Guinea Bissau sagan,
Flag of Guinea-Bissau


GUINEA BISSAU
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Strönd Gínea-Bissá hefur verið byggð fólki, sem stundar búskap og notar járn, í rúmlega 1000 ár.  Það er einkar lagið við ræktun hrísgrjóna á þurrum- og áveituökrum og seldi nágrönnum sínum í Vestur-Súdan hafsalt.  Frá 13. öld jukust tengsl strandbænda við umheiminn, fyrst landmegin og síðar hafmegin.  Fyrstu áreiðanlegar heimildir tengjast áhrifum frá upplausn Ghana-veldisins, þegar flóttafólk leitaði hælis í grennd við ströndina.  Síðar voru strandsvæðin lauslega tengd Mali-veldinu og héraðsstjórar (farim) voru skipaðir til að framfylgja stjórnskipun Mande-konunga.

Portúgalar voru fyrstir til að hafa samband við strandbúa á fimmta tugi 15. aldar.  Gínea var veigamikið þrep til nýlenduvæðingar Kap-Verdeeyja á þessum tíma.  Þrælar voru fyrst notaðir á plantekrunum, þar sem var ræktuð baðmull og indígó og handverksmenn voru fengnir frá Gíneu til uppbyggingar vefnaðar- og litunariðnaðar.  Mestur hluti baðmullardúksins var sendur til meginlandsins í skiptum fyrir þræla, sem voru sendir til Vesturheims.  Portúgalar stóðu fyrir þrælaverzluninni með aðstoð múlatta (lançados), sem höfðu milligöngu við höfðingja Gíneu.  Á 16. öld jókst ásókn mande-mælandi fólks að efri hluta Gíneustrandar.  Þessir fólksflutningar ollu stríðum og fjölgun stríðsfanga til útflutnings.  Aðrar helztu útflutningsvörurnar voru salt, kólahnetur og matvæli inn í land og fílabein, vax, litunarefni og húðir úr landi.  Helztu viðskiptalöndin voru Portúgal, Bretland, Holland og Frakkland.

Næstu fjórar aldirnar meðan þrælaverzlunin blómstraði, áttu íbúarnir ekki erfitt með að halda erlendum landvinningamönnum í skefjum.  Verzlunarstaður við Cacheu, sem kaupmenn á Kap-Verdeeyjum stofnuðu 1588, fékk stuðing Portúgalsstjórnar um skamma hríð á 17. öld en færði ekki út kvíarnar.  Árið 1687 var stofnaður verzlunarstaður við Bissá til að koma í veg fyrir að Frakkar næðu undirtökum í verzlun, stjórnmálum og hernaðarlega, en hann átti ekki langa framtíð.  Árið 1792 námu Bretar land í Bolama með afdrifaríkum afleiðingum.  Um sömu mundir komu Portúgalar sér aftur fyrir við Bissá og alla 19. öldina jukust umsvif þeirra í strandhéruðunum beggja vegna og tilkall til yfirráða þar.

Nýlendutíminn.  Bretar og Frakkar mótmæltu yfirráðakröfu Portúgala í Gíneu.  Portúgalar og Frakkar útilokuðu Breta frá samningaviðræðum (1870) og komu sér saman um landamærin milli svæða sinna (1886 og 1902-05).  Að þessum landamærasamningum gerðum komu Portúgalar smám saman upp nýlendustjórn og beittu víða valdi til þess.  Síðustu herferðirnar í þessu skyni voru farnar á árunum 1913-15 (João Teixeira Pinto).  Að þeim loknum ríkti friður í nýlendunni í næstum hálfa öld undir stjórn Portúgala.  Eftir síðari heimsstyrjöldina fór að bera á afrískri þjóðernishyggju og nágrannanýlendurnar fengu sjálfstæði hver af annarri.  Gíneumenn fetuðu sömu braut gegn Portúgölum og gerðu árásir á stjórnsýslumiðstöðvar og herstöðvar þeirra í júlí 1961 (skæruliðar PAIGC) undir forystu Amilcar Cabral.  Í Conakry, höfuðborg hins frönskumælandi lýðveldis Gíneu, tilkynnti hann í ágúst, að frelsun Portúgölsku-Gíneu og Kap-Verdeeyja yrði úkljáð með hervaldi.  Blóðugur skæruhernaður kom í kjölfarið.  Frelsisherinn PAIGC (10.000 manns) barðist við hersveitir Portúgala (30.000 manns).  Skæruliðunum tókst ekki að hernema borginar á ströndinni en í kringum 1971 voru þeir búnir að treysta sér sess inni landinu, einkum nærri landamærum Senegals og Gíneu.

Sjálfstæði.   Cabral var myrtur 1973 og ári síðar kom upp hernaðarlegt þrátefli milli héraðanna, sem Afríkumenn réðu, og borganna, sem voru í höndum Evrópumanna.  Portúgalski herinn steypti stjórn einvaldsins í Lissabon og António Ribeiro de Spínola, hersöfðingi og fyrrum herstjóri í Gíneu, var skipaður forseti.  Honum var falin stjórn Portúgals og samningar um sjálfstæði nýlendna landsins í Afríku.  Hálfbróðir Cabrals frá Kap-Verdeeyjum, Luís de Almeida Cabral, varð forseti Gíneu-Bissá.  Væringar milli miðstéttarkynblendinga frá Kap-Verdeeyjum og hinna fátækari og ómenntuðu íbúa strandhéraðanna ollu vaxandi spennu í stjórnmálum, sem leiddi loks til byltingar.  Cabral og stjórn hans var steypt og PAIGC klofnaði í Kap-Verde- og meginlandsfylkingu.  Nýi forsetinn, João Bernardo Vieira, glímdi við að endurvekja menningarleg-, mennta- og stjórmálatengsl við Portúgal til að efla efnahagslífið, herinn, embættismannakerfið og veita bændum í sveitunum tækifæri til að selja framleiðslu sína.  Kakan, sem var til skiptanna, var lítil og hart var barizt um hana.  Efnahagslegar og stjórnmálalegar framfarir voru litlar og hægfara.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM