Hvað
á að taka með sér:
Myndavélar
og sjónaukar ættu að vera með í farteskinu.
Golfarar og veiðimenn taka með sér viðeigandi tól.
Filmur
fást í Kenja, en eru mjög dýrar.
Kodak-, Fuji- og Agfamyndafilmur eru framkallaðar á staðnum.
Ýmsar
snyrtivörur og sólkrem fást, en eru innflutt og dýr. Nauðsynleg lyf er betra að taka með sér.
Innstungur
í Kenya eru þriggja gata (240v), svo að millistykki er nauðsynlegt.
Ökuskírteini
er nauðsynlegt þeim, sem ætla að leigja sér farartæki og aka sjálfir.
Hvernig
skal klæðast. Ársveðurlagið
í Næróbí er líkt sumarveðri í evrópskri borg.
Þar er gott að hafa fallega, létta jakka við höndina til að
fara í á kvöldin, þegar kvöldverður er snæddur á veitingastöðum.
Konur ættu að klæðast pilsum niður fyrir hné og stuttbuxur
eru ekki vel séðar inni í borgum.
Suma
mánuðina, s.s. ágúst, getur verið alskýjað, svalt á daginn og
napurt á kvöldin, þannig að það er gott að hafa hlý föt til að
bregða sér í á þessum tíma árs.
Hafi
fólk í hyggju að eyða lunganum úr dvölinni í safariferðum, þarf
fjölbreytnin í fatnaði að vera meiri og hæfa öllum árstíðum,
sem fer þó eftir því hvar ferðast er í landinu.
Í
strandhéruðunum og í ferðum um villidýrasvæði klæðist fólk léttum
og óhefðbundnum fatnaði. Sumir
klæðast veiðimannabúningum í felulitum í þessum safariferðum,
þótt það sé ekki nauðsynlegt.
Það
er öllum fyrir beztu að hafa einhvers konar höfuðfat til að verjast
sólinni.
Það
er víðast ætlast til þess, að fólk klæðist hefðbundnum kvöldverðarfatnaði
í hótelum og á veitingastöðum, eða sem líkast því og fólk
gerir í skíðahótelum í Evrópu.
Flestum
konum finnst þægilegt að klæðast baðmullarkjólum, því að þeir
eru svalari og þægilegri en buxur, einkum á daginn.
Kjósi konurnar frekar buxur, ættu þær að vera víðar og rúmgóðar.
Val
fótabúnaðar ætti frekar að miðast við þægindi en útlit og tízku.
Gönguleiðir og gangstéttar í borgum eru víðast ójafnar og
stundum alls ekki til.
Íþróttafatnaður,
s.s. sundföt, ættu alltaf að vera meðferðis.
Stundum er slíkur fatnaður mjög dýr í Kenja.
Það
er mælt með straufríum fatnaði, sem er hægt að láta þvo á hótelum
og veitir ekki af, því að hann verður fljótt óhreinn af svita og
rauðleitu ryki. Oft þarf
að skipta um föt tvisvar eða þrisvar á dag.
Það
er ekki mælt sérstaklega með regnfatnaði, jafnvel þótt fólk ætli
í safariferðir á regntímanum.
Safarifatnaður,
klæði og skæði, fæst í búðum í Næróbí og fleiri borgum.
Hann er á skikkanlegu verði og hægt að láta sauma á sig föt
á nokkrum dögum. Karlmönnum
finnst mjög gott að klæðast þessum fötum, því þau eru svöl, líta
vel út og hægt að henda þeim í þvottavélina.
Konur
kjósa oft kangafötin, ódýrar og þægilegar, lausar blússur í óendanlegum
útgáfum, eða kikoi, sem er efnisbútur, sem þær vefja utan um sig
(sarong).
Það
er látið óátalið en stundum litið hornauga, að fólk spóki sig
í stuttbuxum í Mombasaborg á daginn, en bezt er að taka tillit til múslimanna,
sem gera strangari kröfur um klæðaburð en aðrir trúarhópar. Siðir þeirra og trúarbrögð koma í veg fyrir að fólk
megi sóla sig nakið eða topplaust á ströndum landsins.
Koman til landsins. Vegabréf og
áritanir. Allir, sem koma
til landsins, verða að hafa gilt vegabréf.
Áritana er krafizt af flestum, sem koma ekki frá öðrum löndum
Brezka heimsveldisins nema Ástralíu, Nígeríu og Shri Lanka.
Borgarar Bretlands, Indlands, Bangladesh og Pakistans þurfa áritun
auk Suður-Afríkíumanna. Um
þessar mundir þurfa Danir, Írar, Eþíópar, Finnar, Þjóðverjar,
Hollendingar, Ítalar, Norðmenn, Spánverjar, Svíar, Tyrkir og Úrúgvæar
ekki áritun. Þessar reglur eru breytingum háðar, þannig að það er
betra að ganga kirfilega úr skugga um hvaða reglur gilda hverju
sinni. Það tekur u.þ.b.
sex vikur að fá áritun, sem gildir oftast í þrjá mánuði í senn.
Ferðamenn,
sem koma með farseðla fram og til baka eða áfram frá landinu, fá
áritunarvegabréf við komuna til landsins gegn 30.- US$ greiðslu.
Það gildir venjulega í þrjá mánuði.
Engum
útlendingi er heimilt að setjast að í landinu og fara að vinna þar
án sérstakra leyfa frá útlendingaeftirliti landsins.
Tollurinn
Heimilt
er að flytja inn tollfrjálst ónotaða persónulega muni, filmur,
myndavélar og fylgihluti þeirra (ekki sýningarvélar) á meðan á dvöl
stendur.
Heimilt
er að flytja inn tollfrjálst 250 g af tóbaki (200 vindlinga eða 50
vindla), einn lítra af áfengi og einn lítra af ilmvatni.
Búast
má við að ferðamenn séu krafðir um tryggingu fyrir því, að þeir
taki aftur með sér hljómflutningstæki, útvörp eða geislaspilara,
og fái hana endurgreidda gegn framvísun tækjanna við brottför.
Skotvopn
má einungis flytja inn með viðeigandi leyfi frá skotvopnaeftirliti
landsins (Central Firearms Beaurau, P.O.Box 30263, Nairobi).
Sjúkdómar
og heilsufar
Malaría.
Malaría er landlæg í Kenja neðan 1830 m hæðarlínunnar yfir
sjó, þannig að það er nauðsynlegt að taka pillur (prophylactic)
í tvær vikur fyrir förina, á meðan á henni stendur og tvær vikur
eftir að heim er komið. Það
borgar sig ekki að láta þetta undir höfuð leggjast, þótt dvalið
sé mestan hluta tímans í Næróbí, því að fólk verður oft fyrir
stungum smitbera í skoðunarferðum til strandar eða að Viktoríuvatni.
Gula
og kólera. Það er mælt
með ónæmisaðgerðum vegna þessara sjúkdóma, þótt yfirvöld í
Kenya krefjist þess ekki af ferðamönnum frá Evrópu, Norður-Ameríku
og Ástralíu. Komi fólk
frá sýktum svæðum, er bólusetningar-vottorðs krafizt skilyrðislaust.
Sund.
Fólki er eindregið ráðið frá því að synda í lygnum ám
og stöðuvötnum, hversu freistandi sem það kann að vera.
Ástæðan er sníkjudýr, sem vatnasniglar bera með sér, og
sezt að í innyflum manna og ræðst m.a. á lifrina og fleiri mikilvæg
líffæri (bilharzia).
Sund í sjó. Það er næstum
öruggt að synda í Indlandshafinu.
Það er alger undantekning, að hákarlar eða önnur hættuleg
sjávardýr komist inn fyrir kóralrifin með ströndum fram.
Þó eru nokkrir meinbaugir á sjóböðunum, s.s.
steinfiskurinn, sem lítur út eins og kórall á botninum.
Stígi einhver á hann, gefur hann frá sér eitur og fórnarlambið
verður að fara strax til læknis.
Nokkrir aðrir skrautlegir fiskar, þ.á.m. drekafiskurinn, eru
eitraðir en ekki nándar nærri eins og steinfiskurinn.
það er því mælt með því, að baðgestir séu í léttum
skóm (segldúksskór duga), þegar þeir eru að busla í sjónum.
Miðbaugssólin.
Mörgum ferðamönnum finnst sólin í Kenja engu sterkari en
heima hjá sér á sumrin og gera sér ekki grein fyrir því, að hún
er í hvirfilpunkti við miðbaug.
Hún skín svo sterkt, að hvítskinnungar verða að sóla sig
í skömmtum. Á ströndinni
verða þeir að nota þykkt lag af sólvörn í byrjun og stunda sólböð
snemma á morgnana og seint síðdegis, byrja smátt og auka skammtinn
smám saman eftir því, sem húðin tekur lit.
Það er nauðsynlegt að nota beztu sólkremin, helzt vatnsþolin,
þegar synt er í sjónum. Það
þarf að gæta barnanna sérstaklega vel, láta þau vera með höfuðföt
og sólverja þau jafnvel betur en fullorðna.
Þau ættu alltaf að synda í skyrtubolum.
Það er mælt með A-vítamíni, þegar fólk byrjar að baða
sig í sólinni.
Hæðarmunur.
Venjulega tekur það fólk tvo daga að aðlagast stöðum, sem
liggja hátt yfir sjávarmáli, s.s. Næróbí.
Það er minna magn af súrefni í andrúmsloftinu þar en við
sjávarmál og fólki hættir til að verða lúið um miðjan daginn eða
fá smáhöfuðverk. Uppi
í fjöllum, ofar 4000 metra hæðar, er hætta á óvæntri
lungnaertingu (pulmonary oedema), sem leggst jafnvel á þjálfaða íþróttamenn
en reykingamenn geta sloppið og komizt á tindinn meðan hinir betur þjálfuðu
verða að jafna sig áður. Eina leiðin til að bæta ástand þeirra, sem falla fyrir
þessum sjúkdómi, er að koma þeim sem fyrst niður aftur, ella geta
afleiðingarnar orðið alvarlegar.
Kranavatnið.
Vatnið í Næróbí er drykkjarhæft, en það er mest hætta á,
að fólk, sem er nýkomið þangað fái niðurgang engu að síður.
Ástæðan er bæði fæðisbreytingin og vatnið.
Alls staðar utan borgarinnar verður að sjóða vatnið áður
en þess er neytt, nema það komi úr tærum fjallalækjum.
Bezta lausnin er að taka enga áhættu og kaupa vatn í flöskum
og drekka mikið af því. Þótt
fólki finnist það ekki svitna mikið, þegar það ferðast um þurrar
sléttur og eyðimerkur, hverfur mikill vökvi úr líkamanum og ofþornun
getur verið stórhættuleg.
Heilsugæzla.
Heilsugæzluþjónusta er betri í Kenja en í flestum öðrum
Afríkulöndum. Í Næróbí
eru tvö fyrsta flokks sjúkrahús og líka á ströndinni. Fjöldi lækna og skurðlækna er mikill og nokkrir þeirra
eru heimsþekktir auk þess eru margir góðir augn- og tannlæknar.
Neyðarnúmerið fyrir sjúkrabíla og læknisþjónustu er 999.
Einnig er hægt að hringja í St John´s Ambulance, Næróbí,
í síma 222396. Lögreglan
í Næróbí, símar: 72888
/ 717777 / 240000.
Það
er enginn skortur á lyfjabúðum með löggiltum lyfjafræðingum.
Flest lyf eru á boðstólnum, þótt sum þeirra beri önnur nöfn
en við þekkjum að heiman. Lyfjafræðingarnir
eru greiðviknir og afgreiða lyfseðisskyld lyf án þess að fara þurfi
til læknisins fyrst. Flestar
lyfjabúðir eru lokaðar síðdegis á laugardögum, sunnudögum og á
almennum frídögum. Nafn
lyfjafræðings á vakt er oft á skilti á hurðinni eða fæst á næsta
sjúkrahúsi. Afgreiðslutími
lyfjabúða um helgar er auglýstur í dagblöðunum.
Almennir
frídagar. Hinn 1. janúar
er haldið upp á nýársdag. Í
apríl er það föstudagurinn langi og annar í páskum.
Fyrsti maí er hátíðisdagur verkamanna.
Fyrsti júni er Madaraka, haldið upp á sjálfstjórn landsins.
Hinn 10. oktober er innsetningardegi forsetans, Moi, fagnað.
Tólfti oktober er þjóðhátíðardagurinn, Jamhuri (sjálfstæðisdagurinn).
Hinn
25. desember er jóladagur. Breytileg
dagsetning er á Idd ul Fitr (frídagur múslima, sem miða daginn við
fullt tungl).
Leiðirnar
til Kenya
Með
flugi. Auk ríkisrekna
flugfélags landsins, „Kenya Airways”, fljúga 35 alþjóðleg flugfélög
reglulega til landsins og frá. Alþjóðaflugvellirnir
tveir, Jomo Kenyatta í Næróbí og Moi í Mombasa, taka við lunganum
úr gestum, sem koma til landsins um loftin blá.
Flugvöllurinn við höfuðborgina er einhver hinn nýtízkulegasti
í álfunni. Mombasavöllur
er ekki eins stór og íburðarmikill, en samt nógu stór fyrir breiðþotur.
Sjóleiðin.
Það er ekki lengur eins algengt að sigla í ró og næði með
skemmtiferðaskipum til Mombasa. Það
er hægt að komast með örfáum flutingaskipum, sem eru jafnframt að
hluta til gerð til farþegaflutninga.
Evrópubúar geta farið með þeim frá einhverri stórhafnanna
í álfunni. Eina alvörusjóleiðin
er með fokdýru skemmtiferðaskipi Cunardfélagsins eða Ellerman, sem
dvelja fremur stutt í Mombasahöfn og bjóða aðeins stuttar safariferðir
um landið á meðan á dvöl stendur.
Það er líka hægt að komast með arabísku smáskipi eða tvíbytnum
frá Sansíbar eða Dar-es-Salam í Tansaníu til Mombasa.
það er ekki mælt með slíkum ferðum, því þær geta tekið
marga daga og eru alláhættusamar.
Landleiðin með lest. Það eru engar
beinar lestarleiðir til Kenja. Það
liggur járnbraut frá Dar-es-Salam í Tansaníu til Mwanza við Viktoríuvatn
og yfir vatnið með ferju til Kisumu.
Þaðan liggur leiðin til Nairóbí og Mombasa.
Fáir aðrir en sögusnápar fara með lestum um þessar slóðir.
Landleiðin
með bíl. Þessi leið er
erfið úr norðri vegna ástandsins í Norðaustur-Afríku.
Það hefur engu að síður verið gert og nokkrar ferðaskrifstofur
í London eru í bjóða safariferðir til Kenja, aðallega fyrir ungt
ævintýrafólk. Það eru
líka skipulagðar einkaferðir. Það
yrði að skipuleggja þær út í yztu æsar í nánu samstarfi við
sendiráð landa, sem leiðin liggur um.
Einstaklingar hafa lagt þessar leiðir að baki á mótorhjólum
en það er skynsamlegra að ferðast í velbúnum aldrifsbílum, a.m.k.
tveimur saman vegna eyðimarkanna, sem eru á leiðinni.
Það er unnið að lagningu þjóðvega til Juba í Suður-Súdan
og norður um Eþíópíu og að því loknu verða leiðir greiðari.
Þeir, sem velja þessar leiðir, verða að hafa alþjóðleg
ferðaskjöl: Leiðarbók
(Carnet de passage et Triptique); alþjóðlegt tryggingarskírteini; alþjóðlegt
ökuskírteini. Það er auðveldara
að komast landleiðina inn í Kenja frá Úganda og Tansaníu en öðrum
nágrannalöndum
Áætlunarbílar
aka frá Dar-es-Salam til Mombasa eða lestar til Tanga og rúta þaðan
yfir landamærin. Mikið
ekin leið frá Arusha eða Moshi til Nairóbí tekur 5 klst. með rútu
og fljótlegt að komast yfir landamærin.
Það
er heillaráð að fá upplýsingar hjá Félagi bifreiðaeigenda í
Kenja (Automobile Association of Kenya, P.O.Box 40087, Nairobi).
Handhæg
heimilisföng
Sendiráð
og ræðismenn
Ástralía:
7. hæð í QBE byggingunni, 33-35 Ainsli Avenue, Canberra, ACT
2601. Sími: 474788.
P.O.Box 1990, Canberra.
Kanada:
Gillin Building, Suite 600, 141 Laurier Avenue, West Ottawa,
Ontario KIP 5J3. Sími:
5631773-6.
Bretland:
45 Portland Place, London, WIN 4AS.
Sími: 0171-6362371.
Upplýsingamiðstöðvar
erlendis
Bretland:
25/25 New Bond Street, London W14
9HD. Sími:
0171-3553144.
BNA:
424 Madison Avenue, New York, NY 10017.
Sími: 4861300. 111 Doheny Plaza, 9100 Wilshire Boulevard, Beverly Hills,
California 90121. Sími:
2746635.
Klúbbar
Lions
Central, P.O.Box 82569, Mombasa. Sími:
Sec 25061.
Lions
Pwani, P.O.Box 81871, Mombasa. Sími:
Sec 20731.
Lions
Host, P.O.Box 47447, Næróbí. Sími:
Sec 742266.
Lions
Central, P.O.Box 44867, Næróbí.
Sími: 338901.
Lions
City, P.O.Box 30693, Næróbí. Sími:
Sec 27354.
Lions
North, P.O.Box 42093, Næróbí. Sími:
Sec 21251.
Lions Westlands, P.O.Box 42593, Næróbí. Sími:
Sec 556020.
Lions
Kikuyu, P.O.Box 47301, Næróbí. Sími:
Sec 24023.
Lions
International (District 411), P.O.Box 45652, Næróbí. Sími: Sec 331709.
Rotary
Eldoret, P.O.Box 220, Eldoret. Sími:
Sec (Eldoret) 2936.
Rotary Kilindini, P.O.Box 99067, Mombasa.
Sími: Sec 25157.
Rotary Mombasa, P.O.Box 90570, Mombasa. Sími:
Sec 226330 (Jitesh Shah).
Rotary
North, P.O.Box 30751, Næróbí. Sími:
719800 (Harry Mugo).
Rotary
South, P.O.Box 46611, Næróbí. Sími:
Sec 540300 (Simon Glover).
Rotary
International (District 920), P.O.Box 564, Kampala, Úganda.
Sími: (041) 259604.
Fjölmiðlar.
Ríkið rekur enskumælandi útvarp og sjónvarp.
Þar að auki er ein einkarekin sjónvarpsstöð, Kenya
Television Network, sem býður góða dagskrá ásamt CNN.
Einkarekið tónlistarútvarp, Capital FM, er líka í rekstri og
það er hægt að gerast áskrifandi að ýmsum gervihnattastöðvum.
Þrjú dagblöð koma út á ensku, The Standard, The Nation og
Kenya Times.
Vikublaðið The East African flytur fréttir frá öllu landssvæðinu.
Erlend blöð og tímarit fást líka.
Póstþjónustan.
Það eru póstafgreiðslur í flestum stórum klösum og þjónustan er
góð. Ferðamenn senda póst
sinn aðallega frá hótelunum. Nokkur
einkarekin fyrirtæki annast hrað- og bögglasendingar.
Biðpóstur er frír á aðalpósthúsum.
Það er hægt að senda símskeyti í gegnum síma og frá símstöðvum.
Síminn
nær til innan- og utanlandssímtala, sem eru oft ótrygg, samband
rofnar og afgreiðslan er tafsöm.
Bezt er að hringja í talsamband við útlönd (gegn gjaldi).
Beint samband næst milli aðalsímstöðva í landinu á örbylgju
og komið hefur verið upp STD kerfi fyrir talsamband við útlönd.
Hótel og símstöðvar bjóða fax- og tölvupóstþjónustu
allan sólarhringinn. Þessi
þjónusta fer um gervihnetti frá jarðstöðina á Longonotfjalli.
Upplýsingamiðstöðvar
ferðamanna. Í Næróbí er slík miðstöð fyrir framan Hilton hótelið
og í Mombasa er hún rétt hjá fílatönnunum, sem ná yfir götuna
Moi Avenue. Flestar ferðaskrifstofur
og fyrirtæki, sem bjóða skoðunar- og safariferðir, veita líka upplýsingar
og þar liggja líka frammi bæklingar og frí kort.
Dagblöðin birta líka ýmsar upplýsingar um sértilboð o.fl.,
sem er í gangi. Í
veitingahúsinu „Thorn Tree Cafe” er skilaboðatafla, þar sem er
m.a. í boði flutningur milli staða á vægu verði og þátttaka í
safariferðum fyrir þá, sem hafa knöpp fjárráð.
Ljósmyndun.
Það er áríðandi að biðja fólk um leyfi til að taka
myndir af því áður en smellt er af.
Mælt er með Kodachrome 64 fyrir litskyggnur og fólki er ráðlagt
að geyma filmur sínar á svölum stöðum, þegar hitinn er mikill. Bezti tíminn til myndatöku er snemma á morgnana og seint síðdegis.
Leigubílar.
Eina almennilega fyrirtækið, sem rekur leigubíla, er ríkisfyrirtækið
Kenatco Transport Company. Það
á flota af mercedes benz bílum, sem eru á hverju strái og oftast er
hægt að treysta bílstjórunum til að krefjast ekki hærra kílómetragjalds
en gjaldskráin segir til um. Að öðru leyti gildir frumskógarlögmálið í þessum
rekstri og hver, sem vill getur stundað leiguakstur.
Margir þessara bíla eru með gulum röndum en aðrir eru af öllum
gerðum og aldri. Það er
alltaf hægt að semja um fargjaldið við þessa sjálfstæðu
atvinnurekendur og það skyldu allir gera fyrirfram.
Áður en samið er við leigubílstjóra um fargjald ætti fólk
að kynna sér verðlagning þeirra hjá hótelum sínum.
Rútur.
Það er ekki auðvelt fyrir erlenda gesti að átta sig á ferðum
strætisvagna og á háannatímum (07:00-09:00 og 16:30-18:30) eru þeir
sneisafullir. Þeir eru ódýrasti
ferðamátinn í borgunum og rútur á milli landshluta, þar sem eru sæmilegir
vegir. Rúturnar eru fyrir
alla, sem vilja ferðast með þeim, en þær eru flestar komnar til ára
sinna og úr sér gengnar. Ökumenn
þeirra aka eins og þeir séu með skrattann á hælunum, þannig að
slys eru því miður tíð.
Matatus
eru ódýrar, einkareknar rútur, sem aka um borgir og milli þeirra.
Þær eru yfirleitt troðfullar og hættulegar og ekki er mælt
með þeim fyrir erlenda gesti.
Ferðamenn
í Næróbí nota oft peugeot-leigubílaþjónustu til að heimsækja bæi
í Misgengisdalnum og aðra staði.
Einkareknar lúxusrútur
aka líka milli Næróbí og Mombasa og boðnar eru 4 - 5 daga safariferðir
í svokallaðri „Turkanarútu” til norðureyðimarkanna.
Næturrútur
ætti alls ekki að nota vegna tíðra slysa!
Lestar
og vatnabátar.
Það er mjög
hagstætt að ferðast með lestunum á 1. eða 2. farrými.
Kynjunum er skipt í lestunum nema pantaður sé heill klefi.
Ferðin milli Mombasa og Næróbí tekur u.þ.b. 12 klst.
Lestin ekur um nætur í báðar áttir og boðnir eru tveggja og
fjögurra koju klefar auk bar- og veitingavagns.
Lestarnar ganga líka inn í landið frá Næróbí til Kisumu og
Viktoríuvatns, þar sem ríkisjárnbrautirnar reka vatnabáta til
Mwanza og annarra hafna í Tansaníu.
Bílaleigur.
Hertz og Avis starfa í Næróbí og Mombasa auk fjölda annarra
minni fyrirtækja innfæddra og bjóða allar gerðir bíla, með eða
án bílstjóra. Ferðamönnum
er ekkert að vanbúnaði að leigja sér bíla og halda á vit ævintýranna
á eigin spýtur. Það er
svo sem ekki hætturlegra að aka um Kenya en mörg önnur lönd, ef fólk
kynnir sér aðstæður. Bezt
er að hafa áfanga tiltölulega stutta og panta alltaf gistingu
fyrirfram. Þá er nauðsynlegt
að hafa landakort, verkfæri, varadekk, mat og drykk við höndina.
Innfæddir vara við ástandi malar- og moldarveganna, innlendum
ökumönnum, sem aka eins og vitleysingjar, hættuni á að villast o.þ.h.
Þeir gera vafalaust of mikið úr hættunum, því að allir
skynsamir ökumenn komast leiðar sinnar á milli helztu ferðamannastaða,
s.s. Amoseli, Tsavo, Næróbí og Mombasa.
Öðru
máli gegnir sé ferðinni heitið til afskekktari staða eins og
Turkanavatns. Í slíkum
safariferðum duga bara fjórhjóladrifnir bílar, meiri birgðir matar,
tækja og tóla, fatnaðar og þekking á staðháttum auk fylginauta á
öðrum farartækjum.
Á
ströndinni eru m.a. handhæg farartæki, kölluð „mini-moke”, til
leigu. Þau eru þægileg
til að skjótast á milli staða á baðströndinni.
Brottför.
Hafa þarf í huga, að krafizt er brottfararskatts á
flugvöllum (US$). Kvittunin er
stimplun á farseðilinn, sem er skoðaður við innganginn að
brottfararsvæðinu. Þegar
ferðast er innanlands, þarf að greiða 100,- Ksh í flugvallarskatt.
Safariferðir.
Í safariferðum gildir aðgát og heilbrigð skynsemi.
Reglur ferðamálaráðuneytisins, sem ber að fylgja í þjóðgörðunum
og fólkvöngum landsins, eiga að stuðla að verndun dýra og náttúru
auk ferðamannanna sjálfra. Mörgum
ferðamönnum hættir til að gleyma sér og nálgast dýrin of mikið.
Meginreglan er að vera kyrr í bílunum og loka gluggum og þaklúgum,
ef dýrin nálgast. Það
er óheimilt að vera á ferli á þessum verndar-svæðum í myrkri.
Villidýrin fara á stúfana í ljósaskiptunum í fæðuleit og
næturdýr koma úr fylgsnum sínum.
Hámarkshraði ökutækja er 48 km/klst.
Þjóðgarðsverðirnir eru tiltækir sem leiðsögumenn í slíkum
ferðum. Þeir eru betri en
enginn og þekkja allar aðstæður eins og buxnavasana sína.
Sjóstangveiði.
Allt frá upphafi 20. aldarinnar var Kenja þekkt fyrir villidýraveiðar.
Um miðbik aldarinnar var farið að gefa stórfiskunum í
Indlandshafi gaum. Bændur
inni í landi voru vanir að fara í sumarleyfisferðir til strandar.
Það var haft á orði, að þeir, sem ættu heima á hálendinu,
yrðu að fara í þessar ferðir til að komast hjá heilaskaða.
Sumir bændanna komu sér upp bústöðum á ströndinni, syntu
í sjónum og veiddu minni fisktegundirnar á grunnsævinu.
Það kom að því, að þeir fóru að sækja út fyrir kóralrifin
til að veiða stórfiskana, sem fiskimenn á ströndinni veiddu að staðaldri.
Nú
eru sportfiskveiðar stundaðar meðfram allri ströndinni frá Shimoni
í suðri til Mambrui í norðri. Til
þeirra eru notaðir alls konar bátar, allt frá kanóum til
lystisnekkja. Stærð
farsins skiptir ekki máli, þegar markmiðið er hið sama.
Það er haldið allt að 40 km út frá ströndinni í þeirri
von að slá metin og veiða stærsta segl- eða sverðfiskinn.
Það er aldrei búið að veiða hinn stærsta og hann hefur sést
oft
Áhugamenn
um sjóstangaveiði geta skipulagt alls konar veiðiferðir hjá aragrúa
fyrirtækja, sem bjóða þessa þjónustu.
Bezt er að gera slíkt í Shimoni, Mombasa, Kilifi og Malindi. Þar er hægt að leigja báta með áhöfn og öllum veiðitækjum
fyrir allt að 550 US$ á dag.
Venjulegast
er farið um borð fyrir dagrenningu og sigla á vit ævintýranna á
sama tíma og sjómennirnir fara á sínum bátum.
Þeir hagnýta sér landgoluna, sem fyllir þríhyrndu seglin og
kemur bátunum að kóralrifjunum, þar sem þeir varpa akkeri og veiða
lungann úr deginum.
Á
djúpsævinu utar er alltaf mesta vonin svona snemma á morgnana.
Þá er oftast svalara og lygnt í sjóinn.
Þegar líður á daginn yfirvinnur álandsmonsúninn
aflandsvindinn (umande) og þá getur viðkvæmt fólk orðið sjóveikt.
Hver skipstjóri hefur sinn háttinn á, þegar kemur að toghraða
bátanna. Sumir vilja toga
hratt en aðrir hægt og það virðist ekki skipta miklu máli, því að
allir veiða þeir fisk.
Helztu
stórfiskategundirnar eru sverðfiskur, seglfiskur, túnfiskur,
risakarfi og hákarlar.
Veiðitíminn
stendur yfir samtímis norðausturmonsúninum frá nóvember til marz.
Þetta er tiltölulega hægur vindur og sómalski straumurinn
snertir Kenjaströnd áður en hann sveigir til austurs.
Þessi hafsstraumur er hlaðinn næringu úr hafsdjúpunum austan
Arabíuskaga og því er gnægð af fiski.
Á
tímabilinu apríl til oktober ríkir suðausturmonsúninn með miklu
meira afli eftir að hafa náð sér á strik yfir stóru, opnu hafssvæði.
Á þessum tíma fara bara hörðustu og áköfustu veiðimenn út
á stórum bátum. Það er
ekki mikið að hafa, því straumurinn ber lítið með sér af fiski.
Það er alltaf von um að sjá flugfiska, höfrunga eða
risahvalhákarl, sem getur orðið 15 m langur og er jafnmikið gæðablóð
og hann er ljótur. Hann
hefur ekkert á móti köfurum syndandi með sér.
Það kemur þeim ekki úr jafnvægi, þótt kafararnir hangi í
bakuggum þeirra, sem eru á stærð við hlöðuhurð.
Eina hættan er fjöldi minni hákarla, sem eru nokkurs konar
fylgifiskar með allt aðra skapgerð. |