Maasai Mara Kenja,


MAASAI MARA
KENJA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Mara þýðir sundurleitur og líklega fékk þjóðgarðurinn þetta nafn af blettum gnýjanna og rándýra.  Í þessum þjóðgarði eru nálega 3 milljónir dýra á 3200 km² svæði.  Fólk er á ferð um hann allt árið og alltaf er eitthvað að sjá eins og hefur vafalaust verið síðustu tvær milljónir ára.  Við einhverja síðustu talningu var áætlaður fjöldi grasbítandi hjarðdýra þessi:  1,4 milljónir gnýja, 550.000 gasellur, 200.000 sebrahestar, 60.000 ipalaantílópur og fjöldi annarra grasbíta.  Ljónin eru hluti af þessu landslagi, bæði venjuleg og svartfext, auk fjölda annarra kattardýra.  Villihundar sjást sjaldan á veiðum og hýenurnar, sem flestir halda að séu lúmskar hræætur, sýna á sér allt aðra hlið, þegar þær stunda sínar markvissu veiðar.  Alls eru 95 mismunandi tegundir spendýra í garðinum, láðs- og lagardýr og skriðdýr, 485 fuglategundir (leðurblökur ekki innifaldar), tsetse-flugur og önnur skordýr.  Innan marka þjóðgarðsins, á 648 km² svæði, búa tvær ættkvíslir maasaimanna, sem eru og hafa verið hluti af náttúru þessa landshluta um langt skeið.

Gnýrinn kysi örugglega að halda sig suður í lággresinu á ársvæðum Serengeti, því hann á sér ekkert skjól fyrir rándýrum í Maasai Mara.  Hann bítur grasið niður í svörð á stórum svæðum og eltir síðan úrkomuna í norðvesturátt.  Hjarðirnar (alls 1, 4 milljón dýra) halda, að því er virðist, skipulagslaust, af stað í leit að beitarlöndum, en elta líklega eitt forystunaut, sem ákveður af eðlishvöt, hvenær skuli haldið af stað í áttina að Viktoríuvatni.  Hin dýrin elta í smáhjörðum eða stök og brátt myndast endalaus röð, sem líkist maurum úr lofti.  Áður en þau koma að vatninu sveigja þau til norðurs, yfir Maraána inn í Kenja, þar sem nóg er að bíta við árnar, sem steypast niður eystri brún Misgengisdalsins.  Þar dreifast dýrin um hæðirnar og dalbotninn.  Nautin eru í sífelldri hættu vegna rándýranna, sem skjótast skyndilega út úr runnaþykkninu.  Í oktober halda dýrin af stað í suður á móti úrkomunni til upprunalegra slóða.  Á þessari leið er fylkingin mjórri og dreifðari en á norðurleiðinni án þess að nokkur viti ástæðuna.  Á leiðinni fara hjarðirnar um Olduvaigilið, þar sem Louis og Mary Leakey grófu nokkra forfeður okkar úr röndóttum setlögunum.  Þar fundu þau líka tveggja milljóna ára forfeður gnýjanna, þannig að þessi dýrategund hefur þraukað lengi, þrátt fyrir margt mótlæti.

Umhverfisfræðingar óttast, að ástandið á Serengeti Mara svæðinu eigi eftir að breytast við ásókn manna eftir ræktunarlandi fyrir bygg til að geta satt þorsta 40 milljóna bjórþyrstra Kenjamanna um eða upp úr aldamótunum 2000.  Þeir kunna að hafa rétt fyrir sér en eins og stendur er þetta svæði stórkostlegasta náttúrusýning veraldar.

Þegar ekið er inn á þessar slóðir frá Næróbí, er annaðhvort valin efri eða neðri leiðin til Nakuru.  Efri leiðin er þægilegri á góðum vegum um háhlíðar Misgengisdalsins en hin neðri liggur um holótta moldarvegi, sem ítalskir stríðsfangar lögðu.  Katólsk kirkja við rætur Misgengisdalsins er minnismerki um veru þeirra þar.  Báðar leiðirnar liggja um 50 km leið að Kedongdalnum, þar sem maasaimenn réðust á og myrtu 550 burðarmenn og „Trader Dick” hefndi síðar.  Skammt þaðan er Mayersbýlið, þar sem moranfólkið dansar fyrir gestina í síðdegisteinu.

Þegar beygt er til vinstri af gamla veginum, þar sem skiltið vísar til Narok í 90 km fjarlægð, er ekið fram hjá jarðstöðinni við Margrétarfjall og tveimur gömlum eldfjöllum.  Það er hægt að ganga upp á Longonotfjall og ganga á gígbrúninni í 2800 m hæð yfir sjó.  Útsýnið af fjallinu er erfiðisins virði.  Þrjú hundruð metrum neðar er Suswa spúandi gufum með allt að 1700 m langa hella, sem einungis þaulæfðir hellamenn eða fólk undir stjórn vanra manna fær að skoða.

Narok er lík tvíburabæ sínum Kajiado og er stjórnsýslumiðstöð Norður-Maasailands.  Þar er margt moranfólk á ferli og verzlar lítillega í skúraverzlunum, sem kallast duka.

Sextán km lengra er ryðgað rimlahlið veiðimálastofnunar við Brúná (Ewaso Nyiro).  Þaðan liggja margar slóðir og erfitt að átta sig hvert skal halda, jafnvel þótt skiltið sé uppi, sem er þó ekki alltaf. 

Áttavitastefnan til Keekerok, miðju Marasvæðisins, er suðvestur á miðleiðinni eftir vondum moldarvegi í 72 km fjarlægð.   Heildarvegalengdin frá Næróbí til Keekerok á mismunandi vondum og góðum vegum er 231 km, þannig að það borgar sig, ef efni leyfa, að leigja flugvél til að skjóta sér þangað.

Flestir gististaðir, mótel og tjaldbúðir, á Marasvæðinu bjóða eigin safariferðir.  Margir bjóða loftbelgsferðir í bítið til að njóta umhverfisins úr lofti og á eftir kemur kampavínsmorgunverður.  Þessar tjaldbúðir koma og fara en tvær til þrjár þeirra virðast vera til frambúðar.  Þar ræður rómantíkin ríkjum við varðelda, afrískan stjörnuhimin og þriggja rétta kvöldverði, sem einkennisklæddir þjónar bera fram (verð frá 2.100 kr. á mann).

Keekerok Lodge er gamaldags og þægilegt hótel frá nýlendutímanum, sem hefur tapað hluta af töfrum sínum vegna iðnaðarsvæðisins á bak við.  Mara Serena er uppi á brún í norðvestri og er lúxusútgáfa af Maasai Enkang þorpi.  Boðið er upp á ferðir með gúmmíbátum niður Maraána.

Það er hægt að loka hringnum um garðinn með ferð frá Keekerok til Ol-oo-lolo, sem er til hægri frá trúboðs-stöðinni í Lemek (Fr. Frans Mol þekkir maasaimenn vel).  Síðan er komið að vegamótunum við Ewaso Nyiro.

Maasaidraugabærinn Narosura.  Safariferð um þessar slóðir er aðeins fyrir tjaldferðamenn, sem sjá um sig sjálfir.  Þá er haldið til suðausturs yfir Loitasléttuna.  Þar og í Loita Hills eru enn þá lítt breytt maasaiþorp, þar sem íbúarnir klæðast 19. aldar, rauðum leiðurfötum og olkila  toga (vafningsbúningum; efnið í þá keypt í búðum).  Þarna eru engir vegir en nautgripagötur í staðinn, sem fjórhjóladrifin farartæki komast um í þurru.  Þegar rignir er bugðótt slóð frá sléttunni til Ewaso Nyiro notuð og ekið til vesturs til Maji Moto (heitt vatn) og niður á malbikaða veginn, sem liggur til fátæklegs maasaiþorps, Narosura.  Þetta þorp er glöggt dæmi um vanhirðu, sem hlýzt af óreiðu í stjórnskipulagi maasaiættkvíslanna.  Þar er markaður án nautgripa og byggð án hefðbundinnar stjórnar og aga.  Malbikaður vegurinn liggur áfram niður að ánni og síðan á gömlum göngustíg upp hlíðar Loitahæðanna.  Öldungar þorpsins minnast þessa stígs sem þjánigaleiðarinnar upp á hæðinar til helgistaðar hinna sjö gömlu trjáa, sem þeir kalla eneeni n´kujit.  Þessi leið er því miður ómerkt.

Dularfullir dalir og áhugavert fólk.   Rétt handan þessarar hæðar er hinn dularfulli  Laibondalur með þéttvöxnum skógi í grennd við þorpið Entesekera.  Þetta er óðal il-aiser laibonættarinnar og erkibiskupa (núverandi höfðingi heitir Simel.  Hann klæðist bláum búningum í stað rauðra og hefur skíðahúfu á höfði).  Annað skemmtilegt fólk á þessu svæði er il-Konono ættbálkurinn.  Stundum er erfitt að finn hann.  Þetta fólk leggur stund á járnsmíði og býr til sverð og spjót maasaimanna.

Slóðarnir ofan hæðanna eru erfiðir í þurru og ófærir í bleytu.  Þaðan er fagurt útsýni í landslagi, sem er ekki enn þá hluti af þjóðgarðinum.  Einn fegurstu staðanna er Empoopong og leiðin upp Nguruman hlíðina.  Þaðan sést yfir Magadivatnið.

Það kemur að því, að þessar slóðir verða miðleiðis þjóðvegar, sem verður lagður á milli Mara og Amboseli.  Hann mun liggja um Loita, Nguruman, Magadi og Kajiado.  Hann hefði átt að vera kominn fyrir löngu til að gera bezta safarisvæðið, Maasailand, aðgengilegra.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM