt mánuði síðar. Í
september 1697 var virkið endurmannað með 150 Portúgölum og 300
indverskum hermönnum, sem komu frá Mósambík.
Umsátrið hélt áfram í 15 mánuði, unz aröbunum tókst að
ryðjast yfir múrana með hjálp velsks skipstjóra og áhafnar hans.
Aðeins ellefu karlar og tvær konur í virkinu lifðu
hildarleikinn af en voru miskunnarlaust lögð í gegn með sverðum.
Umsátrið
hafði tekið 33 mánuði og Portúgalar hurfu endanlega á brott.
Arabar réðu landsvæðinu frá Paté til Vanga þar til Bretar
og Þjóðverjar komu í lok 19. aldar. Æðsti presturinn í Óman, sem réði ríkjum, var máttlaust
yfirvald. Hann skipaði
karlmenn úr Nahabanfjölskyldunni landstjóra í Paté, úr Mazruisfjölskyldunni
í Mombasa og El-Hathisfjölskyldunni í Sansibar.
Landstjórarnir áttu í innbyrðis illdeilum og íbúar
strandarinnar liðu fyrir það. Það
dró úr viðskiptum og velmegunin varð að engu.
Þegar nýr valdhafi Ómans kom til Austur-Afríku snemma á 19.
öld, urðu efnahags- og stjórnmálalegar framfarir.
Þessi maður var Seyyid Said, sem sendi heri til Paté, Pemba og
Mombasa árið 1822 til að ná bæjunum úr höndum Mazruisættarinnar.
Á
þessu stigi hófust afskipti Breta á þessu heimssvæði, því að
Mazruissoldáninn Suleiman bin Ali bað þá um vernd.
Næsta ár var unnið að kortlagningu strandarinnar á brezkum könnunarskipum,
HMS Leven og HMS Barracouta. Þegar
Barracouta kom til Mombasa, þrábáðu Maruisarabarnir Vidal skipstjóra
að draga enska fánann að húni í virkinu og leggja Sansibar og nærliggjandi
svæði undir ensku krúnuna. Vidal
neitaði að gera það, en Owen skipstjóri á Leven hafði annað í
sinni. Hann féllst á að
þetta yrði brezkt verndarsvæði og dró fánann upp 7. febrúar 1824.
Það
var komizt að bráðabirgðasamkomulagi um stjórnina og þrælahald
var afnumið. J.J. Reitz,
flokksforingi á Leven var gerður að virkisstjóra með embættismönnum,
einum túlki, fjórum sjómönnum, sjóliðþjálfa og þremur óbreyttum
hermönnum. Ákvörðun
Owens að taka við völdum var send til Indlands og London til staðfestingar.
Meðal fyrstu ákvarðana Reitz var að senda leiðangra meðfram
ströndinni til frekari könnunar.
Hann heimsótti Pangani í maí 1924, fékk malaríu þar og dó.
Emery flokksforingi var skipaður í hans stað. Hann var strangur stjórnandi, sem lét til sín taka, en stjórnmálamenn
og kaupmenn Mombasa gerðu hann næstum vitstola með tvöfeldni sinni.
Í þeirra augum var enski fáninn ekki annað en táknræn vernd
gegn herjum Ómans.
Að
þremur árum liðnum hafnaði stjórnin í London aðgerðum Owens
skipstjóra og þar með lauk brezkri vernd í Mombasa.
Þetta opnaði Seyyid Said valdhafa í Óman leið til að
endurheimta yfirráð sín árið 1828.
Hann sendi flota þangað, kom hermönnum fyrir í virkinu í
Mombasa og skipulagði smáraakrana á Sansibar, sem hafa verið stöðug
tekjulind fólksins þar æ síðan. Árið 1832 flutti Seyyid hirð sína frá Óman til Sansibar
og skeið hagsældar fylgdi í kjölfarið.
Innan fárra ára var yfirráðaréttur soldánsins á Austurströndinni
milli Guardafui- og Delgadohöfða viðurkenndur og hann fór að dreyma
um afrískt stórveldi.
Opnun
þrælaflutningaleiða. Þegar
hér var komið sögu var ströndin galopnuð fyrir viðskiptum og þýzkir,
brezkir og bandarískir kaupmenn komu sér fyrir.
Flutningaleiðir fyrir þrælalestir voru opnaðar alla leið að
Viktoríuvatni. Lítið var
hugað að skiptingu meginlandsins á dögum Seyyids, en þegar hann dó
fóru Frakkar, Ítalar og Þjóðverjar að huga að stofnun nýlendna.
Leopold Belgíukonungur hafði auga á Malindi sem góðum
upphafsstað járnbrautar til Kongó og þrjú egypzk herskip undir stjórn
McKillop Pasha sigldu suður meðfram ströndinni til að tryggja fótfestu
Egypta í Mombasa, Malindi eða Lamu.
Seyyid Majid, nýi soldáninn á Sansibar, útvegaði skipunum
vistir með því skilyrði, að þau færu til baka til Egyptalands.
Þegar hann dó 1870, kom bróðir hans, Seyyid Bharghash til
valda og þá var farið að skipta Austur-Afríku.
Skiptingin hófst með komu evrópskra landkönnuða og trúboða
og í kjölfarið komu opinberir framherjar verðandi nýlenduherra.
Brezka
Austur-Afríkufélagið. Árið
1886 náðu Bretar og Þjóðverjar samkomulagi um áhrifasvæði
Sansibar. Soldáninn hélt
yfirráðum á u.þ.b. 17 km breiðri landræmu með ströndum fram sem
brezku verndarsvæði. Þessi
ráðstöfun stóð óbreytt þar til Kenya fékk sjálfstæði 1963, þegar
Seyyid Khalifa lét nýju stjórninni í Kenya þetta svæði eftir.
Árið 1887 fékk Brezka Austur-Asíufélagið stjórnartaumana
og verzlunarréttindin á ströndinni milli Vanga og Kipini í hendur.
Ári síðar var gefið út konunglegt leyfisbréf í þessa veru
en félagið fór á hausinn í júlí 1895.
Brezka stjórnin keypti eigur félagsins fyrir 200.000 pund og
lagði landsvæðið, sem er núverandi Kenya, undir sig og skírði það
Brezku Austur-Afríku. Bretar
greiddu soldáninum á Sansibar 17.000 pund á ári fyrir að fá að
halda hinni 17 km breiðu strandlengju undir brezkri vernd.
Skotinn
Sir William Mackinnon, fyrrum forseti félagsins, skipulagði fyrstu
gufuskipaferðir til hafna Austur-Afríku og lét leggja veg frá
Mombasa til Kibwezi. Þar
með var komið á viðskiptum við innri hluta landsins og það varð
til lagningar járnbrautar til Uganda og þrælaverzlun leið undir lok.
Lagning járnbrautar frá Mombasa hófst árið 1896.
Hún náði til Nairobi þremur árum síðar í maí 1899.
Hinn 2. desember 1901 kom fyrsta lestin til Port Florence
(Kisumu) við Viktoríuvatn. Aðalviðskiptin
fluttust frá Sansibar til Mombasa og gufuskip tóku forystuna í
flutningum milli borgarinnar og Evrópu. Arabísku smáskipin með þríhryndu seglunum héldu áfram
flutningum til og frá Indlandi og Arabíu.
Malindi,
sem hafði glatað sinni fornu frægð, varð að miðstöð plantekruræktunar.
Botninn datt fljótlega úr þeirri starfsemi vegna þverrandi
markaða fyrir gúmmí og þurrkaða kókoshnetukjarna.
Evrópsk og asísk fyrirtæki settu upp útibú í Lamu.
Járnbrautin hafði fært Mombasa velmegun en ráðamenn fyrirtækja
þar komust fljótlega að þeirri niðurstöðu, að framtíð þeirra
væri betur tryggð í Nairobi. Plantekrumenn,
kaupmenn og stjórnarskrifstofur fluttu sig líka um set, þegar fyrirtækin
í Mombasa fluttust til Nairobi. Seglskipin urðu aftur allsráðandi í Mombasahöfn og ráðagerðir
voru uppi um byggingu stórskipahafnar í Kilindini. Rafvæðing hófst árið 1908 og fyrsti bíllinn ók um götur.
Árið 1902 var gefið út dagblað í Mombasa og gufuþvottahús
hóf starfsemi. Barcleysbankinn
stóð við Ríkissjóðstorg (Treasury Square) og brátt var
Standardbankinn kominn þangað líka.
Opinber gjaldmiðill var indverska rúpían.
Heimsstyrjaldirnar
og áhrif þeirra. Stór
skipafélög notuðu þjónustu innlendra skipamiðlara og innflytjendur
náðu undir sig mestum hluta viðskipta við Úganda.
Járnbrautaleiðirnar voru greiðar fyrir vöruflutninga og farþega.
Í fyrri heimsstyrjöldinni fóru miklir liðs- og
hergagnaflutningar um höfnina í Mombasa og viðskiptin blómstruðu.
Ný ferja hóf ferðir frá eyjunni til Likoni á sunnanverðri
ströndinni. Eftir stríðið
héldu mikil viðskipti áfram í nokkur ár áður en heimskreppunnar fór
að gæta. Kaffi féll mikið
í verði og var selt á 32.- pund tonnið og sísal á 11.- pund.
Laun voru mjög lág. Fyrirtæki,
sem þraukuðu, fóru að rétta úr kútnum á fjórða áratugi 20.
aldar. Smám saman blómstraði
efnahagurinn á ný, þannig að hálfrar aldar tímabilið frá 1940 er
talið hið bezta í sögu strandbyggða Kenya.
Mombasa
og Malindi nútímans. Hver,
sem kynntist þessum bæjum á fjórða áratugi 20. aldar, þekkti þá
ekki aftur nú. Báðir
hafa þeir stækkað mun meira en búizt var við.
Mombasa er nú stærsta borgin á norðausturströnd
meginlandsins. Mikið er um
stór- og smáiðnað. Íverustaðir
ferðamanna í Bamburi hafa breytzt úr kofum með pálmablaðaþökum
í alþjóðleg glæsihótel meðfram allri ströndinni og hundruð þúsunda
ferðamanna úr öllum heimi láta fara vel um sig þar.
Gamla
flugfélagið Wilson Airways notaði litla flugbraut þar sem er nú alþjóðaflugvöllurinn
Changamwe. Vegakerfið, sem
byggðist á malarvegum og moldarslóðum, er nú hið bezta í svörtu
Afríku. |