Guinea Bissau íbúarnir,
Flag of Guinea-Bissau


GUINEA BISSAU
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Flestir landsmanna búa í þorpum.  Víðast takmarkar landshættir landbúnaðinn verulega en íbúarnir hafa aðlagast umhverfinu á marks konar og flókinn hátt.  Nokkur smásamfélög (19) hafa komið sér upp aðferðum til ræktunar hrísgrjóna.  Á strandsvæðunum nota bændur afbrigði hrísgrjóna, sem vaxa í söltu vatni.

Balanta Brassafólkið, sem býr í mið- og suðurhlutum landsins er þekkt fyrir hrísgrjónaræktun sína.  Bramfólkið á ströndinni er þekkt fyrir landbúnað án áveitna.  Bijagós- og mandyakofólkið framleiðir pálmavín og pálmaolíu og fulanifólkið inni í landi ræktar nautgripi.  Fulani- og malinkefólkið ræktar mest af jarðhnetum og baðmull.  Næstum allir þjóðflokkar landsins stunda búskap á misgæðamiklu landi, rækta fjölda mismunandi nytjaplantna og beita skiptiræktun til að tryggja góða uppskeru.

Sjálfstæðisstríðið gegn Portúgölum 1963-74 raskaði búsetu margra, e.t.v. helmings þjóðarinnar.  Portúgalar trufluðu búskaparhættina með því að koma upp bráðabirgðaaðsetri til að einangra sem flesta frá þjóðernisher landsmanna.  Á svæðum, sem voru í höndum þjóðernissinna, fór skipulagning þjóðernishersins fram í skógunum, þar sem var ekki hægt að beita flugher Portúgala gegn þeim.  Rúmlega 100 þúsund landsmanna flúðu til Senegal eða Gíneu til að komast hjá stríðsátökunum.

Þjóðflokkar landsins eru rúmlega tuttugu talsins.  Hinir helztu þeirra eru balanta, Fulani, mandyako, pepel, bram og malinke.  Líklega bjuggu þessi þjóðflokkar hver útaf fyrir sig á eigin landi í upphafi en landvinningar malinke og síðan fulani og suðurþensla balanta auk fólksflutninga í stríðinu og á eftirstríðsárunum hafa gert búsetumunstrið óskýrt.

Stærsti hópurinn, balanta brassa, er búsettur á við og dreif og tilheyrir tiltölulega jafnréttishneigðu samfélagi sem fylgir siðum, sem tengjast arfgengi í karllegg, húshaldi, aldurshópum og kyni.  Þetta fólk var móttækilegast fyrir áróðri þjóðernissinna fyrir aðskilnaði frá Portúgölum.  Það er mjög sjálfstæðissinnað, að mestu andatrúar og var í hópi aðalskæruliðanna, sem börðust við Portúgala.  Grasrótarhreyfingar meðal þessa þjóðflokks standa fyrir félagslegum breytingum og umbótum í landinu.

Fulanifólkið, sem hægt er að skipta í þrjá aðalhópa, var upphaflega smábændur en á 19. öld náði það undir sig stórum landsvæðum í Vestur-Afríku.  Það er múslimar og býr við klerkaveldi.  Fulanifólkið sneyddi að mestu hjá menningu Portúgala en samt studdu margir leiðtogar þess þá í stríðinu við skæruliðana.  Fulanileiðtogunum stóð ógn af þeim við trúarbrögð sín, samfélag sitt og hefðir.  Nokkrir minni hópar þeirra gengu til liðs við skæruliða til að losna undan oki öldunganna og yfirmanna heima fyrir.

Malinke, hin forna herraþjóð Senegambíu, býr í stéttaskiptu samfélagi aðalsfjölskyldna, handverksmanna, kaupmanna og annarra atvinnumannahópa.  Þetta fólk snérist einnig til islam.

Mandyako og pepel á norðurstrandsvæðunum voru meðal fyrstu þjóðflokkanna til að koma á viðskiptum við Portúgala.  Sumir þeirra mægðust þeim, aðrir unnu fyrir þá og tóku upp evrópska siði og klæðaburð og hjálpuðu til við útbreiðslu viðskiptatungunnar crioulo.  Pepel vörðu grimmilega rétt húsbænda sinna gegn Evrópumönnum.  Sumir minni hópar pepelmanna, s.s. biafada, felupe, bayot, nalu, susu og bijagós, eru strandbændur og virðast hafa komizt hjá portúgalskri og islamskri menningu.

Gíneumenn, sem bjuggu í borgum, voru kallaðir assimilados og voru ekki nema nokkur þúsund.  Þeir tóku upp marga siði Evrópumanna og urðu aðallega embættis- og skrifstofumenn eins og enn á okkar dögum.  Talsvert stór hópur fólks frá Grænhöfðaeyjum fluttist til Gíneu Bissau á nýlendutímanum sem bændur, kaupmenn, hermenn og stjórnendur fyrir Portúgala.  Þeir léku stórt hlutverk innan þjóðernissinnahópsins í tengslum við sameiningu Grænhöfðaeyja og Gíneu-Bissau en misstu tökin eftir byltinguna árið 1980.  Útlendingar og afkomendur þeirra, sem búa í landinu eru aðallega af portúgölsku og öðru evrópsku, kúbversku og brasilísku bergi brotnir og starfa sem tækniráðgjafar og Líbanar starfa sem kaupmenn.

Tungumálin, sem töluð eru í landinu byggjast á tveimur stofnum, mande-tan og mande-fu.  Hinn siðarnefndi, Vestur-Atlantshafsmálin, nær yfir öll önnur tungumál töluð í Gíneu-Bissau, u.þ.b. 20, en crioulo er aðaltungan.  Það hefur sameinandi áhrif í sveitunum og er notað í skólum auk portúgölsku, sem er opinber tunga landamanna.  Arabíska er helzt notuð meðal múslimskra fræðimanna.

Trúarbrögð.  Hefðbundin andatrú hefur staðizt tímans tönn vel, jafnvel meðal þeirra, sem hafa snúizt til kristni og islam.  Kristnin náði ekki mjög mikilli útbreiðslu á nýlendutímanum og eftir standa fámennir hópar katólíka og mótmælenda.  Flestir áhangendur islam eru af Qadiryah- og Tijaniyah-flokkum.  Portúgal studdi útbreiðslu islam til að sporna gegn leiðtogum þjóðernissinna.  Allt frá því, að sjálfstæði fékkst, hafa yfirvöld sent fulltrúa á ráðstefnur múslima og þegið efnahagsaðstoð frá Sádi-Arabíu og Kúveit.  Líbýsk yfirvöld hafa styrkt úrbreiðslu islam á marga vegu.

Íbúafjölgunin er tiltölulega tempruð miðað við önnur Afríkulönd.  Þjóðin er ung, 40% yngri en 15 ára, sem gefur til kynna meiri fólksfjölgun í náinni framtíð.  Meðallífslíkurnar eru lágar, einkum vegna mikils barnadauða.  Næstum helmingur þjóðarinnar er virkur á vinnumarkaðnum og aðeins fjórðungur býr í þéttbýli.  Árstíðabundinn og varanlegur tilflutningur er talsverður, aðallega til Senegal, Gambíu og Frakklands.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM