Douala Kamerún,
Flag of Cameroon


DOUALA
KAMERÚN

.

.

Utanríkisrnt.

 

Douala er aðalhafnarborg Kamerún og fjölmennasta borg landsins.  Hún er við suðaustanverða ósa Wouri-árinnar á strönd Atlantshafsins, u.þ.b. 210 km vestan Yaoundé.  Wouri-brúin (1800 m löng) tengir Douala við bananahöfnina Bonabéri og annar bæði bíla- og járnbrautaumferð til vesturhluta landsins.  Borgin er í vegasambandi við allar meginborgir landsins og járnbrautasambandi við Kumba, Nkongsamba, Yaoundé og Ngaoundéré.  Skammt utan hennar er millilandaflugvöllur.  Douala var höfuðborg Þýzka-Kamerún verndarsvæðisins á árunum 1901-16 og aftur á árunum 1940-46.

Húsagerð í borginni er blanda nýlendu- og nútímabygginga og hún hefur stækkað hratt eftir síðari heimsstyrjöldina.  Vestræn hverfi stinga í stúf við fátækleg hverfi ófaglærðs farandverkafólks úr sveitum landsins og frá öðrum Afríkuríkjum.

Douala er meðal stærstu iðnaðarsvæða Mið-Afríku.  Þar eru brugghús, vefnaðarverksmiðjur, vinnslustaðir fyrir pálmaolíu, sápu og matvæli og verksmiðjur, sem framleiða byggingarefni, plastvöru, gler, pappír, reiðhjól og timburvörur.  Annar iðnaður byggist á báta- og skipaviðgerðum, járnbrautaverkstæðum og samsetningu viðtækja, sjónvarpa o.fl.  Um miðjan níunda áratug 20. aldar höfðu birgðir af náttúrugasi fyrir ströndinni ekki verið nýttar.

Mestur hluti milliríkjaviðskipta landsins fer um hafskipahöfnina í Douala.  Þar eru sérstök tæki og vélbúnaður til hleðslu timburvöru, banana, eldsneytis og báxíts og aðstaða fyrir fiskiskip og vinnslu afurða.

Yaoundé-háskóli rekur viðskiptadeild í Douala og þar eru nokkrir verzlunar-, landbúnaðar- og iðnskólar auk rannsóknarstofnana, sem annast rannsóknir á sviði heilbrigðismála, skógræktar, vefnaðar, vinnslu efna úr olíufræjum og veðurfræði.  Safn og handverksmiðstöð eru hvetjandi til varðveizlu innlendrar listaverka.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1987 rúmlega 810 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM