Amboseli Tsavo þjóðgarðar Kenja,


AMBOSELI og TSAVO
ÞJÓÐGARÐAR KENJA
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Mt. KilimanjaroAmboseliþjóðgarðurinn er ímynd Kenja fyrir flesta ferðamenn, sem koma til að skoða ljón, fíla, hlébarða og önnur villt dýr með Kilimanjarofjall í bakgrunni.  Bezti tími dagsins til að upplifa þessa ímynd er um og skömmu eftir dagrenningu.  Þá eru dýrin á fótum og fjallið blasir við í klukkustund áður en skýin hylja sýn.  Það er líka heillandi að vera á ferðinni rétt fyrir og um sólarlag, þegar umhverfið tekur á sig ævintýralegan og óraunverulegan blæ.

Það er hægt að fara í dagsferðir til Amboseli frá Næróbí, u.þ.b. 480 km leið fram og til baka á tiltölulega góðum vegum og slóðum.  Engu að síður er miklu skynsamlegra og áhugaverðara að dvelja um nótt í garðinum og fara líka um Tsavoþjóðgarðinn áleiðis til strandar.

Frá Næróbí er ekið um Uhuruþjóðveginn að Mombasavegi, þar sem er vikið til hægri við flugvöllinn og ekið í áttina að hvítum rykmekki við Athiána frá sementsverksmiðju, sem stendur þar.  Athiáin var nefnd eftir þjóðsagnakenndum ættflokki dvergbúskmanna.  Þaðan er sveigt til suðurs í áttina að landamærum Tansaníu á slitlögðum vegi um þurr svæði til il-Kaputiei, þar sem maasaiættflokkur býr.  Áætlanir voru uppi um skiptingu þessa landsvæðis milli massaihirðingja, sem áttu að framleiða nautakjöt en þær hafa ekki gengið eftir.  Massai-menn eru fastheldnir á fornar venjur og óstýrilátir, þannig að þetta land er enn þá almenningur, sem er nýttur sem beitiland allt að Ngonghæðum og Næróbíþjóðgarðinum.

Þjóðvegurinn frá Athi um Isenya trúboðsstöðina og minjagripaverkssmiðjuna til bæjarins Kajiado er u.þ.b. 48 km langur.  Kajiado er stjórnsetur Suður-Maasai-lands, þótt maasaimenn taki minna mark á þeirri stjórn en öldungum sínum, en-kiguena.  Að öðri leyti er Kajiado verzlunarbær og um hann fara lestir frá Magadivatni með salt og natríum til Næróbí.  Utan Kajiado er landslag hæðótt á 58 km löngu svæði að landamærabænum Namanga við rætur þverhnípts kletts, OiDainyo Orok (Svartafjalls).  Orðið orok þýður svartur og stendur fyrir hina góðu hlið eins guða maasaimanna, Enkai, sem hefur tvær ásjónur.  Þegar honum er misboðið kemur rauða hliðin í ljós.

Hin týnda ættkvísl Ísraels?  Fjallið eða kletturinn er heilagur og einn töframanna laibonmanna er grafinn einhvers staðar uppi á honum.  Á leiði hans er varða, sem fær á sig geislabaug, þegar fyrstu sólargeislar dagsins skína á hana.  Þetta fyrirbrigði er talið tákn um, að maasaimenn séu afkomendur hinnar týndu ættkvíslar Ísraela.  Hvað, sem um þá má segja, eru þeir í svipaðri aðstöðu og amerísku indíánarnir eftir árið 1862.  Annaðhvort verða þeir að setjast að á verndarsvæðum, sem gera þeim tæpast kleift að sjá sér farborða, eða þvo af sér rauðu málninguna, raka sig og verða hluti af deiglu hinna mörgu kynþátta.  Þessum kostum verða maasaimenn að velta fyrir sér, þegar þeir sjá fyrrum stríðsmenn sína reyna að pranga perlufestum og stuttum sverðum (simi) inn á ferðamenn við Namangaárhótelið.

Á þessum slóðum er Tansanía aðeins steinsnar í burtu, rétt um 3 km leið en leiðin inn í þjóðgarðinn liggur til vinstri frá landamærastöðinni.  Þaðan eru u.þ.b. 80 km að miðju hans við Ol Tukai og leiðin liggur um grasi vaxnar kalksléttur.  Náttúruvísindamenn segja svæðið viðkvæmt og akstur utan vega og slóða er stranglega bannaður.  Engu að síður eru hjólför úti um allt, líkt og víða á hálendi Íslands.  Leiðin liggur að Amboselivatni, sem er ekkert annað er þurr vatnsbotn eða nokkrir pollar um regntímann.  Þegar hreyfir vind myndast oft ryk- og saltský og oft virðist vatnið vera stórt og mikið í tíbránni í fjarska.

Þegar þessum sjónhverfingum lýkur í grennd við Ol Tukai, verður Kilimanjarofjall ríkjandi á sjóndeildarhringn-um.  Leysingavatnið frá snævi þöktum tindi þess seitlar í gegnum hraunin og birtist aftur í lindum og mýrum í miðjum þjóðgarðinum, þar sem eyðimörkin verður skyndilega græn.  Þar vaxa pálmar, gulberktar akasíur og safaríkt gras, sem laðar til sín grasbíta víða að.  Stjórn landsins og Bandaríska dýrafræðifélagið hröktu maasaimenn frá miðju þessa svæðis fyrir skömmu.  Áætlanir um að pumpa vatni frá svæðinu út fyrir þjóðgarðinn mættu mikilli mótspyrnu.  Þá var þjóðgarðurinn, sem var orðinn að bannsvæði fyrir búsetu maasaimanna, minnkaður í 392 km².

Svæðið í kringum Ol tukai er mjög þéttsetið villidýrum og tæpast hægt að komast hjá að sjá fjölda tegunda og rándýrin með bráð í safariferðum.  Þarna reika stórar hjarðir af fílum og nokkrir nashyrningar halda sig oft nærri akasíuskógunum við lindirnar.  Þeim fækkað verulega, þegar maasaimenn fóru hamförum í mótmælaskyni við brottvísunina úr garðinum og drápu fjölda þeirra með spjótum sínum.  Veiðiþjófar hafa líka höggvið skarð í stofninn til að safna hornum, sem eru seld til Kína, þar sem þau eru mulin í duft og seld sem meðul við getuleysi og til að draga úr sótthita.  Buffalóar eru í kringum mýrarnar eins og hvítir nautgripir með nautaspætur á baki og egretfugla allt um kring.  Tvær tegundir kjötætna, jarðúlfar og villihundar, eru mjög styggar og sjást sjaldan.

Gammar og vefarar.  Kvikmyndin „Þar sem engir gammar fljúga” var tekin í Amboseli, þrátt fyrir tilvist sex tegunda gamma, sem svífa vængjum þöndum í hitauppstreyminu.  Alls búa 240 tegundir fugla í garðinum, þ.á.m. hinir skrautlegu kóngaveiðarar og tavega gullvefarar, sem finnast ekki annars staðar í landinu.

Flestar tegundir stórra villidýra eru í nánd við mýrarnar í Enkongo Narok, þar sem ískalt vatn sprettur upp um sprungur í svörtu hrauninu, og á leiðinni upp á Observation Hill (Útsýnishæð) hlaupa oft fílar, ærðir af maurum, sem hafa skriðið upp í rana þeirra, á undan farartækjunum.  Ofan af hæðinni er allgott að koma auga á ljón í nánasta umhverfi á sléttunni fyrir neðan.

Það er auðvelt að fá gistingu í Amboseli, ef pantað er fyrirfram.  Þar voru við síðustu talningu tvö góð mótel á Ol Kukai svæðinu auk ódýrari gistimöguleika.  Við eystra Kimanahliðið er líka gott mótel og enn þá eitt við Loitokitok-Emaliveginn, 40 km frá garðinum.

Vestur-Tsavo.  Þessi safariferð liggur um Kimanaþorpið (130 km frá Næróbí) á moldarvegum beint að miðju þjóðgarðsins í Kilaguni.  Hin grænu og öldóttu Chyulufjöll sjást fyrst í fjarska á vinstri hönd og koma sífellt nær.  Þau eru meðal yngstu jarðmyndana í landinu, e.t.v. ekki nema nokkurra alda gamlar, og einn toppanna, Shaitaini (ísl: satan), er svartur af gjalli.  Fjallshryggurinn er u.þ.b. 80 km langur, allt að 7 km breiður og 2.200 metra hár.  Það er geysivíðsýnt þaðan yfir Tsavoþjóðgarðinn, en leiðin um fjöllin er sjaldan notuð vegna hættanna, sem skapast, þegar skyggni minnkar í skýjum og mistri.

Ofan úr fjöllunum streyma neðanjarðarár, sem koma upp í garðinum sem tærar lindir í Mzima rétt sunnan Kilaguni.  Þar spretta upp 20 til 20 milljónir lítra af vatni á klukkustund.  Hluti vatnsins er leiddur í pípum til Mombasa undir eigin þrýstingi en flóðhestar og önnur vatnadýr njóta þess að svamla um í þessum náttúrulegu þrýstipottum.  Það er hægt að virða dýrin fyrir sér frá útsýnispalli og bökkum lindanna eða úr neðanjarðarbyrgi í gegnum rúður.  Dýrin í nágrenninu nota þetta góða vatnsból óspart og í skóglendinu umhverfis er aragrúi af öpum og fuglum.  Vestur-Tsavo er að öðru leyti hálfgert þurrkasvæði, erfitt yfirferðar og villt með sléttlendi og háum hæðum og klettum úr graníti, sem líta út eins og grafsteinar í fjarska.

Fjallgarðurinn Ngulias er í norðurhluta þjóðgarðsins og fólk helzt stóru villidýrin í grennd við hann.  Hæst rísa fjöllin 1800 m yfir sjó og gljúfurbarmar Tsavoárinnar eru sums staðar allt að 600 m háir.  Í árslok hvers árs fljúga milljónir fugla út úr næturmistri fjallanna.  Þetta eru farfuglar frá norðurslóðum Evrópu og rúmlega 40 tegundir hafa verið greindar.  Tugir þúsunda þeirra hafa verið veidd í net og merkt og margir merktir fuglar hafa fundizt við Eystrasalt (við Pétursborg í Rússlandi).

Flestar spendýrategundir Kenja, 60 talsins, 400 fuglategundir og skriðdýrin, þ.á.m. mónitóreðlan, sem er lík ígvanaeðlunni, eru í þjóðgarðinum.  Fílastofninn hefur stækkað og er orðinn rúmlega 8000 dýr og flóðhestarnir eru að ná sér á strik eftir mikinn veiðiþjófnað upp úr 1970 og eru orðnir rúmlega 100 talsins.  Meðal sjaldgæfra dýra eru rauðbrúna caracalgaupan með svörtu, oddhvössu eyrun, hvítblettótta kúdúantílópan og rauðbrúnu Hunterantílópan með gula bletti á lærum og löng horn með aftursveigðum endum.  Hunterantílópurnar voru fluttar til austurhluta þjóðgarðsins fyrir nokkrum árum frá svæðinu í kringum Tanaána, þar sem þær voru í útrýmingarhættu.  Einhvers staðar í austur- eða vesturhlutum garðsins eru Grevysebrahestar með kringlótt eyru.  Þeir voru fluttir frá Samburu, þar sem þeir voru í hættu vegna veiðiþjófnaðar, þrátt fyrir hrakspár dýrafræðinga, sem töldu að þeir gætu ekki þrifist utan síns náttúrulega umhverfis.

Villidýrin eru að öðru leyti vítt og breitt um þjóðgarðinn, en stundum er erfitt að koma auga á þau í skóg- og kjarrlendi eða í klettóttu og giljóttu landslagi eða sandöldum.  Víða eru vatnsból og staðir, þar sem dýrin koma til að sleikja salt, flóðlýstir á nóttunni til að auðveldara sé að sjá dýrin, s.s. við mótelin í Kilaguni og Ngulia.

Flestir ferðamenn í safariferðum um þjóðgarðinn eru búnir að fá nóg, þegar hér er komið sögu, og halda beinustu leið til Mombasa til að slappa af á ströndinni.  Hinir hressari halda áfram inn í austurhluta garðsins, sem er stærri og hefur að mestum hluta verið lokaður allri umferð um árabil.  Ástæðurnar fyrir lokuninni hafa verið tilgreindar sem vatnsskortur, sem gæti verið hættulegur ferðamönnum, og nauðsyn þess að halda svæðinu ósnortnu í vísindalegum tingangi.

Rekstur þjóðgarðsins gekk vel fram undir miðjan sjöunda áratuginn, þegar miklir þurrkar og veiðiþjófnaður í norðvesturhluta landsins rak stórar fílhjarðir inn í hann.  Fílarnir lögðust á trjágróðurinn og skildu eftir sviðna jörð.  Þá hófst harðvítug deila milli David Sheldrick, sem hafði verið þjóðgarðsstjóri í 25 ár, og hóps umhverfisfræðinga.  David Sheldrick var skipað að grisja dýrahjarðirnar til að ná náttúrulegu jafnvægi á ný.  Róttæklingar vildu beita vísindalegum aðferðum við tafarlausa slátrun umframdýra til að bjarga umhverfinu.  Aðeins fáir fílar voru felldir en þurrkurinn og veiðiþjófnaðurinn komu jafnvæginu á.  Umhverfisfræðingarnir fóru heim til sín og David dó af sorg.  Ríkt fólk í Næróbí makaði krókinn af dýraveiðunum í Tsavo og garðurinn var eins og valköstur á eftir um miðjan áttunda áratuginn.  Náttúra garðsins hefur jafnað sig að nokkru leyti en víða ber hann enn þá merki ógnaraldarinnar, einkum í suður- og austurhlutunum.

Arubastíflan og Mudandaklettur.  Enn þá eru tvö eða þrjú svæði í Austur-Tsavo, sem eru þess virði að skoða í safariferðum.  Eitt þeirra er á Arubastíflusvæðinu, sem er í hinni geysiheitu Tarueyðimörk.  Stíflunni var ætlað að safna árstíðabundnu vatni úr Voiánni á 85 hektara svæði.  Áin er í raun aðeins lækur nema úrkoma sé óvenjumikil.  Hún sígur oftast niður í jarðveginn og hverfur áður en hún stemmir að ósi við Kilifi.  Stíflan veldur ekki stórum búsifjum af þeim sökum og myndar eina vatnsbólið fyrir dýrin, sem lifa á svæðinu.  Stundum þornar það jafnvel upp eins og gerðist 1961.

Annað safarisvæði er við Mudandaklett (granít) fyrir norðan Aruba.  Við klettinn er árstíðabundið vatnsból, sem dregur til sín ýmsar dýrategundir.  Stundum eru stór rándýr í felum í kjarrinu við vatnsbólið og bíða eftir bráð.  Það er gott að sjá til þeirra af pöllum, sem ná hálfa leið upp eftir klettinum.

Þriðja svæðið er við Galanaána.  Leiðin að henni liggur um afganginn af fallegu skóglendi með aragrúa af fuglum en fáum stórum villidýrum yfir hádaginn.  Þau eiga þar leið um snemma á morgnana og kvöldin til að svala þorstanum í vatnsbólinu.  Flóðhestar og krókódílar halda sig í svölu vatninu á daginn, þannig að ferðamenn eru ekki í mikilli hættu, þótt þeir fari út úr bílunum.  Flóðhestarnir fara á beit á kvöldin og hver sem hættir sér milli þeirra og vatnsins eru í bráðri lífshættu.  Miðleiðis í safariferðinni er stanzað við Lugardfossana, sem voru skírðir í höfuð fyrsta varakonsúls Breta.  Hann kom til Galana til að taka við stjórninni í Úganda og jafna sig af ástarsorg.

Fyrir neðan fossana er Krókódílapollur.  Stundum eru þessi stóru skriðdýr ekki þar sem þau eiga að vera og búist er við þeim.  Á Yattasléttunni, sem sést frá fossunum í fjarska, er einhver lengsta hraunbreiða heims, 300 km frá Sobo í suðausturhluta Tsavo þjóðgarðsins og hér um bil alla leið til Næróbí.  Frá fossunum er hægt að halda áfram niður með Galanaánni, austur að Salahliðinu (105 km), þar sem Krókódílamótelið með fullri þjónustu býður næturstað.  Sé haldið áfram eftir 130 km löngum, sendnum og stundum erfiðum vegi er komið til Malindi.  Það eru fleiri gistimöguleikar í garðinum, s.s. við Voihliðið, í Aruba, í Mtito Andei mótelinu og í Tsavo Safari Camp.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM