Fjallaþjóðgarðarnir Kenja,


KENJA
FJALLAÞJÓÐGARÐARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Vegalengdin milli þjóðgarðanna í Aberdaresfjöllum og Kenjafjalli er u.þ.b. 80 km.  Þeir ná yfir hæstu svæði þessara fjalllenda.  Kenjafjallsþjóðgarðurinn er 492 km² í 3470 m hæð og ofar með tveimur reinum, sem ná neðar í vesturhlíðunum.  Aberdaresgarðurinn er svipaður að stærð og nær yfir heiðarflæmi og fjallatinda og skógi vaxinn hrygg í austri, sem er kallaður „Trjátoppshöfði” (The Treetop Salient) eftir heimsfrægu hóteli.  Í görðunum eru stærstu vatnaskil landsins og þar er ótrúlegur fjöldi villtra dýrategunda.  Þjóðgarðarnir voru einkum stofnaðir fyrir útivistarfólk til gönguferða og fjallaklifurs.  Hæsti hluti Kenjafjalls, Batiantindur (5199m), laðar marga fjallgöngumenn til sín.

Þjóðgarður Kenjafjalls.  Fyrir rúmri öld vissu sárafáir um tilveru Kenjafjalls.  Fyrstu ferðamenn á þessum slóðum sögðu frá snævi þöktu fjalli á miðbaug og fæstir trúðu þeim.  Enginn hafði áhuga á Kirinyaga, hinu heilaga fjalli kikuyufólksins.  Guð þess, Ngai, varð viðfangsefni fyrstu kristniboðanna.

Árið 1887 stjórnuðu Samuel Teleki von Szek greifi og austurrískur félagi hans, Ludwig von Höhnel, leiðangri, sem leitaði að Turkanavatni (hét þá Embasso Narok).  Þeir lögðu lykkju á leið sína og príluðu langleiðina upp á Kenjafjall. Þeir áttu 915 m eftir upp á tindinn, þegar þeir létu gott heita.  Tólf árum síðar tókst Englendingi, Sir Halford Mackinder, að komast á tindinn en það dugði ekki til þess að vekja almennan áhuga.  Svo liðu 30 ár þar til hinn kunni fjallagarpur, Eric Shipton, náði tindinum.  Þá fyrst varð fjallið vinsælt meðal fjallagarpa og festa komst á uppgönguleiðir af mörgum erfiðleikagráðum.  Strangar reglur gilda um göngur á fjallið og dvöl í þjóðgarðinum vegna erfiðra uppgönguleiða, kulda á fjallinu, hættulegra dýra og fjallaveiki (lungnabjúgur).

Að tungunum tveim frátöldum hefst þjóðgarðurinn við efri brún skógarins, þar sem hann skarast við heiðarbeltið með sérkennilegu beitilyngi, sem er sums staðar hávaxið eins og tré og þakið mosa og fléttum.  Rétt ofan 3300 metra hæðar tekur við annað heiðarbelti með grasskúfum risavöxnum kardinálablómum (lobelia; aðallega rauð blóm) og brandbikar, sem verður allt að 5 m hár.  Fjöldi annarra blómjurta skreytir þetta svæði, s.s. stjörnufíflar (aster), döggblöðkur (alchemilla), jómfrúrliljur (gladiola) og riddarasporar (delphinium).

Hinir mörgu fjallsranar líkjast hjólaspælum, sem geisla út frá risavöxnum nöfum Batian- og Neliontinda.  Nelion er næsthæstur þeirra á eftir Batian, 5188 m hár.  Þessir tindar eru umkringdir fjölda annarra lægri tinda, snævi þöktum svæðum og smájöklum, heiðatjörnum, stöðuvötnum, fossum og fögrum skriðum.  Tindarnir eru leifar risavaxins gígtappa, sem hefur tapað umgerð sinni vegna veðrunar.  Neðan þessara tenntu tinda liggja margar leiðir fyrir hina reynsluminni fjallgöngumenn upp eftir jöklunum til Point Lenana í 4970 m hæð.

Fuglalífið er fjölbreytt, allt frá litlum, marglitum sólfuglum til stórra arna.  Meðal þeirra eru kórónuörninn, fjallagammurinn, Mackinderuglan, akurhænur og gullvængjaðir sólfuglar.

Í skógunum neðan heiðabeltanna er aragrúi villtra dýra, fílar, nashyrningar, buffalar, hlébarðar, antílópur, risaskógarsvín, colobus- og sykesapar.  Leifar fíla og buffala hafa fundizt ofar 4270 hæðar án þess að nokkur hafi fundið skýringu á veru þeirra þar.  Ljónin eru á heiðabeltunum, þótt þau séu ekki algeng.  Hinar stóru elandantílópur sjást oft á norðantil á þurrlendari svæðum heiðanna og sebrahestar sækja þangað tímabundið frá lægri svæðum.  Fótspor hlébarða og svína hafa stundum fundizt ofar snjólínu í allt að 4600 m hæð.  Nokkrar skriðdýrategundir eru þar einnig,  s.s. Hinds montane nöðrur, sem finnast bara á Kenjafjalli og á Aberdares-heiðunum. 

Fjallavötnin og tjarnirnar eru mjög fallegar.  Halltjörnin er mjög fallega staðsett, Michaelsonvatn, sem er 310 m neðar.  Á Curlingtjörninni fyrir neðan Lewisjökul fara fram ýmsir leikir á ísnum.

Þéttir regnskógar þekja lægri tungur þjóðgarðsins og hlíðarnar.  Aðaltrjátegundirnar eru einir (juniperus), ólífutré (olea) og podotré (podocarpus).  Ofan þessa beltis er bambusbeltið í u.þ.b. 2380 m hæð og þar fyrir ofan er rósviðarbelti (hagenia) með risavöxnum St. John káljurtum.  Þar fyrir ofan taka heiðabeltin við.

Nokkrir bílaslóðar bugðast upp skógi vaxna fjallahryggina.  Tveir þeirra liggja alla leið upp á heiðarnar, Sirimonleiðin (upp í 3900 m) og Timauleiðin (upp í 4160 m), sem er hin hæst liggjandi í Afríku.  Fljótlegasta leiðin að tindunum liggur eftir Naro Moruleiðinni, sem nær upp í 3020 m hæð, allt að jaðri heiðanna.

Allir gestir verða að skrá nöfn sín hjá hliðavörðum þjóðgarðsins á Naro Moru- og Sirimonleiðunum.  Fylgdarlausu fólki er ekki heimilaður aðgangur nema í eins dags ferðum, sem enda kl. 16:00.  Lágmarksfjöldi gesta ásamt leiðsögumanni og burðarmönnum er tveir, ef óskað er eftir leyfi til lengri dvalar í þjóðgarðinum.  Bezt er að bóka slíka leiðangra í Naro Moru River hótelinu.

Aberdares þjóðgarðurinn.  Fjallgarðurinn í þjóðgarðinum hefur verið skírður Nyandarua en gamla nafnið er lífseigt.  Í norðri rísa hæstu tindarnir á heiðarlöndunum upp í 4000 m hæð (Ol Doinyo Lasatima) og 40 km sunnar er hið 3906 m háa Kinangopfjall.  Milli þessara tinda er smáhæðótt heiði með grasskúfum og risabeitilyngi.  Þar eru líka skóglendisblettir með rósviði, St. John káljurt og bambusi.  Kardinálablóm og stjörnufíflar eru í skjólsælum dölum.  Ískaldir lækir, fullir af silungi, liðast um heiðarnar og steypast í fossum niður í dalina, þar sem þeir sameinast.

Til austurs er glæsilegt útsýni til Kenjafjalls.  Frá heiðarbrúninni sést yfir Sigdalinn í átt til Naivashavatns og til hins fjarlæga Maufjallgarðs.  Það er mikill fjöldi villtra dýra í þjóðgarðinum, þrátt fyrir köld tímabil og mistur.  Vesturhlíðar fjallgarðsins eru hluti Sigdalsins og eru því allbrattar.  Því eru þar færri villt dýr en í aflíðandi austurhlíðunum.  Flest dýranna eru sýnileg, s.s. fílar, buffalar, nashyrningar, elandantílópur og fleiri tegundir þeirra, runna- og vörtusvín, margar kattartegundir, sykesapar og hýenur.  Það er tiltölulega fátt um nashyrninga eins og annars staðar í landinu en þeir sjást helzt rétt við trjátungurnar.  Hjarðir fíla og buffala elta rigninguna og halda sig á bambussvæðum og í regnskóginum um þurrkatímann.  Þegar regntíminn hefst, færa þær sig upp á heiðarnar á hásléttunum og svæðin neðan þeirra, þar sem skóglendið er ekki eins þétt og bratti minni í hlíðunum.

Mestar líkur á því að sjá flestar dýrategundirnar er snemma á morgnana og rétt fyrir rökkur á kvöldin.  Ef heppnin er með, sjást sumar hinnar sjaldséðu tegunda, s.s. bongoantílópan, svarti hlébarðinn og risaskógarsvínið eða jafnvel kórónuörninn að klófesta colobusapa.  Svarti servalkötturinn sést alloft á heiðunum, einkum þegar hann er að veiða litlar antílópur, akurhænur eða nagdýr.  Það er algengt meðal kattardýra, smærri rándýra og augur-gamma, sem lifa í svona mikilli hæð yfir sjó, að dökkir blettir komi fram á húð þeirra og fjöðrum vegna litaróreiðu í líkama þeirra.

Ljónastofninn í Aberdaresfjöllum er talsvert stór og fyrrum var talið, að þau væru af öðrum stofni en ljónin á sléttunum.  Margir náttúrufræðingar hafa leitað án árangurs að hinum þjóðsagnakenndu blettaljónum en í stað þeirra hafa þeir fundið vísbendingar um afskaplega sjaldgæf „gullin ljón”.

Þjóðgarðurinn er þakinn í slóðum.  Suma þeirra gerðu Bretar, þegar þeir voru að berjast við Mau Mau uppreisnarmenn á sjötta áratugnum.  Mikilvægust þessara leiða er vegurinn frá Nyeri, sem liggur upp austurhlíðarnar, yfir heiðarnar, niður vesturhlíðarnar, gegnum landbúnaðarhéraðið Kinangop að Naivashavatni.  Þessi vegur er lagður slitlagi að hluta og liggur alla leið upp í 3170 m hæð yfir sjó.  Fólk, sem hyggst aka þessa leið, ætti að hafa samband við einhvern eftirtalinna aðila áður en haldið er af stað, einkum í votviðri, því að stundum eru hlið þjóðgarðsins lokuð, þegar rignir:  AA í Næróbí; aðalstöðvar þjóðgarðsins í Mweiga; Bell krána við Naivasha; Outspan í Nyeri eða Naro Moru River hótelið rétt hjá Nanyuki.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM